Borgarstjórn - 16.6.2020

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 16. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra Þorsteins Gunnarssonar, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Alexandra Briem, Líf Magneudóttir, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Sabine Leskopf, Dóra Magnúsdóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga að umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023, sbr. 2. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 10. júní. R20060164

Samþykkt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Umferðaröryggisáætlun 2019-2023 er mikilvægur áfangi. Stefnt er á að Reykjavíkurborg taki upp núllsýn í umferðaröryggismálum, þ.e. þá langtímasýn að enginn hljóti varanlegt heilsutjón sökum umferðarslysa. Sett eru markmið um fækkun slysa, stöðu innviða og hegðun vegfarenda, þ.m.t. hlutfall þeirra sem nýta sér virka ferðamáta. Í framhaldinu verður ráðist í aðgerðir í hverfum t.d. með það að markmiði að lækka umferðarhraða í íbúðahverfum. Nauðsynlegt er að fylgjast áfram með þróun mála, t.d. aukinni notkun smærri raftækja og styðja við þá þróun með bættum innviðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er jákvætt skref að nú sé samþykkt umferðaröryggisáætlun fyrir Reykjavík. Rétt er að benda á að ekki hefur verið í gildi umferðaröryggisáætlun frá árinu 2014. Fjölmörg sveitarfélög eru með nýlega umferðaröryggisáætlun. Sem dæmi má nefna er Skútustaðarhreppur með faglega unna umferðaröryggisáætlun sem tók gildi 2019 og gildir til 2022. Ljóst er að margt þarf að bæta í samgöngumálum í Reykjavík hvað varðar öryggi, merkingar, ljósastýringar og mannvirki. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Víða í borginni er umferðaröryggi ábótavant og aðstæður hættulegar. Strætisvagnar stoppa á miðri götu til að hleypa farþegum í og úr og dæmi eru um að strætisvagnar stoppa á miðju hringtorgi. Nýlega var grjóti sturtað á miðjan Eiðsgranda sem getur skapað stórhættu. Í borginni eiga ekki að vera neinar dauðagildrur. Fjölgun þeirra sem fer um hjólandi má fagna en meira þarf að gera til að hvetja þá sem fara um á bílum að fjárfesta í rafmagns eða metan bílum, gefið að öllu metani sé þ.e. ekki sóað. Í nýjum vistvænum bílum eru öflugir varúðarskynjarar sem geta dregið úr slysahættu. Ljósamálin eru enn í ólestri. Á 100 stöðum í borginni eru úrelt ljós. Sömuleiðis ætti að byggja göngubrýr alls staðar þar sem það er hægt. Flest slysin verða þegar götur eru þveraðar og þá lang oftast þegar hjólreiðamenn hjóla yfir götu/gangbraut. Segir í skýrslunni að taka þarf tillit til sérþarfa, s.s þeirra sem glíma við líkamlega fötlun. Nú reynir meirihlutinn að fá lagaheimildinni breytt til að hindra að handhafar stæðiskorta geti ekið göngugötur. Þeim er þess í stað ætlað að leggja í hliðargötum þar sem þeirra er víða hætta búin vegna halla og þrengsla.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að fela borgarstjóra og umhverfis- og skipulagssviði að hafa forgöngu um viðræður við stærstu vinnustaði borgarinnar um sveigjanlegan vinnutíma og sveigjanlegra vinnuumhverfi. Borgin gangi fram með góðu fordæmi og tryggi sveigjanleika á eigin starfsstöðvum, svo sem á ólíkum fagsviðum, innan dótturfyrirtækja og hjá stofnunum Reykjavíkurborgar. Sérstök áhersla verði lögð á viðræður við stærstu vinnustaði borgarinnar, svo sem LSH, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Þannig verði ræddir möguleikar á sveigjanlegum opnunartímum og auknum möguleikum á fjarnámi og fjarvinnu. Sveigjanleikinn er hvoru tveggja, hagkvæmasta og skjótvirkasta leiðin svo draga megi úr umferðarálagi í Reykjavík. Niðurstöður viðræðna liggi fyrir eigi síðar en 1. september 2020.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20060166

