Borgarstjórn - 17.5.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 17. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Dóra Magnúsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Líf Magneudóttir, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um skýrslu stýrihóps um styttingu vinnudags sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. maí sl. 

2. Fram fer umræða um eineltismál. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þakka umræðu um eineltismál og leggja áherslu á að fenginn verði óháður aðili til að yfirfara alla verkferla starfsstöðva skóla- og frístundasviðs í tengslum við eineltismál og samskiptavanda barna. Sérstaklega verði farið yfir samstarf við stofnanir velferðarsviðs í meðferð slíkra mála, s.s. Barnavernd Reykjavíkur og þjónustumiðstöðvar. Mikilvægt er að tryggja að öll börn og ungmenni finni til öryggis og njóti hæfileika sinna í borgarsamfélaginu. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa í huga að einelti er ekki eingöngu bundið við börn heldur getur það líka komið upp meðal fullorðinna, meðal annars á vinnustöðum, og má borgin sem vinnuveitandi ekki láta sitt eftir liggja í að vernda starfsfólk sitt gagnvart slíku ofbeldi. Aðilar þurfa að vinna náið saman að stefnumótun og eftirfylgni og upplýsingar um þau úrræði sem standa þolendum til boða verða að vera aðgengilegar. Einnig er mikilvægt að varpa ábyrgð á gerendur og vinna að varanlegum lausnum á þeirra hegðunarvanda.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í kjölfar fjölmiðlaumræðu um eineltismál í grunnskóla í Reykjavík 6. janúar sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tillögu í borgarráði 7. janúar 2016 um úttekt á meðferð eineltismála í skólum Reykjavíkurborgar. Í úttektinni yrði kannað hvort einhverju væri ábótavant við feril og meðferð eineltismála, forvarnir, inngrip og eftirfylgni og ef svo reynist vera, vinna þá tillögur að leiðum til að uppræta og koma í veg fyrir einelti meðal skólabarna í Reykjavík. Tillögunni var frestað og hefur ekki enn hlotið afgreiðslu, nú fjórum mánuðum síðar. 13. janúar 2016, lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram ítarlega fyrirspurn í skóla- og frístundaráði um tíðni og meðferð eineltismála í grunnskólum borgarinnar, fyrirspurnin var send 36 grunnskólum og svör birt 9. mars sl. Tillaga um stofnun hlutlauss eineltisráðs var lögð fram í skóla- og frístundaráði sameiginlega af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina 11. maí sl. Einelti sem á sér stað utan skólalóðar eða á netinu getur átt rætur að rekja til samskiptavanda innan veggja grunnskólans eða í nánum tengslum við veru nemenda í skólanum. Grunnskólabörn og aðrir verða að tileinka sér ábyrgð á daglegum samskiptum og netsamskiptum innan og utan skólans. Brýnt er að koma bæði þolendum og gerendum til hjálpar. Einelti verður að uppræta.

3. Fram fer umræða um húsnæðismál ungs fólks og lóðaframboð í Reykjavík. 

4. Fram fer umræða um málefni utangarðfólks.

5. Fram fer umræða um málefni Hlíða, Holta- og Háaleitishverfa. 

6. Lagt er til að Eva Indriðadóttir taki sæti sem varamaður í umhverfis- og skipulagsráði í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur.

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins. 

7. Lagt er til að Dagur B. Eggertsson, Líf Magneudóttir, S. Björn Blöndal, Þórlaug Ágústsdóttir og Hildur Sverrisdóttir taki sæti í stjórn Faxaflóahafna og að Gunnar Alexander Ólafsson, Elín Oddný Sigurðardóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Eva Lind Þuríðardóttir og Halldór Halldórsson taki sæti sem varamenn í stjórninni. 

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Jafnframt er lagt til að Dagur B. Eggertsson verði formaður stjórnar Faxaflóahafna. 

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

8. Lagðir fram að nýju 20., 21. og 22. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. apríl og fundargerð borgarráðs 12. maí 2016.

20. liður fundargerðarinnar frá 14. apríl, sbr. 17. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. apríl sl. þar sem fram fór fyrri umræða um reglur um innritun og útskrift nemenda úr Klettaskóla, er samþykktur.

