Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2021, þriðjudaginn 16. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.16. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Kristín Soffía Jónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir, Líf Magneudóttir, Örn Þórðarson, Alexandra Briem og Björn Gíslason. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sætu á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Valgerður Sigurðardóttir, Katrín Atladóttir, Sabine Leskopf, Kolbrún Baldursdóttir og Ragna Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um frumdrög að fyrstu lotu borgarlínu. R21020147
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Frumdrög að hönnun borgarlínunnar hafa nú litið dagsins ljós. Borgarlínan er öflugt hraðvagnakerfi sem tengir byggð höfuðborgarsvæðisins saman með tíðum ferðum og háu þjónustustigi. Hún verður byggð upp í sérrými til að greiða fyrir umferð og lágmarka tafir. Borgarlínan er grundvöllur þess að sveitarfélögin geti þétt byggð í miðkjörnum og vaxið án þess að brjóta nýtt land undir byggð utan skilgreindra vaxtarmarka og skapa mikla umferð. Borgarlínan verður drifkraftur sem knýr höfuðborgarsvæðið í átt að sjálfbæru kolefnislausu borgarsamfélagi. Við fögnum þessum áfanga og hlökkum til framhaldsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Eitt mikilvægasta verkefni borgarinnar er að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Tíu ára tilraunaverkefni Samfylkingarinnar náði ekki tilsettum markmiðum um hlutfallslega fjölgun notenda. Upphaflegar áætlanir varðandi bætingu almenningssamgangna hafa því brugðist. Í þessu samhengi má nefna að framkvæmdir við borgarlínu áttu að hefjast 2019 en nú stefnir í að framkvæmdir hefjist heilum fjórum árum síðar. Þá er minnt á að borgarstjórn samþykkti að auka tíðni strætó í 7,5 mínútur 2. október 2018. Þannig áttu leiðir 1, 3, og 6 að aka á þessari tíðni frá 1. janúar 2020 á háannatíma. Ekkert hefur orðið af þessu þrátt fyrir að Reykjavíkurborg eigi Strætó að stærstum hluta. Nú stefnir í að þessi breyting frestist um a.m.k. fimm ár. Þá er bent á að rekstraráætlun borgarlínu liggur ekki enn fyrir. Enn fremur vantar heila 60 milljarða upp á fjármögnun borgarlínunnar. Miklu skiptir varðandi trúverðugleika að staðið sé við það sem ákveðið er.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Á meðan við bíðum eftir framtíðarlausnum, þurfum við einnig að bæta þær lausnir sem nú eru til staðar. Talsverður tími er í borgarlínu en nauðsynlegt er að bæta almeningssamgöngur nú fyrir þau sem reiða sig á þær í dag. Það að setja fram hugmyndir um bættar almenningssamgöngur í framtíðinni má ekki leiða til þess að dregið verði úr eflingu núverandi almenningssamgangna. Varðandi alla slíka uppbyggingu er mikilvægt að útfærsla verði á forsendum þeirra sem þekkja best til; notenda þjónustunnar. Varðandi fyrstu áfanga borgarlínunnar, þá minnir fulltrúi sósíalista á viðaukatillögu sósíalista sem lögð var fram í borgarstjórn 15. október 2019 um fyrirvara við samþykkt samkomulags ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033. Þar vildu sósíalistar m.a. leggja meira í borgarlínu og strætó, þ.m.t. að gert yrði ráð fyrir fleiri áföngum borgarlínu. Sú tillaga hlaut ekki brautargengi. Sósíalistar leggja áherslu á að almenningssamgöngur verði byggðar upp samkvæmt væntingum þeirra sem nota þær, hratt og örugglega.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hin svokallaða borgarlínan er gífurleg fjárhagsleg skuldbinding fyrir íslenska ríkið án þess að nokkur ávinningur sé tryggður fyrir samfélagið. Ekki hefur farið fram þjóðhagsfræðileg greining á verkefninu og hafa fræðimenn bent á að verkið standist enga skoðun. Strætókerfið er því miður hrunið og tilkynnt var um það nýlega að Strætó sé gjaldþrota nema til komi meira fjármagn frá eigendum og ríki. Rekstrarþátturinn er skilinn eftir og eins vagnakaup og hvaða orkutegund verður notuð til að knýja vagnana. Slíkt er óásættanlegt ábyrgðarleysi. Áður en lengra er haldið er ljóst