Vísað til meðferðar borgarráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Nú er lag að hefja viðræður við stærstu vinnustaði borgarinnar um sveigjanlegri vinnutíma og sveigjanlegra vinnuumhverfi. Síðustu mánuðir hafa sýnt að sveigjanleikinn getur aukið lífsgæði og létt á umferðarálagi. Sveigjanleikinn er jafnframt hvoru tveggja hagkvæmasta og skjótvirkasta leiðin svo draga megi úr umferðarálagi í Reykjavík. Rétt er að höfuðborgin taki forystu, innleiði sveigjanlegra vinnuumhverfi á sínum starfsstöðvum og leiði jafnframt viðræður við stærstu vinnustaði borgarinnar um hið sama. Stórfyrirtæki á borð við Íslandsbanka og Orkuveituna hafa brugðist hratt við breyttu umhverfi og bjóða starfsfólki nú vikulega fjarvinnudaga. Þannig telja fyrirtækin sig tryggja meiri starsfánægju, aukin afköst og minna kolefnisspor. Viðbrögðin eru til fyrirmyndar og verða vonandi öðrum aðilum á vinnumarkaði til eftirbreytni. Nú eru fullkomin skilyrði í íslensku samfélagi til að stokka spilin, endurskoða kerfin og tryggja sveigjanlegt borgarumhverfi sem stuðlað getur að hvoru tveggja, auknum lífsgæðum og framförum í Reykjavík.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan snertir á mikilvægu verkefni sem er að nýta lærdóminn af COVID-19 faraldrinum til að auka sveigjanleika í vinnuaðstæðum almennings, t.d með aukinni fjarvinnu, fjarkennslu og fjarnámi. Samtíminn kallar á kjark og þor til að taka róttækar ákvarðanir til að breyta því sem við höfum búið við í mannsaldur, ekki síst um ofurvægi einkabílsins í borgarsamfélaginu með þeim afleiðingum, mengun, aukna losun gróðurhúsalofttegunda, fjölgun banaslysa og alvarlegra slysa sem raun ber vitni. Breyttar ferðavenjur, uppbygging Borgarlínu og annarra vistvænna samgöngumáta, fjölbreytt framboð hagkvæms húsnæðis miðsvæðis í borginni eru hluti af framtíðarsýn meirihlutans en jafnframt stytting vinnuviku í góðu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir innan borgarkerfis sem utan. Aukinn sveigjanleiki í vinnuumhverfi fólks er markmið sem fellur vel að stefnu meirihlutans og verðskuldar vandaða skoðun í borgarráði. Þar skiptir þó máli að horfa á málið út frá jafnréttissjónarmiðum því sveigjanleiki má ekki einskorðast við tiltekna hópa.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu sem þessa 2. maí 2019 í borgarráði. Tillögunni var vísað frá á sama fundi og hún var lögð fram. Meirihlutinn í borgarráði rökstuddi ekki frávísunina þótt borgarfulltrúi Flokks fólksins hafi óskað eftir því. Í raun er þetta svo sjálfsagt mál og eitthvað sem er einfalt fyrir borgina að huga að og taka frumkvæði í. Meirihlutinn getur hvatt stofnanir að huga að sveigjanleika sem þessum og einnig gert breytingar í þeim stofnunum sem tilheyra borgarkerfinu. Kjarninn í málinu er sá að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir að vinnutími þeirra sem starfa í miðborginni verði enn breytilegri en nú er í þeim tilgangi að lækka umferðartoppa í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis. Einnig má huga að því að dreifa stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar víðar um borgina sem myndi draga enn meira úr umferðarálaginu.

3.    Fram fer umræða um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. R20010035

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Landsmenn allir verða að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll því ekki gerir meirihlutinn í Reykjavík það, hvað þá borgarstjóri. Engu skipta rúmar 70.000 undirskriftir sem Hjartað í Vatnsmýrinni safnaði til stuðnings flugvallarins. Ekki hefur verið fundað með Flugfélaginu Erni sem fékk þá íþyngjandi tilkynningu að leggja ætti veg í gegnum flugskýli félagsins þar sem rekin er viðgerðarþjónusta. Í fundargerð sem rituð var 30. apríl 2020 á fundi lögfræðinga á skrifstofu borgarstjóra og forstjóra flugfélagsins kom fram að rífa ætti flugskýlið bótalaust og allar aðrar leiðir hafi verið kannaðar. Enda kemur fram í frétt á vísi.is þann 3. júní að skýli 6 er horfið á skipulagsmyndum sem fylgja fréttinni. Borist hafa alvarlegar athugasemdir frá Landhelgisgæslunni og hefur Isavia óskað eftir áliti frá Hollensku geimferðastofnunni hvað snýr að vindmælingum vegna nýrrar byggðar í Skerjafirði. Samningurinn frá 2013 er véfengdur með hugsanlegri bótaskyldu Reykjavíkur. Allt kemur fyrir ekki. Meirihlutinn tuddast áfram með málið og hlustar ekki á rök eða gætir að öryggissjónarmiðum. Nú verður ríkið að grípa inn í atburðarrásina og stöðva þessa gerræðislegu aðför að flugvellinum í Vatnsmýrinni. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrir liggur samkomulag milli ríkis og borgar um næstu skref í málinu. Þau eru að ríki og borg hefji samstarf um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Markmið rannsóknanna er að fullkanna kosti þess að reisa og reka þar flugvöll til að gegna hlutverki varaflugvallar, innanlandsflugvallar og flugvallar fyrir æfinga-, kennslu- og einkaflug. Um leið er athygli borgarfulltrúa vakin á nýlegu nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sem fram kemur eftirfarandi: „Nefndin telur brýnt að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar á meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þ.m.t. eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja. Þetta kemur fram í samkomulagi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóra um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni sem undirritað var 28. nóvember 2019“. Málið er því í skýru ferli en mikilvægt er að kjörnir fulltrúar gefi sér tíma til að kynna sér og ræða þær ákvarðanir sem hafa verið teknar um Reykjavíkurflugvöll.

