No translated content text
Borgarstjórn
Ár 2023, þriðjudaginn 17. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:08‘ Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sara Björg Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Ebba Schram.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um málefni Ljósleiðarans ehf.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Umræða um málefni Ljósleiðara Orkuveitunnar hefur loks verið leyfð í borgarstjórn eftir að hafa verið bönnuð tvívegis. Slíkt umræðubann er brot á sveitarstjórnarlögum en sýnir hversu langt borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar ganga til að hindra óþægilegar umræður. Umræðan í dag leiðir í ljós að í því eru fjölmörg álitamál og mikilvægum spurningum ósvarað. Borgarstjóri og formaður borgarráðs vilja sem fyrr ekki ræða þá stefnubreytingu og þær milljarða fjárhagsskuldbindingar, sem fyrirliggjandi viðskiptasamningur hafa í för með sér, heldur reyna að sveipa hana óréttmætum trúnaði. Af hverju er brotið gegn ákvæði eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta félögum, um að borgarstjóri skuli leggja mál, sem eru óvenjuleg eða mikilsháttar fyrir borgarráð til samþykktar? Hví er brotið gegn ákvæði eigendastefnu OR um að meginstarfsvæði Orkuveitunnar sé Suðvesturland og að frávik frá því skuli staðfest af eigendum áður en stofnað er til skuldbindinga vegna þeirra? Hvert er eðli samnings, þar sem búnaður er keyptur gegn skuldbindingu um langtímaþjónustukaup seljanda og hvaða trygging er fyrir því að þau viðskipti haldist? Hver eru áhrif samningsins á skuldastöðu Ljósleiðarans, Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar? Eiga borgarfyrirtæki að vera í samkeppnisrekstri og færa út kvíarnar með áhættufjárfestingum á landsbyggðinni? Greinilegt er að borgarstjórnarmeirihlutinn vill ekki efnislega umræðu um þessi álitamál.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgin á ekki að selja frá sér grunninnviði. Ef það á að stilla borgarfulltrúum upp við vegg og segja „eini valmöguleikinn er að einkavæða Ljósleiðarann” þá neitum við að sætta okkur við slíkt. Það er eins og það sé gefið að þetta sé eina færa leiðin af því að fyrirtækið er í samkeppnisrekstri. Það að kalla þá starfsemi sem Ljósleiðarinn er að sinna “samkeppnismarkað” er rangnefni. Það er einn annar aðili sem sinnir sömu starfsemi og Ljósleiðarinn. Um fákeppnismarkað er því að ræða. Ef hinn “frjálsi markaður” endar í fákeppni, eða jafnvel einokun er augljóst að það þarf að endurskilgreina hvernig svona starfsemi á að fara fram. Regluverkinu þarf að breyta. Hið opinbera á að sjá um grunn innviði eins og ljósleiðarann, rétt eins og vatnsveitur og vegakerfi. Borgarstjórn ætti að skora á ríkið að breyta lögum um fjarskipti. Þetta á ekki að vera samkeppnisrekstur þar sem fjármagnseigendur komast á lífæð samfélagsins og sjúga úr henni blóð. Þetta eru jafn mikilvægir innviðir og vegakerfið og vatnsveiturnar. Ekki erum við komin með vatnið á svokallaðan samkeppnismarkað, hið sama ætti einnig að gilda um gagnaveitur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Slæm staða Ljósleiðarans hefur verið Orkuveitu Reykjavíkur ljós frá 2019 og jafnvel fyrr en ekki fyrir eigendum sem er Reykjavíkurborg. Stjórn Ljósleiðarans samþykkir að taka lán í flýti áður en að rýnihópur borgarráðs hefur lokið störfum. Í rýnihópnum sitja fulltrúar allra flokka. Fyrir rýnihópnum liggur að taka ákvörðun um aukna skuldsetningu Ljósleiðarans annars vegar eða að selja hlut í Ljósleiðaranum til að bæta eiginfjárstöðu hans í stað