Borgarstjórn - 16.1.2018

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 16. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Magnús Már Guðmundsson, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Samþykkt að taka umræðu um tilkynningar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um neysluvatn í Reykjavík á dagskrá. 

-    Kl. 14.11 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerði rétt með yfirlýsingu sinni í gær vegna jarðvegsmengunar í neysluvatni. Þar gætti eftirlitið ítrustu varúðar og fylgdi reglum þótt ólíklegt væri að fólki stæði hætta af. Útgáfa leiðbeininga til þeirra sem viðkvæmir eru um að sjóða vatn til neyslu er í samræmi við ákvæði reglugerðar sem við á þegar slík frávik sjást í mælingum. Það er svo hlutverk stjórnskipaðrar samstarfsnefndar um sóttvarnir sem hittist í morgun undir forystu sóttvarnarlæknis að skera úr um hreinleika vatnsins. Niðurstaðan var afgerandi, óhætt er að neyta vatns beint úr krananum. Áfram verða þó tekin sýni og fylgst með. Mengun neysluvatnsins átti sér stað vegna afar sérstakra veðurfarsaðstæðna þegar mikil rigning lagðist ofan á frosna jörð og yfirborðsvatn blandaðist saman við grunnvatn í borholum. Öll viljum við hafa öruggan aðgang að hreinu vatni. Eftirlitskerfið sem sett hefur verið upp og Heilbrigðiseftirlitið starfar samkvæmt endurspeglar einmitt mikla viðleitni til að tryggja það öryggi. 

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn Reykjavíkur felur borgarstjóra að óska eftir endurskoðun á samgöngusamningi ríkisins og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarstjórnar: 

Borgarstjórn Reykjavíkur felur borgarstjóra að óska eftir endurskoðun á samgöngusamningi ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi.

Tillaga að breytingu samþykkt. 

Samþykkt að vísa tillögunni svo breyttri til meðferðar borgarráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, sitja hjá við afgreiðsluna. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tilraunaverkefnið um eflingu almenningssamgangna gengur út á að ríkið greiði milljarð á ári til reksturs strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þó hafa umsamin framlög ríkisins verið skorin niður frá því að samningurinn var undirritaður árið 2012. Nú á sér stað milli ríkis og höfuðborgarsvæðisins umfangsmikið samstarf um samgöngur, þróun stofnvegakerfisins, þróun stofnleiða hjólreiða, þróun almenningssamgangna, þ.m.t. borgarlínu, og samstarf um sjálfbæra samgönguáætlun. Næsta stóra verkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er að ná samningum við ríkið um framkvæmd borgarlínu og önnur brýn verkefni í samgöngumálum svæðisins. Í því ljósi er sjálfsagt að vísa þessari tillögu til borgarráðs til frekari úrvinnslu. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggja fram svohljóðandi bókun: 

Eðlilegt hefði verið að afgreiða fyrirliggjandi tillögu í borgarstjórn en þess í stað kýs borgarstjórnarmeirihlutinn að vísa henni til borgarráðs í því skyni að drepa málinu á dreif. Ljóst er að borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna vilja ekki endurskoða umræddan samning með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í framkvæmdir á stofnbrautakerfinu með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi. Sem fyrr styðja fulltrúarnir að Reykvíkingar eigi val um ólíka samgöngukosti um leið og stuðlað er að auknu umferðaröryggi allra vegfarenda, hvort sem þeir nota almenningssamgöngur, bifreiðar, hjól eða tvo jafnfljóta.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun: 

