Borgarstjórn - 17.12.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 17. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komin til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Þórdís Pálsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson og Alexander Witold Bogdanski.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 3. desember 2019, varðandi samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni ásamt fylgiskjölum sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. desember 2019.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að gerðar verði breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við það samkomulag sem borgarstjóri og samgönguráðherra hafa undirritað um að  gert verði ráð fyrir flugvellinum í Vatnsmýrinni til a.m.k. ársins 2040 og rekstraröryggi hans tryggt á þeim tíma. Staðfestingu fyrirliggjandi samkomulags verði frestað uns aðalskipulagsbreyting hafi verið staðfest. R19110404

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins að vísa breytingartillögunni frá. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga borgarstjóra um staðfestingu á samkomulagi um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni er samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Kjarni samkomulagsins er, líkt og segir í 5 gr. þess: „Aðilar eru sammála um að stefnt skuli að því að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í Hvassahrauni, reynist það vænlegur kostur og fyrir liggi niðurstaða um fjármögnun.” Verkefninu framundan er skipt í tvo áfanga. Á fyrstu tveimur árum verður farið í veðurfarsrannsóknir, vatnsverndarmál verða könnuð o.fl. atriði. Í síðari áfanga verði unnið skipulag, umhverfismat og frumhönnun flugvallar í Hvassahrauni. Borgin mun fjármagna helming verkefnisins á móti samgönguráðuneytinu. Vakin er athygli á því að í samkomulaginu er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg breyti aðalskipulagi Reykjavíkur til að tryggja rekstraröryggi innanlandsflugs á meðan á undirbúningi og framkvæmdum við nýjan flugvöll stendur. Með öðrum orðum þá er rekstur flugvallarins tryggður á meðan undirbúningur fyrir Hvassahraunsflugvöll stendur yfir líkt og fram kemur í meirihlutasáttmála borgarstjórnarflokkanna. Rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri hefur því ekki verið tryggður umfram það. Þá er tekið fram í samkomulaginu að það víki ekki til hliðar samkomulagi innanríkisráðherra og borgarstjóra frá 25. október 2013 um að ráðuneytið og Isavia ohf. hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja nauðsynlegt að breytingar á aðalskipulagi staðfesti þann raunveruleika sem við blasir í samkomulagi borgarstjóra og samgönguráðherra. Í 5. gr. samkomulagsins segir að rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýrinni skuli tryggt og borgin tryggi nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi í samræmi við það. Gera þarf breytingar á aðalskipulagi til ársins 2030 og eftir atvikum til ársins 2040 í samræmi við samkomulagið. Rétt væri því að endurskoða aðalskipulagið áður en lengra er haldið. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að nú verður mögulegt að fara í nauðsynlegar endurbætur og viðhald á innviðum flugvallarins. Með þessu samkomulagi er ljóst að væntingar um að nýta Vatnsmýrarsvæðið undir íbúðarhúsnæði á næstu áratugum eru brostnar. Það er því ljóst að heimatilbúinn húsnæðisvandi verður ekki leystur með Vatnsmýrinni eins og borgarstjóri hefur reynt að halda að borgarbúum. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það kom skýrt í ljós og var mjög afhjúpandi hjá meirihlutanum að þeirra vilji er að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni fái þau einhverju ráðið. Því má segja að kosningabaráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2022 er hafin. Ekkert er gert með 70.000 undirskriftir sem Hjartað í Vatnsmýrinni safnaði til að knýja á um að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni. Nú er komin skýring á því hvers vegna Reykjavíkurborg eitt sveitarfélaga reiðir fram 100 milljónir í „frekari rannsóknir“ á Hvassahrauni sem framtíðar innanlandsflugvöll á SV-horninu. Meirihlutinn er öryggissjónarmiðum fjandsamlegur. Hefur engan skilning á þörfum og kröfum landsmanna allra. Þeirra rörsýn nær ekki út fyrir borgarvirkið 101 Reykjavík. Hvaðan á fjármagn í nýjan flugvöll í Hvassahraun að koma þegar mikilvæg grunnnet landsins eru ónýt og í lamasessi eins og komið hefur í ljós undanfarna daga. Hitt er að Reykjanesið er virk eldsstöð eins og gríðarlegir skjálftar undanfarna daga sýna. Formaður Skipulags- og samgönguráðs kynnti framtíðasýn meirihlutans undir umræðunum og er sú sýn ógnvekjandi. 100 þúsund fermetrar eiga að fara undir atvinnuhúsnæði og 9-11.000 íbúðir eiga að byggjast á landi flugvallarins. Gjörið svo vel landsmenn – þetta er planið. Undirskrift borgarstjóra við ríkið er ekki pappírsins virði.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hvassahraun sem möguleg staðsetning fyrir nýjan innanlandsflugvöll hefur verið lengi í umræðunni. Farið var að mæla veðurskilyrði þar fyrir um 2-3 árum en engar tilraunir í flugi s.s. mælingar á kviku eða skýjahæð hafa verið gerðar. Eins og málið horfir við í dag er óvissan um þennan stað því mikil. Ef mælingar og tilraunir reynast ekki hagstæðar þá erum við á núllreit með þessi mál. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir. Verði farið í að byggja flugvöll í Hvassahrauni er reiknað með að allt að áratugur verði áður en hægt verði að hefja flugsamgöngur þar. Engar sérstakar breytingar eru því í farvatninu um flugsamgöngur í Vatnsmýrinni nema að þar mun rísa samgöngumiðstöð.  Þeir sem vilja að flugvöllurinn verði þar áfram þurfa því ekki að hafa áhyggjur a.m.k. næsta áratuginn og jafnvel lengur. Ef til kemur að Hvassahraun stenst skoðun er ekki sanngjarnt að borgin greiði helming af hönnunarkostnaði flugvallar í Hvassahrauni. Sá flugvöllur verður ekki innan borgarmarka Reykjavíkur. Ef til kæmi þá er nær að þau sveitarfélög þar sem flugvöllurinn verður tækju þátt í hönnunarkostnaðinum.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Í 5. tölulið 11. greinar sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fjöldi aðalmanna í sveitarstjórn skuli vera 23-31 í sveitarfélagi með fleiri en 100.000 íbúa. Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að endurskoða umrætt lagaákvæði í því skyni að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um fjölda borgarfulltrúa. R14010250

