Borgarstjórn - 16.1.2003

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2003, fimmtudaginn 16. janúar, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Árni Þór Sigurðsson, Anna Kristinsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar lagði forseti til að fundargerð borgarráðs frá 15. janúar yrði tekin inn á dagskrá sem 3. liður. Samþykkt með samhljóða atkvæðum.

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 7. janúar.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 14. janúar.

Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu undir 17. lið:

Með vísan til samþykktar borgarráðs á innkaupastefnu Reykjavíkurborgar, innkaupareglum og samþykkt fyrir Innkaupastofnun Reykjavíkur samþykkir borgarstjórn að frá og með 1. febrúar 2003 falli úr gildi samþykkt fyrir Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar frá 1. apríl 1976, sbr. einnig samþykkt borgarráðs frá 27. júní 1995 og síðari breytingar. Frá sama tíma falli niður umboð stjórnar Innkaupastofnunar sem kosin var á fundi borgarstjórnar 20. júní sl. Gildistaka innkaupastefnu Reykjavíkur-borgar, innkaupareglna og samþykktar fyrir Innkaupastofnun Reykjavíkur frestist til sama tíma.

Tillagan samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum. 17. liður fundargerðarinnar, samþykkt fyrir Innkauparáð, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. Forseti tilkynnti að 16. lið fundargerðarinnar, svar við fyrirspurn varðandi borgarendurskoðun, væri frestað þar til síðar á fundinum.

Þá var gengið til atkvæða um 4. lið fundargerðarinnar. Beiðni borgarstjóra um lausn frá störfum samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum. Tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista um ráðningu Þórólfs Árnasonar í starf borgarstjóra samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum. Tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista um kosningu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í borgarráð og Ingbjargar Sólrúnar Gísladóttur til vara, samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.

8. liður fundargerðarinnar, breytingar á samþykkt um takmörkun búfjárhalds og bann við lausagöngu búfjár í Reykjavík, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 15. janúar.

- Kl. 15.09 vék Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Kolbeinn Óttarsson Proppé tók þar sæti. Jafnframt vék Stefán Jón Hafstein af fundi og Helgi Hjörvar tók þar sæti. - Kl. 15.52 tók Stefán Jón Hafstein sæti á fundinum og Helgi Hjörvar vék af fundi. - Kl. 17.20 vék Stefán Jón Hafstein af fundi og Helgi Hjörvar tók þar sæti. - Kl. 17.31 tók Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum og Kolbeinn Óttarsson Proppé vék af fundi.

Björk Vilhelmsdóttir tilkynnti að hún gerist meðflutningsmaður tillögu Árna Þórs Sigurðssonar og Ólafs F. Magnússonar varðandi ábyrgð á lánum vegna Kárahnjúkavirkjunar, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs 14. janúar.

