Borgarstjórn - 17.3.2020

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 17. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Þorkell Heiðarsson, Líf Magneudóttir, Diljá Ámundadóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Sigríður Arndís Jóhannesdóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Örn Þórðarson, Björn Gíslason, Marta Guðjónsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir og Egill Þór Jónsson. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar bar forseti borgarstjórnar upp svohljóðandi dagskrártillögu forsætisnefndar:

Forsætisnefnd leggur til að öllum málum á dagskrá borgarstjórnar þann 17. mars 2020 verði frestað að undanskildum 1. lið sem er umræða um hættustig almannavarna vegna COVID-19 og framlagningu fundargerða í 9. og 10. lið og fullnaðarafgreiðslu mála undir þeim. 

Samþykkt. 

1.    Fram fer umræða um neyðarstig almannavarna vegna COVID-19. R20030002

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun

Fyrstu viðbrögð við COVID-19 faraldrinum hafa snúist um það að halda samfélaginu gangandi. Heilbrigðiskerfið þarf að virka, velferðarsvið þarf að halda órofinni þjónustu við viðkvæma hópa. Börn og ungmenni þurfa að geta sótt sína menntun áfram eins og hægt er og leikskólarnir þurfa að haldast opnir eins og kostur er. Gripið hefur verið til umsvifamikilla aðgerðir undir forystu neyðarstjórnar borgarinnar til þess að tryggja órofna þjónustu og breytt skipulag vegna farsóttarinnar. Unnið hefur verið með sóttvarnarlækni og almannavörnum og umfang þjónustunnar samstillt með nágrannasveitarfélögunum. Fyrsta verkefnið er því að halda samfélaginu gangandi og tryggja áfram eins og kostur er órofna þjónustu. Faraldurinn og viðbrögð gagnvart honum munu hafa víðtækar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar í för með sér sem sveitarstjórnir munu þurfa að bregðast við. Fyrst í stað munu áhrifin birtast í ferðaþjónustu og tengdum greinum hennar en einnig sem afleiðing af nauðsynlegum tímabundnum sóttvarnaraðgerðum. Þetta áfall á hagkerfið kemur í kjölfar kólnunar síðustu mánaða. Neyðarstjórn hefur falið teymi undir forystu fjármálastjóra að hefja nauðsynlega greiningu til að undirbúa ákvarðanir og áætlanagerð til að skipuleggja frekari viðbrögð Reykjavíkurborgar við efnahagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins á þeim grunni. Hópurinn hefur þegar unnið þrenns konar sviðsmyndir sem munu hafa mismunandi þýðingu fyrir efnahagslífið. Í borgarráði verða tekin næstu skref að aðgerðum í þverpólitískri samvinnu. Tillögur Sjálfstæðisflokksins um viðbrögð við því efnahagsástandi, sem augljóst er að muni skapast, eru gott innlegg í þá umræðu og er þeim vísað til borgarráðs til umræðu og útfærslu. Borgarstjórn leggur áfram áherslu á að upplýsingar um almannavarnir komist á framfæri á þeim tungumálum sem þarf og að almenningur fylgi leiðbeiningum sóttvarnarlæknis um hreinlæti og handþvott. Við erum öll almannavarnir.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Farið var vel yfir það á fundinum hvernig viðbrögðum Reykjavíkurborgar er háttað vegna hættustigs almannavarna vegna COVID-19. Virðast þau viðbrögð mjög fumlaus og er þakkað fyrir það. Nú er samt komið að þeim tímapunkti að athuga það alvarlega að Reykjavíkurborg taki þá ákvörðun að loka leikskólum og grunnskólum fram yfir páska. Samfélagið er smámsaman að lamast og er það engum til gagns að leyfa börnum að koma í leikskóla og grunnskóla í einn til tvo tíma á dag, og jafnvel annan hvern dag. Fyrirtækin í landinu hafa brugðist hratt og vel við og gert fólki kleift að vinna heima þegar þær aðstæður eru til staðar. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefta útbreiðslu veirunnar eins og kostur er hér á landi. Þannig vinnum við tíma þar til fundin hefur verið lækning og ný lyf gegn veirunni. Samkvæmt fréttum er von um að lyf séu á næsta leiti. Það er klárt mál að taka þarf fjárhagsáætlun fyrir 2020 til endurskoðunar. Nú þegar er boðað að halli á ríkissjóði verði a.m.k. 100 milljarðar. Reykjavíkurborg verður að forgangsraða fjármagni sínu í lögbundna og grunnþjónustu og fara í miklar sparnaðaraðgerðir. Tími gæluverkefna er liðinn. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Aðstæður í samfélaginu eru fordæmalausar. Váin skall á eins og stormsveipur, án mikils fyrirvara. COVID-19 er áfall sem verður að glíma við og vinna úr af yfirvegun og skynsemi. Öll vonumst við til að viðbrögð sóttvarnaryfirvalda, almannavarna og sveitarfélaga og annarra, atvinnulífsins, fyrirtækja og fjölmiðla verði til þess að það takist að hemja útbreiðslu vírussins eins og hægt er. Margt er á huldu en annað er vitað. Óvissa er alltaf það allra versta. Íslendingar hafa áður sýnt að við erfiðar aðstæður verðum við ein stór fjölskylda. Líf og heilsa koma fyrst en einnig þarf að halda lífi í atvinnulífinu. Flokki fólksins er umhugað um viðkvæmustu hópanna. Ef horft er til borgarinnar hafa starfsmenn sýnt áberandi æðruleysi og yfirvegun. Að púsla saman hlutunum hefur verið flókið og vandasamt. Mest um vert er að þjónusta velferðarsviðs hefur verið órofin. Þar er um að ræða alla heimaþjónustu, heimahjúkrun, stuðningsþjónustu á hjúkrunarheimilum, í íbúðakjörnum og sambýlum sem og í gisti- og neyðarskýlum. Flokkur fólksins vill þakka öllu þessu fólki og einnig þeim sem skráð hafa sig í bakvarðasveit til tímabundinnar aðstoðar í heilbrigðiskerfinu. Allt þetta er ómetanlegt.