-    Kl. 17.44 tekur Björn Gíslason sæti og Alexander Witold Bogdanski víkur af fundi.

-    Kl. 18.40 víkur Sigurborg Ósk Haraldsdóttir af fundi og Alexandra Briem tekur sæti. 

-    Kl. 18.45 víkja Skúli Helgason og Hjálmar Sveinsson af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannesdóttir og Þorkell Heiðarsson taka sæti. 

Tillagan er felld með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Eðlilegt er að ákveðin mörk séu sett í lög á fjölda fulltrúa í sveitarstjórn því óheppilegt er að að pólitísk kjörin sveitarstjórn geti stýrt sjálf svo veigamiklu atriði sem varðar fyrirkomulag kosninga. Jafnframt er eðlilegt að fjöldi kjörinna fulltrúa hækki hóflega með vaxandi íbúatölu. Má í því samhengi nefna að fjöldi fulltrúa í Reykjavík var sá sami í ársbyrjun 2018 og árið 1908 þrátt fyrir að íbúafjöldinn hafði meira en tífaldast á þeim tíma.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn samþykkti hinn 19. september 2018 að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23. Þetta hefur haft verulegan kostnað í för með sér þrátt fyrir að öðru hafi verið haldið fram. Laun 15 borgarfulltrúa árið 2017 voru umtalsvert lægri en laun þeirra 23 borgarfulltrúa sem nú þiggja laun og hafa fengið verulegar launahækkanir til viðbótar. Ekki hefur fengist staðfest tala fyrir launakostnað borgarfulltrúa en m.v. þá viðauka sem borgin hefur þurft að ráðast í er ljóst að hér er um verulega fjármuni að ræða. Hér skortir því gagnsæi. Nýsamþykktur var viðauki vegna kostnaðar við borgarstjórn upp á 56 milljónir króna, því sem áður hafði verið áætlað fyrir árið 2019. Það er dapurlegt að meirihlutinn skuli fella það að skora á Alþingi að endurskoða umrætt lagaákvæði í því skyni að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um fjölda borgarfulltrúa. Á meðan borgarfulltrúum hefur fjölgað um 53% hefur leikskólakennurum fækkað. Þá hefur fjöldi heimilislausra tvöfaldast á síðustu fimm árum og vandi ungs fólks við að koma sér úr foreldrahúsum aukist töluvert. Þá er ánægja með þjónustu borgarinnar mjög lítil miðað við önnur sveitarfélög og traust á borgarstjórn í sögulegu lágmarki. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins telur að fjölgun borgarfulltrúa var tímabær og af hinu góða. Ótalmargt hefur breyst til hins betra. Minnihlutinn er fjölbreyttari og fleiri sjónarmið komast að. Eldra fyrirkomulagið var gallað og kostnaðarsamt. Sem dæmi, fólk sem var jafnvel lítt tengt pólitíkinni tók sæti í hinum ýmsu nefndum því borgarfulltrúar gátu ekki annað þeirri vinnu. Núna sjá kjörnir fulltrúar um mestu vinnuna. Það er lýðræðislegra en vissulega óhemju álag fyrir litla flokka. Kosturinn við fjölgunina er að nú eru fleiri mál, fyrirspurnir, tillögur, dýpri og lengri umræða sem  er allt af hinu góða. Öflugur minnihluti getur stuðlað