- Kl. 18.31 var gert hlé á fundi. - Kl. 18.54 var fundi fram haldið og tók þá Stefán Jón Hafstein sæti á fundinum og Helgi Hjörvar vék af fundi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks eru samþykkir því, að veitt sé ábyrgð af hálfu Reykjavíkurborgar á lántöku Landsvirkjunar vegna Kárahnjúka-virkjunar og vilja af því tilefni árétta eftirfarandi fjögur atriði: 1. Af hálfu Landsvirkjunar hefur málið verið undirbúið af kostgæfni og öll gögn varðandi það kynnt borgarfulltrúum. Trúnaðarmenn eigenda Landsvirkjunar hafa lagt mat á forsendur Landsvirkjunar fyrir arðsemi framkvæmdanna og áhættu eigenda vegna ábyrgða þeirra. Þeir hafa staðfest, að áætluð arðsemi eigin fjár er 11% og hættan á að ábyrgðir falli á eigendur sáralítil ef nokkur. 2. Eignahlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun verður verðmeiri vegna þessarar framkvæmdar, sem styrkir lánstraust borgarinnar. Sýnt hefur verið fram á að þjóðhagsleg hagkvæmni framkvæmdanna er mikil, ekki síst fyrir byggðirnar á Austurlandi. 3. Alcoa er öflugasta álfyrirtæki heims. Stjórnendur þess hafa lagt áherslu á umhverfissjónarmið við rekstur verksmiðjunnar og að koma í veg fyrir mengun frá henni á Reyðarfirði. 4. Ítarlegar rannsóknir búa að baki framkvæmdum við Kárahnjúka og við undirbúning virkjunarinnar hefur verið farið að lögum um umhverfismat og ríkt tillit tekið til allra krafna í því efni. Milli 60 og 70 ferkílómetrar lands fara undir lón vegna virkjunarinnar. Vegna nýrra vega og annarra mannvirkja er líklegt að fleiri muni njóta þessa svæðis og náttúrufegurðar þar en ella væri. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa vantrausti á framgöngu R-listans í þessu máli. Vegna innbyrðis sundurlyndis er hann ófær um að gæta hagsmuna Reykvíkinga í stærsta máli í borgarstjórn á síðari tímum. Afstaða R-listans sýnir í hnotskurn stjórnleysið í Borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Hún ákvað að greiða atkvæði með ábyrgðinni, þegar ljóst var að meirihluti borgarstjórnar styddi erindi Landsvirkjunar. Hag Reykjavíkurborgar er meiri hætta búin af stjórnleysinu undir R-listanum en af því að axla þessa ábyrgð vegna lántöku Landsvirkjunar. Nafnakall fór fram um tillögu Árna Þórs Sigurðssonar, Ólafs F. Magnússonar og Bjarkar Vilhelmsdóttur, þar sem lagt er til að Reykjavíkurborg ábyrgist ekki lán vegna Kárahnjúkavirkjunar, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs 14. janúar. Já sögðu: Björk Vilhelmsdóttir, Ólafur F. Magnússon, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson. Nei sögðu: Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kjartan Magnússon, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Alfreð Þorsteinsson og Anna Kristinsdóttir. Atkvæði greiddi ekki Dagur B. Eggertsson.

Björk Vilhelmsdóttir og Árni Þór Sigurðsson óskuðu bókað:

Við teljum að Reykjavíkurborg geti ekki gengist í ábyrgð fyrir lántökum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Kárahnjúkavirkjun hefur gríðarleg og óafturkræf áhrif á náttúruna sem kemur í veg fyrir að komandi kynslóðir fái að njóta og nýta þessa auðlind í sátt við umhverfið. Náttúruspjöllin og þau efnahagslegu áhrif sem af framkvæmdunum hlytust er í algerri andstöðu við sjálfbæra þróun sem við vinnum eftir.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Með því að að samþykkja að Reykjavíkurborg ábyrgist lán Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar eru kjörnir fulltrúar Reykavíkinga að bregðast umbjóðendum sínum og skuldsetja Reykjavíkurborg umfram heildareignir vegna mjög áhættusamrar framkvæmdar. Kárahnjúkavirkjun er framkvæmd sem felur í sér gríðarleg spjöll á náttúruperlum íslenska hálendisins og sker í sundur stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Víðtæk umhverfisáhrif virkjunarinnar eru ein og sér næg ástæða til að hafna henni, hvað þá að hún sé niðurgreidd af Reykvíkingum og öðrum landsmönnum. Þeir kjörnu fulltrúar sem bera ábyrgð á því að ráðist verði í Kárahnjúkavirkjun eru að svipta komandi kynslóðir á Íslandi verðmætum sem þær eiga rétt á. Það verður seint fyrirgefið.

Nafnakall fór fram um tillögu borgarstjóra um staðfestingu ábyrgðar Reykjavíkurborgar á lántökum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Já sögðu: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Alfreð Þorsteinsson, Anna Kristinsdóttir, Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Kjartan Magnússon. Nei sögðu: Björk Vilhelmsdóttir, Ólafur F. Magnússon, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson. Atkvæði greiddi ekki Dagur B. Eggertsson.