skuldsetningar hins vegar. Innihaldi þjónustusamnings Ljósleiðarans við Sýn er haldið leyndu fyrir Borgarstjórn Reykjavíkur og rýnihópi borgarráðs. Leynd og flýtir benda yfirleitt til mikilla persónulegra hagsmuna einhverra. Nú þegar ljóst er að málið er grafalvarlegt og það hulið leyndarhyggju veltir Flokkur fólksins fyrir sér hvort hann vilji setja mark sitt á málið eða eigi erindi í þessum hópi? Flokkur fólksins telur að það verði að leggja málið fyrir borgarráð. Það segir í almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta félögum að borgarstjóri skuli leggja mál sem eru óvenjuleg eða mikils háttar fyrir borgarráð til samþykktar. Til að stýrihópurinn geti sinnt skyldu sinni þarf hann að fá aðgang að öllum gögnum í máli Ljósleiðarans þar á meðal samningnum við Sýn. Að öðrum kosti getur rýnihópurinn ekki unnið í málinu með ábyrgðarfullum hætti.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að staða Ljósleiðarans er þröng og taka þarf ákvarðanir um hvernig fjármagna eigi félagið og framtíðarverkefni þess. Í þeirri vinnu er mikilvægt að horfa fyrst og fremst til samfélagslegra sjónarmiða og gæta þess að Orkuveitan og dótturfélög hennar sinni skyldum sínum við íbúa á veitusvæðum félagsins. Jafnframt verður að gera ríka kröfu til gagnsæis varðandi allar skuldbindingar og stórákvarðanir félaga í samfélagslegri eigu og ekki dugir að vísa í þeim efnum til þess sem gerist og gengur hjá einkafyrirtækjum á markaði. Lengi hefur verið sótt að þessu samfélagslega eignarhaldi af ýmsum hagsmunaaðilum en einnig af stjórnmálaflokkum sem hafa frekar hagsmuni einkaframtaksins að leiðarljósi fremur en hagsmuni almennings.
Kl. 13.56 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum.
2. Fram fer umræða um samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjavík 2023-2032 og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar
Kl. 14.00 víkur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir af fundi.
Kl. 14.40 tekur Helgi Áss Grétarsson sæti á fundinum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fagnar því stórátaki í húsnæðismálum sem felst í samkomulagi Reykjavíkurborgar, innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um aukið framboð íbúðarhúsnæðis 2023-2032 og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis. Samkomulagið undirstrikar að Reykjavík ætlar sér að vera leiðandi í húsnæðisuppbyggingu á Íslandi og felur í sér metnaðarfyllstu áform um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sögu Reykjavíkur. Samkomulagið felur í sér að hafist verði handa við að byggja 2000 íbúðir á ári á næstu fimm árum en að á hverjum tíma séu til reiðu byggingarhæfar lóðir fyrir allt að 1500-3000 íbúðir. Á tíu árum er markmiðið að byggja 16 þúsund íbúðir en þó alltaf í samhengi við þörf á húsnæðismarkaði. Markmið samkomulagsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri þörf ólíkra hópa samfélagsins á næstu tíu árum, auka fyrirsjáanleika á húsnæðismarkaði, skapa betri grundvöll fyrir ákvarðanatöku og að draga úr sveiflum á byggingarmarkaði. Samkomulagið styður einnig við uppbyggingu vistvænna samgönguinnviða, vistvæna mannvirkjagerð og tekur mið af loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar og ríkisins. Þá felur samkomulagið í sér að ráðist verði í endurbætur á húsnæðisbótakerfinu, átak verði gert vegna óviðundandi húsnæðis, regluverk í skipulags- og byggingarmálum verði einfaldað og að uppbyggingarheimildir í deiliskipulagi verði tímabundnar.