Borgarstjórn - 16.2.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 16. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarstjóra við tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að Reykjavíkurborg kaupi íbúakönnun Gallup, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. febrúar:

Borgarráð samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í samráði við fagsvið Reykjavíkurborgar að útfæra þjónustukönnun meðal borgarbúa með áherslu á notendur þjónustu og þjónustu í hverfum borgarinnar. 

Einnig er lagt fram minnisblað skrifstofu borgarstjóra og borgarritara dags. 8. febrúar 2016. 

- Kl. 14.07 tekur Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum. 

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ákvörðun um að kaupa ekki aðgang að þjónustukönnun Gallup að þessu sinni byggir á þeirri áralöngu reynslu að könnunin sem slík hefur ekki nýst til þess að bæta þjónustu borgarinnar. Reynt var að semja við Gallup um breytingar á fyrirkomulagi könnunarinnar á þann hátt að hún myndi nýtast Reykjavíkurborg betur til úrvinnslu og úrbóta á þjónustu sinni en þær viðræður báru ekki árangur. Meginmarkmiðið hlýtur að vera að verja fjármunum borgarinnar í gögn sem raunverulegra nýtast til úrbóta. Ofangreind leið er farin í þeim tilgangi að kanna betur viðhorf borgarbúa til þjónustu borgarinnar og sjá, með skýrum hætti, hvar brotalamir og úrbótatækifæri liggja. Niðurstöður könnunarinnar verða birtar opinberlega svo að allur almenningur geti glöggvað sig á þeim.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn breytingartillögu borgarstjóra um að í stað þess að Reykjavíkurborg kaupi íbúakönnun Gallup sem nær til 19 stærstu sveitarfélaga landsins verði framkvæmd sérstök könnun. Með samþykkt breytingartillögunnar hefur meirihluti Pírata, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar ákveðið að koma í veg fyrir að borgarbúar fái að vita hvernig Reykjavíkurborg stendur í samanburði við önnur sveitarfélög.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Það er mjög dapurt að meirihluti borgarstjórnar vilji ekki taka þátt í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins og horfast í augu við niðurstöður slíkrar könnunar og sjá hvernig borgin kemur út í samanburði við önnur sveitarfélög. Ekki verður séð að slík afneitun sé í anda yfirlýstrar stefnu meirihlutans að hlusta á alls konar raddir.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Í þeim tilgangi að tryggja að uppbygging í eldri hverfum verði á forsendum byggðarinnar og að gæði og útlit nýbygginga falli að mynstri nærliggjandi húsa og götumynda er lagt til að umhverfis- og skipulagsráð fái aukið hlutverk. Verkefni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar eru skilgreind í 3. grein samþykkta ráðsins. Lagt er til að við greinina bætist nýr töluliður sem verði svofelldur: Afgreiðir byggingarleyfisumsóknir í hverfum innan Hringbrautar og Snorrabrautar áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi. Sama á við um byggingarleyfisumsóknir vegna mannvirkja annars staðar í borginni sem hafa menningarsögulegt gildi.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

3. Fram fer umræða um barnalýðræði. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Eftirlit með framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá aðildarríkjum er í höndum barnaréttarnefndar og hefur hún meðal annars lagt áherslu á að íslenska ríkið dragi úr niðurskurði í mennta- og heilbrigðiskerfinu í kjölfar efnahagsbata og því má draga þá ályktun að sama hljóti að eiga við um sveitarfélögin. Ekki er annað hægt en að setja stórt spurningamerki við niðurskurð á skóla- og frístundasviði í ljósi þess að skólastjórnendur og foreldrafélög hafa lýst miklum áhyggjum yfir áhrifum þess niðurskurðar á skólastarf og sérkennslu barna sem á henni þurfa að halda. Ekki er hægt að sjá að sú ákvörðun hafi verið tekin með áhrifagreiningu á réttindi og þarfir barna í huga eins og lagt er til í skýrslu starfshóps í tilefni lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

4. Fram fer umræða um skýrslu starfshóps um heilsueflingu aldraðra.

5. Fram fer umræða um málefni Grafarholts og Úlfarsárdals.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Nauðsynlegt er að fjölga íbúðum í Úlfarsárdalnum. Hverfið er of lítið eins og það er. Til að takast á við húsnæðisvandann í borginni þarf borgin að geta úthlutað fjölbýlishúsalóðum en engri fjölbýlishúsalóð með fleiri en 5 íbúðum var úthlutað á síðasta ári. Þær lóðir sem verið er að byggja á eru í höndum annarra aðila og hæpið að þessir aðilar séu að fara byggja og selja litlar og ódýrar íbúðir. Þó það standi til að borgin úthluti á þessu og næstu misserum lóðum fyrir samtals 1200 íbúðir þá er það ekki nóg. Auk þess að það vantar um 700 félagslegar leiguíbúðir og um 1000 stúdentaíbúðir þá vantar íbúðir fyrir ákveðinn hóp fólks þar sem bæði húsnæðisverð og leiguverð á almenna markaðnum er of hátt t.d. ungt fólkt sem á ekki eigið fé og kemst ekki í gegnum greiðslumat en er að leigja á almenna markaðnum langt umfram greiðslugetu eða býr enn í foreldrahúsum eða ólöglegu húsnæði. Lausnin á vanda þeirra felst t.d. í því að kaupa búseturétt eða leigja hjá félagi sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða en þá þurfa að vera til lóðir fyrir slík félög. Því er nauðsynlegt að skipuleggja meiri byggð í Úlfarsárdal t.d. á svæðinu fyrir ofan Mímisbrunn. 