2.    Umræðu um Ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar 2020-2025, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. febrúar 2020 er frestað.  R18100018

3.    Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bráðaaðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 á atvinnulífið í borginni er frestað. R20030167

4.    Stefna í íþróttamálum Reykjavíkur til 2030, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2020 er frestað. R19010293

5.    Tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins um kaup Strætó bs. á metanvögnum er frestað. R20030168

6.    Tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um vaxtalausa greiðsludreifingu tímabils- og afsláttarkorta hjá Strætó bs. er frestað. R20030169

7.    Tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um að samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar verði formgert til að saxa á biðlista er frestað. R20030170

8.    Kosningu í innkaupa- og framkvæmdaráð er frestað. R20030171

9.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 2., 9. og 12. mars. R20010001

29. liður fundargerðarinnar frá 12. mars; ábyrgð á lántöku Félagsbústaða, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R19100128

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. og 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars: 

Strætó: Hvers vegna fer ekki saman hljóð og mynd í B-hluta félögum borgarinnar. Fyrir liggur að mikil vandræði eru að koma því metani sem SORPA framleiðir í umferð og allar fjárhagsáætlanir gera ráð fyrir 100% sölu þess. Ég sem kjörinn fulltrúi verð að fara fram á það að fallið verði frá útboði Strætó um að kaupa rafvagna og fara í stað þess í útboð á vögnum sem ganga fyrir metani. Það getur hvert barn séð að samlegðaráhrifin eru gríðarleg í báðum B-hluta fyrritækjunum til sparnaðar fyrir útsvarsgreiðendur. Nú verða stjórnir félaganna beggja að opna augum fyrir þessum staðreyndum.