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Eina leiðin til að leysa húsnæðiskreppuna sem hér hefur ríkt, er að byggja húsnæði á félagslegum forsendum. Það leysir engan vanda að halda áfram á sömu braut og verið hefur enda engin tilraun verið gerð til þess að fjarlægja hagnaðarsjónarmið frá húsnæðisuppbyggingu Reykjavíkur. Við sem hér búum eigum öll rétt á að eiga heimili og áætlanir hins opinbera þurfa að miða að því að byggja út frá þörfum og væntingum almennings en ekki braskara. Hér er enga breytingu að finna í grundvallarsjónarmiðum húsnæðisuppbyggingar, einungis á að skilgreina ákveðið hlutfall óhagnaðardrifins húsnæðis, í stað þess að litið sé á húsnæði sem félagslegan rétt, varinn frá hagnaðarkröfu fjársterkra aðila og ágóðafyrirtækja og það er ekki verið að auka hlutfall félagslegs leiguhúsnæðis í borginni. Stór hópur þeirra sem eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði hjá borginni geta ekki sótt um húsnæði sem er byggt upp á vegum óhagnaðar drifinna félaga t.a.m. geta öryrkjar ekki sótt um húsnæði verkalýðsfélaganna nema vera á vinnumarkaði. Það er frábært að verkalýðsfélög bjóði upp á viðráðanlegt húsnæði en borgin verður að byggja félagslega, þannig að krafa sé ekki á að einungis þau sem séu á vinnumarkaði eigi skilið húsnæði.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur að 5% íbúðanna verði félagslegar íbúðir. Mikil vöntun er á félagslegu húsnæði. Á biðlista eru mörg hundruð manns. Skoða mætti fleiri leiðir en að Félagsbústaðir bæti sífellt við sig. Vissulega geta íbúðir verið beint í eigu sveitarfélaga. Útrýma þarf að fullu herbergjasambýlum og biðlistum um sértæk húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Samkomulagið leggur litlar skyldur á ríkið fyrr en ákveðin verður kostnaðarskiptingin milli ríkis og Reykjavíkur vegna sértæks húsnæðis fyrir fatlað fólk. Samkomulagið gerir þó ráð fyrir þátttöku ríkisins í auknum mæli og að fara eigi í úttekt til að ákveða rétta skiptingu kostnaðar milli ríkis og borgar. Í 4. grein kemur fram að leitast á við að tryggja nægilegt framboð byggingarsvæða þannig að byggingarhæf svæði og lóðir ár hvert rúmi 1.500-3.000 íbúðir. Nú er búið að meta að 70 lóðir eru byggingarhæfar í Reykjavík. Þarf ekki að fara að skoða hvort brjóta eigi nýtt land undir byggð? Setja þarf einnig kvaðir á lóðakaupendur um að byggja á lóðinni innan ákveðins tímaramma. Áformin um byggingu 16.000 íbúða á næstu 10 árum þarf að endurskoða reglulega. Vel má vera að þörfin sé meiri og því þurfi að byggja mun fleiri íbúðir en samkomulagið kveður á um.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Það hefur lengi verið baráttumál Vinstri grænna að skapa heilbrigðan húsnæðismarkað með áherslu á uppbyggingu hagkvæmra óhagnaðardrifinna íbúða og félagslegra leiguíbúða. Eins hafa Vinstri græn lagt áherslu á að íbúðaruppbygging eigi að haldast í hendur við sjálfbærni hverfa, vistvæna samgönguinnviði, náttúrulegt og gróðursælt umhverfi, hágæða hönnun og arkitektúr og þjónustu í göngufæri. Þótt fjölgun og styrking óhagnaðardrifinna leigufélaga hafi lengi verið í umræðunni er það fyrst nú undir forystu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og sveitarstjórnarstigsins sem skriður hefur komist á þessi mál. Það er ánægjulegt að sjá þessa þætti dregna fram í samkomulaginu sem liggur hér til samþykktar og vonandi ganga áætlanir eftir um snaraukið framboð íbúðarhúsnæðis. Reykjavík getur hins vegar stigið enn fastar til jarðar og hafið uppbyggingu sjálf á óhagnaðardrifnu húsnæði sem stendur öllum Reykvíkingum til boða óháð tekjum þess rétt eins og Vínarborg og Helsinki gera fyrir sína borgarbúa.