6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. febrúar 2016.

25. liður fundargerðarinnar frá 4. febrúar, breyting á samþykkt nr. 725/2007 um gatnagerðargjald varðandi heimild til að lána gatnagerðargjöld samþykktur með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Með því að afnema lánakjör borgarinnar á greiðslum byggingarréttar og gatnagerðargjalda sem staðið hafa einstaklingum og fyrirtækjum til boða í áratugi er verið að gera húsbyggjendum erfiðara fyrir og afnema þjónustu sem stendur til boða í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðmáli getur skipt fyrir fyrirtæki jafnt sem einstaklinga að eiga þess kost að fá hagstæð lán og fram til þessa hefur verið hægt að ganga að lánum vísum til átta ára fyrir 80% af þessum gjöldum. Fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu sýnir glögglega að Reykjavíkurborg stækkar mun hægar en nærliggjandi sveitarfélög. Frá árinu 2010 til ársins 2015 fjölgaði íbúum borgarinnar um 2,9% en þeim fjölgaði um 8,3% á sama tíma í öðrum sveitarfélögum á svæðinu. Lakari þjónusta og afnám lánafyrirgeiðslu í borginni er ekki til þess fallið að snúa við þeirri neikvæðu íbúaþróun fyrir Reykjavík. Engar haldbærar ástæður eru gefnar fyrir því að afnema lánakjör á greiðslum byggingarréttar og gatnagerðargjalda. 

26. liður fundargerðarinnar frá 4. febrúar, tillaga um lágmarksverð á byggingarrétti í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási samþykktur með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

27. liður fundargerðarinnar frá 4. febrúar, breyting á greiðslukjörum lögaðila við kaup á byggingarrétti á lóðum fyrir íbúðarhús samþykktur með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

28. liður fundargerðarinnar frá 4. febrúar, breyting á greiðsluskilmálum við sölu atvinnulóða samþykktur með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

4. liður fundargerðarinnar frá 11. febrúar, synjun á umsókn um breytingu á deiliskipulagi Guðrúnartúns 1, staðfest með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. febrúar:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina telja brýnt að endurnýjun á gervigrasvöllum í Reykjavík verði hraðað í því skyni að hætta sem fyrst notkun á svörtu úrgangsdekkjakurli (SBR) á yfirborði þeirra. Fyrirliggjandi áætlun staðfestir að borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna lítur ekki svo á að slík endurnýjun sé forgangsmál. Rétt er að vekja athygli á því að í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 25. nóvember sl. kemur fram mun eindregnari afstaða gegn því að svart úrgangsdekkjakurl verði notað sem fyllingarefni í gervigrasvelli í borginni en birtist í eldri umsögn eftirlitsins frá árinu 2010. Þá hafa ýmsir aðilar, t.d. Læknafélag Íslands, ítrekað varað við notkun úrgangsdekkjakurls og bent á að í því séu efni sem geti verið skaðleg heilsu manna, ekki síst barna og ungmenna. Einnig liggur nú fyrir Alþingi þingsályktunartillaga þingmanna allra flokka um bann við notkun gúmmíkurls á leik- og íþróttavöllum og að mótuð verði áætlun um að skipta gúmmíkurli úr dekkjum út fyrir hættuminni efni á þeim völlum, þar sem það er nú að finna, fyrir árslok 2016. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina ítreka þá tillögu sína að 3-4 gervigrasvellir verði endurnýjaðir á þessu ári og að forgangsröðun verkefna taki mið af því að hætta sem fyrst notkun á svörtu úrgangsdekkjakurli. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ekki viljað fallast á þessa tillögu en kýs að forgangsraða í þágu annarra verkefna, sem ekki eru aðkallandi en kosta mörg hundruð milljónir króna. Þar á meðal má nefna þrengingu Grensásvegar, viðbyggingu Grófarhúss og innanhússframkvæmdir í ráðhúsinu. Dagur B. Eggertson borgarstjóri hefur mánuðum saman hundsað óskir fulltrúa foreldra barna sem æfa knattspyrnu á dekkjakurlsvöllum, um að hitta þá til að fara yfir þetta mál og þau gögn sem þeir hafa aflað sér um skaðsemi SBR dekkjakurls. Borgarfulltrúar minnihlutans óska eindregið eftir því að borgarstjóri hitti umrædda foreldra sem fyrst og eru reiðubúnir til að hafa milligöngu um að koma slíkum fundi á ef á þarf að halda.

7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. febrúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 4. febrúar, mannréttindaráðs frá 9. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 8. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar og 10. febrúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 8. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. og 10. febrúar og velferðarráðs frá 4. febrúar. 

Fundi slitið kl. 21.37

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Sóley Tómasdóttir

Halldór Halldórsson Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 16.2.2016 - prentvæn útgáfa