Borgarstjórn - 16.6.2015

Borgarstjórn

 B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 16. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Jóna Björg Sætran, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Hildur Sverrisdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar um stofnun ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur: 

Borgarstjórn samþykkir að fela ofbeldisvarnarnefnd að vinna tillögur að aðgerðum borgarinnar til að styrkja forvarnarstarf vegna kynbundins ofbeldis og mæta þörfum þolenda. Svokölluð Beauty tips bylting hefur sýnt, svo ekki verður um villst, að rík þörf er fyrir hvort tveggja. Reykjavíkurborg skorast ekki undan ábyrgð í þeim efnum.

- Kl. 14.19 tekur Kristín Soffía Jónsdóttir sæti á fundinum. 

Samþykkt. 

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. júní 2015, um stefnumörkun í almenningssamgöngum í Reykjavík, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. júní: 

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum 19. mars 2013 að setja Reykjavíkurborg almenningssamgöngustefnu til næstu ára eða áratuga. Borgarráð skipaði hóp fimm kjörinna fulltrúa um verkefnið og voru tillögur hans um stefnumörkun í almenningssamgöngum í Reykjavík – Samferða Reykjavík lagðar fram á fundi borgarráðs þann 22. maí 2014 ásamt tillögu um að vísa stefnunni til umsagnar Strætó bs., Vegagerðarinnar, umhverfis- og skipulagsráðs og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Umsagnir bárust frá Strætó bs., Vegagerðinni og Garðabæ. Lagt er til að borgarstjórn samþykki hjálögð drög að stefnumörkun í almenningssamgöngum í Reykjavík – Samferða Reykjavík og að stýrihópur um innleiðingu stefnunnar verði skipaður í borgarráði. 

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Þakkað er fyrir greinargóða samantekt og góðar tillögur að markmiðum í almenningssamgöngum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa flutt tillögur í borgarstjórn um að aðrir kostir en strætisvagnamiðstöð í Vatnsmýri á BSÍ reit verði skoðaðir enda margt sem bendir til þess að miðstöð strætisvagna austar í borginni muni henta betur. Sú endurskoðun á staðsetningu strætisvagnamiðstöðvar hefur ekki farið fram. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lagt til að tilraunasamningi til 10 ára um almenningssamgöngur verði sagt upp og endursamið við ríkið um stuðning við almenningssamgöngur án þess að sá stuðningur sé skilyrtur við að framlög til vegaframkvæmda í borginni séu felld niður. 

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Mikilvægt að viðhald gatna sæti ekki afgangi enda hefur það sýnt sig að frestun viðhalds leiðir til aukinnar slysatíðni og meiri útgjaldaþunga síðar meir fyrir borgarsjóð. Við það bætist að margir vegfarendur hafa orðið að taka á sig kostnað vegna tjóns sem þeir hafa orðið fyrir vegna aksturs á illa förnum malbikuðum götum. Raunhæf viðmið og markmiðasetningu skortir en tilgangurinn með slíku ætti að vera að tryggja fullnægjandi og jafnt ástand gatna. Lagt er til að mótuð verði viðhaldsstefna vegna gatnaframkvæmda. Borgarráði verði falið að stýra vinnunni og skipi verkefnahóp í þeim tilgangi að semja drög að stefnu um viðhald gatna. Stefnan verði síðan lögð fyrir borgarstjórn til umræðu og afgreiðslu.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn leggst eindregið gegn hugmyndum um flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar frá Reykjavík, hvort sem um er að ræða að hluta til eða í heild. Borgarstjórn lýsir yfir fullum vilja til að búa þannig að starfsemi Landhelgisgæslunnar í borginni, jafnt flugdeild sem skiparekstri stofnunarinnar, að hún nái að þróast og eflast. 

Samþykkt með 11 atkvæðum að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Athyglisvert er að fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina kjósi að vísa fyrirliggjandi tillögu til nefndar í stað þess að afgreiða hana á þeim vettvangi þar sem hún er lögð fram, þ.e. í borgarstjórn. Slík afgreiðsla vekur spurningar um raunverulegan vilja borgarstjórnarmeirihlutans fyrir því að Landhelgisgæslan verði áfram í Reykjavík og að búið verði þannig að starfsemi hennar í borginni, jafnt flugdeild sem skiparekstri stofnunarinnar, að hún nái að þróast og eflast. 

