Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2018, þriðjudaginn 17. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Magnús Már Guðmundsson, Sabine Leskopf, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sigurður Björn Blöndal, Hermann Valsson, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Jóna Björg Sætran, Kjartan Magnússon, Björn Gíslason, Börkur Gunnarsson og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um samþykkt borgarráðs á tillögu borgarstjóra vegna uppbyggingar hjúkrunarheimila í Reykjavík, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. apríl 2018. R18040074
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:
Ég fagna þessari tillögu sem hér er fram komin. Mikilvægt er að þegar Reykjavíkurborg tekur að sér að veita þjónustu til eldri borgara að hugað sé að öllum þáttum þjónustunnar og þá ekki síst félagslega þættinum. Félagsleg einangrun eldri borgara er því miður staðreynd og í hinum vestræna heimi er það risastór áskorun allra þeirra sem koma að stefnumótun í að reka samfélag, því að félagsleg einangrun og vanlíðan leiðir oftar en ekki til meiri sjúkleika. Þeir sem sinna heimaþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar eru að gera mjög gott verk og mikilvægt er að þeir fái frekari stuðning og liðveislu til að sinna ekki aðeins grunnþjónustu eins og lyfjagjöf, umbúðaskiptum og hreinlæti, heldur líka félagslega þættinum. Þjónustukjarnar hjúkrunarheimila eru liður í því, en betur má ef duga skal.
2. Fram fer umræða um samþykkt borgarráðs á tillögum borgarstjóra um nýjar ylstrendur við Skarfaklett og Gufunes, sbr. 29. og 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. apríl 2018. R17100357
- Kl. 15:16 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Hermann Valsson víkur af fundi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja hugmyndir um ylstrendur við Gufunes og Skarfaklett en telja að eðlilegt hefði verið að kostnaðaráætlun fylgdi framlögðum tillögum um málið. Vegna umræðna um örplast skal tekið fram að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa frá árinu 2016 ítrekað lagt fram tillögur um að ráðist verði í aðgerðir til að efla hreinsibúnað Veitna í því skyni að lágmarka það magn plastagna, sem berst út í sjó frá skólphreinsistöðvum fyrirtækisins. Þessar tillögur hafa þó ekki enn hlotið stuðning fulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata í stjórn Orkuveitunnar.
3. Lögð fram ályktun hafnarstjórnar Faxaflóahafna um loftslagsmál og hlutverk hafna, sbr. 2. lið fundargerðar hafnarstjórnar frá 13. apríl 2018. R18010032
Borgarstjórn samþykkir að taka undir ályktunina.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa:
Borgarstjórn beinir því til borgarstjóra að eiga frumkvæði að samtali Reykjavíkurborgar, heilbrigðisráðherra, forstjóra Landspítala og stéttarfélaga heilbrigðisstarfsfólks, til að kanna möguleika á breyttu vaktafyrirkomulagi á Landspítala, í því skyni að stytta ferðatíma heilbrigðisstarfsfólks til og frá vinnu og með því stytta ferðatíma allra borgarbúa á háannatíma.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18040143
- Kl. 16:25 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Sabine Leskopf víkur af fundi.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs.
5. Fram fer umræða um málefni Langholts-, Laugarness- og Vogahverfis. R18040145
- Kl. 17:40 víkur Björn Gíslason af fundi.
- Kl. 18:41 tekur Herdís Anna Þorvaldsdóttir sæti á fundinum.
6. Fram fer umræða um borgarlínuna. R16110082
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðisflokkurinn vill nú þegar hefjast handa við að bæta almenningssamgöngur í Reykjavík með því að efla núverandi strætisvagnakerfi. Með svokölluðu borgarlínuverkefni kýs vinstri meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna hins vegar að vísa brýnum úrbótum í almenningssamgöngum til óljósrar framtíðar. Svokölluð borgarlína er óskýrt og að stórum hluta óskilgreint verkefni og fjárhagslegt feigðarflan. Verði borgarlína að veruleika er ljóst að gífurlegur kostnaður vegna þess mun leggjast með fullum þunga á skattgreiðendur í Reykjavík. Núverandi vinstri meirihluti hefur um árabil notað borgarlínuverkefnið sem afsökun fyrir því að almenningssamgöngur í borginni hafa ekki verið efldar á valdatíma hans. Vinstri meirihlutinn hefur markvisst skert strætisvagnaþjónustu í eystri hverfum borgarinnar og notar litríkar glærusýningar um borgarlínu sem villuljós í því skyni að draga athyglina frá slælegri frammistöðu í málefnum almenningssamgangna.
- Kl. 19:20 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundi og Dóra Magnúsdóttir tekur þar sæti.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 12. apríl. R18010002
- 14. liður fundargerðarinnar, samþykkt stjórnkerfis- og lýðræðisráðs vegna framtíðarsýnar hverfisráða til 2021.