Kl. 15.30 víkur Ebba Schram af fundinum og Helga Björk Laxdal tekur við fundarritun
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að Reykjavíkurborg grípi til viðeigandi aðgerða í þágu þróunar Hlíðarendahverfis, t.d. með breytingu á skipulagsskilmálum, svo að hægt sé að auka nýtingu húsnæðis í hverfinu sem núna er ætlað atvinnustarfsemi á jarðhæð.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við frekari þróun Hlíðarendahverfisins þarf að horfa til raunsærra aðgerða í því skyni að auka nýtingu húsnæðis í hverfinu sem núna er ætlað atvinnustarfsemi á jarðhæð. Þótt umræðan í borgarstjórn um málefnið í dag hafi verið gagnleg er hryggilegt að fulltrúar meirihlutans hafi kosið að hafna því að opna samtal um þetta viðfangsefni, t.d. kom fram í máli núverandi formanns umhverfis- og skipulagsráðs að á meðan formaðurinn réði einhverju þá yrði skipulagsskilmálum hverfisins ekki breytt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að þörf sé á að gripið sé til aðgerða fyrr en síðar svo bæta megi nýtingu atvinnuhúsnæði á jarðhæð Hlíðarendahverfisins. Til þess verður einnig að líta að nokkuð víða um borgina hefur sú þróun orðið algengari að skipulag sé samþykkt með miklu magni íbúða í nýjum fjöleignarhúsum með fáum bílastæðum samhliða því að setja fram kvaðir um að atvinnustarfsemi sé rekin á jarðhæð slíkra húsa. Það er ekki síst í þessu ljósi sem brýnt var að fá upplýsingar um afstöðu núverandi meirihluta borgarstjórnar til þessara mála en af þeirri afstöðu leiðir að sú hætta er viðvarandi að atvinnuhúsnæði víða í borginni á jarðhæð standi tómt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Í skilmálum vegna Hlíðarenda segir: “Leitast er við að skapa lifandi göturými, þar sem m.a. verslun og þjónusta er skilyrt á hluta jarðhæða flestra reita." Rétt er að taka fram að þessar heimildir hafa verið rýmkaðar á allflestum öðrum götum í Hlíðarenda með þeirri niðurstöðu að þar hefur jarðhæðum verið breytt í íbúðir. Við aðal-borgargötuna í hverfinu er hins vegar lykilatriði að tryggja lifandi götu með mannlífi, verslun og þjónustu. Þar er í dag heimilt að reka svo að segja alla verslun og þjónustu á jarðhæðum en þó ekki heimilt að breyta þeim rýmum í íbúðaeiningar. Það er mikilvægt að uppbygging hverfisins haldi áfram og að umrædd rými komist í nýtingu, en með langtímahagsmuni hverfisins í huga er nauðsynlegt að viðhalda möguleika á verslun og þjónustu á jarðhæðum því reynslan sýnir að atvinnurými sem eitt sinn verður breytt í íbúð breytist sjaldnast til baka.
Kl. 16.20 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum og Unnur Þöll Benediktsdóttir tekur sæti.
Kl. 16.50 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundi og Rannveig Ernudóttir tekur sæti.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að láta útbúa drög að kostnaðar- og verkáætlun fyrir ritun á nýrri sögu Reykjavíkur með það að markmiði að útgáfu slíks verks gæti lokið á árinu 2036, á 250 ára kaupstaðarafmæli Reykjavíkur. Áætlun þessi, sem unnin skal í samráði við Borgarsögusafn, liggi fyrir eigi síðar en 1. september nk.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Reykjavíkurborg samþykkir að draga til baka og fresta ákvörðun um hámarksdvalartíma barna á leikskólum. Lagt er til að boðið verði upp á hámarksdvöl í samræmi við það sem var til staðar áður en breytingin tók gildi þann 15. janúar 2023. Þær breytingar kveða á um að börn megi dvelja að hámarki 9 klukkustundir daglega á leikskólum og 42,5 stundir á viku. Lagt er til að innleiðingu um hámarksdvalartíma barna á leikskólum verði frestað þangað til að búið er að kanna stöðu þeirra barnafjölskyldna sem eiga í erfiðleikum með að bregðast við breytingum á hámarksdvalartíma. Stöðu þeirra verði mætt. Gríðarlega mikilvægt er að hlúa vel að börnum og ekki öll börn eiga foreldra eða fjölskyldu sem geta tekið á móti þeim eftir að umræddar breytingar á dvalartíma taka gildi. Því er lagt til að sérstaklega verði kannað hvaða foreldrar og forráðamenn eiga erfitt með að mæta þessum breytingum og hvernig sé hægt að koma til móts við þarfir þeirra barnafjölskyldna. Þar þarf t.a.m. að huga að samfélagslegum þáttum, líkt og bættum almenningssamgöngum svo að tryggja megi skjóta för foreldra og forráðamanna til leikskólanna.