Borgarstjórn - 17.12.2013

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2013, þriðjudaginn 17. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir. 

Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um niðurstöður PISA könnunar. 

- Kl. 14.05 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum. 

- Kl. 15.07 tekur Diljá Ámundadóttir sæti á fundinum í stað Evu Einarsdóttur sem víkur sæti.

Samþykkt með 15 atkvæðum að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að skýr markmið verði sett á næstu þremur árum sem miði að því að fækka þeim nemendum markvisst sem lenda fyrir neðan þrep 2 í læsisprófi PISA. Þannig verði sett fram töluleg markmið um hlutfallslega fækkun nemenda. Í þessu samhengi búi skóla- og frístundasvið til skýran feril fyrir leikskóla og grunnskóla með upplýsingum fyrir sviðið og kennara um hvaða skref eigi að taka þegar börn ná ekki settum markmiðum í skimunum (skimun í leikskóla, læsisskimun í 2. bekk og samræmdum prófum) er ekki náð. Ferillinn taki á þessum mælingum og tryggi að börnum sem þurfa aðstoð sé markvisst fylgt eftir á hverju stigi. Verkefninu fylgi fjármagn frá borgarráði. 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með 9 atkvæðum gegn 6 að vísa tillögunni til borgarráðs. 

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:

Það skal áréttað að síðastliðin misseri hefur starf skóla- og frístundasviðs mjög tekið mið af niðurstöðum starfshóps um drengi og námsárangur enda var þess getið í málefnasamningi meirihlutans að vinna að því marki að skoða námsárangur með jöfn tækifæri stráka og stelpna í huga. Auk þess hefur læsisstefna leikskóla verið unnin og samþykkt og hún er nú í innleiðingarferli. Einnig hefur lestrarstefna grunnskóla verið samþykkt og á þessu ári hefur kynning og innleiðing beggja stefna verið í góðum gangi hjá kennurum beggja skólastiga. Allt er þetta gríðarlega mikilvægur undirbúningur og nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að fylgja börnum betur eftir í lestrarnámi sínu. Ekki er rétt sem kemur fram í greinargerð að einungis tvær tillögur úr skýrslu starfshóps um drengi og námsárangur séu komnar í skýran farveg, margar tillagnanna lúta að verkefnum sem ná yfir nokkur misseri og eru allviðamikil. Ber þar hæst þriggja ára átak í jafnréttisfræðslu til starfsfólks SFS, markmið um mikilvægi öflugrar ráðgjafar um jafnréttis- og kynjafræðslu í öllu námi og frístundastarfi barna og unglinga sem birtist í nýlegri ráðningu verkefnastjóra í jafnréttismálum, mörg lestrarhvetjandi verkefni sem sýna ótvíræðan árangur í aukinni ánægju og auknum áhuga ungmenna á lestri, sérstaklega stráka, starfshópur vinnur nú að tillögugerð um hvernig má draga úr kvíða stúlkna og vinna gegn óæskilegum áhrifum staðalmynda og sérvalið verkefni til að taka út með aðferðafræði kynjaðrar hagstjórnar snýr að sérkennslu barna. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Enn og aftur grípur meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar til þess ráðs að vísa tillögum úr borgarstjórn í borgarráð til frekari afgreiðslu. Það er klassísk leið gamaldags stjórnmála til að svæfa málin í stað þess að taka skýra afstöðu til tillögu sem hefur beðið afgreiðslu í tvö ár. Ekki einungis er þetta slök stjórnsýsla heldur einnig ótrúlegur flótti við að afgreiða skýra, vel rökstudda og áríðandi tillögu til að bæta lestrarleikni drengja sem nú þegar hefur legið í skúffu. Enginn fulltrúi meirihlutans tjáði sig efnislega um tillöguna og því liggur ekkert fyrir um stefnu meirihlutans í málinu og engin skýring á því gefin af hverju ekki er hægt að samþykkja tillöguna.