Samþykkt að vísa aðgerðum 1 og 2 til meðferðar stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Jafnframt er samþykkt að vísa aðgerðum 3-10 til umsagnar fagsviða Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að framvegis verði fulltrúar í hverfisráð borgarinnar kjörnir beint af íbúum viðkomandi hverfa með sérstakri kosningu.
- 10. liður fundargerðarinnar, lokaafgreiðsla á breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, samþykktur með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina, Vinstri grænna og Pírata gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og óháðs borgarfulltrúa. R16110082
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga að breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015–2040 er mikilvægur áfangi í undirbúningi að borgarlínunni. Hún á sér langan aðdraganda og byggist á vandaðri undirbúningsvinnu. Tillagan felur í sér framtíðarsýn um skilvirkar og hraðvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Borgarlínan er komin á skrið. Því geta allir íbúar höfuðborgarsvæðisins fagnað.
8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. apríl, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. mars, mannréttindaráðs frá 10. apríl, menningar- og ferðamálaráðs frá 9. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 11. apríl og umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. apríl. R18010074
9. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa:
17. mars 2015 var lögð fram tillaga í borgarstjórn Reykjavíkur sem hljóðaði svo: Í tilefni þess að í ár er fagnað 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi, samþykkir borgarstjórn að gerð verði jafnlaunaúttekt hjá Reykjavíkurborg sem staðfest verður með jafnlaunavottun á afmælisárinu. Samþykkt var á fundinum að vísa tillögunni til borgarráðs. Þann 17. september 2015 var tillagan ítrekuð í borgarráði. 6. október 2016 var lögð fram fyrirspurn í borgarráði og tillagan ítrekuð enn og aftur. 20. október 2016 var samþykkt í borgarráði að undirbúa þátttöku Reykjavíkurborgar í jafnlaunavottun. Í millitíðinni tók gildi lagabreyting á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem fyrirtækjum og stofnunum er skylt með jafnlaunavottun að sýna fram á að þau greiði jöfn laun. Aðlögunartími fyrir Reykjavíkurborg er til ársloka 2018. Ég óska eftir að fá upplýsingar um hvar þessi vinna er stödd, hvort að óskað hafi verið eftir jafnlaunavottun fyrir Reykjavíkurborg og hvenær það verði gert. R14060161
Vísað til forsætisnefndar.
10. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa:
Ég óska því eftir að tekið verði saman yfirlit yfir kostnað vegna aðkeyptar þjónstu allra starfshópa og stýrihópa sem stofnaðir hafa verið á kjörtímabilinu, hvort sem vinnu við þá er lokið eða ekki. Ég óska eftir að svarið verði sundurliðað eftir því hvort um starfshóp eða stýrihóp sé að ræða, undir hvaða svið eða skrifstofu borgarkerfisins fjárhæðin fellur og hvort hún hafi verið nýtt innan ramma sviðsins, eða fengin hafi verið sér fjárheimild, móttakandi greiðslunnar, hvert var verkið og hver var fjárhæðin. R18040146
Vísað til forsætisnefndar.
11. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa:
Í stefnu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, „Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur í grunnskólum“, er gert ráð fyrir því að úthlutun fjármagns til grunnskóla vegna sérstaks stuðnings við nemendur sé með þrennum hætti. Í fyrsta lagi til stuðnings við nemendur með almenna og sértæka námserfiðleika vegna raskana á hreyfifærni og mál- og talörðugleika. Í öðru lagi til þjónustu og sérstaks stuðnings við mikið fatlaða nemendur og nemendur með alvarlegar þroska- og geðraskanir, og í þriðja lagi til skóla víkur verulega frá því sem almennt er í skólum s.s. varðandi fjölda nemenda af erlendum uppruna, nemenda með þroskaraskanir, erfiðar félagslegar aðstæður og fjölda barnaverndartilkynninga. Foreldrar barna sem þurfa sérstakan stuðning hafa vakið athygli mína á því að erfitt sé að fá slíkan stuðning í grunnskólum borgarinnar þrátt fyrir að búið sé að úthluta til skólanna fjármagni í því skyni. Með vísan til þessa óska ég hér með eftir að upplýst verði hvort og þá hvernig er haldið utan um það hjá skóla- og frístundasviði hvernig þeim fjármunum er varið sem skólarnir fá úthlutað og eiga að renna til sérstaks stuðnings fyrir nemendur með sérþarfir. Er skilað til skóla- og frístundasviðs skýrslu um hvern og einn nemenda sem er með sérþarfir, eða er skilað heildarskýrslu um hóp nemenda í skólanum sem eru með sérþarfir. Eru slík skýrsluskil árleg eða eftir önnum? R18040147
Vísað til forsætisnefndar.
Fundi slitið kl. 21:42
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Magnús Már Guðmundsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.4.2018 - prentvæn útgáfa