að fjármálaráðherra verður að óska umsagnar Ríkisábyrgðasjóðs á verkefninu í heild sinni en fyrstu áætlanir eru 120 milljarðar. Fjárhagsleg ábyrgð þessar svokölluðu borgarlínu er á ábyrð sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkissins. Fari sveitarfélag í þrot fellur það í fang ríkissins. Sú er nákvæmlega hættan með Reykjavíkurborg núna en nýjar lántökur á árinu 2021 eru 36 milljarðar og koma þeir inn í samfélag rúmlega 400 milljarða skuld Reykjavíkursamstæðunnar í dag. Mjög líklegt er að þetta óraunhæfa kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík – ef af verður – lendir allt að lokum í fangi ríkisins og skuldsetji komandi kynslóðir til langrar framtíðar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Félagshagfræðileg greining verkfræðistofunnar Mannvits og danska ráðgjafarfyrirtækisins COWI hefur farið fram og sýnir að borgarlínuverkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt. Heildaráhrif á umferð eru metin jákvæð upp á yfir 70 milljarða.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Það er einungis eitt rétt í þessari gagnbókun meirihlutans. Það er að unnin hafi verið skýrsla sem komst að þessari niðurstöðu. Ragnar Árnason hagfræðiprófessor hefur hrakið þau rök að borgarlínan sé þjóðhagslega hagkvæm samkvæmt tilvitnaðri félagshagfræðilegri greiningu. Þjóðhagslegt núvirði borgarlínu er neikvætt því reiknaðir voru til ábata ýmsir þættir sem eru ekki félagslegur ábati eins og t.d. greidd fargjöld og „eitthvert metið hrakvirði í framkvæmdarinnar í miðjum klíðum eins og hið opinbera geti þá selt fjárfestinguna til útlanda fyrir reiðufé“. Að auki þá væri „þjóðhagslegur kostnaður við þessar tafir mjög mikill“. Miðað við opinber gögn um um¬ferð á höfuðborgarsvæðinu er hann líklega yfir 100 milljónir króna á hverjum virkum degi og yfir 30 milljarðar króna á ári,“skrifaði Ragnar í grein í Morgunblaðinu þann 29. október 2020. Það er kominn tími til að taka mark á virtum háskólaprófessorum í stað þess að panta skýrslur hingað og þangað með fyrirfram ákveðnum niðurstöðum.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt margra spurninga um borgarlínu en fátt er um svör enda lítið vitað um marga þætti útfærslu hennar. Verkefnið er komið af stað og búið er að leggja í það milljarða nú þegar. Enda þótt samgöngur séu sannarlega mikilvægar eru áherslumál Flokks fólksins á fólkið. Fólkið fyrst. Á sama tíma og milljarðar streyma í borgarlínu fer fátækt og vanlíðan barna vaxandi og biðlistar lengjast. Áhyggjur eru jafnframt að því að ráðgjafi borgarinnar í borgarlínuverkefninu hefur nú sagt sig frá verkefninu. Að mati ráðgjafans hefur borgin allt að því afsalað sér völdum og ábyrgð til Vegagerðarinnar sem kemur að verkefninu fyrir hönd ríkisins. Borgarlínuverkefnið er dæmigert byggðarsamlagsverkefni þar sem borgin ræður of litlu og þarf að beygja sig fyrir hagsmunum ríkisins og annara sveitarfélaga. Hlutur borgarinnar er rýr í stjórnun en rík í fjárhagslegri ábyrgð í bs.-fyrirkomulaginu. Þetta er áhyggjuefni. Flokki fólksins finnst forgangsröðun þessa meirihluta skökk en leggur á sama tíma áherslu á mikilvægi þess að samgöngur gangi greiðlega fyrir sig. Umferðarmál hafa lengi verið í hnút. Orsakir eru margar og hefði mátt vera búið að leysa stóran hluta vandans með ýmsum hætti. Flokkur fólksins hefur komið með fjölmargar tillögu þar að lútandi sem dæmi hefði mátt bæta ljósastýringar fyrir löngu.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að ljúka uppskiptingu rekstrareininga Orkuveitu Reykjavíkur þannig að eignarhaldsfélagið verði lagt niður og dótturfélög verði að sjálfstæðum félögum. Stoðstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur verði færð inn í viðeigandi dótturfélag. Þannig verði Veitur, Orku náttúrunnar og Gagnaveitan að sjálfstæðum einingum með auknu gagnsæi og skýrari ábyrgð þar sem samkeppnis- og einokunarrekstur verði aðskilinn. Lagt er til að þessi stefnumótandi ákvörðun verði rædd á eigendafundi þar sem farið verði yfir útfærslu og tímaáætlun breytinganna.