2. Lagðar fram tillögur starfshóps er lúta að þjónustu við börn hjá skóla- og frístundasviði, ásamt verklagsreglum, dags. 18. nóvember 2013, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. nóvember 2013.

Tillögurnar samþykktar með 14 atkvæðum gegn 1.

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:

Með nýju verklagi við innheimtu þjónustugjalda verður tryggt að foreldrar í skuldavanda fái vandaða málsmeðferð, að fjárhagslegar og félagslegar aðstæður fólks verði kannaðar og samningar gerðir í samræmi við greiðslugetu foreldra. Ávallt verður þess gætt að kanna hvort barnaverndarsjónarmið eigi við í hverju tilviki fyrir sig. Nú þegar greiðir Barnavernd Reykjavíkur fyrir leikskóla og frístundastarf fyrir hóp barna í borginni og einnig fær hópur foreldra greiðslur vegna barna sinna á grundvelli reglna um fjárhagsaðstoð. Frá efnahagshruni hafa innheimtuferlar borgarinnar verið mildaðir, frestir lengdir og starfsfólk borgarinnar í innheimtu sýnir almennt mikinn sveigjanleika til að koma til móts við foreldra í erfiðri stöðu og leysa mál þannig að ekki bitni á börnunum. Með þessu nýja verklagi og aukinni persónulegri aðstoð við foreldra er tryggt að enn betur verði hægt að greiða úr þessum viðkvæmu tilfellum og að sjaldnar þurfi að koma til þeirrar undantekningar að barn missi pláss sitt í leikskóla eða á frístundaheimili.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Nýtt verklag í innheimtu vegna þjónustu við börn mun ekki koma í veg fyrir að börn verði af þeirri grunnþjónustu sem leikskólar, frístundaheimili og skólamötuneyti veita. Þrátt fyrir breytt verklag er enn gert ráð fyrir að hægt verði að segja þjónustunni upp og þar með bitni efnahagur og/eða forgangsröðun foreldra á börnum. Þetta fyrirkomulag er í algerri andstöðu við almenn sanngirnissjónarmið og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hefur verið lögfestur á Íslandi. Borgarfulltrúi Vinstri grænna mun ekki gefast upp þó meirihluti borgarstjórnar ætli að halda þessu til streitu, heldur óska eftir því að umboðsmaður borgarbúa og mannréttindastjóri borgarinnar taki málið til skoðunar. 

3. Lagt fram bréf stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 9. desember 2013, um sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS veitum, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. desember 2013. 

Samþykkt með 14 atkvæðum gegn 1.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggst alfarið gegn einkavæðingu HS veitna og telur miður að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar taki þátt í henni með sölu á hlut borgarbúa í fyrirtækinu. Ljóst er að veitustarfsemi leggur grunn að lífsskilyrðum á Íslandi og slík lykilþjónusta á skilyrðislaust að vera í eigu og á forræði almennings.

4. Lagt er til að Björn Gíslason taki sæti í heilbrigðisnefnd í stað Mörtu Guðjónsdóttur sem verði varamaður í nefndinni í stað Óskars Guðbrandssonar.

Samþykkt með 15 atkvæðum.

5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 5. desember 2013. 

11. liður fundargerðarinnar, breytingar á samþykkt fyrir menningar- og ferðamálaráð, samþykktur með 15 atkvæðum. 

21. liður fundargerðarinnar, breytingar á fjárhagsáætlun 2013, samþykktur með 9 atkvæðum.

6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 12. desember 2013. 

20. liður fundargerðarinnar, álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2014, samþykktur með 9 atkvæðum.

25. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun 2013, samþykktur með 9 atkvæðum.

7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. desember, skóla- og frístundaráðs frá 4. og 11. desember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. og 11. desember og velferðarráðs frá 5. desember. 

Fundi slitið kl. 18.18

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Diljá Ámundadóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarstjorn_171213_0.pdf