-    Kl. 16.15 tekur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sæti á fundinum og Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill borgarstjóra, víkur af fundi.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að Reykjavíkurborg feli mannauðs- og starfsumhverfissviði að stofna til samtals við háskólasamfélagið um að vinna sameiginlega að því að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík. Markmiðið verði annarsvegar að leitast við að draga upp mynd af fjölda þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins í Reykjavík og innan hvaða geira þau starfi. Hinsvegar verði leitast við að fá innsýn í stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins út frá atvinnuöryggi, tekjuöryggi og starfsánægju. Þá er einnig lagt til að Reykjavíkurborg sem vinnuveitandi, kanni hversu margir starfi hjá borginni sjálfri í verkefnum sem teljast innan harkhagkerfisins sem hefur einnig verið nefnt „gigg“-hagkerfið. Reykjavíkurborg kanni þar einnig hversu margir hafi starfað það sem af er ári og við hvaða verkefni, þar sem spurningar um atvinnu- og tekjuöryggi og starfsánægju verði einnig hafðar að leiðarljósi. Markmiðið með þessu er að draga upp mynd af víðfemi harkhagkerfisins innan Reykjavíkur og leggja fram tillögur til úrbóta varðandi atvinnuumhverfið þar sem þörf þykir á. Harkhagkerfið einkennist af því að fólk tekur að sér stök verkefni í stað þess að vera fastráðið. Slíkt getur haft í för með sér ótryggar aðstæður fyrir marga sem starfa innan harkhagkerfisins. Það er mikilvægt að fá þessar raddir fram við framtíðarstefnumótun, þar sem gildandi atvinnustefna Reykjavíkurborgar er frá árinu 2012 og tekur ekki á þessum þáttum. Ef áhugi er fyrir hendi innan háskólasamfélagsins til að fara í þessa samvinnu er lagt til að mannauðs- og starfsumhverfissvið komi með hugmyndir að samstarfi inn á borð borgarinnar, þær verði kostnaðarmetnar og loks framkvæmdar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20060168

Vísað til meðferðar borgarráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Atvinnulíf í Reykjavík er afar fjölbreytt. Fjölbreytnin er einnig mikil meðal þeirra sem eru sjálfstætt starfandi eða í örfyrirtækjum. Mikilvægt er að sá hópur geti nýtt sér þau margvíslegu tækifæri sem finnast í borginni. Tillögunni er vísað til borgarráðs til að skoða hvernig atvinnustefna borgarinnar getur tekist á við þessar áskoranir og hvernig þær margvíslegu aðgerðir sem borgin hefur nú þegar gripið til nýtist þessum hópi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er vel þess virði að eiga það samtal sem hér er lagt til að eigi sér stað milli mannauðssviðs og háskólasamfélagsins um að vinna sameiginlega að því að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík. Stór hópur fólks vinnur við ýmis störf í lausamennsku eða er með viðkvæman rekstur, svo sem listamenn, hönnuðir, fólk í nýsköpun, iðnaði, garðyrkju og vísinda- og fræðimenn. Allir þessi hópar eru nauðsynlegir samfélaginu og gefa lífinu lit og tilgang. Hér eru einstaklingar sem hafa margir hverjir lifað í töluverðri óvissu, taka áhættu um afkomu sína, en gera það vegna menntunar sinnar, löngunar að gefa af sér og ástríðu við þau viðfangsefni sem þau taka sér fyrir hendur eða eru ráðin í. Þessu fólki má ekki gleyma þegar illa árar, að því þarf að hlúa. Fyrsta skrefið er sannarlega að skoða málið, hvernig launafólk, lausráðið fólk (e. freelancers), einyrkjar og aðrir meta starfsaðstæður sínar með tilliti til aðbúnaðar, ánægju og tekjuöryggis og kortleggja hvernig fólk meti starfsframlag sitt til samfélagsins, hvernig aðrir meta það og hvernig það telur starfsöryggi sitt vera.

-    Kl. 17.05 víkur Katrín Atladóttir af fundi og Inga María Hlíðar Thorsteinsson tekur þar sæti.

