No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2018, þriðjudaginn 15. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Magnús Már Guðmundsson, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Björn Gíslason og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagður fram til síðari umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 (A- og B-hluti), sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 8. maí 2018. Jafnframt er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2017, verkstöðuskýrsla vegna nýframkvæmda 2017 og ábyrgða- og skuldbindingayfirlit fyrir Reykjavíkurborg, skv. reglugerð 1212/2015, endurskoðunarskýrsla KPMG, dags. í apríl 2018, og skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. í apríl 2018. Einnig eru lögð fram svör fjármálaskrifstofu við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, dags. 14. maí 2018, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 8. maí 2018. R17010090
- Kl. 15:20 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Magnús Már Guðmundsson víkur.
- Kl. 16:17 tekur Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir sæti á fundinum og Jóna Björg Sætran víkur.
Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 samþykktur.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Rekstur samstæðu Reykjavíkurborgar gekk afar vel í fyrra þar sem samstæða borgarinnar skilaði 28 milljarða afgangi en A-hluti borgarinnar fimm milljarða afgangi. Samkvæmt árlegri greinargerð fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar með ársreikningi er reksturinn í blóma og fjárhagsleg staða borgarinnar góð. Borgin hefur að fullu staðið við allar lífeyrisskuldbindingar og greiddi tæpa 15 milljarða til Brúar fyrir síðustu áramót. Sterkari ársreikningur hefur því ekki verið lagður fram í áratugi. Á sama tíma var fjárfest fyrir rúma fimmtán milljarða í öllum hverfum borgarinnar, fasteignagjöld voru lækkuð og gjaldskrár sömuleiðis. Framlög til velferðar og leik- og grunnskóla voru hækkuð. Metár í uppbyggingu og lóðaúthlutunum hafa m.a. gert þetta kleift. Þá hafa laun einnig verið að hækka. Við höfum nýtt góðærið til að bæta og styrkja þjónustuna með það að markmiði að búa til borg fyrir alla. Öllum þessum áskorunum hefur þessi meirihluti mætt sameinaður og með miklum sóma.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við umræður um ársreikning Reykjavíkurborgar í borgarráði og borgarstjórn hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað óskað eftir því að upplýsingar verði lagðar fram um öll vilyrði/viljayfirlýsingar til aðila utan borgarkerfisins, sem borgarstjóri eða aðrir embættismenn hafa veitt með undirritun sinni, og líkleg eru til að hafa fjárútlát í för með sér fyrir Reykjavíkurborg, óháð því hvort umræddar yfirlýsingar hafa verið lagðar fyrir borgarráð eður ei. Eðlilegt er að slíkar upplýsingar séu ávallt fyrirliggjandi ásamt raunhæfum kostnaðaráætlunum svo borgarfulltrúar geti metið hvaða kostnað umrædd vilyrði/viljayfirlýsingar munu hafa í för með sér ef og þegar þau verða efnd. Sérstök ástæða er til að fá upplýsingar um þessi vilyrði/viljayfirlýsingar nú í ljósi þess að borgarstjóri hefur á undanförnum mánuðum farið víða um borgina, lofað kostnaðarsömum framkvæmdum rétt fyrir kosningar og í mörgum tilvikum án þess að nokkur kostnaðaráætlun liggi fyrir. Slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og ætti að vera lágmarkskrafa að borgarfulltrúar séu upplýstir um öll slík vilyrði, áætlaðan kostnað vegna þeirra og hvort þær séu í samræmi við fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og gildandi fimm ára áætlunar. Það er einsdæmi að borgarstjóri svari ekki slíkum fyrirspurnum og beri því við að hann skilji þær ekki þótt ítrekað hafi verið farið yfir þær efnislega í borgarráði og borgarstjórn. Greinilegt er að borgarstjóri er vísvitandi að tefja málið í örvæntingarfullri tilraun til þess að komast hjá því að þurfa að leggja umræddar upplýsingar opinberlega fram fyrir borgarstjórnarkosningar, sem fara fram í næstu viku. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins krefjast þess að umræddar upplýsingar verði lagðar fram sem fyrst og í síðasta lagi í lok yfirstandandi viku.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fengu skriflegt svar á fundinum frá fjármálaskrifstofu borgarinnar þess efnis að allir samningar og viljayfirlýsingar sem borgarstjóri eða aðrir embættismenn hafa skrifað undir á kjörtímabilinu hafi verið lagðir fyrir borgarráð til staðfestingar, nema einn: samningur um uppbyggingu skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, sem verður lagður fyrir borgarráð á fimmtudag. Bókun Sjálfstæðisflokksins felur því í sér órökstuddar dylgjur sem eiga sér enga stoð.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í framlögðu svari fjármálaskrifstofu við umræddum fyrirspurnum Sjálfstæðisflokksins eru ekki veittar þær upplýsingar sem beðið var um. Tekið var fram við framlagningu seinni fyrirspurnarinnar að óskað væri eftir upplýsingum um öll vilyrði/viljayfirlýsingar, sem borgarstjóri eða aðrir embættismenn hafa veitt með undirritun sinni, og líkleg eru til þess að hafa fjárútlát í för með sér fyrir Reykjavíkurborg, óháð því hvort umræddar upplýsingar hafa verið lagðar fyrir borgarráð eður ei. Greinilegt er að borgarstjóri reynir hvað hann getur að tefja framlagningu umræddra upplýsinga fram yfir kosningar.
2. Lögð fram tillaga að matarstefnu Reykjavíkur 2018-2022, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. maí 2018, ásamt svohljóðandi tillögu borgarstjóra:
Á fundi borgarstjórnar þann 1. mars 2016 var samþykkt að stofna stýrihóp með það hlutverk að móta heildstæða matarstefnu fyrir Reykjavík. Meginmarkmið með mótun matarstefnu er að stuðla að betri heilsu Reykvíkinga, styrkja máltíðaþjónustu og stuðla að því að borgin nái markmiðum sínum hvað varðar öryggi, sjálfbærni, lýðheilsu og hagkvæmni. Í stefnunni eru sett fram fimm yfirmarkmið um styttri og sýnilegri leið frá bónda til maga, sjálfbærni og gæði, bætta matarmenningu, aukið aðgengi að hollum mat og betri nýtingu matar. Jafnframt er sett fram aðgerðaáætlun með undirmarkmiðum og tillögum að aðgerðum. Lagt er til að borgarstjórn samþykki stefnuna og vísi aðgerðaáætlun hennar til fjárhagsáætlunargerðar.
Samþykkt. R16030023
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Matarstefna borgarinnar er afar umfangsmikil stefna sem lýsir metnaði og framsækni þegar kemur að mat til jafns við borgirnar í kringum okkur. Borgin getur haft áhrif á mat og neyslu hans með ýmsum hætti; með þeim máltíðum sem framleiddar eru á vegum hennar og bornar fram fyrir þjónustuþega og starfsfólk, hvernig landbúnaður, veitingastaðir og matvörubúðir er hugsuð í skipulagi og hvernig borgin getur almennt orðið hvati og hreyfiafl til betri og sjálfbærari meðhöndlunar matar. Það eru grundvallarmannréttindi að hafa aðgengi að heilsusamlegum og öruggum mat til að nærast og geta lifað við bestu mögulegu heilsu. Borgarstjórn Reykjavíkur sér það sem sitt hlutverk að stuðla að því að allir íbúar borgarinnar hafi möguleika á að tileinka sér heilsusamlegan lífsstíl og þar með að borða hollan mat. Við teljum einnig mikilvægt að framboð sé á vistvænum mat sem er framleiddur með þeim hætti að komið er fram af virðingu við bæði landið og fólkið sem kemur að framleiðslu hans. Reykjavíkurborg lítur á þessa fyrstu matarstefnu sem upphaf að framtíðarvinnu og býður fyrirtækjum, skólum, hvers kyns félagasamtökum og íbúum öllum að taka þátt í að móta matarmenningu Reykjavíkur til framtíðar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018-2022, en þó með þeim fyrirvara að þeir styðja ekki tillögur að aðgerðum sem hafa í för með sér sérstaka stofnun með tilheyrandi kostnaði. Miklu nær er að nýta stefnuna til að upplýsa starfsfólk borgarinnar á öllum sviðum og nýta frekar fjármuni til að auka gæði þeirra máltíða sem boðið er upp á hjá borginni í stað þess að þeir fari í að þenja út báknið.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að borgarstjórn leiti eftir áliti Persónuverndar vegna fyrirhugaðra aðgerða Reykjavíkurborgar í því skyni að auka þátttöku ákveðinna hópa í komandi borgarstjórnarkosningum.
Samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata að vísa tillögunni til borgarráðs gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur óháðs borgarfulltrúa.
Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins. R17110191
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að vísa tillögum um leiðir og aðgerðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningunum 2018 til umsagnar Persónuverndar. Vafi leikur t.d. á því hvort heimilt sé að fara í aðgerðir í þeim götum þar sem kosningaþátttakan er dræm. Staðreyndin er sú að í sumum götum eru mjög fáir íbúar og auðvelt að leiða að því líkum hverjir eiga í hlut. Hjá Reykjavíkurborg eru til gögn um kjörsókn 2014 greind eftir kjördeildum. Auk þess sem skrifstofa borgarstjórnar býr einnig yfir gögnum um nákvæmlega hvaða götur og húsnúmer eru skráð á þessar kjördeildir og því hægðarleikur að nálgast þessa íbúa með bréfpósti og hvetja þá til að nýta kosningaréttinn. Þess vegna teljum við rétt að leitað verði álits Persónuverndar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það ætti að vera öllum flokkum kappsmál að auka kosningaþátttöku, hvort sem er til Alþingis, sveitarstjórnar eða í forsetakjöri.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að unnið verði að því að Elliðaárdalur verði friðlýstur vegna sérstaks náttúrufars, dýralífs og jarðsögu.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18050024
Samþykkt með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögunni frá gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Elliðaárdalurinn er náttúruperla og eitt stærsta græna svæðið í Reykjavík og fjölsóttasta útivistarsvæði borgarinnar. Þar er einstakt náttúrufar og stórbrotin jarðsaga. Auk þess sem finna má þar sögulegar minjar. Elliðaárnar renna um miðjan dalinn, fáar ef nokkrar borgir geta státað sig af því að eiga laxveiðiá sem rennur um miðja borg. Verndargildi hans er ótvírætt. Þeir sem halda því fram að Elliðaárdalurinn sé friðlýstur hafa rangt fyrir sér. Hverfisvernd í deiliskipulagi er ekki það sama og friðlýsing enda á friðlýsing sér stoð í náttúruverndarlögum. Þannig er friðlýsing gerð í samvinnu við umhverfisráðuneytið óski sveitarfélag eftir því að undangenginni auglýsingu. Það er mikilvægt að Elliðaárdalurinn verði friðlýstur til að vernda hann frá ágangi nýrra bygginga og mannvirkja. Það yrði óafturkræft fyrir ósnortna náttúruna ef gengið verði á dalinn með umfangsmiklum byggingum eins og lóðarvilyrði borgarstjórnar upp á 13.000 fermetra til Aldin BioDome gefur til kynna en gert er ráð fyrir, eins og áður hefur komið fram, byggingum að grunnfleti 3800 fermetra til að byrja með. Skv. upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar eru einungis fimm svæði í borgarlandinu friðlýst, þau eru Fossvogsbakkar, Háubakkar, Laugarás, Rauðhólar og Eldborg í Bláfjöllum. Elliðaárdalurinn er ekki á meðal þessara svæða.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgin hefur haft þann háttinn á að friða svæði í gegnum deiliskipulag til þess að ráða sjálf yfir friðunum og þurfa ekki að leita á náðir og vald ríkisins til þess. Elliðaárdalur er sannarlega náttúruperla sem býr yfir einstöku lífríki og umhverfi sem allir íbúar höfuðborgarsvæðisins geta notið. Það var einmitt þess vegna sem flutt var tillaga um að dalurinn yrði friðaður fyrir rúmum þremur árum síðan. Vinna hefur staðið yfir við deiliskipulagið undanfarið og reiknað er með að vinnunni ljúki á árinu.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttir, óháðs borgarfulltrúa:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að afturkalla lóðarúthlutun borgarráðs á lóð við Suðurlandsbraut 76 merkt nr. S3 í samræmi við reglur stjórnsýslulaga og hefji að henni lokinni samtal við hagsmunasamtök eldri borgara um uppbyggingu á lóðinni.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18050131
- Kl. 19:45 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Sabine Leskopf tekur sæti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að framlagðri tillögu verði vísað til borgarráðs og unnið að málinu í samræmi við almenna lóðaúthlutunarskilmála frá júní 2013 og samþykktir skipulagsráðs og borgarráðs frá apríl-maí 2011, sem kveða á um tímamörk vegna lóðarúthlutana til trúfélaga þannig að lóðum verði skilað aftur til borgarinnar eftir tvö ár ef framkvæmdir hafa ekki hafist.
Samþykkt með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina að vísa málsmeðferðartillögunni frá gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa.
Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að fram fari nafnakall við afgreiðslu á frávísunartillögu og fer hún fram í samræmi við ákvæði 3. mgr. 28. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Samþykkt með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn atkvæði Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga sú sem borgarstjóri lagði fram frávísunarkröfu um, rökstuddi Sveinbjörg Birna, óháður borgarfulltrúi, meðal annars með vísan til þess að framkvæmdafrestir samkvæmt almennum framkvæmda- og lóðaskilamálum borgarinnar væru liðnir, en Reykjavíkurborg úthlutaði lóðinni fyrir tæpum fimm árum síðan. Í umræðum um tillöguna í borgarstjórn komu fram nýjar upplýsingar frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra sem benda til þess að mistök hafi átt sér stað í stjórnsýslu borgarinnar í málinu. Kvað borgarstjóri Reykjavíkurborg aldrei hafa sent tilkynningu til lóðarhafans um að lóðin væri orðin byggingarhæf. Af þessum sökum hafi tímafrestir í skilmálum borgarinnar aldrei byrjað að líða. Séu þessar upplýsingar borgarstjóra réttar er ljóst að mistök hafa átt sér stað í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem borgarstjóri ber ábyrgð á.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins studdu ekki ákvörðun Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar þegar þessir flokkar úthlutuðu Félagi múslima lóðinni Suðurlandsbraut 76 á fundi borgarráðs 19. september 2013. Við úthlutunina bentu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að breytingar á aðalskipulagi Sogamýrar hefði átt að fella inn í vinnu að aðalskipulagi Reykjavíkur enda á skjön við vinnubrögð umhverfis- og skipulagsráðs að taka einstakar lóðir út fyrir sviga og láta mikilvæga heildarhugsun í aðalskipulagi víkja. Í apríl og maí 2011 var samþykkt einróma í skipulagsráði og borgarráði að setja tímamörk varðandi lóðaúthlutanir til trúfélaga þannig að lóðum yrði skilað eftir tvö ár ef framkvæmdir hefðu ekki hafist. Þá var einnig samþykkt að við úthlutun lóðar skyldu trúfélög upplýsa um fjármögnun framkvæmda. Þrátt fyrir að borgarráð hafi samþykkt sérstaka skilmála, sem gilda eiga fyrir öll trúfélög, ákvað borgarráð undir forsæti Dags B. Eggertssonar, að þeir skilmálar skyldu ekki gilda vegna úthlutunar umræddrar lóðar við Suðurlandsbraut. Slík stjórnsýsla er mjög óeðlileg svo ekki sé meira sagt og var úthlutun umræddrar lóðar því vafasöm. Því er eðlilegt að unnið verði að málinu í samræmi við sveitarstjórnarlög og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Fara þarf yfir áðurnefndar samþykktir skipulagsráðs og borgarráðs frá 2011, sem kveða á um tímamörk vegna lóðarúthlutana til trúfélaga þannig að lóðum verði skilað aftur til borgarinnar eftir tvö ár ef framkvæmdir hafa ekki hafist.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 2014 sagðist þáverandi oddviti Framsóknar og flugvallarvina vilja afturkalla lóðaúthlutun til byggingar mosku og kaus þannig að taka fyrir eitt trúfélag af nokkrum sem fengið hafa úthlutað lóð. Í kjölfarið fékk flokkurinn tvo borgarfulltrúa og ætla má að daður oddvitans við trúarfordóma hafi átt stóran þátt í því, þar sem framboðið hafði ekki mælst hátt í skoðanakönnunum fram að þessu. Oddvitinn sagðist ætla að leggja fram tillögu um afturköllun lóðarinnar strax í upphafi kjörtímabilsins en sú tillaga var aldrei flutt; fyrr en nú – á síðasta borgarstjórnarfundi fyrir borgarstjórnarkosningarnar þegar oddvitinn hefur yfirgefið flokk sinn. Erfitt er að líta á þetta sem annað en endurtekna tilraun til þess að gera kosningamál úr því að ala á tortryggni í garð eins tiltekins trúfélags, sem er tillöguflytjanda til minnkunar. Efnislega er tillagan síðan fyrir ýmsar sakir ekki tæk til afgreiðslu. Má þar meðal annars nefna að hún beinist eingöngu gegn einu trúfélagi þegar fleiri trúfélög eru í sömu stöðu. Jafnframt hefur borgarlögmaður bent á að sú stjórnvaldsákvörðun sem þegar hefur verið tekin, að úthluta Félagi múslima lóð, sé að lögum ekki afturkallanleg þar sem á henni eru ekki verulegir annmarkar. Tillögunni er því vísað frá.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:
Ég frábið mér að bókanir í borgarstjórn feli í sér persónulegar aðdróttanir í garð annarra borgarfulltrúa, þar sem farið er í manninn en ekki málefnið. Slíkt er til minnkunar fyrir þá sem að henni standa.
6. Fram fer umræða um málefni Hlíða, Holta og Háaleitishverfis. R18050132
7. Samþykkt að taka aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2018-2020, dags. 7. maí 2018, á dagskrá. R18050111
Samþykkt.
Jafnframt er samþykkt að vísa aðgerðarhlutanum til gerðar fjárhagsáætlunar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Á kjörtímabilinu hefur borgarstjórn staðið einhuga að baki öllum skrefum í þá átt að sporna gegn hverskyns ofbeldi. Nægir þar að nefna ofbeldisvarnarnefnd og Bjarkarhlíð. Nú sameinist borgarstjórn einnig um þessa mikilvægu aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi og því ber að fagna.
8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 11. maí.
4. liður fundargerðarinnar; framlagning kjörskrár og skipun kjörstjórna vegna borgarstjórnarkosninga 2018 er samþykktur. R17040014
Einnig eru lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. apríl, mannréttindaráðs frá 8. maí, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 7. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. maí og velferðarráðs frá 3. maí. R18010074
9. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarstjóri hefur upplýst í ræðustól að tilkynningarbréf um byggingarhæfi lóðar hafi ekki verið sent til Félags múslima á Íslandi. Ég óska því eftir svörum við eftirfarandi: 1) Hvaða ástæður liggja að baki því að Reykjavíkurborg hefur ekki enn tilkynnt Félagi múslima á Íslandi að lóðin að Suðurlandsbraut 76, sem félagið fékk úthlutað 13. september 2013, sé byggingarhæf? 2) Hvað langur tími líður almennt frá því að lóð er byggingarhæf þar til tilkynning þess efnis er send lóðarhafa? 3) Hvaða starfsmenn aðrir en borgarstjóri bera ábyrgð á því að lóðarhafi hefur ekki enn fengið senda slíka tilkynningu? 4) Telur borgarstjóri rétt að lóðarhafi fái að halda lóðinni áfram þrátt fyrir að nú séu nálægt fimm ár liðin frá því lóðinni var úthlutað án þess að framkvæmdir hafi hafist á lóðinni? 5) Óskað er eftir að lögð verði fram öll gögn og bréfasamskipti á milli embættismanna og lóðarhafa í tengslum við lóðina Suðurlandsbraut 76. R18050131
Fundi slitið kl. 22:25
Líf Magneudóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.5.2018 - Prentvæn útgáfa