Greinargerð fylgir tillögunni. R21020148
Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú er rétti tíminn til að ljúka uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við samkeppnis- og raforkulög. Það er tímaskekkja að halda í stórt eignarhald og stoðþjónustufélag sem millilag. Einfaldara, skilvirkara og ábyrgara er að sveitarfélögin eigi beint og milliliðalaust í Veitum, Orku náttúrunnar og Gagnaveitunni. Slíkt fyrirkomulag yrði bæði gagnsærra og ábyrgara enda yrði ábyrgð eigenda skýrari. Núverandi kerfi hefur verið gagnrýnt af aðilum á raforkumarkaði, sem og innri endurskoðun sem bent hefur á galla við skipan stjórna rekstrareininganna. Þessi breyting myndi minnka hættuna á hagsmunaárekstrum þar sem saman fer samkeppnis- og einokunarrekstur undir sama hatti. Það vekur athygli að verð á heitu vatni er t.d. umtalsvert hærra heldur en hjá nágrannasveitarfélögunum en í tilfelli Mosfellsbæjar sem dæmi er um sömu borholu og sama vatn að ræða. Borgarbúar greiða þannig hærra fyrir nákvæmlega sama vatnið.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Það vekur sannarlega athygli að Mosfellingar borga minna fyrir heita vatnið enda vita borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að það verð byggir á samningi sem Hitaveita Mosfellsbæjar gerði við Hitaveitu Reykjavíkur árið 1998 um kaup á heitu vatni á verði sem yrði 40% af smásöluverði á hverjum tíma. Samningurinn er óuppsegjanlegur nema til komi samþykki beggja aðila. Á sama tíma var gerður annar samningur; sölusamningur þar sem Hitaveita Reykjavíkur keypti öll þau vatnsréttindi sem voru í eigu Mosfellsbæjar. Þessa tvo samninga þarf að skoða í samhengi, þá kemur í ljós að hagstætt verð á heitu vatni til Hitaveitu Mosfellsbæjar er endurgjald fyrir nýtingu á jarðhitaauðlindum í bæjarfélaginu. Hitaveita Reykjavíkur öðlaðist með þessum samningum full yfirráð yfir þeim auðlindum sem er að finna á jarðhitasvæðum innan bæjarmarka Mosfellsbæjar og þar með öll vinnsluréttindi á heitu vatni sem finnst þar í miklu magni. Hitaveita Mosfellsbæjar tryggði sér á móti heitt vatn til allrar framtíðar sem selt er áfram til íbúa og fyrirtækja í bænum á því verði sem hún kýs. Mosfellingar njóta þannig áfram þeirra náttúrugæða sem þeir létu af hendi og á sama tíma var styrkum stoðum skotið undir vatnsöflun Hitaveitu Reykjavíkur fyrir höfuðborgarsvæðið til langrar framtíðar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Lögboðinni uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur er löngu lokið. Þegar skipan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur var ákveðin af eigendum var það gert að vandlega undirbúnu máli, að undangengnu nákvæmu áhættumati margra valkosta og í góðu og nánu samstarfi allra eigenda fyrirtækisins. Niðurstaðan er núverandi skipan samstæðunnar, stefna hennar og stjórnhættir – var samþykkt einróma í öllum sveitarstjórnum eigenda Orkuveitu Reykjavíkur – borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Borgarbyggðar. Þessari uppskiptingu lauk 1. janúar 2014. Dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur eru því sjálfstæð félög sem hvert lýtur sinni stjórn og með því hefur samkeppnis- og sérleyfisrekstur verið aðskilinn.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga um uppskiptingu rekstrareininga Orkuveitu Reykjavíkur er ágæt tillaga þar sem hún gæti leitt til þess að minnihlutafulltrúar og borgarbúar hafi meiri aðkomu að stjórn rekstrareininganna, gefið að þau verði þá undir stjórn sveitarfélaganna beint. Borgarstjórn og borgarbúar hafa nú enga aðkomu að rekstri dótturfélaganna, aðeins að eignarhaldsfélaginu Orkuveitu Reykjavíkur.