5.    Fram fer umræða um bílastæðahús á vegum Reykjavíkurborgar. R20060163

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Vill borgarmeirihlutinn fækka bílum á götum eða ekki? Ef svarið er já, af hverju er þá ekkert gert í því sambandi. Af hverju eru bílastæðahús borgarinnar mörg hver hálftóm? Gjalds í bílastæðahúsum er krafist allan opnunartímann en gjald í bílastæðum á götum fylgir nokkurn vegin opnunartíma verslana. Bílastæðahús taka heldur ekki við greiðslum frá snjallkerfum. Bílastæðahús eru lokuð að nóttu, en bílastæði á götum eru alltaf tiltæk. Næturlokun veldur því að sækja þarf bílinn fyrir kl. 24:00 ella bíða til morguns. Sum bílastæðahús eru auk þess illa lýst og kuldaleg. Vísbendingar eru um að fólk sem komið er á og yfir ákveðinn aldur noti ekki bílastæðahús. Þau treysta sér ekki til að eiga við miðakerfi greiðsluvélanna. Bráðaþjónustu er ábótavant lendi fólk í vandræðum. Borgin hefur byggt bílastæðahús væntanlega með það að markmiði að þau verði nýtt sem best. Tillögur Flokks fólksins um betrumbætur hafa farið forgörðum með þeim rökum að tap Bílastæðasjóðs yrði svo mikið. Ef notkun bílastæðahúsa er eins lítil og raun ber vitni þá ætti það ekki að valda miklum kostnaði þótt þau (eitt eða fleiri) verði gjaldfrjáls á nóttunni. Á meðan hagkvæmara er að leggja bílnum úti en inni, leggja að sjálfsögðu fleiri úti en inni.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar á og rekur sjö bílastæðahús í borginni. Það eru biðlistar eftir langtímakortum í öllum húsum nema Stjörnuporti og skammtímanotkun mjög góð í öllum húsunum nema Stjörnuporti og Vitatorgi. Skammtímanotkun í þeim húsum hefur þó batnað. Töluvert ódýrara er að leggja bílum inni í húsum heldur en í götustæði og þrátt fyrir að tekið sé gjald allan sólarhringinn í húsunum kostar sólarhringurinn í Stjörnuporti og Vitatorgi 2.450 kr en 3000 kr í hinum húsunum. Til samanburðar kostar klst í götustæði í miðborginni 370 kr og sólarhringurinn því á 3.330 kr. Nýr búnaður sem er mun notendavænni hefur verið boðinn út og kemst í gagnið í haust. Búnaðurinn styðst við snjalllausnir og eftir uppsetningu mun vera hægt að sækja bíla úr húsunum allan sólarhringinn. Öryggismiðstöðin sinnir vöktun í húsunum allan sólarhringinn, lýsing og útlit hefur verið stórbætt auk þess hefur verið komið fyrir hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Rauntímaupplýsingar um notkun eru birtar á skiltum í miðborginni en einnig á vef bílastæðasjóðs og er nýtingin í bílastæðahúsunum þegar þessi bókun er skrifuð 75-100% í nær öllum húsum Bílastæðasjóðs.

-    Kl. 17.20 tekur Björn Gíslason sæti á fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir víkur af fundi.

-    Kl. 17.30 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur sæti að nýju.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að áformum um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði verði frestað á meðan rannsóknir fara fram. Fram kemur í nýlegu samkomulagi ríkis og borgar að miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er fullbúinn til notkunar. Samkvæmt samningi ríkis og borgar þarf að fara í aðalskipulagsbreytingu en sú vinna er eftir. Þá liggur einnig fyrir að fara á í gerð hverfisskipulags árið 2022 fyrir Vesturbæinn sem kallar á mikið samráð við íbúa varðandi skipulag hverfisins. Fyrir liggur að fara þarf fram umhverfismat á svæðinu sem gæti haft áhrif á skipulagsferlið en því er enn ólokið. Þá hafa enn ekki farið fram fullnægjandi rannsóknir á þeim veðurfarslegu áhrifum sem fyrirhuguð byggð hefði í för með sér og gæti hugsanlega haft áhrif á flugskilyrði og flugöryggi. Með alla ofangreinda þætti í huga er eðlilegt og skynsamlegt að fresta uppbyggingaráformum á svæðinu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20060169

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins auk borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er með ólíkindum að búið sé að gefa út lóðarvilyrði og úthluta lóðum á svæðinu án þess að deiliskipulagi sé lokið og boðaðar rannsóknir hafi farið fram. Íbúar í Skerjafirði hafa margítrekað mótmælt fyrirhugaðri byggð og bent á að hún sé ekki í samræmi við þá byggðaþróun sem fyrir er í hverfinu og aðeins sé ein umferðartenging við hverfið. Verði þetta deiliskipulag að veruleika mun Skerjafjörðurinn verða stærsta botnlangabyggð landsins. Þá hefur umhverfismat vegna landfyllingar og olíumengaðs jarðvegs á svæðinu ekki farið fram. Loks hefur Isavia gengið frá samningi við Hollensku loft- og geimferðastofnunina um að gera úttekt á áhrifum fyrirhugaðrar byggðar í Skerjafirði á flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli. Niðurstöður liggja ekki fyrir. Frestun væri því eðlileg.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Áform um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði er mikilvægur hluti af húsnæðisstefnu borgarinnar og svarar kalli ungs fólks eftir hagkvæmu húsnæði á besta stað í borginni. Nærþjónusta verður aukin til muna fyrir alla íbúa hverfisins, nýja og gamla með uppbyggingu leikskóla og grunnskóla þar sem reiknað er með lágvöruverðsverslun fyrir íbúa hverfisins. Næstu skref í Skerjafirði er að auglýsa deiliskipulagið fyrir hið nýja hverfi en þar gefst tækifæri til að gera athugasemdir. Framundan er uppbygging í 102 Skerjafirði sem er í samræmi við marksamning borgarinnar og ríkisins um lokun þriðju brautarinnar en um 60% uppbyggingarsvæðisins fellur undir þann samning.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Það eru mörg í borginni í þörf fyrir húsnæði og nauðsynlegt að flýta uppbyggingu þar sem það er hægt. Sósíalistar leggja áherslu á félagslega uppbyggingu og að byggt sé fyrir þau sem eru í þörf fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði. Í framtíðarskrefum er mikilvægt að taka tillit til allra umhverfislegra þátta sem þarf að taka tillit til. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

