Borgarstjórn - 1.6.2021

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 1. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Aron Leví Beck, Daníel Örn Arnarson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Elín Jónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kolbrún Baldursdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Nína Margrét Grímsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Pálsdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 354/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Pawel Bartoszek, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030. R21010263

-    Kl. 15:05 tekur Sabine Leskopf sæti á fundinum og Sigríður Arndís Jóhannesdóttir víkur.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Stefna um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík er unnin í góðri þverpólitískri sátt með miklu samráði við tónlistarskóla, skólahljómsveitir, sérfræðinga hjá borginni og fleiri. Henni er ætlað að vera upphaf að nýju blómaskeiði í reykvísku tónlistarlífi. Helstu markmið stefnunnar eru að auka aðgengi að tónlistarnámi, fjölga tækifærum og stuðla að jafnari dreifingu þeirra í hverfum borgarinnar. Hún tekur líka á aðstöðu skólahljómsveita en mikilvægt er að efla þær og taka til ítarlegrar athugunar að fjölga þeim. Þessi yfirgripsmikla stefna leggur áherslu á samstarf og samþættingu, fjölgun tækifæra og betri nýtingu á tækni og nýjungum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Almennt er þetta vel unnin stefna með mörgum góðum atriðum til bóta, t.a.m. fyrirætlanir um jafnt aðgengi barna og ungmenna að tónlistarnámi, eflingu kórastarfs í skólum, eflingu tónlistarstarfs í leikskólum, tillögur um fullorðinsfræðslu, aukna tækninotkun og bætta aðstöðu og búnað og almennt um samvinnu skóla, stofnana og sviða um málaflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að árangur náms og gæði þess í alþjóðlegu samhengi séu tryggð sem forgangsatriði í stefnunni. Þar mætti líta til uppbyggingar á starfsemi íþróttafélaga landsins þar sem í fyrsta sæti eru árangur og gæði íþróttastarfsins í alþjóðlegu samhengi. Afrakstur þeirrar stefnu hefur skilað sér í frábærum árangri ungs afreksfólks innanlands og alþjóðlega. Hér skortir viðmið þar sem afreksnemum í tónlist er tryggð námsþjálfun og áskoranir við hæfi. Í lokaorðum skýrslu stýrihópsins á bls. 28 segir að listir séu kenndar skv. tveimur skilgreindum meginviðhorfum, þ.e. samfélagsgildis – listmenntun undirbúi nemanda sem menningarlega upplýstan þátttakanda í samfélaginu og að menntun á sviði lista miði að því að skila menningarlífinu hæfum fagmönnum á sviði lista. Rökstyðja má að ef „afreksstefna“ er ekki rekin í tónlistarmenntun landsins með tilheyrandi umgjörð fækki hæfum fagmönnum á sviði lista og smám saman þurfi íslenskt samfélag að reiða sig á listamenn utan frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Börn í Reykjavík sitja ekki við sama borð í þessum efnum þar sem nám í tónlistarskóla er fokdýrt. Í þeirri stefnu sem hér er lögð á borð er lausnin að jöfnuði ekki nógu skýr. Í nýlegri skýrslu stýrihóps borgarinnar um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík var ekki fjallað um uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum og því voru ekki skoðaðar samhliða leiðir til að draga úr ójöfnuði þegar kemur að tækifærum til tónlistarnáms. Ójöfnuðurinn mun því halda áfram ef heldur sem horfir um ókomna tíð. Það sem þarf að gera og ekki er talað skýrt um í stefnunni er að færa tónlistarnám mun meira inn í skólana og að öll börn hafi jafnan aðgang að tónlistarskólum til að læra t.d. á þau hljóðfæri sem ekki er hægt að kenna á í grunnskólum. Ef horft er til skólahljómsveita þá gætu þær, væru þær í fleiri hverfum, verið mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Af 15.500 nemendum í Reykjavík eru um 700 börn í þeim fjórum skólahljómsveitum sem ætlað er að dekka 10 hverfi borgarinnar. Segja má að það sé útilokað að allir þeir nemendur sem þess óska rúmist í þessum fjórum hljómsveitum. 