21. liður fundargerðarinnar frá 14. apríl, sbr. 17. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. apríl sl. þar sem fram fór fyrri umræða um reglur um innritun og útskrift nemenda úr einhverfudeildum í grunnskólum Reykjavíkurborgar, er samþykktur. 

22. liður fundargerðarinnar frá 14. apríl, sbr. 17. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. apríl sl. þar sem fram fór fyrri umræða um reglur um innritun og útskrift nemenda úr Brúarskóla, er samþykktur. 

29. liður fundargerðarinnar frá 12. maí, gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 2016, er samþykktur.  

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

30. liður fundargerðarinnar frá 12. maí, viðauki við fjárhagsáætlun vegna Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. maí, menningar- og ferðamálaráðs frá 9. maí, íþrótta- og tómstundaráðs frá 29. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 11. maí, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 2. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. og 11. maí og velferðarráðs frá 28. apríl og 4. maí. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við gerum alvarlegar athugasemdir við óviðunandi upplýsingagjöf til skóla- og frístundaráðs vegna hugsanlegrar lokunar leikskólans Mýrar. Á fundi ráðsins miðvikudaginn 27. apríl óskaði fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina eftir upplýsingum um hvort fyrirhugaðar væru breytingar á leikskólastarfi í Vesturbænum vegna fækkunar barna í ákveðnum árgöngum, t.d. hvort til stæði að loka leikskóladeildum í hverfinu. Engar upplýsingar voru látnar í té á fundinum. Aðeins tveimur dögum síðar, 29. apríl, fengu foreldrar leikskólabarna á Mýri bréf frá skóla- og frístundasviði um að upp væri komin óvissa um framtíð leikskólans og að verið væri að skoða framtíð hans. Í bréfinu voru foreldrar upplýstir um að hafnar væru viðræður um einkavæðingu starfseminnar, þ.e. að leikskólinn Ós tæki yfir rekstur Mýrar en í bréfinu sagði jafnframt að ekki væri komin niðurstaða í þær viðræður. Ljóst er að umrædd óvissa um rekstur leikskólans Mýrar skapaðist ekki á þeim stutta tíma sem leið frá lokum fundar ráðsins miðvikudaginn 27. apríl þar til foreldrunum barst umrætt bréf á föstudegi. Það er með algerum ólíkindum að skóla- og frístundaráð sé ekki upplýst um að óvissa ríki um rekstur ákveðins leikskóla í borginni og að verið sé að skoða hugmyndir um einkavæðingu hans. Það er svo sjálfsagt grundvallaratriði að ekki ætti að þurfa að taka það fram, að komi upp óvissa um framtíð skóla eða annarrar stofnunar er heyrir undir skóla- og frístundaráð, sé ráðið upplýst svo fljótt sem unnt er og án undanbragða um þá alvarlegu stöðu. Hið sama gildir að sjálfsögðu þegar hafnar eru viðræður við einkaaðila um að taka að sér slíka starfsemi hvort sem starfsemin er í óvissu eður ei. Því miður er þetta ekki fyrsta dæmið um leyndarhyggju gagnvart kjörnum fulltrúum varðandi lokun leikskóla, sbr. lokun leikskólans Sjónarhóls í Grafarvogi á sl. sumri. Óskað er eftir því að slíkar upplýsingar verði veittar greiðlega í framtíðinni enda allsendis óviðunandi að kjörnir fulltrúar í skóla- og frístundaráði þurfi að lesa um það í fjölmiðlum að óvissa sé uppi um framtíð einstakra skóla og að hafnar séu viðræður um einkavæðingu þeirra. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna leggja áherslu á að umræða um framtíð leikskólans Mýrar er á vinnslustigi og standa yfir viðræður við foreldra á leikskólunum Mýri og Ósi um næstu skref. Engar ákvarðanir hafa verið teknar en málið verður að sjálfsögðu unnið áfram í góðu samstarfi við foreldra, starfsfólk og kjörna fulltrúa í skóla- og frístundaráði og borgarstjórn.

Fundi slitið kl. 20.37

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Halldór Halldórsson Skúli Helgason

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.5.2016 - prentvæn útgáfa