að bættum rekstri í borginni,  aukins aðhalds og gegnsæi. Borgarbúar eiga fleiri málsvara nú. Fleiri eyru hlusta og meðtaka skilaboð frá borgarbúum. Ef borgarfulltrúar eru fáir falla mörg greidd atkvæði dauð sem kemur verst niður á litlum flokkum. Stórir flokkar nýta atkvæði sín best við þessar aðstæður og því kemur þessi tillaga Sjálfstæðismanna ekki á óvart. Má nefna að sá flokkur hélt oft meirihluta í Reykjavík fyrr á árum með minnihluta atkvæða. Það eru minni líkur á slíku þegar borgarfulltrúar eru 23 en ekki 15. Álit Alþingis er að borgarfulltrúar í Reykjavík eigi að vera 23-31. Lægsti mögulegi borgarfulltrúafjöldi er í Reykjavík eins og er.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að farið verði tafarlaust í að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda yfir umferðarmiklar stofnbrautir þar sem slysatíðni er há. Lausnirnar skulu annað hvort vera göngubrýr, undirgöng eða annars konar þveranir. 1. Hringbraut við Bræðraborgarstíg. 2. Hringbraut við Gamla garð. 3. Miklubraut við Klambratún. 4. Miklubraut við Stakkahlíð. 5. Kringlumýrarbraut við Suðurver.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19110181

Tillögunni er frestað.

4.    Umræðu um uppfærða húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2019 er frestað. R19110076

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Lagt er til að Reykjavíkurborg sendi þeim borgarbúum sem jafnframt eru öryrkjar, menningarkort þeim að kostnaðarlausu. Menningarkortið veitir aðgang að safnhúsum Listasafns Reykjavíkur og safnhúsum og sýningum Borgarsögusafnsins, frítt bókasafnskort og ýmis fríðindi. Frír aðgangur öryrkja að söfnum og sýningum Reykjavíkurborgar er háður framvísun staðfestingar frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Öryrkjar fá hinsvegar ókeypis bókasafnskort á Borgarbókasöfnum gegn framvísun slíkrar staðfestingar. Því er lagt til að Reykjavíkurborg gefi út menningarkort handa öryrkjum, svo að þeir þurfi ekki að framvísa staðfestingu frá TR, þegar þeir sækja söfn borgarinnar. Staðfestingin er einungis þunnur pappírsmiði sem viðkomandi prentar sjálfur út. Þar að auki getur fólki fundist óþægilegt að taka sérstaklega fram að það eigi rétt á niðurfellingu gjalda vegna stöðu sinnar eða veit jafnvel ekki af því. Það er mikilvægt að ýta undir aðgengi að menningarstofnunum borgarinnar óháð félagslegri stöðu og er þetta liður í því. Kostnaðurinn felst í útgáfu korta og sendingarkostnaði en í upphafi árs voru 7.084 einstaklingar með 75% örorkumat í gildi í Reykjavík. Lagt er til að verkefnið hefjist í janúar 2020 og verði fjármagnað af liðnum ófyrirséð. Menningar- og ferðamálasviði ásamt velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar með því að leita til TR.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19120141

Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs gegn atkvæði Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga Sósíalista um að einfalda aðgengi borgarbúa sem eru öyrkjar að Menningarkorti Reykjavíkur er jákvæð. Þannig hefur þessi hópur enn betri tök en nú er að njóta metnaðarfulls menningarstarfs borgarinnar.Tilllögunni er vísað til velferðarráðs. Ráðið mun svo leita leiða til að bjóða öryrkjum í borginni menningarkortið þeim að kostnaðarlausu og finna aðgengilegar leiðir fyrir þá sem þekkjast boðið að nálgast kortið.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er mikilvægt að tryggja að allir viti hvað þeim stendur til boða. Þetta væri gott skref í þá átt. Það væri gott skref ef að Reykjavíkuborg myndi að fyrrabragði láta vita, með svo augljósum hætti, hvað einstaklingar í umræddri stöðu geta nýtt sér en borgarbúar vita ekki alltaf hvað þeim stendur til boða. Fulltrúi Sósíalistaflokksins skilur að það þurfi að endurskoða útfærsluatriði í tillögunni til að ná til þeirra sem um ræðir og hefði verið opin fyrir breytingartillögum á borgarstjórnarfundinum. Það er mikilvægt að ýta undir aðgengi að menningarstofnunum borgarinnar óháð félagslegri stöðu og verður þessi tillaga rædd frekar innan velferðarráðs þar sem fulltrúi Sósíalistaflokksins situr.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Flokkur fólksins leggur til að reglur um félagslegt húsnæði verði endurskoðaðar með tilliti til viðbragða stjórnvalda ef leigusamningi um félagslegt húsnæði er sagt upp eða rift af hálfu Félagsbústaða eða velferðasviðs. Jafnframt verði reglum breytt og það tekið skýrt fram að fylgja þurfi reglum stjórnsýslulaga við ákvörðunartöku um að segja upp eða rifta leigusamningi um félagslegt húsnæði. Ákvörðunin um hvort viðkomandi eigi rétt á félagslegu leiguhúsnæði á vegum borgarinnar er í höndum velferðarsviðs og er þar með stjórnvaldsákvörðun. Sú ákvörðun að slíta leigusamningi, t.d. þegar leigjandi gerist brotlegur gegn honum á einhvern hátt, er á hinn bóginn í höndum Félagsbústaða, enda er sú stofnun eins og staðan er núna í raun aðeins leigusali og ber ekki sérstakar skyldur gagnvart leigjendum sem slíkur, fyrir utan þær sem Reykjavíkurborg setur á þeirra herðar. Að undanförnu hefur velferðarsvið í auknum mæli tekið meiri ábyrgð í málum leigjenda hjá Félagsbústöðum en betur má ef duga skal. Ef fylgja á sveitarstjórnarlögum er það skylda sveitarfélags að sjá um þá einstaklinga sem ekki geta það sjálfir. Þetta á við um grunnþarfir einstaklinga eins og húsnæði, fæði og klæði. Missi viðkomandi húsnæði hjá Félagsbústöðum hlýtur það ávallt að vera á ábyrgð Reykjavíkurborgar að finna honum annað húsnæði eða úrræði. Enginn á að lenda á vergangi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19120142