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að farið verði í útboð vegna raforkukaupa, ljósastýringa og LED-ljósavæðingar borgarinnar. Um er að ræða innkaup sem nema hundruðum milljóna á ári, en nýlega hafa gengið úrskurðir um ólögmæti núverandi fyrirkomulags þar sem ljóst er að bjóða þarf út kaup á öllum þessum þáttum án tafar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060009

-    Kl. 16:05 víkur Daníel Örn Arnarson af fundinum og Ásta Þórdís Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

-    Kl. 16:25 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir víkur.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að farið verði í útboð vegna raforkukaupa, ljósastýringa og LED-ljósavæðingar borgarinnar. Um er að ræða innkaup sem nema hundruðum milljóna á ári, en nýlega hafa gengið úrskurðir um ólögmæti núverandi fyrirkomulags þar sem ljóst er að bjóða þarf út kaup á öllum þessum þáttum án tafar. Innkaupaskrifstofu verði falið að vinna útboðsgögn svo fljótt sem verða má. Raforkukaup verði boðin út strax í júní, en ljósastýringar og LED-lýsing verði boðin út fyrir septemberbyrjun. 

Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Ísland og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna: 

Borgarstjórn samþykkir að fela eftirtöldum aðilum eftirfarandi verkefni í tengslum við úrskurði kærunefndar útboðsmála nr. 1/2020 og 17/2020: Borgarlögmanni er falið að greina og leggja til viðbrögð við framangreindum úrskurðum. Innkaupastjóra er falið að skoða allar mögulegar leiðir til sparnaðar í þeim verkefnum sem varða annars vegar innkaup á raforku og hins vegar þjónustu við útskiptingu og uppsetningu LED-lampa í Reykjavík.

Breytingartillagan er samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Ísland, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Tillagan er samþykkt svo breytt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Ísland situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn hafa ítrekað bent á að hægt yrði að spara talsverðar upphæðir á ári hverju með því að bjóða út raforkukaup og tengda þjónustu. Á síðasta ári voru viðskipti samstæðu Reykjavíkurborgar við samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur 826 milljónir króna án útboðs. Nú hefur sannast að borgin er að brjóta lög með því að bjóða ekki út en áfrýjunarnefnd útboðsmála komst nýverið að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg beri að bjóða út kaup á raforku. Það gerði hún í kjölfar þess að Íslensk orkumiðlun kærði málið. Fulltrúar meirihlutans hafa barið hausnum við steininn í þessu máli lengi en þeir héldu því ranglega fram í kjölfar fyrirspurnar Sjálfstæðisflokks í innkauparáði frá 2018 að viðskipti Reykjavíkurborgar við Orkuveitu Reykjavíkur um raforkukaup félli hvorki undir ákvæði laga um opinber innkaup né innkaupareglur Reykjavíkurborgar. Fulltrúar meirihlutans fullyrtu ranglega á fundi ráðsins 13. desember 2018 að bókun Sjálfstæðisflokksins frá fundi innkauparáðs 29. nóvember 2018 um að borgin væri að brjóta lög um opinber innkaup og innkaupareglur Reykjavíkurborgar væru röng. Hér í dag fékk borgin tækifæri til að leiðrétta þennan ranga kúrs. Í staðinn er afneitun borgarstjórnarmeirihlutans alger þegar áfram er haldið að brjóta lög og reglur með því að fara ekki í útboð í þessum efnum án tafar. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Enn eitt hneykslið í útboðsmálum. Borgarstjóri og meirihlutinn viðurkenna ekki úrskurði áfrýjunarnefndar útboðsmála. Þau neita að hlýða ríkisvaldinu. Reykjavíkurborg er lægra sett stjórnvald og það er sorglegt þegar almennir borgarar og fyrirtæki hafa betur í lögbrotamálum borgarinnar að þá er svarið að drekkja viðkomandi í sínum eigin lögfræðiálitum í stað þess að viðurkenna og gangast við mistökum sínum. Hversu lengi er hægt að sitja undir þvælunni hjá þessu fólki? Reykjavíkurborg er ekki ríki í ríkinu. Borgarstjóra og meirihlutanum ber að fara að landslögum eins og öðrum. Lögfræðiálit borgarinnar hafa ekkert að segja þegar úrskurður eða dómar falla borgurum og fyrirtækjum í vil. Nákvæmlega ekkert. Kostnaður borgarinnar af því að tapa þeim málum fyrir kærunefnd úrskurðarmála sem hér eru til umræðu hleypur á milljónum á kostnað útsvarsgreiðenda. Það er döpur niðurstaða að í stað þess að samþykkja tillöguna samþykkti meirihlutinn alls óskylda breytingartillögu frá þeim sjálfum sem tekur ekki á lögbrotunum. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Alltaf er leitast við að fara vel með almannafé og fara að þeim reglum sem gilda hverju sinni. Ekki getur talist ábyrgt að kjörnir fulltrúar taki afdrifaríkar ákvarðarnir í kjölfar úrskurða sem birtir voru í síðustu viku án þess að hafa fengið álit frá lögfræðingum, frá innkaupasérfræðingum eða tæknisérfræðingum á afleiðingum þess fyrir hagsmuni Reykjavíkurborgar og samstæðunnar allrar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Innkaupamál á þessu og síðasta kjörtímabili hafa ekki verið í nógu góðu lagi. Borgaryfirvöld hafa ítrekað virt lög og reglur um opinber innkaup að vettugi og gengið til samninga án þess að útboð fari fram. Þá er rétt að minna á að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk. Reykjavíkurborg hefur þurft að borga milljónir í skaðabætur vegna brota af þessu tagi. Dæmi um þetta er þegar borgin braut gegn lagaskyldu sinni til útboðs með samningum við Orku náttúrunnar ohf. um LED-væðingu götulýsingar í borginni. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála, en auk tveggja milljóna króna stjórnvaldssektar lagði nefndin fyrir borgina að bjóða verkið út. Af hverju getur borgin ekki fylgt lögum og reglum í útboðsmálum? Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort stjórnendur þurfi kennslu í þessum efnum þar sem nýjar reglugerðir og lög eru kynnt svo og fjármálalæsi kennt. Það er líklega mun hagstæðara en að þurfa hvað eftir annað að greiða sektir sem skapast við slæma stjórnsýslu og laga- og reglugerðabrot Reykjavíkurborgar. Borgarbúar eiga að geta treyst því að stjórnvald eins og borgin fylgi lögum og reglum í hvívetna.