Í umræðu um fyrirliggjandi tillögu hefur verið rætt um margvíslegar hliðar þess umferðarvanda sem höfuðborgarbúar búa við í dag.  Ég tel að núverandi meirihluti  beri, með aðgerðarleysi sínu um að fjölga ekki forgangsaksturleiðum Strætó, að miklu leyti ábyrgð á því ófremdarástandi sem nú ríkir á háannatímum í umferðinni í Reykjavík og að umferð hafi og sé að aukast inn í íbúahverfum.  Einhverskonar brella meirihlutans um borgarlínu, er í raun til þess eins fallin að reyna að breiða yfir aðgerðaleysi sitt og slá þannig ryki í augu þeirra íbúa sem enn bíða og vona að almenningssamgöngur verði bættar, á meðan nánast ekkert hefur verið gert til að fjölga forgangsakstursleiðum.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að reykvískum nemendum gefist kostur á að taka 8.-10. bekk grunnskólans á tveimur árum til að stuðla að sveigjanleika í skólastarfi og vali nemenda um námshraða. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að útfæra tillöguna í samráði við skólastjórnendur, kennara og námsráðgjafa. Auk þess verði sviðsstjóra falið að hefja viðræður og samráð við menntamálaráðuneytið um tillöguna og hvernig best verði að henni staðið.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að í ljósi starfsemi þeirrar sem Hjálpræðisherinn stendur fyrir og hefur staðið fyrir í Reykjavík í rúma öld verði samtökin undanþegin gatnagerðargjaldi og byggingarréttargjaldi vegna úthlutunar lóðar við Suðurlandsbraut 72-74.

Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar Vinstri grænna og Pírata gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa. 

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir samþykkja tillöguna enda er hún í samræmi við tillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn 18. október 2016.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samningar tókust milli Hjálpræðishersins og Reykjavíkurborgar um eðlilegt endurgjald með afslætti sem báðir aðilar voru sáttir við. Úthlutun lóðarinnar hefur þegar verið samþykkt í borgarráði. Meirihluti borgarstjórnar getur ekki stutt við það verklag að taka núna ákvörðun um algjöra niðurfellingu gjalda út frá tillögu sem vísar í mjög matskenndar forsendur en hvorki í lög né reglur. Þó hlýhugur í garð Hjálpræðishersins sé allra góðra gjalda verður, þá er líka mikilvægt að gæta að því að ákvarðanir um útdeilingu gæða séu teknar út frá almennum reglum en ekki hreinum geðþótta. Einnig er bent á að ekkert verður því til fyrirstöðu að styðja frekar við starfsemi Hjálpræðishersins á nýjum stað með öðrum hætti, sem betur samræmist þá reglum borgarinnar og stjórnsýsluhefðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggja fram svohljóðandi bókun:

Hjálpræðisherinn, sem er skráð trúfélag, hefur í meira en 120 ár staðið fyrir umfangsmikilli hjálpar- og góðgerðastarfsemi í Reykjavík. Samtökin hófu að veita heimilislausu fólki mat og húsaskjól auk margvíslegrar annarrar þjónustu löngu áður en eiginlegri velferðarþjónustu var komið á í borginni og hafa gert það með öflugum hætti allar götur síðan. Hjálpræðisherinn hyggst nú flytja á nýjan stað í borginni og efla um leið starfsemi sína. Í ljósi þessarar starfsemi er því rétt að samtökin verði undanþegin byggingarréttargjaldi og gatnagerðargjaldi vegna úthlutunar lóðar við Suðurlandsbraut 72-74. Við hörmum að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli kjósa að fella tillögu um að samtökin verði undanþegin slíkum gjöldum vegna umræddrar byggingar. 

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur fram svohljóðandi bókun: 

Ég kýs að sitja hjá í stað þess að samþykkja tillögu þessa. Ég tel að ekki eigi að vera svo einfalt að skráð trúfélög geti sótt afslátt af gjöldum eða fengið lóðir án greiðslu. Skoða verður þetta mál heildstætt. Vel getur verði að tækifæri séu í því að gera samninga við félög  um afslátt af gjöldum ef þau vilja taka þátt í að sinna verkefnum sem styðja borgarsamfélagið og verkefnin eru í takt við markmið og stefnu borgarinnar. Það að um skráð trúfélag sé að ræða getur ekki eitt og sér verið nóg. Betur færi á að horfa til þess hvaða samfélagsverkefnum félög muni þá sinna gegn slíkum afslætti eða undanþágum. 

-    Kl. 19.00 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Sabine Leskopf tekur sæti.