- Kl. 18.05 er gert hlé á fundinum og þá víkja Heiða Björg Hilmisdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir og Katrín Atladóttir.
- Kl. 18.40 taka Sabine Leskopf, Marta Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Hjálmar Sveinsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Kolbrún Baldursdóttir sæti á fundinum og aftengjast fjarfundarbúnaði. Björn Gíslason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Egill Þór Jónsson, Ellen Jacqueline Calmon, Hildur Björnsdóttir, Líf Magneudóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.
- Kl. 19:08 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.
3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi stefnu um íbúðabyggð og tengsl húsnæðisuppbyggingar og fyrirhugaðrar borgarlínu, ásamt fylgiskjölum, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. febrúar sl. R11060102
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Aðalskipulagið 2010-2030 markaði tímamót í skipulagssögu borgarinnar. Horfið var frá bílmiðuðum hugmyndum seinustu aldar og stefnan sett á þétta, mannvæna, nútímalega borgarbyggð þar sem virkir samgöngumátar eru í fyrirrúmi. Með tillögunum nú er lagt til að aðalskipulagið sé framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir borgarlínu og stokka. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka. Við styðjum þessar tillögur heilshugar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Nýr viðauki við aðalskipulag Reykjavíkur gildir til 2040, eða tíu árum lengur en núgildandi aðalskipulag. Aðalskipulagið er samtvinnað húsnæðisstefnu og því nauðsynlegt að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá varðandi kröftugan vöxt rætist er þörf borgarinnar metin 1.210 íbúðir ári til 2040, eða 24.200 íbúðir. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram vera undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug, hvorki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit sem þó er í hugmyndasamkeppni. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til húsnæðisuppbyggingar. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru nú. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar, bæði hvað varðar fjölda íbúða, en þó sérstaklega hvað varðar byggingu á hagkvæmum byggingarreitum. Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Undanfarin ár hafa sýnt hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Sú leið að hafa starfsemiskvóta takmarkar notkunarmöguleika atvinnuhúsnæðis, ekki síst á jarðhæðum. Af þessum sökum öllum leggjumst við gegn þessum viðauka.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Aðalskipulag tekur á mörgum þáttum sem eru mikilvægir þegar kemur að borgarskipulagi. Undir liðnum húsnæði fyrir alla, kemur fram að stefnt verði að því að um 25% nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Fulltrúi sósíalista telur þetta ekki nóg í ljósi þess hversu margir eru í þörf fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði. Miðað við það sem vitað er, á að vera hægt að reikna út hversu margar íbúðir þurfi að byggja innan óhagnaðardrifinna kerfa, til að mæta þeim íbúum sem hafa minnsta fjármagnið. Út frá þeim forsendum á borgin að geta uppfært markmið sín þannig að enginn bíði til lengdar eftir félagslegu húsnæði, neyðist til að búa í atvinnuhúsnæði eða við aðrar ótryggar aðstæður. Sósíalistar hafa áður lagt fram tillögu um fjárfestingu til að útvega húsnæði fyrir fólk sem nú bíður eftir húsnæði hjá borginni. Sú tillaga um uppbyggingu hlaut ekki brautargengi. Fulltrúi sósíalista er þeirrar skoðunar að víkka þurfi út hugmyndir um félagslegt húsnæði þannig að það nái til fleiri, þar sem að húsnæði á ekki að vera viðskiptatækifæri uppbyggingaraðila, heldur er grunnforsenda velferðar. Líta mætti til Vínarborgar þar sem um 60% íbúa búa í niðurgreiddu húsnæði og félagslega leigukerfið er miklu öflugra.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú er verið að samþykkja breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur og eru leiðarljós stefnunnar þessi: Íbúðabyggð og blönduð byggð rísi innan vaxtarmarka til ársins 2040. 80% nýrra íbúða til 2040 verði innan áhrifasvæðis borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öflugan atvinnukjarna. Minnst 90% nýrra íbúða rísi á röskuðum eða þegar byggðum svæðum og ekki verði gengið á opin svæði með hátt náttúrufars- og /eða útivistargildi. Þetta er beinlínis rangt miðað við þrengingarstefnuna sem er í gildi. Áætlað er að 23.000 íbúðir rísi vestan Elliðaráa og 14.000-15.000 íbúðir rísi austan Elliðaáa. Öllum má vera ljóst að uppbyggingin vestan megin gengur mjög á græn svæði í grónum hverfum með tilheyrandi álagi á umhverfið og íbúana. Hér er verið að boða massífa þrengingarstefnu til að réttlæta hina svokölluðu borgarlínu. Það er sláandi að ekki er gert ráð fyrir frekari úthlutun lóða í úthverfum Reykjavíkur þar sem möguleiki væri á stórkostlegri uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og tekjulága. Mjög miklar líkur eru á að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fari ekki næstu áratugi en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar. Stefnan er „síld í tunnu“ stefna þar sem hrúga á íbúðum og fólki meðfram borgarlínunni.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 stefna um íbúabyggð er stórt og viðamikið mál og að mörgu að hyggja. Áhyggjur eru af þessari lensku meirihlutans að fylla fjörur til að þétta sem mest byggð. Einnig eru áhyggjur af fyrirhuguðum þriðja áfanga Arnarnesvegar. Eins og með borgarlínu þá hafa borgaryfirvöld gefið ríkinu/Vegagerðinni og í þessu tilfelli einnig Kópavogi nánast fullt umboð með þessa framkvæmd. „Þetta stendur að eigi að gera í samgöngusáttmálanum“ segja fulltrúar meirihlutans. Nú er farið að auglýsa fyrirhuguð útboð og það áður komið er svar frá Skipulagsstofnun um nýtt umhverfismat. Það er alvarlegt að umhverfis- og skipulagsráð meti það svo að lagning vegarins eins og hann er fyrirhugaður hafi engin áhrif á svæðið. Hér ætti skilyrðislaust að kalla eftir nýju umhverfismati í stað þess að byggja á 18 ára gömlu mati. Með þessari framkvæmd er eyðilagt eitt helsta útsýnissvæði Reykjavíkur og lokað er fyrir frekari þróun Vetrargarðar. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum í aðalskipulaginu en þar segir „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og/eða útivistargildi“. Meirihlutinn er ekki sammála um mikilvægi þess að fá nýtt umhverfismat. Viðreisn, einum flokka meirihlutans, finnst í lagi að svo mikið inngrip sem þessi vegur er verði byggður á 18 ára gömlu umhverfismati.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Allt að 7.000 einstaklingar búa nú í óleyfisíbúðum hér á landi, þ.e.a.s. húsnæði sem skipulagt er undir atvinnustarfsemi en er nýtt til búsetu. Þar af er áætlað að á bilinu 3.500-4.000 einstaklingar búi við slíkar aðstæður á höfuðborgarsvæðinu, í 1.000-1.200 íbúðum. Skortur á leiguhúsnæði og há leiga er talin veigamesta skýringin á því að fólk búi í óleyfisíbúðum. Nýútkomin skýrsla um þessi málefni byggir á kortlagningu Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu frá því 2017. Það er mikilvægt að kanna hverjar aðstæður fólks eru sem býr í atvinnuhúsnæði, fjölda innan borgarinnar og hvernig best sé að koma til móts við þarfir þeirra. Reykjavíkurborg samþykkir því að leitast við að ná til þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði í borginni með það að markmiði að komast að því hver á í hlut; fjölda, fjölskyldugerð, ástæður þess að búseta þeirra er í atvinnuhúsnæði og hverjar þarfir þeirra eru. Samhliða því komi borgin til móts við þarfir þeirra svo að enginn þurfi að búa við ótryggar aðstæður.
Greinargerð fylgir tillögunni. R21020149
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarstjóra.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg sem höfuðborg verður að koma skikki á þennan málaflokk. Það er algjörlega óásættanleg staða. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur marg ítrekað reynt að fá upplýsingar um hver sá fjöldi fólks er sem býr í ósamþykktu- og iðnaðarhúsnæði. Lítið hefur orðið um svör þar til nú. Í fyrsta lagi er slík búseta óboðleg, í öðru lagi skapar þessi búseta skekkju við lögheimilisskráningu og í þriðja lagi er þetta óásættanlegt fyrir slökkvilið, sjúkraflutningamenn og lögreglu. Erfiðasti brunavettvangur sem slökkviliðsmenn koma að er húsnæði þegar ekki er vitað hvað margir eru búsettir í húsnæðinu. Það væri hægt að koma þessum málum í lag á örfáum mánuðum ef litið væri á málið sem neyðarástand eins og t.d. það sem gerðist í Vestmannaeyjagosinu. Þá var byggt upp húsnæði á nokkrum mánuðum fyrir fleiri hundruð eyjaskeggja upp á landi. Áætlað er að milli 3.500-4.000 manns búi í óskráðu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Hliðarvandamál þessa ástands er röng lögheimilisskráning hjá börnum og fullorðnum sem skekkir skráningu í hverfi og skóla borgarinnar. Nú verður meirihlutinn að taka sig saman í andlitinu og láta verkin tala í þessum málaflokki. Gleymum því samt ekki hver er orsök og afleiðing í þessu máli. Rót vandans er lóða- og íbúðaskortur í Reykjavík.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Aldrei er góð vísa of oft kveðin og fagnar fulltrúi Flokks fólksins þessari tillögu. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram sambærilega tillögu 3. febrúar um að borgaryfirvöld grípi strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Þeirri tillögu var frestað og þrátt fyrir fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hana hefur ekkert svar borist. Óljóst er hvað margir búa í ósamþykktu húsnæði í borginni, atvinnuhúsnæði eða öðru óleyfishúsnæði. Í sumum tilfellum er aðbúnaður ekki í samræmi við öryggiskröfur sem getur skapað íbúum mikla hættu. Grípa þarf strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Óttast er að sá hópur sem leitar í óleyfis- eða ósamþykkt húsnæði hafi stækkað. Ætla má að þessi hópur fólks sé nú í vaxandi mæli atvinnulaus vegna áhrifa faraldursins og eigi því ekki annara kosta völ en að dvelja áfram í óöruggu húsnæði. Um 500 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Flestir búa í óleyfishúsnæði vegna þess að þeir hafa ekki efni á að koma yfir sig betra og öruggara skjóli. Mikið af þessu fólki er fjölskyldufólk.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að stofnað verði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík. Meginhlutverk hans verði að skoða málefni eldri borgara og halda utan um hagsmuni þeirra, fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hann kortleggur stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgist með framkvæmd heimaþjónustu. Hann skal leggja sjálfstætt mat á það hvort borgaryfirvöld uppfylli skyldur sínar gagnvart öldruðum. Hann fylgist einnig með hvort einkaaðilar uppfylli kröfur laga um aðgengi og banni við mismunun þegar kemur að réttindum eldri borgara. Hann tekur á móti ábendingum frá borgurum um málefni eldri borgara og fræðir eldri borgara um eigin réttindi. Auk þess ber hagsmunafulltrúa að hafa frumkvæðiseftirlit með högum eldri borgara, sérstaklega með tilliti til þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað. Hagsmunafulltrúi aldraðra skal vekja athygli stjórnvalda og almennings á málum sem hann telur að brjóti á réttindum eldri borgara. Jafnframt skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum sem snerta aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra. Lagt er til að öldungaráð Reykjavíkur komi að mótun hlutverks embættis hagsmunafulltrúa og að hagsmunafulltrúi gefi öldungaráði reglulega skýrslu um starfsemi embættisins.
