Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2015, þriðjudaginn 17. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra S. Björns Blöndal, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Hildur Sverrisdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um rafrænar íbúakosningar, Betri hverfi 2015.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Kosning stendur nú yfir í Betri hverfum 2015 á vefsvæðinu kjosa.betrireykjavik.is og lýkur á miðnætti þann 24. febrúar. Af umræðum í borgarstjórn má greina að þessar árlegu kosningar hafa fest sig rækilega í sessi þó fram hafi komið ýmsar vangaveltur um hvernig bæta megi úr þeim og skerpa á framkvæmdinni. Borgarbúar eru hvattir til að nýta sér þennan rétt sinn til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt með því að taka þátt í kosningunni.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir fagna raunverulegu íbúalýðræði en lýsa áhyggjum af því hve lítil þátttaka er bak við hverja tillögu og hve margar af tillögunum snúa að almennu viðhaldi og öryggismálum sem borginni ber að sinna en hefur vanrækt.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að fela forsætisnefnd að skoða hvaða leiðir eru tækar við skipun fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar aðrar en huglæg afstaða borgarfulltrúa til þeirra einstaklinga sem lagðir eru til á fundi borgarstjórnar.
- Kl. 16.10 tekur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sæti á fundinum og Magnús Már Guðmundsson víkur sæti.
Samþykkt.
3. Fram fer umræða um móttöku og þjónustu við flóttafólk í Reykjavík.
4. Fram fer umræða um ferðaþjónustu fatlaðs fólks.
- Kl. 18.00 víkur Hildur Sverrisdóttir af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjóri og aðrir fulltrúar meirihluta borgarstjórnar hafa síður en svo axlað ábyrgð á því sem farið hefur úrskeiðis í málefnum ferðaþjónustu fatlaðra á undanförnum mánuðum. Strax á fyrstu dögum ársins kom í ljós alvarlegur þjónustubrestur hjá ferðaþjónustu fatlaðra í kjölfar breytinga, sem gerðar voru á starfsemi hennar um áramótin. Rætt var ítarlega um málið á borgarstjórnarfundi 20. janúar og lögð fram tillaga Framsóknar og flugvallarvina um tafarlausa skipun tímabundins aðgerðahóps til að leysa það vandamál sem Strætó bs. stendur frammi fyrir varðandi ferðaþjónustu fatlaðra. Meirihlutinn vísaði tillögunni til nefndar. Skilaboð borgarstjóra og formanns borgarráðs á fundinum voru þau að unnið væri hörðum höndum að því að koma þjónustunni í lag og að þeir tækju beinan þátt í þeirri vinnu. Sú vinna væri þegar farin að skila árangri og mikilvægt væri að gefa henni meiri tíma. Tillagan væri því óþörf. Eftir því sem dagarnir liðu kom í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í yfirlýsingum fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans í málinu 20. janúar því ekki varð lát á alvarlegum tilvikum. Eftir að mjög alvarlegt tilvik varð hinn 4. febrúar kom loks fram tillaga frá meirihlutanum um skipun sérstakrar neyðarstjórnar vegna málefna ferðaþjónustu fatlaðra. Enn koma upp óviðunandi mál á vettvangi ferðaþjónustu fatlaðra þrátt fyrir að nú sé næstum mánuður liðinn frá digurbarkalegum yfirlýsingum borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihlutans um að ástand ferðaþjónustu fatlaðra væri að komast í lag. Ljóst er að fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans hafa því ekki með nokkrum hætti axlað pólitíska ábyrgð í málinu eins og þeim ber að gera.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata árétta trú og traust á aðgerðum neyðarstjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks.
5. Fram fer umræða um málefni grunnskóla Reykjavíkur.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fagna umræðu um málefni grunnskóla enda full ástæða til að vekja athygli á því mikla og góða starfi sem þar er unnið á degi hverjum. Reykvískum börnum líður almennt vel í skólanum og þau standa sig vel í samanburði við börn í öðrum landshlutum og í ríkjum OECD í undirstöðugreinum eins og lestri og stærðfræði, einkum þegar um er að ræða úrlausn erfiðustu prófverkefna. Mikill árangur hefur náðst undanfarin 15 ár við að draga úr vímuefnaneyslu ungmenna í Reykjavík en hins vegar er ákveðinn hópur barna sem á í fjölþættum vanda, þar sem þörf er á viðbótarstuðningi. Meirihlutinn hefur brugðist við með því að setja á fót viðbragðsteymi sem mun aðstoða skóla við lausn einstaklingsmála en jafnframt leggja til ný úrræði sem beita má í þágu barna með alvarlegan hegðunarvanda, geðrænan vanda eða vímuefnavanda.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir telja það algerlega óásættanlegan forgang meirihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur að bregðast ekki undanbragðalaust við þeim vanda sem snýr að sérfræðiþjónustu við grunnskólabörn með fjölþættan vanda. Staðreyndin er löng bið eftir greiningum og enn lengri bið eftir viðeigandi úrræðum og þjónustu. Á meðan forgangsmál meirihlutans eru í ólestri versna aðstæður barna og dýrmætur tími fer forgörðum, þar sem erfiðara getur verið að koma viðkomandi til aðstoðar. Ekki er aðeins um að ræða börn í vímuefnavanda, heldur einnig börn með námsörðugleika, hegðunarerfiðleika, vandkvæði, kvíða, félagsfælni, fötlun og þunglyndi og er þá ekki allt upptalið. Skorað er á meirihlutann að breyta þessu, setja fram forgangsáætlun, sérfræðiþjónustu við þennan hóp þarf að setja í algeran forgang og jafnframt að gæta jafnræðis á milli hverfa borgarinnar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í stað þess að samþykkja fyrirliggjandi tillögu um úrræði fyrir grunnskólanemendur í vímuefnavanda, sem byggist á hugmyndum reynslumikilla skólastjóra í Reykjavík, kaus meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar Vinstri grænna og Pírata í skóla- og frístundaráði að skipa nefnd til að skoða málið og vinna á grundvelli núverandi úrræða og fyrirkomulags. Komið hefur fram, ekki síst í málflutningi fulltrúa, skólastjóra, kennara, foreldra og fulltrúa framkvæmdastjóra frístundaheimila að þau úrræði duga ekki til. Umræddri nefnd er falið að skila tillögum fyrir 1. maí nk. og gangi það eftir er ljóst að nýjum úrræðum verður trauðla hleypt af stokkunum á yfirstandandi skólaári. Við hörmum kæruleysi meirihlutans í þessu máli. Ekki verður hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið er að upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa í skóla- og frístundaráði varðandi þessi mál. Hefur okkur verið tjáð að þau hafi reglulega komið til umræðu á skólastjórafundum á undanförnum árum þar sem m.a. hafi komið fram áhyggjur margra skólastjóra á umfangi vandans og þeir ítrekað óskað eftir úrbótum svipuðum þeim og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til. Úr hópi skólastjóra hefur orðið vart við vonbrigði og óánægju þar sem þessi skýru skilaboð, sem fram hafa komið á skólastjórafundum, hafa ekki skilað sér inn á fundi skóla- og frístundaráðs. Í ljósi reynslunnar er brýnt að sem fyrst fari fram gagnger endurskoðun á upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa í skóla- og frístundaráði í því skyni að tryggja að þeir sitji við sama borð. Við fögnum því af heilum hug þeim orðum formanns skóla- og frístundaráðs á þessum fundi að hann hyggist beita sér fyrir því að allir fulltrúar í ráðinu fái fullan aðgang að skólastjórafundum. Er það mikilvægt skref til úrbóta að þessu leyti.
6. Fram fer umræða um tillögur og afbrigði á borgarstjórnarfundum.
7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og 12. febrúar.
Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
Lagt er til að öllum ákvörðunum sem haft geta áhrif á framtíð Reykjavíkurflugvallar, öryggi hans og nýtingu, verði frestað þar til nefnd sem hefur það verkefni að fjalla um framtíðarstaðsetningu flugvallarins, svokölluð Rögnunefnd, hefur skilað niðurstöðum sínum.
Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
- 10. liður fundargerðarinnar frá 5. febrúar, auglýsing á breytingu á skilmálum deiliskipulags Hlíðarenda, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir hafa greitt atkvæði gegn öllum tillögum varðandi breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda og er afstaða okkar óbreytt. Framsókn og flugvallarvinir leggjast gegn öllum breytingum sem varða Reykjavíkurflugvöll, niðurstaða áhættumats liggur enn ekki fyrir, auk þess sem Rögnunefndin er enn að störfum. Fyrir liggur að flugbraut 06/24 hefur verið notuð í vetur í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs, m.a. í sjúkraflutningum og því ljóst að verði hún lögð niður getur m.a. sjúkraflugi og líffæraflutningum verið stefnt í hættu. Nauðsynlegt er að tryggja flugöryggi og það verður ekki gert nema brautin sé opin eins og sannast hefur ítrekað undanfarnar vikur og var hún m.a. notuð tvisvar í gær í sjúkraflugi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn deiliskipulagi Hlíðarenda þann 5. nóvember 2014 og gerðu þá skýra grein fyrir atkvæðum sínum með ítarlegum bókunum. Með sama hætti afgreiddu borgarfulltrúar þessa sama flokks deiliskipulagið í borgarstjórn 2. desember sl. Afstaða borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er enn óbreytt varðandi það að Rögnunefndin svokallaða þarf að ljúka störfum áður en breytingar eru gerðar varðandi Reykjavíkurflugvöll.
- 31. liður fundargerðarinnar frá 12. febrúar, tillaga borgarstjóra um samkomulag um undirbúning, framkvæmdir, áfangaskiptingu og sameiginlega kostnaðarþætti vegna uppbyggingar mannvirkja á Hlíðarendareit, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Uppbygging á Hlíðarenda gerir ráð fyrir því að flugbraut 06/24 sé ekki lengur til. Niðurstaða áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 liggur ekki fyrir og því liggur ekki fyrir afstaða Samgöngustofu til lokunarinnar. Þegar þessi atriði liggja fyrir væri fyrst hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif slík lokun hefði á umhverfi innanlandsflugs, almannavarna, sjúkraflugs og líffæraflutninga. Er því órökrétt og óábyrgt að gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir. Þá er nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs enn að störfum og hefur formaður nefndarinnar óskað eftir svigrúmi til að klára þá vinnu og styðjum við það. Þá hörmum við að borgarráð hafi ekki samþykkt tillögu Framsóknar og flugvallarvina frá 23. október 2014 um að ganga til viðræðna við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu um að finna lausn á fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda þannig að fyrirhugaðar byggingar komist fyrir á reitnum án þess að vera hindrun fyrir flugbraut 06/24 svo hún geti áfram haldið hlutverki sínu þrátt fyrir uppbyggingu á Hlíðarenda og allir hagsmunaaðilar geti vel við unað en tillagan var felld í borgarráði 18. desember 2014 af borgarráðsfulltrúum Samfylkingar, VG, Bjartrar framtíðar og Pírata og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðsluna.
8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. febrúar, mannréttindaráðs frá 27. janúar og 10. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 19. og 26. janúar og 9. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 4. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. febrúar og velferðarráðs frá 5. febrúar.
Fundi slitið kl. 22.51
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Sóley Tómasdóttir
Skúli Helgason Halldór Halldórsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.2.2015 - prentvæn útgáfa