 

5.    Fram fer umræða um frásagnir íþróttakvenna vegna #metoo

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun: 

#metoo er kröftug vitundarvakning í samfélaginu um kynbundið ofbeldi, valdaójafnvægi, kynferðislega áreitni, kvenfyrirlitningu og misrétti sem konur verða fyrir í öllum starfsstéttum, á margvíslegum vettvangi og á öllum aldri. Nú síðast opinberuðu íþróttakonur sögur sínar undir myllumerkinu #jöfnumleikinn. Frásagnirnar eru sláandi og kalla á enn frekari viðbrögð og aðgerðir borgarinnar til að bregðast við þeirri mismunun, kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær verða fyrir á vettvangi íþróttafélaga sem borgin styrkir með myndarlegum hætti. Það er brýnt að borgin bjóði fram alla sína aðstoð og þekkingu til íþróttafélaganna og Íþróttabandalags Reykjavíkur til að ráðast að rót vandans og uppræta kynferðislega áreitni, kynferðislegt ofbeldi og hvers kyns meiðandi og niðurlægjandi menningu á vettvangi íþrótta og tómstunda í Reykjavík. Það er mikilvægt að greina umfang vandans, fara yfir viðbragðsáætlanir og gera tillögur til úrbóta og sinna skýru eftirliti. Flestöll íþróttafélög eru með siðareglur og jafnréttisstefnu og mörg hver með eineltisáætlanir en borgin verður að gera kröfu um að öll íþróttafélög hafi líka skýra verkferla um viðbrögð við ásökunum um kynferðislega áreitni eða ofbeldi. 

6.    Fram fer umræða um tilraunaverkefni um kynfræðslu í skóla- og frístundastarfi.

7.    Lagt til að fyrirhugaðri umræðu um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu verði frestað til næsta reglulega fundar borgarstjórnar.

Samþykkt. 

8.    Fram fer umræða um notkun stimpilklukku hjá borgarstarfsmönnum. 

9.    Fram fer umræða um málefni Grafarvogs. 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að borgaryfirvöld lyfti grettistaki í gangbrautagerð og málningu í Grafarvoginum, þá er mikilvægt að setja fram 5-10 ára áætlun um uppbyggingu er snýr að þjónustu og aðstöðu í Frístundagarðinum Gufunesbæ. Þá vona ég að nafnabreyting á Hallsvegi verði samþykkt á þessu kjörtímabili þannig að gatan beri nafn íþróttafélags hverfisins, Fjölnisbraut, en einhugur er í hverfisráðinu um þessa nafnabreytingu. Mikilvægt er að ákvörðun um sameiningu leikskóla í Grafarvoginum verði endurskoðuð og dregin til baka.

    

10.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 11. janúar 2018. 

- 24. liður fundargerðarinnar; útboð á endurskoðunarþjónustu fyrir Reykjavíkurborg samþykktur. 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, situr hjá við afgreiðslu málsins. 

11.    Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 12. janúar, fundargerð menningar- og ferðamálaráðs frá 8. janúar, fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 10. janúar og fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. janúar.

12.    Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:

Lagt er til að Reykjavíkurborg kaupi niðurgreindar niðurstöður fyrir Reykjavík úr árlegri þjónustukönnun Gallup.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Því miður kýs meirihlutinn í Reykjavík að þæfa þetta einfalda mál með því að vísa því til afgreiðslu borgarráðs í stað þess að afgreiða það hér og nú.  

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan er seint fram komin og ekki kostnaðarmetin. Fyrir nokkrum misserum var það niðurstaða starfshóps á vegum borgarráðs að til þess að borgin gæti raunverulega unnið með niðurstöður þjónustukannana, þá þyrftu spurningarnar að vera ítarlegar útfærðar. Hafa þjónustukannanir því verið útfærðar með öðrum og ítarlegri hætti en sveitarfélagakönnun Capacent/Gallup. Ekki er víst hvað hún býður upp á umfram þær kannanir sem nú þegar er unnið með innan borgarinnar og í raun lagðist starfshópurinn gegn því að borgin tæki þátt í könnunum Capacent/Gallup. Þess vegna er þessari tillögu vísað til borgarráðs til nánari skoðunar.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Ég samþykki ekki að fjármunum verði veitt í að kaupa þjónustukannanir eins og þessi tillaga fjallar um því ég tel að hún sé ekki það mælitæki sem Reykjavíkurborg þarf til að meta gæði þjónustunnar sem hún sem veitir.  Mikilvægt er að Reykjavíkurborg notfæri sér nútímalegri þjónustumælingar eins og stórborgir á við París og Stokkhólm gera, með svo kallaðri „secret shopper“ aðferð, en mörg stór þjónustufyrirtæki á Íslandi notast við slíkt. Ítrekað hefur það komið upp að t.d. mælingar fyrir kosningar gefa ekki rétta mynd af niðurstöðum þeirra og því ljóst að aðferðafræðin sem verið er að nota er barn síns tíma. Reykjavíkurborg hefur burði til að vera framsækin þegar kemur að því að sjá tækifærin sem felast í nútímalegum þjónustukönnunum. Ég samþykki því ekki þessa tillögu eða að henni verði vísað til borgarráðs til frekari meðferðar, en hvet meirihlutann til að taka tillit til þessarar bókunar við ákvörðunartöku um þjónustukönnunarkaup þannig að markmið með slíkum kaupum séu ljós og hvert skuli stefnt með þeim.

13.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Á síðasti ári heimilaði borgarráð kaup á 33 íbúðum, þ.m.t. gistiheimili, með þeim formerkjum að þær yrðu framleigðar til velferðarsviðs. Þessi kaup voru öll grundvölluð á samþykkt borgarráðs frá 31. ágúst 2017 þar sem skrifstofu eigna og atvinnuþróunar var falið að leita tímabundinna lausna til aukningar á félagslegu húsnæði í Reykjavík. Ég óska eftir að lagðir verði fram leigusamningar Reykjavíkurborgar og velferðarsviðs um þær íbúðir/húsnæðisúrræði sem keypt voru á árinu 2017. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvort að leiguverð sé ákvarðað með sama hætti á milli aðila (velferðarsviðs og skjólstæðings) eins og þegar um er að ræða samninga Félagsbústaða við skjólstæðinga velferðarsviðs og hvort að úthlutun íbúðanna fari fram á grundvelli reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sem upphaflega voru samþykktar á fundi félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar og borgarráðs í febrúar 2014. Þá óskast upplýst um skiptingu viðhalds- og framkvæmdakostnaðar á milli leigusala og leigutaka. Í síðasta lagi þá er það svo að eignirnar eru keyptar með þeim formerkjum að um tímabundna aðgerð sé að ræða og þá óska ég eftir skriflegri afstöðu borgarstjóra um hversu lengi hann telji að eignarhaldið muni vara. 

14.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Óskað er eftir að tekið verði saman yfirlit yfir hvaða forgangsakreinar strætó hafi verið gerðar á þessu kjörtímabili og því síðasta 2010-2014. Þá skal einnig tekið fram í yfirlitinu heildstætt hverjar forgangsakreinar strætó eru innan Reykjavíkur og hvar og hvenær þær voru teknar í notkun.

15.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Í grunnlýsingu vegna skuldabréfaútboðs Félagsbústaða sem birt var 5. janúar 2018, segir að félagið hafi keypt á árinu 2017 58 íbúðir og hafi samið um kaup á yfir 100 íbúðum sem afhentar verða á árinu 2018-2020. Þá er talið upp að íbúðum og búsetuúrræðum hafi fjölgað um 232 íbúðir frá 1.1.2013-30.9.2017. Þá er einnig skrifað þar að viðbúið sé að grípa verði til annarra lausna til að stækka safnið. Óskað er eftir yfirliti yfir þær 58 íbúðir sem keyptar voru á árinu 2017, sem og þær 232 íbúðir sem keyptar hafa verið á ofangreindu 5 ára tímabili. Þá er óskað eftir skriflegu svari um til hvaða annarra lausna Félagsbústaðir séu að horfa svo að hægt sé að stækka eignasafnið.

16.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Í fundargerð endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar frá 27. nóvember 2017 kemur fram að lögð hafi verið fram svör við fyrirspurn endurskoðunarnefndar um viðbrögð stjórnenda við ábendingum ytri endurskoðanda í tengslum við endurskoðun. Óskast þessi svör afhent borgarfulltrúanum.

17.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Samkvæmt fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 12. desember 2017 er samþykkt að fara í örútboðsferli um kaup á nýjum strætisvögnum í samræmi við fjárhagsáætlun ársins 2018. Óskað er eftir að lögð verði fram staðfesting á hvort að tryggt verði að þeir strætisvagnar sem verða keyptir, séu umhverfisvænir, þ.e.a.s. vetnisvagnar eða rafvagnar, en keyri ekki á bensíni eða dísel.

Fundi slitið kl. 22.20

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Kristín Soffía Jónsdóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 16.1.2017 - Prentvæn útgáfa