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá gegn atkvæði Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillögu Flokks fólksins um endurskoðun á reglum um viðbrögð við uppsögn eða riftun leigusamnings um félagslegt húsnæði af hálfu Félasgsbústaða eða velferðarsviðs hefur verið vísað frá. Sennilega uppfylla reglur lögin en búið er að framselja allt of mikið vald til Félagsbústaða að mati Flokks fólksins.  Valdið á að vera hjá velferðarsviði enda Félagsbústaðir angi þar af. Flokki fólksins finnst sem borgin hafi misst nokkuð sjónar af Félagsbústöðum í gegnum árin og séu í of litlum tengslum við móðurstöðina. Ótal dæmi eru um að leigusamningum hjá Félagsbústöðum hafi verið rift og fólk lent á götunni. Velferðarsvið er ábyrgt fyrir þessu fólki en mörg dæmi eru um að sviðið hafi ekki axlað þá ábyrgð sem skyldi og jafnvel látið sem málið sé sviðinu óviðkomandi. Félagsbústaðir eru ekki bara eitthvað leigufyrirtæki út í bæ og á ekki að haga sér sem slíkt. Þegar upp er staðið þá ber velferðarsvið ávallt lokaábyrgðina að viðkomandi lendi ekki á götunni eða á margra mánaða vergangi ef samningi við hann hefur verið rift hjá Félagsbústöðum. Nú situr formaður velferðarráðs í stjórn Félagsbúastaða og var þess vænst að þar með væri kominn eins konar naflastrengur milli móðurstöðvarinnar sem er borgin og Félagsbústaða. Leigjendum sem vegna ekki vel hjá Félagsbústöðum af einhverjum ástæðum eru á ábyrgð velferðarsviðs.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að velferðarsvið ásamt Félagsbústöðum móti úrræði fyrir úrlausn deilumála sem vakna á milli leigjenda Félagsbústaða og ráðist í aðgerðir til að aðstoða þá sem búa í félagslegu húsnæði eða óska eftir félagslegu húsnæði sem jafnframt glíma við fíknisjúkdóma. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að velferðarsvið í samvinnu við Félagsbústaði sem hefur fengið ríka ábyrgð til að halda utan um leigjendahópinn, veiti stuðning og ráðgjöf og svari kalli hans um aðstoð eftir atvikum. Til dæmis er mikilvægt að leigjendur sem eru í erfiðum aðstæðum sem geta verið af ýmsum toga, hafi aðgang að ráðgjöf og jafnvel fagaðila ef vandinn tengist á einhvern hátt búsetu þeirra hjá Félagsbústöðum. Flokkur fólksins hefur sérstakar áhyggjur af þeim hópi leigjenda sem glímir við fíknivanda og velt er upp spurningum hvort borgin geti komið sterkar inn í að aðstoða þá sem vilja aðstoð t.d. með með ráðgjöf eða meðferð. Hugmynd um teymi sem sinnti þessum hópi sérstaklega hefur komið upp hjá fulltrúa Flokks fólksins. Sú hugmynd kallar á að borgin þrói úrræði fyrir fólk með fíknivanda. Eins og staðan er núna eru þessi úrræði, aðallega hjá SÁÁ og svo hjá félagasamtökum sem taka að sér endurhæfingu, sporavinnu, námskeið og annan stuðning. Margra mánaða biðlisti er í öll þessi úrræði.