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Við tökum undir mikilvægi þess að börn dvelji ekki of lengi dag hvern á leikskóla en bendum á að fjölmargir foreldrar eru ekki í aðstöðu til þess að mæta slíkri styttingu. Foreldrar þurfa margir hverjir að vinna langa vinnudaga til að eiga fyrir nauðsynjum út mánuðinn, eru bíllausir og verja því löngum tíma í að komast á milli staða. Ekki geta allir hætt fyrr í vinnunni til þess að verja tíma með börnum sínum. Ekki allir hafa þann sveigjanleika að geta ráðið tíma sínum. Veruleikinn segir einstæða foreldrinu að það geti ekki hætt fyrr í vinnunni til að ná í barnið á leikskólann þó löngunin sé til staðar. Veruleikinn segir að það er ekki hægt að skera hálftíma strætóferð til og frá leikskóla, niður um helming, sama hve heitt þess er óskað. Á meðan að aðstæður í samfélaginu leggja ennþá þær kröfur á fólk að það þurfi að vinna á tveimur vinnustöðum til að ná endum saman, til að eiga heimili og fá að borða eru verið að byrja á röngum enda. Á meðan að atvinnurekendur krefjast þess ennþá að fólk vinni langan vinnudag og að stytting vinnuvikunnar sé á kostnað kaffipásunnar, þá verðum við hér að staldra við.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Síðustu ár hefur meirihlutinn í borginni lagt mikla áherslu á bætt starfsumhverfi leikskólanna og var endurskoðun á hámarksdvalartíma liður í breytingum sem ætlað var að stuðla að því. Að svo stöddu er því ekki talið tilefni til þess að fresta vel ígrunduðu tilraunaverkefni um hámarksdvalartíma. Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar er hins vegar sammála því sem fram kemur í tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Ísland að mikilvægt sé að fylgst sé með áhrifum breytingarinnar á viðkvæma hópa. Ennfremur er mikilvægt að mæta fjölbreyttum þörfum barnafjölskyldna um sveigjanleika í opnunartíma leikskóla. Til stendur að stofna stýrihóp um leikskólaumhverfi 0-5 ára barna og telur meirihlutinn farsælast að sá hópur meti áhrif aðgerðarinnar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til að innleiðingu um hámarks dvalartíma barna á leikskólum verði frestað þangað til að búið er að kanna stöðu þeirra barnafjölskyldna sem eiga í erfiðleikum með að bregðast við breytingum á hámarks dvalartíma. Við í Flokki fólksins styðjum þessa tillögu því þessi breyting gæti bitnað sérstaklega illa á efnaminni fjölskyldum og einstæðum foreldrum. Vissulega tökum við undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að stytta dvöl barna í leikskólum. Margir eru í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að fara með börn sín í önnur hverfi vegna ýmissa ástæðna m.a myglu í hverfis leikskólanum. Eins og við vitum þá er umferðin hvað þyngst á þeim tíma sem er verið að koma með börn og sækja þau í leikskólann. Þessi tímapressa gæti skapað enn meiri streitu hjá fjölskyldum með ung börn.
6. Fram fer umræða um manneklu í leikskólum borgarinnar.
Kl. 17.40 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mannekla í leikskólum er langvarandi vandamál í Reykjavík sem meirihlutinn hefur ekki getað leyst. Eins og vandinn blasir nú við er vissulega engin ein töfralausn til. Mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi Ekki kann góðri lukku að stýra að lofa upp í ermina á sér og þurfa síðan svíkja loforðin. Það er ekki aðeins vandamál að það vanti pláss heldur berast títt fréttir af því að leikskólar sendi börn heim vikulega eða jafnvel oft í viku vegna manneklu. Hvenær sem er geta foreldrar átt vona á því að stuttu eftir þeir hafa farið með barn sitt í leikskólann og þeir sjálfir komnir til vinnu eða náms þá er hringt og þeir beðnir að sækja börn sín því það vantar fólk. Ekki gengur til lengdar að foreldrar ungra barna hafi áhyggjur og að starfsfólk leikskólanna sé að bugast vegna mikils álags í starfi. Hættan er að það skapist svipað ástand og er á bráðamóttöku Landspítalans en þar hefur margt starfsfólk sagt upp vegna mikils álags og slæmrar vinnuaðstöðu. Reykjavík þarf að laða fólk til starfa í leikskólum m.a. með bættum kjörum og starfsaðstæðum. Það kann að vera erfitt þar sem fjárhagur borgarinnar er á heljarþröm.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Ýmsar ytri aðstæður hafa reynst leikskólastarfinu þungar í skauti síðustu árin, til viðbótar við húsnæðismálin sem og mikla fjölgun umsókna. Mannekla er með stærstu áskorunum sem steðja að leikskólastarfi í landinu og því brýnt að standa vörð um starfsánægju starfsfólks leikskólanna og var um 4 milljörðum varið í aðgerðir til þess að styrkja starfsumhverfi leikskólanna á síðasta kjörtímabili. Meirihlutinn í borginni mun áfram leggja ríka áherslu á að styrkja starfsumhverfið rétt eins og gert hefur verið undanfarin ár, einkum frá árinu 2018.
7. Fram fer umræða um samgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja
8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun sennilega létta á biðlistum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.
9. Lagt er til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í stað Kjartans Magnússonar. Jafnframt er lagt til að Vala Valtýsdóttir verði varaformaður stjórnarinnar.
Samþykkt.
10. Samþykkt að taka kosningu í borgarráð á dagskrá. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í borgarráði í stað Kjartans Magnússonar. Einnig lagt til að Kjartan taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Björns Gíslasonar.
Samþykkt.
11. Samþykkt að taka kosningu í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð á dagskrá. Lagt til að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti sem varamaður í stað Söndru Hlífar Ocares.
Samþykkt.
12. Samþykkt að taka kosningu í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð á dagskrá. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Friðjóns R. Friðjónssonar. Jafnframt er lagt til að Friðjón taki sæti varamanns í ráðinu í stað Mörtu Guðjónsdóttur.
Samþykkt.
13. Samþykkt að taka kosningu í skóla- og frístundaráð á dagskrá. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Birnu Hafstein.
Samþykkt
14. Samþykkt að taka kosningu í stafrænt ráð á dagskrá. Lagt til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í stafrænu ráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur.
Samþykkt.
15. Samþykkt að taka kosningu í umhverfis- og skipulagsráð á dagskrá. Lagt til að Unnur Þöll Benediktsdóttir taki sæti varamanns í umhverfis- og skipulagsráði í stað Gísla S. Brynjólfssonar.
Samþykkt.
16. Samþykkt að taka kosningu í velferðarráð á dagskrá. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í velferðarráði í stað Söndru Hlífar Ocares. Jafnframt er lagt til að Sandra taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Helga Áss Grétarssonar.
Samþykkt.
17. Samþykkt að taka kosningu í fjölmenningarráð á dagskrá. Lagt til að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti sem varamaður í fjölmenningarráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur.
Samþykkt.
18. Samþykkt að taka kosningu í heilbrigðisnefnd á dagskrá. Lagt er til að Birna Hafstein og Rannveig Ernudóttir taki sæti í heilbrigðisnefnd í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur og Guðnýjar Maju Riba. Jafnframt er lagt til að Róbert Aron Magnússon og Kristinn Jón Ólafsson taki sæti sem varafulltrúar í ráðinu í stað Birnu og Ólafar Helgu Jakobsdóttur.
Samþykkt
19. Samþykkt að taka kosningu í innkaupa- og framkvæmdaráð á dagskrá. Lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti sem varamaður í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur.
Samþykkt.
20. Samþykkt að taka kosningu í öldungaráð á dagskrá. Lagt til að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti í öldungaráði í stað Birnu Hafstein.
Samþykkt.
21. Samþykkt að taka kosningu í íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts á dagskrá. Lagt til að Þorkell Sigurlaugsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Árbæjar og Norðlingaholts í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur.
Samþykkt.
22. Samþykkt að taka kosningu í íbúaráð Miðborgar og Hlíða á dagskrá. Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í stað Þórðar Gunnarssonar. Jafnframt lagt til að Þórður Gunnarsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Söndru.
Samþykkt.
23. Samþykkt að taka kosningu í íbúaráð Vesturbæjar á dagskrá. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í íbúaráði Vesturbæjar í stað Ágústu Guðmundsdóttur. Jafnframt er lagt til að Ágústa taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Mörtu Guðjónsdóttur.
Samþykkt.
24. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og 12. janúar.
16. liður fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar; Brú lífeyrissjóður – endurgreiðsluhlutfall launagreiðenda á greiddum lífeyri er samþykktur
8. liður fundargerðar borgarráðs frá 12. janúar; UNGRÚV – samstarfs- og styrktarsamningur skóla- og frístundasviðs, er samþykktur með sautján atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðeisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun við 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar:
Það er ánægjulegt að RÚV sýni þessu verkefni áhuga og sinni þannig fræðsluhlutverki sínu. Rétt er að benda á að RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins. Hér hefði verið rétt að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér eða öðrum fjölmiðlum. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf. Ekki liggja fyrir skýrar talningar um áhorf á efnið sem framleitt hefur verið hingað til, það er á grundvelli fyrri samnings við RÚV sem nú stendur til að endurnýja.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 5. janúar:
Samþykkt var á fundi borgarráðs 5. janúar sl. að fela umhverfis- og skipulagssviði að fylgja eftir hönnun og framkvæmd vegna endurhönnunar og stækkunar á Grófarhúsi. Flokks fólksins telur að bíða eigi með Grófarhús á meðan svo illa árar í fjármálum borgarinnar. Huga þarf að forgangsröðun í þágu fólksins. Það vantar fjármagn til að sinna lögbundinni þjónustu. Borgin stendur á heljarþröm og er það ekki ofsögum sagt. Fresta ætti því áformaðri 3.050 milljóna króna fjárfestingu í Grófarhúsi til næstu fimm ára og að handbært fé verði hækkað sem því nemur næstu árin. Á sama tíma og samþykkt er að hefja kostnaðarsama framkvæmd á Grófarhúsi þá bíða um 2050 börn eftir faglegri þjónustu og mörg hundruð bíða eftir leikskólaplássi. Flokkur fólksins hefur margsinnis tjáð sig um að forgangsröðun meirihlutans sé hvorki rétt né raunsæ. Of mikil áhersla er lögð á flottar ytri ásýnd, glæstar byggingar og torg á meðan þjónusta er víða í lamasessi. Flokkur fólksins vill setja fólk og þarfir þess í fyrsta sæti. Annað verður að bíða þar til betur árar. Því miður hefur milljörðum verið eytt í hreina og klára vitleysu síðustu ár t.a.m. Í óskilgreind stafræn þróunar- og tilraunaverkefni. Skilvirkni í rekstri borgarinnar hefur fyrir löngu fengið falleinkunn.
25. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. desember, skóla- og frístundaráðs frá 19. desember, stafræns ráðs frá 14. desember og 11. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. janúar og velferðarráðs frá 15. og 21. desember. MSS23010061
4. liður fundargerðar forsætisnefndar, lausnarbeiðni Jórunnar Pálu Jónasdóttur er samþykktur.
6. liður fundargerðir forsætisnefndar, lausnarbeiðni Þórðar Gunnarssonar er samþykktur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið í fundargerð stafræns ráðs frá 11. janúar:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsingar um samstarf eða öllu heldur samstarfsleysi þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) við önnur sveitarfélög (SSH) og ríki. Í svari er aðdraganda að stofnun á rafrænni þjónustumiðstöð rakið. Flokkur fólksins er ekki að gagnrýna þá miðstöð. Rakin eru samskipti ÞON og SSH sem eru nokkur enda væri annað skrýtið. Flokkur fólksins hefur áður bókað um að ÞON hafnaði a.m.k. í tvígang að ganga inn í samninga ríkiskaupa og ákvað að vera ein á ferð. Það er mat Flokks fólksins að umrætt samstarf byggi ekki á raunverulegu samstarfi. Hafi verið um alvöru samstarf væri það búið að skila af sér sameiginlegum lausnum eða öðrum afurðum. Í svari sviðsins er oft talað um skilvirkni í stafrænni nálgun. Gagnrýni hefur einmitt beinst að skorti á skilvirkni og að verkefni séu illa skilgreind og tímagreind. Til sviðsins fóru 13 milljarðar á þremur árum og haldið var áfram að gefa í. Sum sveitarfélög eru komin lengra en Reykjavik og rafrænar lausnir umhverfis- og skipulagssviðs eru á byrjunarreit. Skortur er á samstarfi á rannsóknum sviðsins varðandi væntanlegan ábendingavef. Mögulega er slíkur ábendingavefur nú þegar til hjá ríki eða sveitarfélögum. Þarna er borgin ein á ferð þvert gegn meintum áhuga til hins gagnstæða.
25. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Óskað er eftir greinargerð um fjárhagsleg áhrif Sýnarsamningsins á fjárhag og skuldastöðu Ljósleiðarans, Orkuveitusamstæðunnar og samstæðu Reykjavíkurborgar. 2. Óskað er eftir því að fá yfirlit yfir stærstu viðskiptasamninga Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar undanfarin tíu ár og greiðslur samkvæmt þeim. Miðað verði við viðskiptasamninga og/eða greiðslur að fjárhæð yfir einum milljarði króna.
Fundi slitið kl. 18:46
Sabine Leskopf
Trausti B. Magnússon Aðalsteinn H. Sverrisson