Borgarstjóri óskaði bókað:

Niðurstaða mín í þessu máli byggist á ítarlegri skoðun á málavöxtum, ekki síst á athugun þriggja sérfræðinga, sem eigendur fólu að fara yfir mat á arðsemi og fjárhagslegri áhættu vegna verkefnisins. Nefndin telur arðsemismat Landsvirkjunar á verkefninu vel rökstutt. Telur nefndin 74-79% líkur á að arðsemi virkjunarinnar verði hærri en veginn fjármagnskostnaður verkefnisins en líkur á að arðsemi verði lægri en lánsvextir eru metnar 1%. Í öllum reiknuðum tilvikum skilaði verkefnið jákvæðri ávöxtun eigin fjár. Samkvæmt samningi iðnaðarráðherra, borgarstjóra og bæjarstjórans á Akureyri frá 28. október 1996 er að því stefnt að arðgjöf af því fé, sem í Landsvirkjun er bundið, verði að jafnaði 5-6% á ári. Fátt bendir til annars en að þetta markmið náist í fyrirhuguðum framkvæmdum. Eigendanefndin telur mjög litlar líkur á að á ábyrgð eigenda reyni, þótt aldrei sé hægt að útiloka það. Mín afstaða hefur alltaf verið sú að á vettvangi Borgarstjórnar Reykjavíkur bæri að taka afstöðu til þessa máls út frá arðsemi verkefnisins fyrir fyrirtækið og með tilliti til mats á hættunni á því að á ábyrgð eigenda reyni. Það þýðir ekki að ég sé sátt við núverandi fyrirkomulag á ábyrgðum Reykjavíkurborgar á áhættufjárfestingum tengdum stóriðju. Í ofan-greindum samningi segir að eignaraðilar séu sammála um að fyrir 1. janúar 2004 skuli fara fram endurskoðun á sameignarsamningi fyrirtækisins, þ.m.t. á því hvort ástæða sé til að stofna hlutafélag um Landsvirkjun. Í maí 2000 ákvað iðnaðarráðherra að skipa sex manna viðræðunefnd til að endurskoða samninginn, en sú nefnd hefur aldrei verið kölluð saman þrátt fyrir eftirrekstur borgarinnar. Ég legg áherslu á að nefndin verði kölluð til starfa og að unnið verði að því að Reykjavíkurborg losni undan ótakmörkuðum ábyrgðum á öllum skuldbindingum Landsvirkjunar, hvort heldur sem það er með því að borgin losi um eignarhluta sinn í fyrirtækinu eða á annan hátt. Dagur B. Eggertsson óskaði bókað:

Ég get ekki stutt umbeðna ábyrgð. Til þess er hún of há og arðsemin umdeilanleg. Ég tel Borgarstjórn Reykjavíkur hins vegar ekki eiga að bregða fæti fyrir málið sem er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Rétt væri að verða við sanngjörnum óskum borgarinnar um að losa hlut hennar í Landsvirkjun. Ríkissjóður á einn að axla ábyrgðir vegna Kárahnjúkavirkjunar. Ég sit hjá.

Stefán Jón Hafstein óskaði bókað:

Ég er hluti af því landi sem nú á að fórna og það er hluti af þeim manni sem ég vil vera. Þau náttúruspjöll sem leiða af Kárahnjúkavirkjun nægja til þess að ég vil ekki axla fjárhagslega eða siðferðislega ábyrgð á framkvæmd sem ríkisstjórnin á með réttu að bera að fullu. Að öðru leyti vísa ég í málflutning minn hér í dag. Ég segi nei.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir óskaði bókað:

Með vísan í ræðu mína hér á fundinum og verulegra athugasemda um forsendur arðsemismatsins vil ég gera svohljóðandi grein fyrir atkvæði mínu. Eftir að hafa yfirfarið öll gögn málsins, vegið þau og metið eru efin í málinu einfaldlega of mörg. Með hagsmuni Reykvíkinga í huga, þá hagsmuni sem ég var kjörin til að gæta, segi ég nei við tillögu um að Reykjavíkurborg gangist í ábyrgð vegna virkjunar við Kárahnjúka.

4. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 8. janúar.

5. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 30. desember. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

6. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 9. janúar.

7. Lagður fram 17. liður fundargerðar borgarráðs frá 17. desember, málefni Borgarendurskoðunar; frestað á fundi borgarstjórnar 19. desember. Jafnframt lagður fram 16. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar, frestað fyrr á fundinum. Samþykkt með samhljóða atkvæðum að fresta dagskrárliðnum.

Fundi slitið kl. 19.56.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Árni Þór Sigurðsson
Anna Kristinsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson