Borgarstjórn - 17.11.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 17. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Laugalækjarskóla og hófst kl. 14.03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Eva Einarsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Marta Guðjónsdóttir og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Í upphafi fundar minntist borgarstjórn fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í París þann 13. nóvember sl. með einnar mínútu þögn. 

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn beinir því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að skoða hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili.

- Kl. 14.08 tekur Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum.

- Kl. 14.29 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur sæti.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Um leið og meirihlutinn í Reykjavík gerir ráð fyrir því að árið 2018 verði arðgreiðslur Orkuveitunnar til borgarsjóðs 1 milljarður er eðlilegt að borgarstjórn taki afstöðu til þess hvort íbúar fái einnig að njóta betri stöðu félagsins. Íbúar tóku á sig miklar hækkanir orkugjalda þegar illa áraði og því eðlilegt að einhugur væri um það í borgarstjórn að þeir fái einnig að njóta þegar vel gengur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja það óþarfa felueik að vísa tillögunni inn í borgarráð. Þar eigi færri lýðræðislega kjörnir fulltrúar aðkomu en í borgarstjórn. Eins eru borgarstjórnarfundir opnir almenningi og efni þeirra aðgengilegt, borgarráðsfundir eru hins vegar lokaður vettvangur þar sem fáir borgarfulltrúar eiga sæti og aðkoma almennings engin. Þá er óskýrt af hverju talið er að tillagan hafi erindi inn í borgarráð frekar en að beina einfaldlega skýrum skilaboðum frá borgarstjórn til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um að skoða hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld. Í tillögunni er þess einmitt gætt að svigrúm gefist til að safna, meta og greina nauðsynleg gögn til að byggja frekari ákvarðanir á. Sú vinna fer eðlilega fram innan Orkuveitunnar en ekki borgarráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Eðlilegt er að vísa tillögunni til borgarráðs þar sem hún er órökstudd með öllu og byggir hvorki á fjárhagslegri eða samfélagslegri greiningu. Þegar Planinu sleppir þarf ábyrga áætlun til framtíðar sem byggir á heildarsýn og vandaðri fjárhagslegri greiningu.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Orkuveita Reykjavíkur hækkaði verulega orkugjöld til heimilanna vegna slæmrar fjárhagsstöðu sinnar. Staða Orkuveitunnar hefur batnað verulega og því eðlilegt að sú hækkun sem varð verði látin ganga til baka.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að gripið verði til aðgerða í því skyni að tryggja börnum og ungmennum örugga göngu- og hjólaleið yfir Miklubraut á kaflanum milli Lönguhlíðar og Kringlumýrarbrautar. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að kanna tiltæka kosti varðandi uppsetningu göngubrúar á svæðinu og undirgöng hins vegar og meta æskilega staðsetningu slíkra mannvirkja með tilliti til gönguleiða og gönguflæðis barna og ungmenna yfir Miklubraut. Sviðinu er jafnframt falið að taka upp viðræður við Vegagerð ríkisins um þátttöku í verkefninu þar sem um er að ræða stofnbraut í þéttbýli.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.

4. Fram fer umræða um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. 

- Kl. 16.20 tekur Kristín Soffía Jónsdóttir sæti á fundinum og Magnús Már Guðmundsson víkur sæti.

- Kl. 16.36 víkur Kjartan Magnússon af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: Það er áhyggjuefni hvað uppbyggingin gengur hægar en borgarstjóri var áður búinn að spá og hvað illa hefur gengið að fylgja húsnæðisstefnu borgarinnar. Í mars 2014 spáði borgarstjóri, þá formaður borgarráðs, að byrjað yrði að byggja 950 íbúðir á árinu 2014 og í nóvember 2014 spáði hann því að byrjað yrði að byggja 1900 íbúðir á árinu 2015. Staðreyndin er sú að byrjað var að byggja 597 íbúðir á árinu 2014 og búið er að veita byggingarleyfi fyrir 891 íbúð núna á árinu 2015. Ef áætlanir borgarstjóra nú ganga upp verður byrjað að byggja um 5000 íbúðir næstu 5 árin. Verður spennandi að sjá hvort byggðar verða 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir á 5 árum en nú er liðið tæpt 1 og ½ ár síðan því var lofað. Hlutverk borgarinnar er að skipuleggja borgina svo hægt sé að byggja og úthluta lóðum. Flestar þær lóðir sem verið er að byggja á eru lóðir sem búnar eru að vera í höndum annarra aðila en borgarinnar lengi og ekki að sjá að þar verði til sölu ódýrar íbúðir eins og sjá má á fasteignaauglýsingum. Hægt væri að skipuleggja fjölbýlishúsalóðir t.d. á svæðinu milli Mímisbrunns og Bauhaus. Setja þarf í forgang að fjölga félagslegum leiguíbúðum, úthluta lóðum undir stúdentaíbúðir og úthluta lóðum til félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða til að byggja leigu- og búseturéttaríbúðir m.a. fyrir ungt fólk sem á ekki eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat, býr í foreldrahúsum eða ósamþykktu húsnæði eða leigir á almenna leigumarkaðnum langt umfram greiðslugetu.  

5. Fram fer umræða um loftslagsmál. 

6. Fram fer umræða um sorpflokkun í Reykjavík. 

7. Lagt er til að Diljá Ámundadóttir taki sæti Lífar Magneudóttur sem varamaður í ofbeldisvarnarnefnd og að Heiða Björg Hilmisdóttir verði kjörin formaður nefndarinnar.

Samþykkt. 

8. Lagt er til að Tómas Hrafn Sveinsson taki sæti Þóris Hrafns Gunnarssonar í barnaverndarnefnd. Jafnframt er lagt til að hann verði kjörinn formaður nefndarinnar.

Samþykkt. 

9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5., 11. og 12. nóvember.

8. liður fundargerðar borgarráðs frá 5. nóvember, breyting á deiliskipulagi reits 1.171.5 vegna lóðanna nr. 7 og 9 við Vegamótastíg, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

31. liður fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember, yfirlýsing höfuðborga Norðurlanda vegna loftslagsbreytinga, kemur ekki til atkvæðagreiðslu. 

10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. nóvember, mannréttindaráðs frá 10. nóvember, menningar- og ferðamálaráðs frá 9. nóvember, skóla- og frístundaráðs frá 11. nóvember, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 2. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. og 11. nóvember og velferðarráðs frá 5. nóvember

Fundi slitið kl. 19.11

Sóley Tómasdóttir

Júlíus Vífill Ingvarsson Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.11.2015 - prentvæn útgáfa