Greinargerð fylgir tillögunni.  R19120143

Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs gegn atkvæði Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Síðastliðið vor voru samþykktar nýjar reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, þar sem brugðist hefur verið við þeim ábendingum sem fram koma í tillögunni. Félagsbústaðir og velferðarsvið bjóða fjölbreytt úrval húsnæðis eins og sjá má meðal annars í reglum um félagslegt húsnæði. Unnið er að því að styrkja þjónustukeðju og stuðning við leigjendur félagsbústaða og þá sem bíða eftir úthlutun.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillögu um úrræði fyrir úrlausn deilumála er vísað til velferðarsviðs. Félagsbústaðir er hlutafélag sem er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar. Um mitt þetta ár áttu Félagsbústaðir hf. um 2.700 íbúðir. Hlutverk Félagsbústaða er að tryggja og reka félagslegt leiguhúsnæði í borginni til þess að mæta húsnæðisþörf þeirra sem ekki geta séð sér og sínum fyrir húsnæði vegna lágra tekna eða félagslegra aðstæðna. Samhliða fjölgun eigna hjá Félagsbústöðum þarf að vera hægt að halda utan um leigjendahópinn og leysa þau mál sem upp koma innan hans.  Leigjendur hjá Félagsbústöðum eiga að fá bestu mögulegu þjónustu að öllu leyti. Eins og gengur í sambýli fjölbýlishúsa geta komið upp ýmis mál sem þarf að leysa. Á þessu þarf Félagsbústaðir að geta tekið. Fyrirtæki eins og Félagsbústaðir má aldrei verða svo stórt að það ráði ekki við innviðina og geti ekki þjónustað fólkið. Þetta er ekki venjulegt leigjendafyrirtæki. Mörgum finnst að Félagsbústaðir séu allt of aftengdir velferðarkerfi borgarinnar. Félagsbústaðir hefur árum saman verið að glíma við ímyndarvanda. Sá vandi er ekki tilkominn af engu. Það myndi gera mikið fyrir Félagsbústaði ef þeir hefðu úrræði sem leigjendur geta gengið að með mál sem upp kunna að koma í íbúðahúsum Félagsbústaða. Slíkt úrræði myndi skapa öryggi meðal leigjendanna og auka traust þeirra á Félagsbústöðum.

8.    Lagt er til að Vigdís Hauksdóttir taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í skipulags- og samgönguráði í stað Baldurs Borgþórssonar og að Baldur tak sæti sem varaáheyrnarfulltrúi í ráðinu í stað Vigdísar. R18060086

Samþykkt.

9.    Lagt er til að Baldur Borgþórsson taki sæti í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Vigdísar Hauksdóttur og að Vigdís Hauksdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Baldurs. R18060088

Samþykkt.

10.    Lagt er til að Gústaf Adólf Bergmann Sigurbjörnsson taki sæti í íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis í stað Þorsteins V. Einarssonar. R18060096

Samþykkt.

11.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 5. desember. R19010002

27. liður fundargerðarinnar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 er borinn upp í sjö liðum. 

Liður 1 er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Liður 2 er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Liður 3 er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Liður 4 er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Liður 5 er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Liður 6 er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Liður 7 er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19010200

12.    Lagðar fram fundargerð forsætisnefndar frá 13. desember , mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 28. nóvember og 5. desember, skipulags- og samgönguráðs frá 4. desember og velferðarráðs frá 4. desember. R19010073

3. liður fundargerð forsætisnefndar frá 13. desember; tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar 7. janúar 2020 er samþykktur. R19010103

Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar forsætisnefndar:

Staðfestingu ráðuneytis á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar hefur verið lögð fram. Í samþykkt þessari er talað um að fundir hefjist að jafnaði kl. 14:00. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að fundir hefjist mun fyrr. Að færa fundi framar og freista þess að ljúka þeim fyrir kvöldmat er nú orðið enn meira knýjandi í ljósi umræðu um kostnað við borgarstjórnarfundi þ.m.t. matarkostnað. Ekki er mikið til af reglum um áheyrendur. Í 17. gr. segir þó að ef áheyrandi á borgarstjórnarfundi raskar fundarfriði getur forseti látið vísa honum út. Gæta þarf meðalhófs í þessu sem öðru að mati Flokks fólksins enda “fundarfriður” bæði teygjanlegt og háð túlkun. Skemmst er að minnast hóps barna sem klappaði á áheyrendapöllum borgarstjórnar en var hótað að þeim yrði fleygt á dyr klöppuðu þau aftur. En klapp stöku sinnum á pöllunum í borgarstjórn skaðar engan að mati Flokks fólksins. Í reglum segir einnig að leyfi þarf frá forseta til myndatöku í fundarsal. Ekkert er hins vegar um að leyfi þurfi fyrir myndatöku í matsal. Gegnsæi verka og verkefna borgarstjórnar og gott aðgengi borgarbúa og fjölmiðla að borgarstjórn og borgarfulltrúum er mikilvægt að sjálfsögðu innan þeirra marka sem lög og reglur gera ráð fyrir.

Fundi slitið kl. 21:02

Pawel Bartoszek

Hjálmar Sveinsson    Sanna Magdalena Mörtudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.12.2019 - Prentvæn útgáfa