3.    Fram fer umræða um lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030. R19110027

-    Kl. 18:00 er gert fundarhlé. 

-    Kl. 18:25 er fundi fram haldið og hafa þá Alexandra Briem, Aron Leví Beck, Heiða Björg Hilmisdóttir og Hildur Björnsdóttir vikið af fundi og Rannveig Ernudóttir tekið sæti á fundinum og Skúli Helgason, Þorkell Heiðarsson og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tekið sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

-    Kl. 18:40 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Alexandra Briem tekur sæti á fundinum á ný.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Lýðheilsa og lífsgæði eru lykiláherslur í framtíðarsýn og áherslum borgarinnar á öllum sviðum. Það þýðir að Reykjavík á að vera sannkölluð heilsuborg, hvort sem litið er til hins andlega, líkamlega eða félagslega. Stefna Reykjavíkurborgar á sviði lýðheilsu er að fjölga æviárum þar sem íbúar búa við góða heilsu og vellíðan. Hún hefur það markmið að skapa umhverfi og aðstæður sem auka jöfnuð, heilsu og hamingju þannig að allir borgarbúar hafi tækifæri til að njóta lífsins í borg þar sem þeim finnst gott að búa í sátt og samlyndi. Áhersla er á forvarnir gegn hættu og vá en markið er sett hærra en að vera eingöngu laus við vandamál og hættu og áhersla lögð á heilsueflingu þar sem markmiðið er góð heilsa og vellíðan allra borgarbúa.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér er lögð fram af meirihlutanum til umræðu lýðheilsustefna Reykjavíkur til 2030. Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir og miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Farið er vítt og breitt í stefnunni með fögur fyrirheit. Ekki orð er um biðlista sem er rótgróið mein í Reykjavíkurborg. Hvergi er minnst á 1.033 börn sem bíða eftir að fá nauðsynlega aðstoð til að bæta líðan sína og hjálpa þeim með sértæk vandamál sín. Börn sem fá ekki nauðsynlega sálfræðiaðstoð eiga á hættu að þeim hraki. Með biðinni er heilsu þeirra ógnað, jafnvel til frambúðar. Hvergi er minnst á biðlista eldri borgara eftir þjónustu eða fatlaðs fólks eftir húsnæði. Útrýming á fátækt og að auka jöfnuð meðal barna í Reykjavík hefur heldur ekki fangað höfunda stefnunnar. Langir biðlistar, fátækt og ójöfnuður er stærsti lýðheilsuvandi þessarar borgar. Eins og fram kemur í nýrri skýrslu UNICEF er staðan verst hvað varðar þátttöku barna í tómstundum og er Ísland í 19. sæti af 31 Evrópulandi. Í stefnunni segir að reyna á að manna stöður leikskóla sem þessum meirihluta hefur ekki lánast að gera á þremur árum. Í borginni er vaxandi fátækt, vaxandi vanlíðan barna og biðlistar í sögulegu hámarki.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að gera átak í að jafna stöðu barna í íþrótta- og tómstundastarfi með því að beita sértækum aðgerðum, s.s. að boðið verði upp á fjölbreyttari úrræði í tómstundastarfi óháð fjárhag foreldra og að hagsmunir barna verði ávallt hafðir í forgangi við gerð fjárhagsáætlana Reykjavíkurborgar. Íslensk börn eiga síður kost á að taka þátt í tómstundastarfi en börn í öðrum Evrópulöndum. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri skýrslu UNICEF á Íslandi um efnislegan skort barna en hann mælist sjöundi minnsti í Evrópu. Staðan er verst hvað varðar þátttöku í tómstundum en 17% íslenskra barna mælast með skort á því sviði og Ísland er þar í 19. sæti af 31 Evrópulandi. Börn hafa ekki setið við sama borð lengi þegar kemur að jöfnum tækifærum til tómstunda í Reykjavík. Þetta má sjá í niðurstöðum rannsókna frá 2009, 2014 og 2018. Frístundakortið sem er sérstaklega ætlað til að auka jöfnuð og fjölbreytileika tómstundastarfs er ekki fullnýtt. Tilgangur þess eins og segir í 2. gr. í reglum um frístundakort er að öll börn, 6- 18 ára, í Reykjavík geti tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Reglur um frístundakort eru þess utan of stífar sem hindrar sum börn í njóta góðs af frístundakortinu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060010

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins lagði til að borgarstjórn samþykkti að gera átak í að jafna stöðu barna í íþrótta- og tómstundastarfi með því að beita sértækum aðgerðum, s.s. að boðið verði upp á fjölbreyttari úrræði í tómstundastarfi óháð fjárhag foreldra og að hagsmunir barna verði ávallt hafðir í forgangi við gerð fjárhagsáætlana Reykjavíkurborgar. Tillögunni er vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sem er sannarlega jákvæðara en ef tillagan hefði verið felld eða vísað frá. Það hljóta allir að vera sammála um að það er napurlegt að fá niðurstöður eins og þær sem birtar eru í skýrslu UNICEF sem gerði samanburð á efnislegum skorti barna í Evrópu. Staðan hér er verst hvað varðar þátttöku í tómstundum en 17% íslenskra barna mælast með skort á því sviði og Ísland er þar í 19. sæti af 31 Evrópulandi. Börn hafa ekki setið í mörg ár við sama borð þegar kemur að jöfnum tækifærum til tómstunda í Reykjavík. Þetta má sjá í niðurstöðum rannsókna frá 2009, 2014 og 2018. Hægt er að gera meira. Það væri t.d. svo sjálfsagt að létta enn frekar á reglum frístundakortsins svo hægt sé að nota það í styttri námskeið og þ.m.t. sumarnámskeið enda hentar það ekki öllum börnum að sækja tveggja mánaða námskeið. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Skýrsla UNICEF um réttindi barna sýnir að íslensk börn standa að mörgu leyti vel þegar kemur að efnislegum gæðum og aðgengi að menntun. En skýrslan sýnir líka að samanborið við mörg Evrópulönd skortir mörg íslensk börn tómstundastarf á borð við íþróttir, tónlist og annað barna- og unglingastarf. UNICEF nefnir nokkrar aðgerðir til að bæta úr þessu. Mikilvægt er að taka skýrsluna alvarlega. Notkun frístundakortsins meðal 6-18 ára barna í Reykjavík er mjög mikil, í sumum hverfum yfir 90%. Leitun er að annarri eins þátttöku. En þátttakan er mismikil eftir hverfum. Hún virðist vera minnst á heimilum þar sem atvinnuþátttaka er lítil og á heimilum þar sem eru mörg börn. Margt hefur verið gert undanfarin misseri í Reykjavík til að gera frístundastarfið aðgengilegra. Starfshópur skilaði í fyrra tillögum að breyttum reglum um notkun frístundakortsins og efnt var til tilraunaverkefnis í Breiðholti til að auka þátttökuhlutfall barna í frístundastarfi.

5.    Fram fer umræða um Fossvogsskóla. R19020180

-    Kl. 20:30 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson tekur sæti gegnum fjarfundarbúnað. 

-    Kl. 21:20 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti gegnum fjarfundabúnað. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma þau alvarlegu og viðvarandi vandamál sem upp hafa komið í húsnæði Fossvogsskóla. Foreldrar barna í skólanum hafa nú staðið í ágreiningi við Reykjavíkurborg yfir þriggja ára tímabil um heilsuspillandi ástand skólahúsnæðisins. Yfir lengri tíma hafa börn og starfsfólk upplifað alvarleg veikindi sem rekja má beint til ástandsins. Það er frumskylda borgarinnar að tryggja sérhverju grunnskólabarni heilnæmt skólahúsnæði. Sú frumskylda hefur ekki verið uppfyllt. Viðhaldi hefur verið stórlega ábótavant. Þrátt fyrir umfangsmikil fjárútlát við endurbætur skólans hefur viðeigandi árangri ekki verið náð. Nú er ljóst að endurnýja þarf skólann bæði að innan og utan að mestu leyti. Það er því ljóst að ekki verði kennt í skólanum næsta skólaár. Það er mikilvægt að fundin verði lausn með skólasamfélaginu þannig að börn úr Fossvogsskóla geti stundað nám í sínu nærumhverfi. Foreldrar hafa sýnt fádæma þolinmæði og verið samvinnufúsir um lausnir, en nú er þolinmæðin þrotin. Traustið er farið og óljóst hvenær börn geti aftur stundað nám í sínu hverfi. Ábyrgðin er borgarstjórnarmeirihlutans sem viðurkenndi ekki vandann þrátt fyrir ábendingar og viðvörunarorð. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ný úttekt á húsnæði Fossvogsskóla sýnir að grípa þarf til frekari aðgerða til að koma húsnæðinu í gott horf. Verkefnið snýst um að komast fyrir allan rakavanda og koma í veg fyrir samskonar rakavandamál í framtíðinni. Nú vinnur teymi með fulltrúum EFLU, VERKÍS og umhverfis- og skipulagssviðs að tillögum um aðgerðaáætlun með kostnaðarmati og er von á þeim niðurstöðum síðar í þessum mánuði. Fullur vilji er hjá meirihlutanum til þess að ráðast í þær framkvæmdir sem þarf til að koma húsnæði skólans í það horf að það fullnægi að fullu þeim kröfum sem gerðar eru til nútímalegs skóla- og frístundastarfs.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er þyngra en tárum taki hvernig meirihlutinn tekur á málefnum Fossvogsskóla í ljósi nýjustu upplýsinga. Engin samúð, engin eftirsjá, engin afsökunarbeiðni – bara hroki. Sökudólgur er fundinn út í bæ og bent í allar áttir. Það er aumkunarverður málatilbúnaður. Borgarstjóri er framkvæmdastjóri Reykjavíkur. Hann ber ábyrgðina en kýs að skýla sér á bak við embættismenn og starfsmenn borgarinnar. Það er heigulsskapur. Hugur minn er hjá börnunum, foreldrunum, kennurum og starfsmönnum Fossvogsskóla. Það verður þungur og erfiður vetur fyrir þau skólaárið 2021-2022 í allt öðrum skóla í allt öðru borgarhverfi. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Málefni Fossvogsskóla eru áfall. Meirihlutinn í borginni lagði mikið á sig til að sannfæra starfsfólk, foreldra og börn sem og alla borgarbúa að búið væri að komast fyrir myglu í Fossvogsskóla. Glænýjar, sláandi myndir eru nú birtar af loftræstikerfum í skólahúsnæðinu þar sem sjá má að inntak í loftræstikerfi skólans er þakið myglu en búið var að hylja hana með klæðningu. Enn og aftur er fullyrt af eftirlitsaðilum að búið væri að fara yfir loftræstikerfið. Annað hvort er eftirlitið gallað eða menn hafa vísvitandi horft fram hjá þessu nema hvort tveggja sé. Þarna hafa börn verið látin stunda nám við afar mengandi aðstæður. Ákalli var ekki sinnt. Borgarfulltrúa Flokks fólksins var úthúðað af heilbrigðiseftirlitinu í febrúar 2020 þegar sendar voru inn fyrirspurnir um málið. Var hann sakaður um dylgjur af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Svo mikið fyrir þær dylgjur þegar horft er til ástandsins nú. Kannski er ekki að vænta góðs þegar í svörum frá embættismönnum er farið fram með slíkum hroka þegar verið er að ganga erinda borgarbúa. Reynt var að þagga málið niður og sagt að viðgerð væri lokið. En hvar voru eftirlitsmennirnir? Nú er viðurkennt af meirihluta skóla- og frístundaráðs að bregðast hefði átt við fyrr og hlustað betur. En á ekkert að biðjast afsökunar?

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að gjald verði ekki innheimt fyrir sundferðir í sundlaugum borgarinnar hjá börnum og þeim borgarbúum sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri. Öryrkjar eru ekki gjaldskyldir gegn framvísun skírteinis gefið út af Sjálfsbjörgu, félagi fatlaðra í Reykjavík. Einnig eru þeir ekki gjaldskyldir sem framvísa skírteini Tryggingastofnunar ríkisins, „grænu skírteini“, vegna varanlegrar örorku, skírteini Blindrafélags, „bláu skírteini“, og umönnunarkorti, „gulu skírteini“, vegna sérstakrar umönnunar barns. Eldri borgarar og börn á aldrinum 0-5 ára eru ekki gjaldskyld í sundlaugum borgarinnar. Þá geta atvinnulausir Reykvíkingar og einstaklingar með tekjur fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg einnig fengið frían aðgang að sundlaugum borgarinnar. Lagt er til að Reykvíkingar sem fá endurhæfingarlífeyri verði undanþegnir því að greiða í sund sem og öll börn. Grunntekjur þeirra sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri eru almennt mjög lágar, sé litið til almannatryggingakerfisins, og á meðan staðan er slík er lagt til að gjald verði afnumið í sundlaugar borgarinnar fyrir þann hóp. Þá hafa börn að jafnaði engar tekjur og því er lagt til að gjaldtökunni verði breytt með þessum hætti. Íþrótta- og tómstundasviði verði falið að útfæra efni tillögunar með fjármála- og áhættustýringarsviði þannig að útkoman verði á sem aðgengilegastan máta fyrir borgarbúa.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060011

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Sund er ein allra ódýrasta tegund líkamsræktar sem völ er á. Sé miðað við 10 miða kort kostar hver sundferð 109 kr. fyrir börn og um 487 kr. fyrir fullorðna. Nokkrir hópar fá svo alfarið frítt í sund, t.d. ung börn, fólk eldra en 67 ára, öryrkjar, atvinnuleitendur og fleiri. Meirihlutinn hefur ekki áform á þessu kjörtímabili um að gera breytingar á fyrirkomulagi gjaldtöku á sundstöðum í þá veru að fjölga verulega þeim hópum sem fá ókeypis í sund. Tillagan er felld.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að fólk á endurhæfingarlífeyri fái frítt í sund og börn einnig að minnsta kosti fram að 12 ára aldri. Grunntekjur þeirra sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri eru almennt mjög lágar, sé litið til almannatryggingakerfisins. Í Reykjavíkurborg kostar 165 krónur fyrir börn 6-17 ára í sund. Sé litið til annarra sveitarfélaga varðandi börn og gjald í sund þá má sjá ýmsar útfærslur sem eru mun hagstæðari en í Reykjavík.

7.    Fram fer umræða um 10 milljarða fjárútlát þjónustu- og nýsköpunarsviðs á næstu þremur árum. R21060012

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ekki er lengur um það deilt að Reykjavíkurborg stendur aftarlega í stafrænum lausnum. Það þarf að bæta. Hér er hins vegar búið að ráðstafa 10 milljörðum án þess að fyrir liggi mælanleg markmið, ábatagreining eða mat á hagræðingu þessarar miklu fjárfestingar. Sporin hræða vegna fyrri verkefna. Mælaborð borgarinnar átti að vera stórt skref í að veita borgarbúum upplýsingar en nýjustu upplýsingar um fjármál eru frá árinu 2017. Mælaborð sem er með úreltum upplýsingum er gagnslaust. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Stafræn umbreyting snýst um nútímavæðingu þjónustu á forsendum íbúans með bættu aðgengi að þjónustu. Af þessu skapast mikið hagræði fyrir borgina, íbúa og umhverfið með minna veseni, minni mengun og minni sóun. Þetta er krafa nútímans og vegferð sem öll stærri fyrirtæki sem leggja áherslu á góða þjónustu eru á. Verkefnið er hluti af græna planinu þar sem stafrænni umbreytingu er hraðað og ráðist í verkefni á þremur árum sem hefðu ellegar tekið tíu ár.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki. Reykjavíkurborg er sveitarfélag sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber að halda uppi lögbundinni þjónustu og grunnþjónustu. Sú þjónusta er í molum. Áætlað er að 10 milljarðar fari á næstu þremur árum í „stafræna umbreytingu“. Á fundi borgarráðs þann 20. maí sl. voru kynnt verkefni fyrir 1,8 milljarð í ýmis misgáfuleg verkefni og öll lögð fram í trúnaði. Á fundi borgarráðs sem haldinn verður 3. júní nk. er óskað eftir heimild til að gangsetja stafræn þróunarteymi og hefja verkefni. Heimildin gengur út á 57 ný stöðugildi og verðmiðinn er 2,4 milljarður. Borgarstjóri er blindur af sjálfum sér og fullur hégóma því fyrir liggur að Reykjavíkurborg áætlar að gerast aðili að bandalaginu Cities Coalition for Digital Rights og að hann sjálfur verði fulltrúi Reykjavíkur í bandalaginu og sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs staðgengill hans. Hann vill dansa með borgarstjórum stórborga í heiminum. Verðmiðinn: 10 milljarðar. Greiðendur: Reykvíkingar. Staðreyndir: 34 milljarða rekstrarlán á árinu 2021. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Á þriggja ára tímabili fær þjónustu- og nýsköpunarsvið 10 milljarða til stafrænna umbreytinga. Á árunum áður hefur einnig miklu fjármagni verið veitt til sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins veit að upplýsingatæknimálin hafa verið í ólestri hjá borginni, einna helst öryggismálin. Kerfið þarfnast einföldunar. Athygli er vakin á hvernig farið er með fjármagnið, nánast af léttúð. Rauð ljós loga og bjöllur hringja. Fyrirspurnum er svarað með loðnum hætti og eru svör ótrúverðug. Vísbendingar eru um sóun og bruðl. Botnlausar greiðslur eru til ráðgjafafyrirtækja meðan fastir starfsmenn með langa starfsreynslu eru reknir. Undirrituð hefur haft afspurn af því að sá hluti húsnæðisins sem æðstu stjórnendur sviðsins hafa til umráða í Borgartúni hafi fengið endurnýjun umfram það sem gengur og gerist á öðrum sviðum. Ekki hefur verið sýnt fram á að 10 milljarðar skili þeim ávinningi sem sagt er. Markmið verkefna eru óljós, sbr. það sem er að gerast í hraðri uppsetningu á „hugbúnaðarhúsi“ eða „hugbúnaðarframleiðslueiningu“ sem verið er að búa til. Sviðið auglýsir nú eftir forriturum, grafískum hönnuðum, notendahönnuðum (sem eiga að fara að leggja stund á „notendarannsóknir“), endaprófurum, verkefnastjórnun og fleirum. Skoða þarf hvort þeir sem hafa verið ráðnir hafi farið í gegnum lögbundið ráðningarferli. Á stuttum tíma hafa meðallaun tölvunarfræðinga hjá Reykjavíkurborg hækkað.

8.    Lagt er til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í forsætisnefnd. R18060080

Samþykkt.

9.    Lagt er til að Sabine Leskopf taki sæti sem varamaður í stjórn SORPU bs. í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur. R18060111

Samþykkt.

10.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 20. maí. R21010001

- 12. liður fundargerðarinnar, gjaldskrá fyrir hundahald, er samþykktur. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R21050144

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðarinnar:

Reykjavíkurborg lækkar gjaldskrár sínar fyrir hundahald um allt að helming líkt og lagt var til með samþykkt um Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar. Eftir breytingarnar innheimtir borgin lægstu gjöldin fyrir hundahald á höfuðborgarsvæðinu og eykur um leið þjónustu sína við hunda og eigendur þeirra.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðarinnar:

Mikilvægt er að fyllsta öryggis sé gætt þegar hundar eru hafðir inn á veitingastöðum og börum. Rétt er að endurskoða skilyrði og reglur með hliðsjón af reynslu síðustu mánaða.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðarinnar:

Hundaeigendur eru einir látnir halda uppi dýraþjónustu í borginni með gjaldtöku fyrir að eiga hund. Þeim er skylt að greiða skráningargjald, 11.900 kr., eftirlitsgjald, 9.900 kr., og handsömunargjald sleppi hundur þeirra, kr. 30.200. Gjaldið hefur lækkað lítillega frá því í fyrra. Nú er verið að leggja lokahönd á nýja samþykkt þar sem fram kemur að um sé að ræða tilraunaverkefni. Til að sú lækkun á hundagjaldi haldist þurfa skráningar að tvöfaldast. Hér er verið að snúa upp á hendur hundaeigenda og gera þá ábyrga hverja fyrir öðrum. Þetta er eins og heilum skóla væri refsað ef einn brýtur af sér. Þvingun og kúgun kallar maður þetta öllu jafna. Enginn afsláttur er gefinn ef fólk á fleiri hunda og ekki er hægt að framselja leyfi. Komið er inn ákvæði um refsingar sé samþykktinni ekki fylgt, allt að fjögurra ára fangelsi. Hundaeigendur þurfa ekki á dýraþjónustu Reykjavíkur að halda. Hundaeigendur og hagsmunasamtök sjá um flest allt sem varðar hunda, t.d. fræðslu, og hundar sem týnast finnast iðulega fljótt eftir að hafa verið auglýstir á samfélagsmiðlum. Matvælastofnun sér um velferðina, þangað beinir fólk ábendingum sínum ef grunur er um illan aðbúnað hunds. Borgin kemur þar hvergi nærri. Borgin er ekki hundavinsamleg borg. Það litla sem hefur áunnist hefur þurft að grenja út.

11.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. maí, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 6. maí, skipulags- og samgönguráðs frá 26. maí, skóla- og frístundaráðs frá 11. og 25. maí, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. maí og velferðarráðs frá 19. maí. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs: 

Það er með eindæmum sérstakt að skóla- og frístundaráð skyldi nú ekki sjá sóma sinn í að samþykkja tillögu Flokks fólksins um að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Staðan í dag er sú að foreldrar barna sem fædd eru seint og jafnvel síðustu daga mánaðar sitja ekki við sama borð og foreldrar barna sem eru fædd fyrr í mánuðinum. Samkvæmt þessari tillögu skulu framlög hefjast í þeim mánuði sem barn er 9 mánaða en ekki skal miða við afmælisdag barns. Ástæða er sú að ef barn er fætt seint í mánuðinum fá foreldrar enga niðurgreiðslu á þeim mánuði. Um þetta munar auk þess sem fordæmi er fyrir þessu í öðrum sveitarfélögum sem miða niðurgreiðslu vegna dagforeldris við fæðingarmánuð barns en ekki fæðingardag. Að miða niðurgreiðslu við fæðingardag er ósanngjarnt. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum tekur undir þessa tillögu með þeim orðum að „Eðlilegt er að niðurgreiðslur vegna þjónustu við börn miðist við fæðingarmánuð en ekki fæðingardag. Kostnaður við tillöguna er óverulegur fyrir borgina en getur skipt miklu sérstaklega fyrir tekjulága foreldra.“ Hér hefði sannarlega verið lag fyrir meirihlutann í skóla- og frístundaráði að sýna sanngirni enda um réttlætismál að ræða.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Nú þegar er í gangi vinna á skóla- og frístundasviði þar sem öll gjaldskrármál sviðsins eru tekin saman og sett í samhengi. Í kjölfarið stendur til að ráðast í heildstæða endurskoðun á gjaldskrám sviðsins. Tillögunni var því vísað frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Þótt í gangi sé vinna á skóla- og frístundasviði þar sem öll gjaldskrármál sviðsins eru tekin saman og sett í samhengi er það hvorki ástæða né afsökun fyrir að samþykkja ekki tillögu Flokks fólksins um að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Eðlilegt er að niðurgreiðslur vegna þjónustu við börn miðist við fæðingarmánuð en ekki fæðingardag. Kostnaður við tillöguna er óverulegur fyrir borgina en getur skipt miklu máli sérstaklega fyrir tekjulága foreldra. Hér er um sanngirnismál að ræða.

Fundi slitið kl. 00:31

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson    Örn Þórðarson

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 1.6.2021 - Prentvæn útgáfa