19. ágúst 2016. Kaupsamningur og afsal landsvæðis í Skerjafirði kynnt í borgarráði. Þar kemur fram að ríkissjóður seldi Reykjavíkurborg 108 þúsund fermetra landsvæði sem var undir braut 06/24. Kaupverð var 440 milljónir króna en viðbótargreiðslur áttu að koma til þegar lóðir yrðu seldar. Er Reykjavíkurborg búin að greiða þessar greiðslur og eru hafnar viðræður við ríkið hvað snýr að sölu lóða sem eiga að koma til viðbótar í ríkissjóð? Í svari fjármálaráðherra á Alþingi í sl. viku kom fram að hann vissi ekki til þess að viðræður væru í gangi. Hér er því um algjöran einleik að ræða hjá borgarstjóra og meirihlutanum. Sama uppskrift er notuð með Keldnalandið og Gufunesið. Bið ég ríkisstjórnina og fjárlaganefnd Alþingis að vara sig á fagurgala og svikum borgarstjóra. Undirskrift borgarstjóra og meirihlutans eru ekki pappírsins virði. Það sést best á fyrirspurn og svari sem dreift var á Alþingi þann 24. maí 2017 og hefur titilinn: „Tímalína um lokun brautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli“ sem finna má á þessari vefslóð: https://www.althingi.is/media/stjornskipunar-og-eftirlitsnefnd/Timalina…. Í þessu minnisblaði birtist einbeittur illvilji, hótanir og forherðing á því að koma flugvellinum í burtu. Fyrst var það Hlíðarendasvæðið sem var tekið frá fyrir fjármagnsöflin og nú er það Skerjafjörðurinn. Ríkið er að verða eins og hjáleiga hjá Reykjavíkurborg.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flugvöllurinn verður á þessum stað næstu 15 árin samkvæmt borgarstjóra. Flokkur fólksins telur að fresta eigi byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer, fari hann þ.e.a.s. Fari flugvöllurinn opnast ólíkir möguleikar á byggðaþróun t.d. er þá hægt að hanna byggingar án takmarkana á hæð. Nú er verið að byggja í sérhverjum útnára flugvallarins. Fari flugvöllurinn verður annað umhverfi í boði og lítil ef nokkur þörf á landfyllingum. Í drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um skipulag byggðar í Skerjafirði kemur fram að umfang landfyllinga verður minnkað frá fyrri áætlun. En samt þarf landfyllingar fyrir annan áfanga uppbyggingar á svæðinu. Eyðilegging fjöru með landfyllingum er skerðing á náttúrulegu útivistarsvæði. Fá náttúruleg svæði má nýta árið um kring, en fjörur má alltaf nýta. Náttúrulegar fjörur við Reykjavík eru að verða af skornum skammti. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur er brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án framkvæmda. Flokkur fólksins hefur verið með fyrirspurnir í málinu í skipulags- og samgönguráði sem var vísað frá með þeim rökum að spurt sé um pólitíska afstöðu kjörinna fulltrúa. Svo er auðvitað ekki. Skipulagsyfirvöld vilja einfaldlega ekki svara. Umhverfi flugvallarins er fyrst og fremst skipulagsmál en umræðan er vissulega á pólitískum vettvangi.

-    Kl. 18.40 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Hreindís Ylva Garðarsdóttir Hólm tekur þar sæti.

-    Kl. 18.55 víkur Sigurborg Ósk Haraldsdóttir af fundinum og Rannveig Ernudóttir tekur þar sæti.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg verði leiðandi þátttakandi í undirbúningi að stofnun nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs í umhverfis- og úrgangsstjórnunarmálum. Reykjavíkurborg myndi hafa frumkvæði að því að leiða saman þær fjölmörgu stofnanir, samtök, hagsmuna- og áhugahópa sem með úrgangs- og umhverfismál fara og láta sig varða. Sömuleiðis yrði einstaklingum og einkafyrirtækjum boðið að taka þátt í verkefninu og undirbúningi þess. Borgarstjórn samþykkir að skipa stýrihóp sem verði falið að undirbúa verkefnið og kalla eftir aðkomu hlutaðeigandi aðila sem áhuga hafa á að koma að málinu. Á sama tíma myndi Reykjavíkurborg hefja leit að hentugu húsnæði fyrir klasasamstarf af þessum toga, með það fyrir augum að leggja til verkefnisins.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20060171