Greinargerð fylgir tillögunni. R21020150
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er vont til þess að vita að meirihlutinn í borgarstjórn vill ekki gera öldruðum hærra undir höfði en raun ber vitni. Tillagan er felld. Allar tillögur sem lúta að bættum kjörum og réttindagæslu fulltrúa Flokks fólksins hafa verið felldar eða vísað frá. Látið er eins og ekkert þurfi að bæta í þjónustu við þennan viðkvæma hópa. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þessi tillaga sé send til umsagnar öldungaráðs. Sú umsögn sem þáverandi öldungaráð veitti um tillöguna þegar hún var lögð fram í borgarráði 2019 var neikvæð og einkenndist jafnvel af hroka. Sagt var að umboðsmaður borgarbúa væri að fjalla um málefni aldraðra. Það var ekki rétt. Umboðsmaðurinn þáverandi upplýsti um að mikið álag væri á embættinu og hefði þurft aukið fjármagn ef hann hefði átt að geta haft frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða, með það að markmiði standa vörð um hagsmunagæslu þeirra. Aftur kemur fram að verið sé að vinna alla þessa vinnu nú þegar, en það er hvorki satt né rétt. Fulltrúi Flokks fólksins vill að núverandi öldungaráð fái tækifæri til að veita tillögunni umsögn. Rannsóknir hafa sýnt að þunglyndi og einmanaleiki einkenna þennan viðkvæma hóp sem gefur til kynna að hlúa þurfi vel að honum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sambærileg tillaga var lögð fram í borgarráði og afgreidd í velferðarráði í kjölfar umsagnar öldungaráðs. Það var gert í ljósi þess að ekki er talin þörf á sérstökum hagsmunafulltrúa aldraðra umfram þá hagsmunagæslu sem fram fer í öldungaráði, en þar sitja fulltrúar hagsmunasamtaka eldri borgara, og hjá umboðsmanni borgarbúa, en það embætti er til hagsmunagæslu fyrir alla borgarbúa óháð aldri. Skipan sérstaks fulltrúa eins og lagt er fram í tillögunni myndi skapa óvissu um hlutverk öldungaráðs og um verkaskiptingu milli þess og umboðsmanns borgarbúa. Þó er mikilvægt að árétta að til þess að þessir aðilar geti sinnt sínu hlutverki er mikilvægt að íbúar séu upplýstir um tilvist þeirra og hlutverk og ávallt til skoðunar um hvernig megi styrkja og efla samráð við eldra fólk í borginni. Þá hafa þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leiðbeiningarskyldu og geta leiðbeint einstaklingum hvert þeir geta leitað.
6. Fram fer umræða um hlutdeildarlán og tækifæri Reykjavíkur í uppbyggingu hagkvæmra íbúða. R21020151
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er um frábæra leið að ræða fyrir ungt fólk, fyrstu kaupendur, tekjulága og þá sem ekki hafa átt íbúð í meira en fimm ár. Hlutdeildarlánaleiðin er besta leiðin til að koma fólki inn á húsnæðismarkaðinn. Reykjavíkurborg er ekki undirbúin undir þetta úrræði og kom fram á fundinum að einungis tæpar 200 úthlutanir hafi farið til íbúðarkaupa í borginni samkvæmt þessari leið frá upphafi. Gríðarleg uppbygging er hins vegar úti á landi og hefur meginþorri úthlutana farið út fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið. Það eru sorglegar staðreyndir. Reykjavíkurborg á að vera í fararbroddi sem stærsta sveitarfélagið og hjálpa til við að skapa þá stöðu að hægt verði að fara í hraðfara og stórtæka uppbyggingu á ódýru húsnæði m.a. með því að hafa nægt lóðaframboð. Því miður er enginn vilji til þess en þess í stað dró borgarstjóri enn eina glærusýninguna upp úr hatti sínum um fjölda íbúða sem eru ekki til og verða ekki til næstu ár. Það þýðir bara eitt – fólksflóttinn úr borginni heldur áfram og setur borgina aftar og aftar í röðina þegar kemur að búsetuvali markhópsins sem þessari leið er ætlað að ná til. Því miður.
