Borgarstjórn - 17.3.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 17. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Greta Björg Egilsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Í tilefni þess að í ár er fagnað 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi, samþykkir borgarstjórn að gerð verði jafnlaunaúttekt hjá Reykjavíkurborg sem staðfest verður með jafnlaunavottun á afmælisárinu. 

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að ekkert barn skuli fá inngöngu á leikskóla á vegum Reykjavíkurborgar nema það hafi fengið þær bólusetningar sem aldur þess segir til um, samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis frá janúar 2013. Undantekningar frá þessu má gera ef læknisfræðilegar ástæður hamla því að börn séu bólusett. Leikskólar skulu jafnframt fylgjast með því að börn haldi áfram að fá þær bólusetningar sem leiðbeiningar sóttvarnalæknis kveða á um, fram til fjögurra ára aldurs. Skóla- og frístundasviði skal falið að útfæra þau skilyrði sem umsókn um leikskólavist þarf að uppfylla að þessu leyti og til hvaða ráðstafana þarf að grípa á leikskólum. 

Greinargerð fylgir tillögunni. 

- Kl. 14.36 tekur Kristín Soffía Jónsdóttir sæti á fundinum og Dóra Magnúsdóttir víkur sæti. 

Tillagan er felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata: 

Borgarstjórn samþykktir að fela borgarstjóra að hafa samráð við sóttvarnarlækni og landlækni um hvernig Reykjavíkurborg getur best stutt við stefnu heilbrigðisyfirvalda um bólusetningar barna. Niðurstaða viðræðnanna verði kynnt borgarráði fyrir 15. maí 2015.

Samþykkt. 

Lögð fram svohljóðandi bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að meirihlutinn hafi hafnað tillögu þeirra um að skóla- og frístundasviði verði falið að skoða hvernig best er hægt að útfæra aðgerðir til að tryggja að inngöngu í leikskóla Reykjavíkur fái eingöngu þau börn sem bólusett hafa verið við smitsjúkdómum, nema læknisfræðilegar ástæður hamli. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma jafnframt að meirihlutinn hafi ekki komið til móts við sjónarmið tillögunnar að neinu leyti með því að leggja ekki til að sviðinu verði falið að skoða hvaða aðgerðir væru tækar í því augnamiði. Í staðinn leggur meirihlutinn fram tillögu þess efnis að farið verði í áhættumat vegna smitsjúkdóma. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja þá tillögu sem verður þá vonandi jákvætt skref og innlegg í áframhaldandi umræðu innan borgarkerfisins. Áréttað skal þó að tillaga sjálfstæðismanna snerist ekki um að mæta aðgerðum vegna hættuástands, heldur er henni fyrst og fremst ætlað að hafa forvarnargildi ásamt því að vera hvetjandi og fordæmisgefandi aðgerð til að minnka áhættu á alvarlegum smitsjúkdómum til framtíðar.

Lögð fram svohljóðandi bókun borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata: 

Bólusetningar barna eru mikilvægur hluti af heilbrigði barna og kemur í veg fyrir smitsjúkdóma. Aðeins um 2% barna fædd á árunum 1995-2012 vantar allar bólusetningar og um 6% barna á þeim aldri eru óbólusett gegn mislingum en ekkert bendir til þess að faraldur sé í uppsiglingu né að ástæða sé til að loka leikskólum borgarinnar fyrir óbólusettum börnum – enda er það sóttvarnalæknis að meta það. Jafnframt er það sóttvarnalæknis að meta aðgerðir til að bæta megi bólusetningar barna á Íslandi. Í tilkynningu sóttvarnalæknis á vef landlæknis kemur fram að „engin sérstök ástæða sé um þessar mundir að lögleiða skyldu til bólusetningar til að bæta almenna þátttöku barna. Miklu frekar þarf að bæta innköllunarkerfi heilsugæslunnar og að fræða foreldra og heilbrigðistarfsmenn um mikilvægi bólusetninga til að halda hér uppi góðri þátttöku.“ Tilgangur tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að styðja við að halda uppi háu bólusetningarstigi meðal barna, er góður en erfitt er að rökstyðja að sú leið sem í henni er lögð til, að úthýsa óbólusettum börnum úr leikskólum Reykjavíkurborgar, sé farsælust. Hvorki faglegt mat heilbrigðisyfirvalda né meðalhófsregla styðja við þessa leið.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks: 

Í þeim tilgangi að nýta betur bílastæðahús borgarinnar og auka þjónustu við akandi vegfarendur er lagt til að rafrænum upplýsingaskiltum verði komið upp við helstu umferðaræðar sem liggja að miðborg Reykjavíkur. Á skiltunum geti ökumenn séð hversu mörg laus stæði er að finna í bílastæðahúsum á miðborgarsvæðinu. Með því móti minnkar óþarfa hringsól í leit að bílastæðum sem mun svo draga úr neikvæðum áhrifum þéttrar bílumferðar á loftgæði.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar bílastæðanefndar.  

