Borgarstjórn - 15.9.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 15. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Greta Björg Egilsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um samgöngumál. 

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa: 

Borgarstjórn samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Brýnt er að taka afstöðu gegn þeim mannréttindabrotum sem ríkisstjórn Ísraels stendur fyrir á landsvæði Palestínumanna og þrýsta á um að látið verði af hernáminu. Rétt er að árétta að með samþykkt tillögunnar er sett fordæmi fyrir sambærilegum þrýstingi á aðrar ríkisstjórnir sem ekki virða mannréttindi eða fullveldi annarra ríkja. Almenn ákvæði um mannréttindasjónarmið í innkaupastefnu borgarinnar ættu þó að tryggja sanngjarna viðskiptahætti, svo ekki þyrfti að taka afstöðu með jafn afmörkuðum hætti og hér er gert.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka eindregna afstöðu gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eru framin í heiminum. Fulltrúarnir skilja og taka undir samúð Bjarkar Vilhelmsdóttur með hörmulegum aðstæðum og erfiðleikum fólks í Palestínu. Ekki er þó hægt að taka undir þá tillögu sem fyrir liggur enda ekki sannfærandi rök um að inngrip af þessu tagi skili miklum árangri. Innkaupabann mun engin áhrif hafa í Palestínu. Allra síst mun innkaupabann á vörur frá Ísrael í Reykjavíkurborg hafa áhrif á stöðu íbúa Palestínu til hins betra. Reynslan sýnir að slíkar aðgerðir loka á samskipti og útiloka farsælar lausnir. Lengi hefur verið sú hefð í borgarstjórn að fráfarandi borgarfulltrúi flytji kveðjutillögu á sínum síðasta fundi. Hefur tillagan þá verið borin undir alla borgarfulltrúa og leitað samkomulags. Því var ekki að heilsa í þetta sinn og er það miður að þannig hafi verið staðið að tillögunni. Þess er saknað að tillaga borgarfulltrúans tengist ekki velferðarmálum, þar sem mikilla umbóta er þörf, eins og borgarfulltrúinn hefur tjáð sig um nýlega. Björk Vilhelmsdóttir á að baki langa setu í borgarstjórn og býr yfir mikilli þekkingu á sviði velferðarmála en þeim hefur hún stýrt í mörg ár sem formaður velferðarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka góða samfylgd og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. 

3. Lagt er til að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti Bjarkar Vilhelmsdóttur í borgarráði. 

Samþykkt. 

4. Lagt er til að Sverrir Bollason taki sæti Kristínar Soffíu Jónsdóttur í umhverfis- og skipulagsráði. Einnig er lagt til að Kristín Soffía taki sæti Evu Indriðadóttur sem varamaður í ráðinu.

Samþykkt. 

5. Lagt er til að Eva Baldursdóttir taki sæti Heiðu Bjargar Hilmisdóttur í stjórnkerfis- og lýðræðisráði.

Samþykkt. 

6. Lagt er til að Margrét Norðdahl taki sæti Dóru Magnúsdóttur í menningar- og ferðamálaráði. Einnig er lagt til að Eva Indriðadóttir taki sæti Margrétar Norðdahl sem varamaður í ráðinu. 

Samþykkt. 

7. Lagt er til að Dóra Magnúsdóttir taki sæti Evu Baldursdóttur í íþrótta- og tómstundaráði.

Samþykkt. 

8. Lagt er til að Haraldur Karlsson taki sæti Sævars Jökuls Björnssonar sem varamaður í hverfisráði Grafarvogs.

Samþykkt. 

9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. september. 

18. liður fundargerðarinnar frá 3. september; rafræn gagnagátt um fjármál Reykjavíkurborgar samþykktur. 

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn fagnar því að vinna við innleiðingu rafrænnar gagnagáttar um fjármál Reykjavíkurborgar sé komin á þann stað að fyrir liggi tímasettar og kostnaðarmetnar tillögur um hvernig standa eigi að henni, sem og opnun gagna borgarinnar almennt. Málið á rætur sínar að rekja til tillögu Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var einróma á fundi borgarstjórnar 2. október 2012 en á þessu kjörtímabili hefur því verið fylgt eftir í stjórnkerfis- og lýðræðisráði. Gagnsæi í rekstri borgarinnar hjálpar til við skilvirka stjórn hennar sem og gefur almenningi færi á að veita henni aðhald og er því mikilvægur liður í þeirri rekstrarhagræðingu sem borgin stendur frammi fyrir. Tillögurnar eru jafnframt í fullu samræmi við það markmið um opin gögn sem finna má í nýrri upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarráði á fundi þess þann 9. júlí síðastliðinn. Mælst er til að fjármálaskrifstofa leiti leiða til þess að inna verkefni sem skapast vegna tillagnanna af hendi með sem hagkvæmustum hætti.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. september: 

Framsókn og flugvallarvinir hafa ítrekað bent á að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul sé ekki fullkláruð miðað við það leiðbeiningarefni sem fylgir viðauka 14 frá Alþjóðaflugmálastofnuninni og fram kemur í íslenskri reglugerð nr 464/2007. Það hljóta allir að telja að það sé grundvallaratriði að úrvinnsla sem varðar flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti eins og er krafa öryggisnefndar félags íslenskra atvinnuflugmanna. Í nýsamþykktri upplýsingastefnu borgarinnar segir að ákvarðanir þurfi að byggjast á bestu fáanlegu upplýsingum og almenningur og aðrir hagsmunaaðilar þurfi að vera vel upplýstir um ákvarðanir og forsendur þeirra. Það er því krafa okkar Framsóknar og flugvallarvina að borgaryfirvöld einsetji sér í samræmi við upplýsingastefnuna að tryggja að bestu fáanlegu upplýsingar séu uppi á borðinu þegar ákvarðanir eru teknar í tengslum við Reykjavíkurflugvöll í heild sinni. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. september:

Öryggisúttekt Isavia um lokun þriðju brautarinnar dregur fram að óhætt er að loka brautinni þegar horft er til viðmiða Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO). Notkunarstuðull reiknast 97% en alþjóðlegt viðmið er að hann eigi ekki að fara niður fyrir 95%. Þegar metnar eru raunverulegar aðstæður, byggt á nákvæmum vindmælingum, ástandi flugbrautar, skyggni og skýjahæð og raunverulegri notkun í innanlandsflugi og sjúkraflugi er nýting vallarins miðað við að þriðju brautinni sé lokað enn betri, eða vel yfir 98%. Lækkun nýtingar vegna lokunar þriðju brautarinnar reiknast um 0,6%. Öryggisúttektin sýnir þannig fram á að ljóst er að með mildunarráðstöfunum er ásættanlegt að loka þriðju brautinni. Mikilvægt er að það gangi eftir, í samræmi við samninga ríkis og borgar þar um á undanförnum árum, nú síðast samningi Reykjavíkurborgar og ríkisins sem samþykktur var einróma í borgarráði þann 31. október 2013.

10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 11. september, mannréttindaráðs frá 8. september, skóla- og frístundaráðs frá 9. september, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 7. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. september og velferðarráðs frá 27. ágúst.

11. Lögð fram lausnarbeiðni Bjarkar Vilhelmsdóttur, dags. 11. september 2015.

Samþykkt með 14 atkvæðum gegn 1 atkvæði Áslaugar Maríu Friðriksdóttur. 

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn þakkar Björk Vilhelmsdóttur fyrir framlag hennar til borgarstjórnar og borgarinnar undanfarin 13 ár. Áhrifa Bjarkar mun gæta hér í Reykjavík um ókomin ár, en ekki síður í þeim verkefnum sem hún mun takast á hendur í framhaldinu og óskum við henni velfarnaðar í þeim.

Fundi slitið kl. 18.55.

Sóley Tómasdóttir

Halldór Halldórsson Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.9.2015 - prentvæn útgáfa