7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. febrúar. R21010001
6. liður fundargerðarinnar frá 4. febrúar; tillaga um stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20110224
7. liður fundargerðarinnar frá 4. febrúar; breytingar á gjaldskrá Hundaeftirlitsins er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20110224
14. liður fundargerðarinnar frá 11. febrúar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21010107
15. liður fundargerðarinnar frá 11. febrúar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 vegna COVID-19, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21010107
17. liður fundargerðarinnar frá 11. febrúar; ábyrgð á lántöku Félagsbústaða 2021, er samþykktur með þrettán atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R21010307
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. og 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar:
Meirihlutinn fagnar stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur sem ætlað er að tryggja aukna dýravelferð auk þess að bæta, einfalda og auka skilvirkni þjónustu við dýr og dýraeigendur. Um leið nýtum við betur þá innviði og þekkingu sem er til staðar í borgarkerfinu og aukum samlegðaráhrif til að standa undir okkar lagalegu skyldum með sameinuðu utanumhaldi í Húsdýragarðinum. Málefni katta verða með þessu flutt frá Meindýraeftirlitinu og Hundaeftirlitið lagt niður. Samhliða þessu verður hundahald loksins formlega leyft í Reykjavík, hundagjöld lækkuð um allt að helming þannig að þau verði nú lægst á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem fjárfest verður í betri og fleiri hundagerðum. Von okkar er að hundaskráningum fjölgi svo unnt verði að kortleggja betur hvar flesta hunda er að finna svo hægt sé að einblína sérstaklega á betri hundagerði og bætta þjónustu á þeim svæðum. Talið er að á um 40% heimila í Reykjavík búi gæludýr og því er það gleðiefni að við stígum hér þetta jákvæða skref enda er gæludýrahald bæði lýðheilsumál og frístundaiðkun. Í framhaldinu mun dýraþjónustan bjóða upp á samtal og samvinnu við hagsmunaaðila um með hvaða hætti starfsemin þróast.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. og 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar:
Að sveitarfélag haldi skrá yfir hunda og hundaeigendur er tímaskekkja. Nægilegt er að hafa þá skráða í landlægan örmerkjagagnagrunn. Hundaeigendur standa einir undir öllum kostnaði við dýraeftirlit í borginni. Hundaeigendur sjá um sig sjálfir enda eru þeir öflugir á samfélagsmiðlum og fljótir til að aðstoða hvern annan ef upp koma vandamál. Hundar valda sjaldan tjóni og hægt er að tryggja hunda hjá tryggingarfélögum. Hundaeftirlitsgjaldið er ekkert annað en refsiskattur sem lýsir fordómum. Mál þar sem hafa þarf afskipti af hundum eru sárafá og kvörtunum hefur fækkað um mörg hundruð niður í fáa tugi. Samt sem áður hefur starfsgildum við hundaeftirlit ekki fækkað. Ekkert fæst í staðinn fyrir skattinn. Hundagerði vantar í flest hverfi og þetta sem koma á upp í vesturbæ var frá upphafi klúður, flest var gert rangt, stærð, girðing og fleira. Samráðið við hagsmunasamtök vegna breytinganna varði í 20 mínútur og var ekkert hlustað á óskir þeirra. Með nýju fyrirkomulagi á ekki að spara. Hundaeftirlitið er fært til í þeirri von að skráningum fjölgi en þeim þarf að fjölga um 80% á þessum þremur „tilraunaárum“ ef dæmið á að ganga upp. Samráð við hagsmunaaðila er ekkert. Flokkur fólksins situr hjá við atkvæðagreiðslu. Mótmælt er alfarið hundaeftirlitsgjaldinu.
8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. febrúar, mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 28. janúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. febrúar, skipulags- og samgönguráðs frá 3. og 10. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 9. febrúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 9. febrúar og velferðarráðs frá 29. janúar og 3. febrúar. R21010063
2. liður fundargerðar forsætisnefndar, tillaga um framlengingu á heimildum til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna fjarfundabúnaðar er samþykkt.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs:
Í lið 5 fer fram umræða um Sundhöllina í Reykjavík. Gerð voru slæm hönnunarmistök við endurgerð og nýbyggingu Sundhallarinnar sem lýtur að nýju kvenbúningsklefunum. Undir lok síðasta árs stóð loks til að hefja framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað farið þess á leit við borgar/skipulagsyfirvöld að konur fái aftur að nota að fullu kvennaaðstöðuna í eldri byggingunni um leið og hún er tilbúin. Til upprifjunar þá var konum úthýst úr kvennaklefa Sundhallarinnar og settar í klefa nýbyggingar þar sem þær þurfa að ganga í blautum sundfötum langa leið utandyra frá klefa í laug. Karlar héldu sínum. Hér er um lýðheilsumál að ræða. Að jafnrétti kynja var ekki gætt við hönnun og eru þessar breytingar ekki í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum. Mannréttindastjóri segir að „áður hafi konur ekki notið sömu þjónustu og karlar og fatlaðir ekki sömu þjónustu og ófatlaðir en nú uppfylli Sundhöllin mannréttindastefnu borgarinnar“. Fátt af þessu stenst reyndar. Hver var t.d. sú þjónusta sem karlar nutu í Sundhöllinni umfram konur? Að hvaða leyti var aðstaða fyrir konur lélegri en karla og er hún betri núna, og þá hvernig? Við þessum spurningum hafa ekki fengist svör.
Fundi slitið kl. 00:10
Forsetar gengu frá fundargerð
Pawel Bartoszek
Sabine Leskopf Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 16.2.2021 - prentvæn útgáfa