Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 15. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Björk Vilhelmsdóttir, Karl Sigurðsson, Páll Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Diljá Ámundadóttir, Hjálmar Sveinsson, Dagur B. Eggertsson, Rúna Malmquist, Áslaug Friðriksdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að starfsemi Skólagarða Reykjavíkur verði endurvakin og að nemendum á grunnskólaaldri gefist kostur á ný að sækja þar námskeið í ræktun matjurta og fræðslu um garðrækt yfir sumartímann. Þá er jafnframt lagt til að eldri borgarar eigi þess kost að nýta garðana eins og áður ef rými leyfir.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Frá árinu 2010 hafa verið starfræktir Fjölskyldugarðar sem tóku við af Skólagörðunum. Fjölskyldugarðarnir eru ódýrari og henta fleirum þ.á m. börnum sem taka þátt með foreldrum sínum. Fjölskyldugörðum hefur verið fjölgað og eru nú í flestum hverfum borgarinnar og njóta mikilla vinsælda. Fjölskyldugarðarnir hafa reynst vel og því er ekki fallist á þá tillögu að taka aftur upp Skólagarða.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mikilvægt að auka áhuga og tækifæri borgarbúa til heimaræktunar, hvort heldur sem er á eigin lóðum eða sameiginlegu landrými. Þá skiptir ekki síður máli að stuðla að vistvænni neyslu, þar sem lögð er áhersla á árstíðabundnar afurðir úr nærumhverfinu umfram matvæli og vörur sem fluttar hafa verið langa leið með tilheyrandi kostnaði og eldsneytissóun. Borgin á að skoða og nýta hvert tækifæri til þessa, hvort heldur sem er í gegnum skipulag borgarlandsins eða fræðslu til barna og fullorðinna um málið. Skólakerfið gegnir lykilhlutverki, að börn fái fræðslu og tækifæri á þessu sviði í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum, en skólagarðar eru barn síns tíma. Með ábyrgri nálgun getur Reykjavíkurborg þannig lagt sitt af mörkum til að sporna gegn neyslu jarðefnaeldsneytis og útblæstri gróðurhúsalofttegunda og þar með loftslagsbreytingum af mannavöldum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í ljósi þess að áhugi á matjurtaræktun hefur aukist verulega síðustu ár og almenn vakning hefur orðið í anda sjálfbærni mætti ætla að meiri áhugi væri hjá öllum borgarfulltrúum fyrir fræðslu á þessu sviði. Hér er um mikilvæga hagnýta fræðslu að ræða sem kennir krökkunum ákveðið verklag og hvetur þau til jákvæðs lífstíls. Frekar en að fella tillöguna hefði verið eðlilegra að endurmeta starfsemi Skólagarðanna í takt við nýja og breytta tíma. Það gera sér allir grein fyrir því að nám og fræðsla kostar peninga en við eigum að forgangsraða í þágu fræðslu og menntunar barnanna í borginni en ekki í þágu gæluverkefna sem kosta margfalt meira en rekstur Skólagarðanna.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Reykjavíkurborg hvetur til sjálfbærrar nýtingar borgarlands, útivistar og heilbrigðra lifnaðarhátta. Víða um borgina eru opin svæði sem henta til matjurtaræktunar í samræmi við nýsamþykkt aðalskipulag Reykjavíkur. Lagt er til að auglýst verði eftir hugmyndum frá borgarbúum um svæði sem áhugi er fyrir að nýta til ræktunar. Reykjavíkurborg brjóti landið og girði af með léttum girðingum þar sem það á við. Umhverfis- og skipulagssviði verði falin nánari útfærsla. Í tengslum við það verkefni bjóði Reykjavíkurborg borgarbúum upp á fræðslu í matjurtaræktun til dæmis með því að opna símalínu, halda námskeið og opna vefsíðu með gagnlegum upplýsingum um matjurtarækun á opnum svæðum. Fræðslustarfið miði einnig að því að veita upplýsingar um ræktun á svölum fjölbýlishúsa. Veittar verði upplýsingar um burðargetu svala og hvaða jurtir henti best til ræktunar á svölum.
Samþykkt.
3. Samþykkt með 15 atkvæðum að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarstjóra:
Lagt til að borgarstjórn heimili fjármálastjóra að afgreiða laun um næstu mánaðamót á grundvelli nýs kjarasamnings Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem samþykktur hefur verið af félagsmönnum í atkvæðagreiðslu. Kjarasamningurinn verður lagður fram til formlegrar samþykktar borgarráðs um leið og kostnaðarmat og tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun 2014 liggur fyrir.
Samþykkt.
4. Lagður fram 10. liður fundargerðar borgarráðs frá 10. apríl sl. um stefnu í þjónustu við fatlað fólk.
Samþykkt.
Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórn samþykkir einróma stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum. Fulltrúar allra flokka, hagsmunasamtaka og sérfræðinga í málaflokknum hafa náð saman um hvernig þjónustan á að þróast á næstu árum og hefur velferðarsviði verið falið að fylgja stefnunni eftir með því að vinna aðgerðaáætlun á grundvelli stefnunnar. Markmið stefnunnar er að fatlað fólk fái þjónustu í samræmi við leiðarljós og framtíðarsýn Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk og reglugerð nr. 1054/2010. Mikilvægast er þó að þjónustan verði í samræmi við þarfir og óskir þeirra sem þjónustuna fá og styðji við sjálfstætt og innihaldsríkt líf fatlaðs fólk, á heimili og í tómstundum.
5. Fram fer umræða um stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum ungs fólks.
6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 3. apríl.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 10. apríl.
9. liður fundargerðarinnar, styrkur til Íþróttafélagsins Fylkis, kemur til sérstakrar samþykktar borgarstjórnar.
Samþykkt með 15 atkvæðum að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
Borgarstjórn samþykkir ósk Íþróttafélagsins Fylkis um styrkveitingu að upphæð 7.853.500 kr. vegna kaupa á sætum í áhorfendaaðstöðu félagsins við Fylkisveg. Með slíkri styrkveitingu er unnt að tryggja að umrædd áhorfendaaðstaða komi að fullum notum á þessu ári og að ásýnd þess verði umræddu hverfi og Reykjavíkurborg til sóma.
Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
9. liður fundargerðarinnar, samþykkt borgarráðs á því að veita Íþróttafélaginu Fylki styrk að fjárhæð kr. 4.000.000.- vegna uppsetningar sæta í áhorfendastúku, er samþykktur, með vísan til umsagnar ÍTR, með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins gegn 1 atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Vinstri grænna getur ekki samþykkt frekari fjárveitingu til stúkubygginga við núverandi aðstæður. Þegar hefur 90 milljónum króna verið varið til verksins með fögrum fyrirheitum um ráðdeild og sparnað við framkvæmdirnar, en allt kemur fyrir ekki, nú á að bæta enn frekar í. Á meðan leik- og grunnskólastarf fer fram við þröngan kost, viðhaldi skólabygginga er stórlega ábótavant og aðstaða til íþróttaiðkunar í yngri flokkum er víða slæm er óréttlætanlegt með öllu að frekara fjármagni verði varið í nógu þægileg sæti fyrir áhorfendur meistaraflokks Fylkis.
8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 11. apríl, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. mars, skóla- og frístundaráðs frá 9. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 2., 7. og 9. apríl og velferðarráðs frá 10. apríl.
Fundi slitið kl. 18.04
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Karl Sigurðsson
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.4.2014 - prentvæn útgáfa