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Í þeim tilgangi að auka á litríki borgarinnar er lagt til að í sumar verði lögð áhersla á að glæða borgargarða nýju lífi. Verkefnið, sem gæti borið heitið „Listin í grasrótinni,“ byggir á frumlegum uppákomum og spennandi listviðburðum ungra listamanna. Í þessu augnamiði munu hópar ungs listafólks á vegum Hins Hússins nýta það mikla rými sem garðarnir bjóða upp á og það frelsi sem það gefur þeim. Götuleikhúsið verði þetta sumar ekki bara í miðborginni heldur einnig víðar inn á milli skógarbelta og út um grænar grundir borgargarðanna. Ungum hljómsveitum verði boðið að koma tónlist sinni á framfæri og þá sérstaklega þeim sem eru afrakstur styrkveitinga borgarinnar. Kannaður verði áhugi tónlistarskóla og annarra listaskóla á að taka þátt í þessu verkefni. Til að auka á fjölbreytni verði veitt endurgjaldslaust leyfi fyrir sölu á varningi og matvælum undir berum himni, undir sólhlífum, í söluvögnum eða sölutjöldum. Við þróun verkefnisins verði nýtt sú reynsla sem kom fékkst af verkefninu Torg í biðstöðu þar sem frumleiki og hugmyndaauðgi var í fyrirrúmi og heppnaðist vel. Höfuðborgarstofu verði falið að sjá um kynningu á þeim verkefnum sem sett verða upp og þá einkum á þeim viðburðum sem vakið geta áhuga erlendra ferðamanna. Sérstaklega verði horft til garða eins og Hljómskálagarðsins, Klambratúns, Laugardals og Elliðaárdals. Einnig mætti skoða staði sem eru fjær borgarbyggðinni eins og Nauthólsvík. 

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs sem afli umsagna frá þeim fagsviðum og öðrum sem að útfærslu hennar kunna að koma. 

5. Fram fer umræða um skýrslu sérstakrar stjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Eftir lestur skýrslu sérstakrar stjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks er það ljóst að skipulag, innleiðing og framkvæmd þjónustunnar var í hæsta máta vanmetin. Ljóst er að bæta þarf verulega í ef duga skal til þess að þjónustan endurspegli þarfir, öryggi og upplifun notenda þjónustunnar. Furðu sætir að þessir þættir skuli ekki hafa verið leiðarljós við innleiðingu þjónustunnar.

6. Lagt er til að Sólveig Ásgrímsdóttir taki sæti Guðlaugar Magnúsdóttur í barnaverndarnefnd Reykjavíkur og að Þórarinn Þórsson taki sæti Sólveigar sem varamaður í ráðinu. 

Samþykkt. 

7. Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu á dagskrá:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar sem halda skal þann 7. apríl 2015 með vísan til heimildar í 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 139/2011.

Samþykkt. 

8. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 12. mars. 

- 12. liður fundargerðarinnar frá 4. mars, umsögn umhverfis- og skipulagsviðs vegna lagfæringa á skipulagsuppdrætti í framhaldi af athugasemdum Skipulagsstofnunar við breytingu á deiliskipulagi Borgartúns 28 samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. 

- 12 liður fundargerðar borgarráðs frá 12. mars, viðauki við fjárhagsáætlun vegna aukafjárúthlutun að upphæð 1,5 m.kr. vegna öldungaráðs og fjölmenningarráðs samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Framsóknar- og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Framsóknar- og flugvallarvina fagna því að athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi verið lagðar fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og breyttur uppdráttur til samþykktar. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina greiddu atkvæði gegn breytingu á deiliskipulaginu og er afstaða til þess óbreytt. Skipulagsstofnun telur sérstaklega mikilvægt að haft sé samráð við íbúa og aðra hagsmunaðila umfram lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu, sbr. sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti. Meirihluti borgarstjórnar, þ.e. Samfylking, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar, voru ekki sömu skoðunar enda virti meirihlutinn að vettugi fjöldamargar athugasemdir sem bárust vegna breytinga á deiliskipulaginu og höfnuðu því að halda upplýsinga- og samráðsfund vegna breytinganna áður en deiliskipulagið var afgreitt. Eru slík vinnubrögð óásættanleg og ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti eins og Skipulagsstofnun bendir réttilega á.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulags Borgartúns 28-28a segir: „Fram kemur í athugasemdum að hagsmunaaðilar telja að skort hafi á samráð við undirbúning deiliskipulagsbreytingarinnar. Mikil uppbygging er og hefur verið við Borgartrún og á aðliggjandi svæðum og við slíkar aðstæður telur Skipulagsstofnun sérstaklega mikilvægt að haft sé samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu deiliskipulagsbreytinga kveða á um, sbr. sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti“. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði lögðu fram tillögu í ráðinu 14. ágúst 2014 um að meirihlutinn fundaði með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum áður en deiliskipulagstillagan yrði tekin til afgreiðslu. Þá tillögu felldu fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna án nokkurra athugasemda frá fulltrúa Pírata sem er áheyrnafulltrúi í ráðinu. Skipulagsstofnun tekur algjörlega undir sjónarmið fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukið samráð þegar aðstæður eru eins og í Borgartúni 28. Íbúar óskuðu eftir fundi og tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samráðsfund endurspeglaði þá einföldu ósk. Með tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar skulda fulltrúar meirihlutans íbúum Borgartúns afsökunarbeiðni. 

9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. mars, mannréttindaráðs frá 10. mars, menningar- og ferðamálaráðs frá 23. febrúar og 9. mars, skóla- og frístundaráðs frá 11. mars, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 2. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. mars.

Fundi slitið kl. 17.19

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Sóley Tómasdóttir

Áslaug Friðriksdóttir Kristín Soffía Jónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.3.2015 - prentvæn útgáfa