Samþykkt að vísa tillögunni til skoðunar við innleiðingu Græna plansins. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Með samþykkt tillögunnar hefði verið stigið áhrifaríkt og mikilvægt skref í úrgangsmálum borgarinnar og í raun landsins alls. Mikil og vaxandi eftirspurn er eftir lausnum í málaflokknum, sérstaklega framsæknum nýjungum. Áríðandi er að leiða saman þann fjölbreytta hóp aðila sem áhuga hafa á og hagsmuni af málinu. Reykjavíkurborg gæti leikið stórt hlutverk í þeirri vegferð. Með málsmeðarferðartillögu meirihlutans að vísa málinu áfram til borgarráðs er verið að taka óþarfa hliðarskref, sem vonandi verður þó ekki til þess að tefja fyrir framgangi þess. Betur hefði farið að samþykkja tillöguna eins og hún lá fyrir borgarstjórn. Málið er áríðandi.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Frábær hugmynd – nú á að drepa hana inn í þeim fáráleika sem heitir „Græna planið“ sem borgarfulltrúi Miðflokksins kallar neyðarplanið eða skuldaplanið. En auðvitað treystir meirihlutinn sér ekki til að samþykka hana með SORPU bs. standandi í 6 milljörðum. Kynnti tillöguflytjandi einfalda og auðvelda lausn að vandamálum SORPU með vísan í sænskar aðferðir. Yrði þessi einfalda tillaga að sortera lífrænan úrgang ákveðin þá væru moltuvandræði fyrirtækisins úr sögunni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er fylgjandi nýsköpun og vill styðja alla þá sem hana stunda. Umfang sem hér er boðað virkar all nokkuð og verður kannski varla alveg án útgjalda enda þótt stefnt sé að því að svo verði. Samkvæmt tillögunni á að hafa samstarf við fjölda aðila. Mikilvægt er að hér sé aðeins verið að tala um að bjóða upp á vettvang enda vill engin stækka báknið sem er nóg fyrir.

-    Kl. 19.25 víkur Skúli Helgason af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannesdóttir tekur þar sæti.

8.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að borgarlínuverkefninu verði frestað um óákveðinn tíma. Þess í stað verði lögð áhersla á að fjármagni, sem annars yrði varið í það verkefni, verði ráðstafað í lagningu Sundabrautar með nýju samkomulagi á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20060172

Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki þýðir að stilla upp framkvæmdum við hágæða almenningssamgangnakerfi sem gagnast stórum hluta fólks sem býr á höfuðborgarsvæðinu saman við framkvæmd um vegtengingu sem tengir saman Sundahöfn, Grafarvog og Kjalarnes. Framkvæmdirnar eru gerólíkar í eðli sínu og hafa mjög ólík áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Í gildi er samkomulag milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um uppbyggingu Borgarlínu og fjármögnun hennar. Þar kemur fram að heildarkerfi Borgarlínu er áætlað að kosti 49,6 milljarða. Hinsvegar gerði síðasti starfshópur um Sundabraut tillögu um að kostnaður við Sundabraut gæti numið 70 milljörðum. Fyrsti áfangi Borgarlínu er að fara af stað enda nauðsynlegur til að bregðast við fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Sundabraut mun lítið gera til að styðja við þá fólksfjölgun né heldur að breyta ferðavenjum, minnka losun gróðurhúsalofttegunda, bæta loftgæði eða styðja við sjálfbæra byggðarþróun. Það er því ekki með nokkru móti réttlætanlegt að fresta þeirri samgöngubyltingu sem Borgarlína er fyrir Sundabraut. Sundabraut er nú þegar í Aðalskipulagi Reykjavíkur og bíður ákvörðunar Alþingis um hvenær og hvernig hún verður fjármögnuð.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Nauðsynlegt er að flýta undirbúningi og lagningu Sundabrautar og hún verði í forgangi meðal samgönguverkefna á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að kannaðir verði kostir þess að framkvæmdin fari í einkaframtak og auglýst verði eftir áhugasömum samstarfsaðilum þegar útfærsla Sundabrautar liggur fyrir í haust. Með þeim hætti er engin þörf á beinni aðkomu borgarinnar að fjármögnun Sundabrautar. Fjármögnun Borgarlínu er óljós og allar áætlanir mjög á reiki. Veggjöld eru ekki í pípunum og sala bankanna komin á ís. Það er því óljóst hver aðkoma ríkisins verður að þessu verkefni. Hjáseta okkar við þessa tillögu felur ekki í sér stuðning við Borgarlínuverkefnið eins og það er lagt upp af borgaryfirvöldum.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Stjórnmálamenn verða að kunna að lesa í aðstæður. Fjármálaráðuneytið áætlar að halli á ríkissjóði verði tæplega 500 milljarðar í ár og á næsta ári. Þessi uppsafnaði halli samsvarar 5,35 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ég hef nú þegar lagt fyrirspurn inn hjá borginni hverjar skuldir fjögurra manna fjölskyldu í Reykjavík eru, til samanburðar við ríkið. A-hluti Reykjavíkur ber 116 milljarða skuldir miðað við nýjustu upplýsingar, og það fyrir COVID-19 aðgerðir borgarinnar, og samstæðan öll ber 340 milljarða skuldir. Samgöngusáttmáli ríkissins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var undirritaður fyrir nokkrum misserum. Fjármögnunin var skýr frá hlið ríkissins og skilyrt. Enda kom það skýrt fram í ræðu fjármálaráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi að framtíð sáttmálans yrði ákvörðuð á Alþingi. Það ber merki um dómgreindarbrest hjá borgarstjóra að ætla sér að keyra borgarlínuverkefnið af stað og áfram þegar ekki er búið að samþykkja frumvarp til laga um að stofnun opinbers hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, og það á lántökum. Það væri farsælt að Alþingi myndi ekki samþykkja frumvarpið fyrr en í fyrsta lagi við gerð fjárlaga næstkomandi haust/vetur. Þá verður tjónið sem ríki og borg hafa þurft að bera vegna COVID-19 skýrara.