5. Fram fer umræða um hlutverk höfuðborgar. 

6. Fram fer umræða um starfsemi sjálfstætt starfandi skóla. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að Reykjavíkurborg skerði ekki rekstraraðstæður sjálfstætt rekinna skóla frá því sem nú er. Eðlilegt er að greiðsla framlags borgarinnar vegna fjölda reykvískra barna í sjálfstætt reknum skólum takmarkist af húsrými viðkomandi skóla eins og tíðkast í borgarreknum skólum, en ekki sé miðað við punktstöðu á tímabili þar sem sumir sjálfstætt reknir skólar glímdu við nemendafækkun sem rekja mátti til efnahagsörðugleika í þjóðfélaginu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja áherslu á mikilvægi þess að gerðir séu þjónustusamningar við sjálfstætt starfandi grunnskóla eins og lög um grunnskóla kveða á um. Rétt er að vekja athygli á því að hver nemandi sem flyst úr borgarreknum skólum í sjálfstætt rekna kallar á viðbótarútgjöld úr borgarsjóði sem nema um 600 þúsund krónum á hvern nemanda og því er eðlilegt og ábyrgt að setja fjölgun þeirra einhver mörk eins og gert er ráð fyrir í samningsdrögum.  Það er merki um ábyrga fjármálastjórn og leið til að auka gagnsæi um fjármagn sem rennur til þeirra.

7. Kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og tveggja varaforseta.

Forseti er kosinn Sóley Tómasdóttir með 9 atkvæðum

1. varaforseti er kosinn Elsa Hrafnhildur Yeoman með 9 atkvæðum

2. varaforseti er kosinn Halldór Auðar Svansson með 9 atkvæðum

8. Kosning tveggja skrifara til eins árs og tveggja til vara.

Lagt er til að Skúli Helgason og Halldór Halldórsson verði kjörnir skrifarar og að varaskrifarar verði kjörin þau Kristín Soffía Jónsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson.

Samþykkt. 

9. Kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara. Lagt er til að eftirtaldir borgarfulltrúar taki sæti í borgarráði: 

S. Björn Blöndal

Björk Vilhelmsdóttir

Sóley Tómasdóttir

Halldór Auðar Svansson

Halldór Halldórsson

Júlíus Vífill Ingvarsson

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn: 

Ilmur Kristjánsdóttir

Hjálmar Sveinsson

Líf Magneudóttir

Þórgnýr Thoroddsen

Kjartan Magnússon

Áslaug María Friðriksdóttir

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir

Samþykkt. 

10. Kosning fimm manna í stjórn Faxaflóahafna sf. til eins árs og fimm til vara; formannskjör. Lagt er til að eftirtalin verði kosin í stjórnina:

Kristín Soffía Jónsdóttir

Líf Magneudóttir

S. Björn Blöndal

Þórlaug Ágústsdóttir

Júlíus Vífill Ingvarsson

Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn: 

Gunnar Alexander Ólafsson

Elín Oddný Sigurðardóttir

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Eva Þuríðardóttir

Hildur Sverrisdóttir

Formaður er kjörinn án atkvæðagreiðslu Kristín Soffía Jónsdóttir.

11. Kosning fimm manna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sf. til eins árs og fimm til vara; formanns- og varaformannskjör. Lagt er til að eftirtalin verði kosin í stjórnina:

Haraldur Flosi Tryggvason

Brynhildur Davíðsdóttir

Gylfi Magnússon

Kjartan Magnússon

Áslaug María Friðriksdóttir

Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn: 

Auður Hermannsdóttir

Margrét Björnsdóttir

Páll Gestsson

Marta Guðjónsdóttir

Halldór Halldórsson

Samþykkt með 13 atkvæðum. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Formaður er kjörinn án atkvæðagreiðslu Haraldur Flosi Tryggvason og varaformaður Brynhildur Davíðsdóttir.

12. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í velferðarráð. Lagt er til að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti Bjarkar Vilhelmsdóttur í velferðarráði og að Jódís Bjarnadóttir taki sæti Heiðu Bjargar sem varamaður í ráðinu. Einnig er lagt til að Ilmur Kristjánsdóttir verði kjörin formaður ráðsins. 

Samþykkt. 

13. Lagt er til að Örn Þórðarson taki sæti Kristins Karls Brynjarssonar sem aðalmaður í hverfisráði Hlíða.

Samþykkt. 

14. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulega borgarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk. skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Í sumarleyfi borgarstjórnar fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn hefur ella. 

Samþykkt. 

15. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. júní.

- 25. lið fundargerðarinnar frá 11. júní, endurskoðun fjárhagsáætlunar 2015, er vísað til frekari meðferðar borgarráðs.

16. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 12. júní.

- 4. liður, samþykkt fyrir ofbeldisvarnarnefnd, samþykktur. 

- 5. liður, nýr viðauki við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna embættisafgreiðslna sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs, samþykktur. 

17. Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 27. maí og 9. júní, menningar- og ferðamálaráðs frá 27. maí og 9. júní, skóla- og frístundaráðs frá 3. júní, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 1. júní, umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. og 10. júní og velferðarráðs frá 28. maí.

Fundi slitið kl. 19.18

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Skúli Helgason Halldór Halldórsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 16.6.2015 - prentvæn útgáfa