Borgarstjórn - 16.5.2017

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 16. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Sabine Leskopf, Dóra Magnúsdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að öllum 8. bekkingum í grunnskólum Reykjavíkur standi til boða starf við Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar. Þá er jafnframt lagt til að hugað verði að aukinni fjölbreytni og valmöguleikum í þeim störfum sem í boði verða.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17050129

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að vísa til gerðar fjárhagsáætlunar 2018 að bjóða öllum 8. bekkingum í grunnskólum Reykjavíkur starf við Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2018. Þá er jafnframt lagt til að hugað verði að aukinni fjölbreytni og valmöguleikum í þeim störfum sem í boði verða.

Málsmeðferðartillagan er samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Stutt er í að þessu skólaári ljúki og að grunnskólanemendur fari í sumarleyfi. Eins og fyrri sumur munu fjórtán ára unglingar í nær öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu streyma í vinnu hjá vinnuskóla síns sveitarfélags. En í Reykjavík, stærsta sveitarfélaginu, þurfa ungmenni á þessum aldri að sætta sig við að engin störf eru í boði fyrir þau vegna þess að árið 2011 var ákveðið að hætta að bjóða 8. bekkingum störf hjá skólanum og jafnframt var þrengt að starfsemi hans með því að stytta vinnutímann verulega hjá 9. og 10. bekk. Á undanförnum árum hefur umhirðu og viðhaldi verið verulega ábótavant í borginni og því veitir Vinnuskólanum ekki af liðsauka. Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélagið, ætti að hafa burði til þess að bjóða sínum nemendum í 8. bekk vinnu ef minni sveitarfélögin hér í kringum okkur geta gert það. Lítið er gefið fyrir þann fyrirslátt meirihlutans að ekki sé nægur tími til að undirbúa það að bjóða nemendum 8. bekkjar störf í sumar. Það er venja meirihlutans þegar hann vill drepa málum á dreif að vísa þeim í starfshópa og stýrihópa og málin hafa jafnan dagað þar uppi eins og dæmin hafa sannað með margítrekaðar fyrri tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að 8. bekkingum bjóðist sumarstörf hjá borginni. Meirihlutinn hefur haft nægan tíma til að endurskoða afstöðu sína og endurskipuleggja starf Vinnuskólans eða allt frá árinu 2011.

- Kl. 14.53 víkur Marta Guðjonsdóttir af fundi og Björn Gíslason tekur þar sæti.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að upplýsingar um fjármál hverfanna verði gerðar aðgengilegar á vef borgarinnar. Þannig verði skilgreint hvaða kostnaður verði til vegna þjónustu og framkvæmda í þágu íbúa ólíkra hverfa.

Greinargerð fylgir tillögunni.  R17050130

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrir rúmu tveimur og hálfu ári síðan eða 28. október 2014 óskaði áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í hverfisráði Grafarvogs eftir upplýsingum þrjú ár aftur í tímann um heildartekjur borgarsjóðs vegna Grafarvogs og hverjir væru stærstu útgjaldaliðir borgarssjóðs er snúa beint að hverfinu.  Fyrirspurninni var aldrei svarað þó svo að hún hafi verið ítrekuð en 28. apríl 2015 var óskað eftir að hún yrði send fjármálaskrifstofu og 15. desember 2015 að hún yrði send stjórnkerfis- og lýðræðisráði þar sem henni hefði ekki verið svarað. Sú málsmeðferðartillaga sem samþykkt var að vísa tillögunni til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar er því kærkomin og vonandi fæst fyrr niðurstaða þannig heldur en málfþófskennd meðferð sem tillaga framsóknar- og flugvallarvina í hverfisráði Grafarvogs frá 2014 hefur fengið í stjórnkerfi borgarinnar.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að auka fjárveitingar vegna innleiðingar, rannsókna og nýsköpunar sem tengjast velferðartækni um 100 m.kr. á árinu 2018.

Greinargerð fylgir tillögunni R17050131

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Lagt er til að Reykjavíkurborg veiti öllum börnum í grunnskólum Reykjavíkur nauðsynleg námsgögn gjaldfrjálst frá og með næsta hausti.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17050132

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja mikilvægt að Reykjavíkurborg sé í forystuhlutverki þegar kemur að því að tryggja að framkvæmd við rekstur grunnskóla sinna sé í samræmi við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um gjaldfrjálsa grunnmenntun.  Meirihlutinn í borginni virðist frekar vilja vinna að gjaldfrelsi valkvæðrar menntunar, heldur en að einblína á lögbundnar skyldur sínar. Það að bíða eftir fjárframlögum ríkisins eða samningum við það er hjóm eitt miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi fyrir barnafólk í borginni. Þessi tillaga okkar er til þess fallin að tryggja jafnræði meðal nemenda og jafnan rétt til náms, án tillitis til efnahags foreldra. Forgangsröðun fjármuna í þágu barna og velferðar eru þau málefni sem við Framsókn og flugvallarvinir teljum ætíð rétt að setja á oddinn.

5. Fram fer umræða um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. R14050127

6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. maí. R17010001

21. liður fundargerðarinnar frá 4. maí, aðild Reykjavíkurborgar að sáttmálanum um Nordic Safe Cities samþykktur. R17010323

28. liður fundargerðarinnar frá 4. maí, lækkun leikskólagjalda, samþykktur með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. R17040159

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Leikskólarnir hafa verið fjársveltir lengi. Tryggja verður að rekstur þeirra sé tryggður þó svo leikskólagjöld verði lækkuð. Það er afstaða Framsóknar og flugvallarvina að meirihlutanum sé ekki stætt á því að koma fram með tillögu um lækkun leikskólagjalda án þess að tryggt sé að fæðisgjald hækki ekki á móti, en síðast þegar þetta var reynt til að uppfylla samstarfssáttmála meirihlutans þá var fæðisgjald hækkað um þá fjárhæð sem lækkunin nam og því um málamyndalækkun að ræða. Þá var það síðasta haust sem fæðisgjald á nemendur grunnskóla var hækkað á öll börn og hefur það ekki verið tekið til baka.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn lækkun leikskólagjalda um 200 milljónir króna þar sem full þörf er á umræddum fjármunum til að bæta fjársvelta leikskóla borgarinnar. Væri umræddum fjármunum ráðstafað í þágu leikskólastarfs næmi viðbótarframlag rúmum þremur milljónum króna að meðaltali fyrir hvern leikskóla. Nefna má að viðhaldi fjölmargra leikskóla og leikskólalóða er ábótavant, aðstæður starfsmanna eru víða ófullnægjandi og fjárveitingar til fæðiskaupa skornar við nögl. Rétt er að nota umrædda fjármuni til umbóta á leikskólum í stað þess að lækka leikskólagjöld.

30. liður fundargerðarinnar frá 4. maí, viðaukar við fjárhagsáætlun 2017, samþykktur.  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17020176

10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. maí, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. apríl og 5. maí, mannréttindaráðs frá 9. og 11. maí, menningar- og ferðamálaráðs frá 8. maí, skóla- og frístundaráðs frá 3. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. maí og velferðarráðs frá 4. maí. R17010084

Fundi slitið kl. 17.33

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 16.5.2017 - Prentvæn útgáfa