Borgarstjórn - 16.4.2013

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2013, þriðjudaginn 16. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Óttarr Ólafur Proppé, Karl Sigurðsson, Sigurður Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Oddný Sturludóttir, Margrét Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Hildur Sverrisdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Sóley Tómasdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.      Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

         Borgarstjórn samþykkir að beita sér fyrir því að komið verði á fót samstarfsnefnd lögreglu og Reykjavíkurborgar um löggæslumálefni. Nefndin verði vettvangur fyrir samskipti og samstarf lögreglunnar og Reykjavíkurborgar og geri tillögur um úrbætur í málefnum er varða löggæslu í borginni. Af hálfu Reykjavíkurborgar verði nefndin skipuð kjörnum fulltrúum. Borgarstjóra er falið að vinna að málinu og leita eftir samstarfi við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna þess.

         Greinargerð fylgir tillögunni.

-              Kl. 14.20 tekur Eva Baldursdóttir sæti á fundinum.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.

2.      Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

       

         Borgarstjórn samþykkir að stofna  lýðheilsuráð. Verkefni lýðheilsuráðs er tímabundið og ráðið er skipað til tveggja ára. Markmið ráðsins er að horfa hlutlægt á alla starfsemi borgarinnar, verkefni og stefnumörkun sem snertir þá þætti er tengjast lýðheilsu barna. Markmið þessa verkefnis er að útlista þær aðgerðir sem Reykjavíkurborg getur farið í með það að markmiði að bæta heilsu barna, m.a. að draga úr of mikilli þyngd, bæta matarræði og auka hreyfingu. Ráðið hefur að auki það verkefni að setja fram mælikvarða svo hægt sé að mæla árangur af breyttum starfsháttum eða innleiðingu nýrra verkefna. Tillögur ráðsins um aðgerðir eru sendar til borgarráðs til samþykktar, innleiðingar og/eða framkvæmda. Í lýðheilsuráði sitja sérfræðingar í lýðheilsuvísindum, læknavísindum, skipulagsmálum og félagsvísindum. Embættismaður starfar með ráðinu.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.

3.      Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Ósk Vilhjálmsdóttir taki sæti Stefáns Benediktssonar í menningar- og ferðamálaráði.

         Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Þór Steinarsson taki sæti Davíðs Stefánssonar í menningar- og ferðamálaráði og að Líf Magneudóttir taki sæti Þórs sem varamaður í ráðinu.

4.      Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka kosningu í fulltrúaráð hjúkrunarheimilisins Skjóls á dagskrá.

         Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Stella K. Víðisdóttir taki sæti Elsu Hrafnhildar Yeoman, sem hefur beðist lausnar, í fulltrúaráði hjúkrunarheimilisins Skjóls og að varamenn í ráðinu verði Elsa Hrafnhildur Yeoman og Anna Kristinsdóttir.

5.      Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. apríl.

15. liður fundargerðarinnar frá 4. apríl , fjárveiting vegna NPA- verkefnisins samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

21. liður fundargerðarinnar frá 11. apríl , tilfærsla á fjárheimildum vegna viðaukasamnings um Hörpu samþykktur með 10 atkvæðum gegn 1.

6.      Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 22. mars og 8. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 10. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. apríl og velferðarráðs frá 4. og 11. apríl.    

Fundi slitið kl. 15.22

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Óttarr Ólafur Proppé

Áslaug Friðriksdóttir Karl Sigurðsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 16.04.13