Borgarstjórn - 15.5.2003

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2003, fimmtudaginn 15. maí, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Árni Þór Sigurðsson, Alfreð Þorsteinsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Helgi Hjörvar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Dagur B. Eggertsson, Anna Kristinsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Ólafur F. Magnússon, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Kjartan Magnússon og Sigrún Elsa Smáradóttir. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2002; síðari umræða. Jafnframt lögð fram endurskoðunarskýrsla Borgarendurskoðunar með ársreikningi. Áður en umræða hófst tilkynnti forseti að fallið væri frá takmörkun á ræðutíma.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2002 sýnir glögglega svo ekki verður um villst að Reykjavíkurlistinn hefur fyrir löngu misst tökin á fjármálastjórn borgarinnar Ársreikningurinn staðfestir enn hærri skuldir en áður, mikinn taprekstur borgarsjóðs og töluverð frávik frá áætlunum. Skuldir hækka sem nemur tapinu og ef leiðrétt er vegna fjármagnsliða er munurinn enn meiri. Eigið fé A-hluta borgarsjóðs rýrnaði um nálægt 1,0 milljarð á árinu, en hefði rýrnað meira með leiðréttingum. Eigið fé A og B-hluta rýrnaði um u.þ.b. 300 milljónir, en hefði rýrnað meira með svipuðum leiðréttingum á fjármagnsliðum. Heildarskuldir Reykvíkinga án lífeyrisskuldbindinga voru í lok árs komnar í 57,2 milljarða króna. Árið 2001 voru þessar skuldir 47,6 milljarðir og hafa því hækkað um 20% milli ára. Það vekur sérstaka athygli að heildarskuldir borgarsjóðs án lífeyrisskuldbindinga hækka einnig, þær voru 15,5 milljarðar árið 2001 en 18,5 árið 2002 og hafa því hækkað um 20%. R-listinn hefur á undanförnum árum viljað hrósa sér af því að hafa ekki hækkað skuldir borgarsjóðs. Eins og sjálfstæðismenn hafa margoft bent á hefur staða borgarsjóðs verið fegruð með millifærslum og skuldir samstæðunnar hafa vaxið gríðarlega. Rekstrartap A-hluta fyrir fjármagnsliði var um 4,0 milljarðar króna á síðasta ári. Rekstrartap A og B-hluta fyrir fjármagnsliði var um 3,3 milljarðar króna á árinu. Þetta eru þær tölur sem helst eru sambærilegar á milli ára. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 1,0 milljarð á árinu, en þá hafði verið tekið tillit til fjármagnsliða, en undir þá falla meðal annars óreglulegar tekjur vegna gengismunar. Áætlun var um tæplega 900 milljóna króna rekstrarafgang af A-hluta borgarsjóðs fyrir fjármagnsliði. Niðurstaðan var tap upp á um 4,0 milljarða króna. Þar munar 4,9 milljörðum. Mismunur kemur fram í mörgum liðum. Áætlun var um u.þ.b. 1,6 milljarða afgang af A-hluta borgarsjóðs en niðurstaðan var tap upp á 1,0 milljarð. Þar munar 2,6 milljörðum. Munurinn væri enn meiri ef leiðrétt væri fyrir óreglulegum liðum, eins og gengismun. Sama er hvert litið er varðandi fjármálastjórn Reykjavíkurborgar, hún er með öllu óviðunandi, útgjöld eru meiri en áætlað var, skuldir hækka, áætlanir standast ekki og fulltrúar R-listans neita að viðurkenna og horfast í augu við þessar staðreyndir.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Í dag fer fram síðari umræða borgarstjórnar um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2002. Við gerð ársreikningsins er horfið frá sértækri reikningsskilaaðferð við gerð ársreikninga sveitarfélaga, og þau nú færð til samræmis við almenn reikningsskil fyrirtækja. Meginniðurstöður ársreiknings eru eftirfarandi: Í áritun borgarendurskoðanda á ársreikning Reykjavíkurborgar kemur fram að ársreikningur gefi glögga mynd af rekstri árið 2002, efnahag í árslok og breytingu á handbæru fé árið 2002 í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju. Ný framsetning ársreiknings torveldar nokkuð samanburð milli ára og gerir greiningu á frávikum frá fjárhagsáætlun flóknari. Eftir frávikagreiningu er heildarrekstrarútkoma málaflokka 21.859,6 mkr. sem er 0,1% undir fjárheimildum sem námu 21.876,4 mkr. Skatttekjur voru í fjárhagsáætlun áætlaðar 27.204 mkr. en niðurstaðan varð 428 mkr. lægri eða 26.776 mkr. Skýringin er sú að tekjur af fasteignagjöldum voru ofáætlaðar en óvissa var varðandi þann þátt vegna almenns endurmats eigna hjá Fasteignamati ríkisins. Rekstrarafkoma Reykjavíkurborgar (A- og B-hluta) var jákvæð um 2.496,6 mkr. Rekstrartekjur ársins voru fyrir samantekinn A- og B-hluta 48.602,0 mkr. og rekstrargjöld 51.877,9 mkr. en hreinar fjármunatekjur voru 3.306,6 mkr. Eigið fé Reykjavíkurborgar í árslok nam 86.604,7 mkr. Handbært fé frá rekstri Reykjavíkurborgar (A- og B-hluta) samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam 6.231,0 mkr. eða 13% af rekstrartekjum en hefði að óbreyttum reikningsskilum verið 13.7%. Handbært fé frá rekstri A-hlutans var 11,9% af skatttekjum en hefði að óbreyttum reikningsskilum verið 13,5%. Fjárfestingarhreyfingar voru samtals 16.181,9 mkr. og var þeim mætt með framlagi frá rekstri og nýjum langtímalánum. Skuldir A-hluta voru í árslok 18.539 mkr. og hækkuðu um 3.046 mkr. milli ára. Skýringa er einkum að leita í breyttum reikningsskilareglum en samkvæmt þeim eru orlofsskuldbindingar að fjárhæð 845 mkr. nú færðar til skuldar, en voru áður utan efnahags. Það á einnig við um skuldbindingar vegna skautahallarinnar í Laugardal og vegna áhorfendastúku á Laugardalsvelli, samtals að fjárhæð 260 mkr. Þá eru nú færðar til skuldar fyrirfram innheimtar tekjur vegna gatnagerðargjalda og framlag úr Jöfnunarsjóði vegna skólabygginga að fjárhæð 1.081 mkr. sem áður voru færðar til lækkunar á fjárfestingakostnaði ársins. Á árinu 2002 fjárfesti skipulagssjóður í lóðum og löndum fyrir 1.900 mkr. sem að hluta til var fjármagnað með lánum. Samanteknar skuldir A- og B-hluta voru í árslok 57.111 mkr. og hækkuðu um 9.646 mkr. Helstu skýringar auk skýringa við A-hluta eru þær að Orkuveitan hefur gert upp lífeyrisskuldbindingu sína gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar og hækkar það langtímaskuldir um 2.742 mkr. Vegna framkvæmda og annarra fjárfestinga hækka skuldir Orkuveitunnar um 1.500 mkr., hjá Reykjavíkurhöfn um 800 mkr. og hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um 300 mkr. Þá hækka skuldir um 700 mkr. hjá Félagsbústöðum vegna kaupa á félagslegu leiguhúsnæði. Rekstur stofnana og fyrirtækja Reykjavíkur er byggður á traustum grunni. Því til stuðnings er nærtækast að horfa til lykiltölunnar handbært fé frá rekstri en hún segir til um hve miklu fé rekstur skilar til að standa undir fjárfestingum og niðurgreiðslu skulda. Handbært fé frá rekstri borgarsjóðs nam 3.191,0 mkr. og frá rekstri samanlagðs A- og B-hluta nam þessi fjárhæð 6.231,0 mkr. Þetta segir að bæði borgarsjóður og fyrirtæki borgarinnar hafa mikla getu til að standa undir frekari uppbyggingu og/eða niðurgreiðslu skulda. Þannig eru meginniðurstöður ársreiknings ársins 2002 að stöðugleiki ríki í rekstri borgarinnar, að sú vinna sem lögð hefur verið í að efla áætlanagerð hafi skilað sér og að fjármálastjórnin einkennist af festu. Óskandi er að með þeirri breytingu sem nú hefur verið gerð á reikningsskilum sveitarfélaga geti umræðan um fjármál Reykjavíkur orðið skýrari og meira upplýsandi en áður. Sú tegund umræðu sem verið hefur um þau mál hefur litlu skilað til hins almenna borgara, eins misvísandi og hún hefur verið. Mál er að linni, enda mikilvægt að öllum sé ljóst hver staðan er og hve mikla ábyrgð borgaryfirvöld bera á að fara vel með skattféð sem þeim er treyst fyrir.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2002 samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. Borgarfulltrúar gengu til áritunar ársreiknings. Áður en tekinn var fyrir 2. liður útsendrar dagskrár var samþykkt með 13 samhljóða atkvæðum að taka fundargerð leikskólaráðs frá 9. maí á dagskrá sem 15. lið. Þá tilkynnti forseti að í lok fundar yrði umræða utan dagskrár um félagsstarf aldraðra.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. maí.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað vegna fundarskapa við umræðu 1. liðar dagskrár:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins andmæla harðlega úrskurði Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, varaforseta borgarstjórnar þegar hún vísaði Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins úr ræðustól við aðra umræðu um ársreikning Reykjavíkurborgar árið 2002. Úrskurðurinn er ómálefnalegur, óréttmætur og ósanngjarn.

- Kl. 16.56 vék Sigrún Elsa Smáradóttir af fundi og Katrín Jakobsdóttir tók þar sæti.

14. liður fundargerðar borgarráðs, Þjóðhildarstígur 2-6, samþykktur með 8 atkvæðum gegn 1. Árni Þór Sigurðsson vék af fundi við meðferð málsins.

Samþykkt með samhljóða atkvæðum að vísa 15. lið fundargerðar borgarráðs, breyttu aðalskipulagi miðsvæðis M-6, til síðari umræðu.

Forseti óskaði bókað vegna fundarskapa við meðferð 1. liðar dagskrár:

Úrskurður varaforseta var réttmætur og í samræmi við fundarsköp. Borgarfulltrúi Guðrún Ebba Ólafsdóttir kaus að fjalla um fjármál Félagþjónustunnar árið 2003, sem til umfjöllunar var á fundi félagsmálaráðs í síðustu viku undir dagskrárliðnum “Ársreikningur Reykjavíkurborgar árið 2002”. Borgarfulltrúinn varð ekki við tilmælum varaforseta um að halda sig við dagskrárefnið og hlaut því að víkja úr ræðustóli.

- Kl. 17.01 vék Alfreð Þorsteinsson af fundi og Þorlákur Björnsson tók þar sæti.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 9. maí.

- Kl. 17.05 vék borgarstjóri af fundi og skrifstofustjóri borgarstjórnar tók þar sæti.

4. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 10. maí, kl. 16.00.

5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 10. maí, kl. 18.30.

6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 13. maí.

- Kl. 18.00 var gert hlé á fundi. - Kl. 18.35 var fundi fram haldið. - Kl. 19.32 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Benedikt Geirsson tók þar sæti.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa 15. lið fundargerðar borgarráðs, tillögum að breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar og 16. lið fundargerðar borgarráðs, fyrirmynd að viðaukum við samþykktina, til síðari umræðu.

20. liður fundargerð borgarráðs, útboðsskilmálar vegna byggingarréttar og nýting kaupréttar í Norðlingaholti, samþykktur með 8 atkvæðum gegn 6.

7. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 5. maí.

- Kl. 19.30 vék Steinunn Valdís Óskarsdóttir af fundi og Stefán Jóhann Stefánsson tók þar sæti.

8. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 9. maí.

9. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 28. apríl. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

10. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 12. maí. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

11. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 8. maí.

12. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 6. maí.

13. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 30. apríl. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

14. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 7. maí. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 14 samhljóða atkvæðum.

15. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 9. maí.

Í lok fundar fór fram umræða utan dagskrár um félagsstarf aldraðra.

Fundi slitið kl. 22.43.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Árni Þór Sigurðsson

Anna Kristinsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson