Borgarstjórn - 16.12.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 16. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa allra flokka: 

Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á ríkisstjórnina að stækka griðasvæði hvala – hvalaskoðunarsvæði í Faxaflóa og minnir á að gríðarmiklir hagsmunir íslenskrar ferðaþjónustu eru að veði. Uppbygging hvalaskoðunarfyrirtækja við Gömlu höfnina hefur styrkt og eflt fyrirtæki og mannlíf á svæðinu, þar sem þúsundir ferðamanna leggja leið sína á svæðið og njóta þar afþreyingar og þjónustu með tilheyrandi tekjuauka fyrir þjónustuaðila og Reykjavíkurborg. 

- Kl. 14.22 tekur Kristín Soffía Jónsdóttir sæti á fundinum og Magnús Már Guðmundsson víkur af fundi.

Samþykkt.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon, situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Halldór Halldórsson, leggur fram svohljóðandi bókun: 

Undirritaður samþykkir tillögu um stækkun hvalaskoðunarsvæðis á þeim forsendum að hvalaskoðun er vaxandi atvinnugrein sem skilar sífellt auknum tekjum. Jafnframt styður hann hvalveiðar og telur að báðar atvinnugreinarnar geti þrifist hlið við hlið þó hvalaskoðunin sé að aukast og þurfi aukið rými.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að báðar atvinnugreinarnar, hvalveiðar og hvalaskoðun, nái að blómstra á Íslandi. Framsókn og flugvallarvinir samþykkja tillögu þessa þar sem áskorun sú sem hér liggur til samþykktar er þess efnis að réttur eins aðila útilokar ekki annan. Slíkt er ekki réttlætanlegt að gera nema að vísindalegar niðurstöður liggi til grundvallar slíkri útilokun. 

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Borgarstjórn samþykkir að efna til samkeppni meðal borgarbúa vegna alþjóðlega verkefnisins Intercultural cities. Samkeppnin felist í því að finna íslenska þýðingu á hugtakinu intercultural sem og slagorð sem notuð yrðu í tengslum við innlenda viðburði verkefnisins á vegum Reykjavíkurborgar. Mannréttindaskrifstofu verði falin útfærsla og framkvæmd samkeppninnar.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

3. Fram fer umræða um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um reglur um ívilnandi lóðaúthlutanir án greiðslna fyrir byggingarrétt, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. desember.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Húsnæðisstefna borgarinnar er frá árinu 2011 sem nú á að fara að vinna í samræmi við. Ýmsar forsendur hafa breyst frá þeim tíma, auk þess sem enn á eftir að útbúa ýmsar reglur til að koma í veg fyrir vandamál síðar meir. Þar á meðal að setja reglur um úthlutanir lóða til að gæta jafnræðis. Meirihluti sem ætlar að hafa hreinskilni og heiðarleika að leiðarljósi þar sem allir eiga að sitja við sama borð hlýtur að fagna tillögu um að gerðar séu reglur um ívilnandi lóðaúthlutanir án greiðslna fyrir byggingarrétt, þar sem óskýrleiki í þessum efnum er ætíð til þess fallinn að ala á tortryggni um ráðstöfun verðmæta borgarinnar.

4. Fram fer umræða um stöðu tónlistarskólanna í Reykjavík.

- Kl. 16.20 víkur S. Björn Blöndal af fundi og Ragnar Hansson tekur þar sæti. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Gjaldþrot blasir við tónlistarskólum í Reykjavíkurborg. Á undanförnum misserum hafa nemendur og starfsfólk þeirra tónlistarskóla sem hafa verið máttarstólpar íslensks tónlistarlífs búið við algjöra óvissu og mátt þola það að vita ekki hvort kennslu verði haldið áfram frá mánuði til mánaðar. Andvaraleysi meirihluta borgarstjórnar þegar kemur að tónlistarmenntun kemur fram í því að tónlistarskólum er búið rekstrarumhverfi sem er algjörlega óraunhæft. Það er skýr niðurstaða skýrsluhöfunda sem gerðu greiningu á fjárhagsvanda tónlistarskóla í Reykjavík á miðju þessu ári. Nú er staðan orðin það alvarleg að það þarf sérstakt átak til að endurreisa rekstur og liststarfsemi skólanna enda mun einföld hækkun framlaga til þeirra varla duga til að þeir nái fyrri styrk. Meirihluti borgarstjórnar hefur frá árinu 2011 gert tónlistarskólana að bitbeini í hörðum deilum við ríkið um það hvort ríki eða borg eigi að bera kostnað af framhaldsstigi tónlistarmenntunar. Slík framganga er algjörlega óábyrg. Orðalag samkomulags um eflingu tónlistarnáms sem undirritað var í maí 2011 gefur ekki tilefni til þeirrar túlkunar sem meirihluti borgarstjórnar hefur kosið að halda fram. Samkomulagið fjallar ekki um yfirtöku ríkisins á framlagi til framhaldsmenntunar í hljóðfæranámi og mið- og framhaldsstigi í söng heldur samþykkir ríkið aðkomu að kennslukostnaði og það orðalag er ekki hægt að túlka sem yfirtöku á öllum fjárframlögum til framhaldsstigsins. Áður en borgin neitar að greiða þann kostnað sem fellur til umfram framlag ríkisins ætti hún að skoða vel réttarstöðu sína enda ekki ólíklegt að málið fari fyrir dómstóla. Verst af öllu er það tjón sem unnið hefur verið á tónlistarlífi borgarinnar til framtíðar. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Vandi tónlistarskólanna í Reykjavík er alvarlegur. Greining á fjárhagsvanda þeirra var unnin sameiginlega af sérfræðingum Reykjavikurborgar og fulltrúa skólanna. Niðurstaða hennar er skýr: „Fjárhagsvandi tónlistarskólanna er til kominn vegna fyrirkomulagsins á framlögum vegna kennslu á miðstigi í söng og á framhaldsstigi í söng og hljóðfæraleik. Ástæður þess eru einkum þau að framlög ríkis (Jöfnunarsjóðs), sem eiga að standa undir kennslu- og stjórnunarkostnaði, eru föst upphæð.“ Fjárframlag ríkisins hefur ekki breyst þrátt fyrir nýja kjarasamninga og fjölgun nemenda. Þetta er rót vandans. Sú afstaða borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokkisins að taka málstað ríkisins í málinu í stað þess að standa með tónlistarskólum í Reykjavík og hagsmunum borgarbúa er sorgleg tilraun til að reyna að koma pólitísku höggi á meirihlutann í borgarstjórn en færir engan nær lausn málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Það er lýsandi fyrir þann mikla vanda sem tónlistarskólarnir standa frammi fyrir að meirihluti borgarstjórnar neitar að horfa í eigin barm og sinn þátt í því að þessi alvarlega staða er komin upp. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka málstað skólanna, tónlistarnema og tónlistarfólks. 

5. Fram fer umræða um íþrótta- og æskulýðsmál í Vesturbænum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Það svæði sem Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefur til umráða dugar ekki til að sinna núverandi þörf fyrir íþróttastarf barna og unglinga í Vesturbænum, hvað þá þeirri fjölgun sem fyrirsjáanleg er í hverfinu vegna þéttingar byggðar á næstu árum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja þunga áherslu á að lóðin Keilugrandi 1 (SÍF-reiturinn) verði skilgreind sem íþrótta- og útivistarsvæði og að hún verði öll nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum í samvinnu við Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Um leið og minnt er á samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs um málið á fundi þess 12. desember sl. er óskað eftir samstarfi við alla flokka í borgarstjórn um að umræddri lóð verði allri ráðstafað til íþrótta- og æskulýðsstarfs. Jafnframt að viðræður hefjist sem fyrst um samstarf KR og borgarinnar um skipulag og betrumbætur á núverandi svæði félagsins í samræmi við erindi þess sem tekið var fyrir á fundi borgarráðs 13. nóvember sl.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgin á fáar lausar lóðir í vesturhluta borgarinnar. Til stendur að þétta borgina töluvert án þess að hugað hafi verið að því hvar eigi að koma fyrir aðstöðu vegna æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs í póstnr. 101 og 107. Nauðsynlegt er að huga að aðstöðu til slíks til framtíðar áður en borgin ráðstafar lausum lóðum til 3ja aðila.

6. Fram fer umræða um reglur um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarfélög. 

- Kl. 19.45 víkur Skúli Helgason af fundi og Magnús Már Guðmundsson tekur þar sæti. 

7. Fram fer umræða um að bílastæðaréttindi núverandi íbúa séu tryggð áður en farið er í þéttingu byggðar í afmörkuðum hverfum. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að flýta verði vinnu við að móta aðgerðir til að tryggja að íbúar sem eiga réttmæta kröfu um að búa ekki við skerta aðkomu að bílastæðum njóti þeirra réttinda. Við þéttingu byggðar og með þeirri stefnu að bílastæði þurfi ekki að fylgja hverri íbúð verða til ólíkir hópar íbúa. Annars vegar þeir sem búa í húsnæði þar sem greidd hafa verið gjöld vegna gatnagerðar og þar á meðal bílastæða og ættu því að njóta þeirra réttinda fram yfir hinn hóp íbúa, sem býr í húsnæði þar sem afsláttur hefur verið gefinn af sömu gjöldum. Nú þegar hafa verið kynntar fyrir íbúum ákveðinna svæða tillögur um gjaldskyldu án þess að neitt bóli á hugmyndum að aðgerðum. Meira en ár er síðan tillaga þessa efnis var lögð fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, nánar tiltekið 26. nóvember 2013, og samþykkt samhljóða og því löngu tímabært að hugmyndir að aðgerðum fari að líta dagsins ljós.

8. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar sem halda skal þann 6. janúar 2015 með vísan til heimildar í 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 139/2011.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. desember. 

21. liður fundargerðarinnar frá 11. desember, viðaukar við fjárhagsáætlun 2014, samþykktur með 9 atkvæðum. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

10. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 12. desember.

3. liður, samþykkt fyrir öldungaráð Reykjavíkur, og 4. liður, samþykkt fyrir fjölmenningarráð Reykjavíkur, samþykktir með eftirfarandi breytingum:

1. mgr. 4. gr. samþykktar um öldungaráð Reykjavíkur, um skipan ráðsins, verður eftirfarandi: Öldungaráðið er skipað 5 fulltrúum og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs tvo fulltrúa og tvo til vara, Samtök aldraðra tilnefna einn fulltrúa og einn til vara og Félag eldri borgara tilnefnir tvo fulltrúa og tvo til vara. Borgarstjórn kýs formann ráðsins en öldungaráðið sjálft kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og borgarstjórnar.

1. mgr. 6. gr. samþykktar um öldungaráð Reykjavíkur, um boðun funda og fundarsköp, verður eftirfarandi: Öldungaráðið skal að jafnaði halda fund ársfjórðungslega auk opins fundar árlega með Borgarstjórn Reykjavíkur og hagsmunaaðilum. Formaður getur boðað til aukafunda eftir þörfum. Fella má niður fundi að sumarlagi. 

Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. nóvember, menningar- og ferðamálaráðs frá 8. desember, skóla- og frístundaráðs frá 3. og 10. desember, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 1. desember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. desember og velferðarráðs frá 4. desember. 

Fundi slitið kl. 21.29

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn Reykjavíkur 16.12.2014 - prentvæn útgáfa