9.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að láta gera jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðum á vegum Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að athuga hvort börn njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Skólinn, frístundaheimilin og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða upp á fjölbreytt starf þar á meðal að bjóða börnunum upp á að taka þátt í afþreyingu utan húss, heimsækja staði og fara í styttri ferðir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði með kerfisbundnum hætti hvort börnin eru að fá sömu tækifæri til þátttöku án tillits til efnahags foreldra. Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin í fjölskyldunni. Fjölskyldur sem hafa lítið milli handanna og eru jafnvel undir fátæktarviðmiði geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun í garð barna á grundvelli efnahags foreldra þeirra samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í aðalnámskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Þegar kemur að skólanum, skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar eiga öll börn að sitja við sama borð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20060173

Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins auk borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Lögð hefur verið fram tillaga um að gerð verði jafnréttisskimum í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum til að athuga jafnrétti til þátttöku í verkefnum og viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillögunni hefur verið vísað frá. Enn og aftur er þessi meirihluti í borgarstjórn ekki í takt við sjálfan sig. Hann setur fram „fína“ mannréttinda- og jafnréttisstefnu sem hann síðan virðir að vettugi. Viðurkennt er að þetta sé með ýmsum hætti sem þó er ekki alveg vitað. Flokkur fólksins vill að þessar upplýsingar liggi skýrt fyrir svo hægt sé að finna leiðir til að engu barni verði mismunað vegna efnahagsþrenginga foreldra né að nokkru öðru leyti að sjálfsögðu. Nú er verið að að reyna að leysa einstaka mál sem upp koma. Í sumum skólum eiga foreldrar að greiða sem dæmi gistingu, sé verið að fara í ferðalag og fleira í þeim dúr og þurfa þá að leita náðar hjá skólanum. Hvernig skyldi þeim foreldrum og þeim börnum líða? Það segir í mannréttindastefnu meirihlutans, sem hann sjálfur hundsar, að börn eigi að njóta jafnréttis.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Greiningar liggja nú þegar fyrir inn á skóla- og frístundasviði um heildarkostnað við ýmiskonar viðburði innan skólanna í borginni. Fyrirkomulag slíkra ferða er með ýmsum hætti. Til dæmis greiðir skólinn í nær öllum tilfellum stóran hluta kostnaðar ýmissa viðburða þótt fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Í vissum tilfellum er um samstarf foreldra, nemenda og skóla, með fjáröflunum ef um er að ræða ferðalög með gistingu. Þá er rétt að taka fram að innheimta skal gjöld af foreldrum vegna gistiferða samkvæmt leiðbeiningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ef upp koma einstök tilfelli þar sem fjárhagur foreldra er hamlandi þáttur, þá er alltaf leitast við að leysa málin farsællega.

10.    Fram fer kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og fjögurra varaforseta: R18060080

Forseti er kosinn Pawel Bartoszek með 22 atkvæðum. 

Kjör varaforseta fer fram með hlutfallskosningu sbr. ákvæði 4. mgr. 7. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

1. varaforseti er kosin Sabine Leskopf

2. varaforseti er kosinn Eyþór Laxdal Arnalds

3. varaforseti er kosin Kristín Soffía Jónsdóttir

4. varaforseti er kosin Marta Guðjónsdóttir

11.    Fram fer kosning tveggja skrifara borgarstjórnar til eins árs og tveggja til vara. R18060080

Fallið var frá hlutfallskosningu sbr. ákvæði 5. mgr. 7. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar og kosin voru án atkvæðagreiðslu:

Hjálmar Sveinsson og Örn Þórðarson. 

Varaskrifarar voru kosin með sama hætti Skúli Helgason og Egill Þór Jónsson.

12.    Fram fer kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara. Lagt er til að eftirtaldir borgarfulltrúar taki sæti í borgarráði:

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Líf Magneudóttir

Eyþór Laxdal Arnalds

Hildur Björnsdóttir

Valgerður Sigurðardóttir

Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn:

Pawel Bartoszek

Elín Oddný Sigurðardóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Skúli Helgason

Marta Guðjónsdóttir

Egill Þór Jónsson

Katrín Atladóttir

Jafnframt er lagt til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði formaður ráðsins. R18060082

Samþykkt.

13.    Fram fer kosning varamanna í forsætisnefnd. Lagt er til að eftirtaldir borgarfulltrúar taki sæti sem varamenn í forsætisnefnd:

Diljá Ámundadóttir Zoëga

Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

Alexandra Briem

Valgerður Sigurðardóttir R18060080

Samþykkt.

14.    Lagt til að Örn Þórðarson taki sæti í skóla og frístundaráði í stað Egils Þórs Jónssonar. Jafnframt er lagt til að Egill taki sæti sem varamaður í stað Arnar. R18060087

Samþykkt.

15.    Lagt til að Egill Þór Jónsson taki sæti í velferðarráði í stað Arnar Þórðarsonar. Jafnframt er lagt til að Örn taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Egils. R18060089

Samþykkt.

16.    Lagt til að Diljá Mist Einarsdóttir taki sæti í endurskoðunarnefnd. Jafnframt er lagt til að kjöri varamanns verði frestað. R18060102

Samþykkt.

17.    Lagt er til að Kristín Soffía Jónsdóttir, Þórdís Lóa Þorhallsdóttir, Skúli Þór Helgason, Marta Guðjónsdóttir, og Örn Þórðarson taki sæti í stjórn Faxaflóahafna sf. til eins árs og Sabine Leskopf, Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Hildur Björnsdóttir taki sæti til vara. 

Jafnframt er lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir verði formaður stjórnarinnar. R18060108

Samþykkt.

18.    Lagt er til að Brynhildur Davíðsdóttir, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Gylfi Magnússon, Eyþór Laxdal Arnalds og Hildur Björnsdóttir taki sæti í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur til eins árs og Auður Hermannsdóttir, Margrét Björnsdóttir, Páll Gestsson, Katrín Atladóttir og Björn Gíslason taki sæti til vara. 

Jafnframt er lagt til að Brynhildur Davíðsdóttir verði formaður stjórnarinnar. R18060109

Samþykkt.

19.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 11. júní. R20010001

3. liður; breyting á deiliskipulagi Nauthólsvíkur er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. R19120020

4. liður; breyting á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. R19120019

17.liður; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 er samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20010161

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðarinnar:

Ef litið er yfir árið 2019 þá vantar mikið upp á að rekstrarniðurstaða A-hluta sé eins jákvæð og áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist af því að sala byggingarréttar var mun minni eða 2.302 m.kr. undir áætlun. Ekki tókst að halda áætlun 2019 og ekki gekk heldur að greiða niður skuldir, en samt var góðæri! Á þessum tíma var ekkert COVID-19 áfall og ástand. Fulltrúa Flokks fólksins er brugðið við að sjá þriggja mánaðaruppgjör A- hluta, janúar til mars 2020. Borgin safnaði skuldum 2019 og hafa skuldir hækkað um fjóra milljarða á þremur mánuðum. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af afkomu borgarinnar þegar fer að reyna á áhrif COVID-19 fyrir alvöru. Ekki er annað hægt en að vera uggandi fyrir næstu tveimur árum seinnihluta þessa kjörtímabils. Fyrri hluti þessa kjörtímabils hefur sannarlega ekki verið án áfalla, braggamálið, fleiri framúrkeyrsluverkefni, SORPA svo fátt sé nefnt. Ef ekki var hægt að áætla með nákvæmari hætti fyrir 2019 hvernig verða þá áætlanir fyrir þetta ár?

20.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. júní, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 28. maí og 11. júní, menningar-, íþrótta-, og tómstundaráðs frá 25. maí og 8. júní, skipulags- og samgönguráðs frá 3. og 10. júní, skóla- og frístundaráðs frá 9. júní og velferðarráðs frá 3. júní. R20010285

2. liður fundargerðar forsætisnefndar, svohljóðandi tillaga um sumarleyfi borgarstjórnar:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulega borgarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk. skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Í sumarleyfi borgarstjórnar fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn hefur ella sbr. ákvæði 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga. R20060094

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. júní og 14. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. júní:

Skipulagyfirvöld borgarinnar gera nú hvað þau geta til að taka heimild af handhöfum stæðiskorta að aka göngugötur og leggja í sérmerkt stæði. Verið er að reyna að fá löggjafann til að breyta ákvæði 10. gr. umferðalaga sem kveður á um þessa heimild. Skipulagsyfirvöld óttast að stór hluti handhafa stæðiskorta muni fjölmenna á göngugötur en þeir eru um 8000 í borginni. Flokkur fólksins hefur einnig verið með málið í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði enda mannréttindamál. Ef tillaga borgarinnar verður samþykkt af löggjafanum munu skipulagsyfirvöld loka fyrir þennan möguleika. Með því að setja fötluðu fólki skorður að það geti ekki komist inn í göngugötur á bíl sínum er verið að jaðarsetja fatlað fólk. Hreyfihamlaðir hafa barist fyrir þessari heimild í fjölmörg ár. Skipulagsyfirvöld hafa ekki haft samráð við hreyfihamlaða um þetta mál og miður er að skipulagsyfirvöld vilji ekki láta reyna á þetta. Það er firra skipulagsyfirvalda að halda að göngugötur fyllist af handhöfum stæðiskorta. Löggjafinn hefur veit handhöfum stæðiskorta heimild til að aka í göngugötur og leggja þar í merkt stæði. Margar hliðargötur koma ekki til greina fyrir stæði hreyfihamlaðra vegna halla og þrengsla. Skipulagsyfirvöldum ber að virða markmið Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er tekið á aðgengismálum.

Fundi slitið kl. 21:02

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Örn Þórðarson    Egill Þór Jónsson

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 16.6.2020 - Prentvæn útgáfa