Félagsbústaðir: Skuldir Félagsbústaða nema nú 45 milljörðum með óheyrilegum fjármagnskostnaði. Það er löngu tímabært að endurskoða ákvörðun um að miða reikningsskil Félagsbústaða við IFRS staðla og færa þau eins og A-hlutann samkvæmt kostnaðarverðsreglu. Stórfelld hækkun fasteignaverðs í Reykjavík og þar með talið eignasafns Félagsbústaða er „froða“ í uppgjöri Reykjavíkur því samvæmt stefnu meirihlutans stendur ekki til að selja íbúðir Félagsbústaða. Þvert á móti er bætt við eignasafnið til að halda áfram þeirri stöðu sem Félagsbústaðir gegna í uppgjörinu. Því gefur þessi tvöfalda uppgjörsregla ekki glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu A-hluta og samstæðunnar í heild.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar frá 12. mars: 

Minnihlutinn í Kópavogi, Samfylking og Píratar, hafa tjáð sig um alvarlegan fjárhagsvanda SORPU og kallað eftir skýringum. Í yfirlýsingu þeirra er stjórn gagnrýnd fyrir þátt sinn í því að félagið þarf nú að fá ábyrgð sveitarfélaganna á 600 milljóna króna viðbótarláni við 1.400 milljóna króna lán sem fyrir var. Segir í yfirlýsingu þeirra „framkvæmdarstjóri hefur verið látinn taka pokann sinn en ekkert fararsnið er á stjórninni“. Hér eru sömu orð og Flokkur fólksins hefur ítrekað viðhaft í bókunum. Þessi yfirlýsing er áhugaverð fyrir þær sakir að fulltrúar minnihlutans í Kópavogi eru samflokksfólk meirihlutans í Reykjavík. Eins er formaður stjórnar skipaður af bæjarstjórn Kópavogs. Meirihlutinn í Reykjavík hefur hins vegar varið hvernig komið er fyrir SORPU og telja að nægi að framkvæmdastjóri axli alla ábyrgð. Á það skal minnt að í skýrslu innri endurskoðunar fær stjórn einnig áfellisdóm, ekki einungis framkvæmdastjóri. Það er ánægjulegt að sjá að Píratar og Samfylking í Kópavogi skilja að stjórn er ábyrgðaraðili fyrir fyrirtæki enda fær stjórn greitt fyrir að fylgjast með öllum þráðum, vera vakandi yfir hverri krónu og bókhaldsfærslu. Við blasir nú að borgarbúar munu taka stærsta skellinn sem meirihlutaeigendur og gjaldskrá SORPU mun hækka.

10.    Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 13. mars.

4. liður fundargerðarinnar; breyting á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna fjarfundabúnaðar er vísað til síðari umræðu.  R18060129

5. liður fundargerðarinnar; samþykkt fyrir innkaupa- og framkvæmdaráð er frestað. R20020154

11. liður fundargerðarinnar; tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar 7. apríl 2020 er samþykkt. R20010186

Lagðar fram fundargerðir menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. mars, fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. febrúar, fundargerðir skipulags- og samgönguráðs frá 4. og 11. mars og fundargerðir velferðarráðs frá 26. febrúar og 4. mars. R20010285

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. 

Frístundakortið er víða á dagskrá sem vonandi er merki þess að brátt verði tekið á göllum þess. Það kom til umræðu þegar rætt var um nýja íþróttastefnu í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að heiðarlegast væri ef meirihlutinn og íþrótta- og tómstundasvið viðurkenndi að það er ekki sanngjarnt gagnvart barninu að efnalitlir foreldrar verði að velja að nota kortið til að greiða frístundaheimili í stað þess að barnið fái það til að nota upp í íþróttir eða tómstundir. Nú er verið að kanna ánægju fólks með kortið, sjálfsagt í þeirri von að einskærri ánægju með það verði lýst. Margir átta sig ekki á hvernig er í pottinn búið. Væri allt eðlilegt ættu þeir sem hafa þurft að nota frístundakortið í frístundaheimili sem dæmi, að fá sérstakan styrk til þess með þeim orðum að frístundakortið væri fyrir barnið til að velja sér íþrótt. Efnalitlir foreldrar verða að nota öll bjargráð og frístundakort barnsins er eitt þeirra ef ekki önnur bjargráð bjóðast. Flokkur fólksins óttast að ekki verði endilega mikið að marka þessa könnun þar sem ekki fylgi henni viðeigandi skýringar og spurningar verði jafnvel leiðandi. Hugsa á kortið eins og einkaeign barnanna og aðeins þeirra að nota það fyrir sig eins og upphaflegu tilgangur þess segir til um.

Fundi slitið kl. 16:41

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudóttir    Hjálmar Sveinsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 17.3.2020 - prentvæn útgáfa