Borgarstjórn - 15.3.2022

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2022, þriðjudaginn 15. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Diljá Mist Einarsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Nína Margrét Grímsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Ragna Sigurðardóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Pálsdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon og Pawel Bartoszek.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um tillögur stýrihóps um uppbyggingu leikskóla, sbr. 16. lið borgarráðs frá 3. mars sl. MSS22010084

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Endurskoðuð aðgerðaáætlun um Brúum bilið gerir ráð fyrir tvöfalt meiri fjölgun leikskólaplássa í Reykjavík en ráðgert var og að byrjað verði að bjóða 12 mánaða börnum í leikskóla í haust. Það er ári á undan áætlun miðað við upphaflega aðgerðaáætlun sem samþykkt var í borgarstjórn í árslok 2018. Reykjavíkurborg vinnur að verulegri fjölgun leikskólarýma á næstu mánuðum og misserum og stefnir að því að taka í notkun 850 ný leikskólarými í ár, en alls opna átta nýir leikskólar í borginni á þessu ári. Endurskoðuð heildaráætlun gerir ráð fyrir að leikskólarýmum fjölgi um allt að 1680 á næstu þremur árum og meira en helmingur þeirra verði tekin í notkun á þessu ári. Þetta er mesta uppbygging í leikskólamálum í borginni í marga áratugi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn hefur ekki staðið undir væntingum varðandi fjölgun leikskólarýma. Borgin samþykkti í fyrra að stefnt yrði að opnun leikskóla við Eggertsgötu með rými fyrir a.m.k. 80 börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára í nóvember 2021. Þá var stefnt að opnun í desember 2021 á ævintýraborg við Nauthólsveg með rými fyrir um 100 börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára. Jafnframt var stefnt að opnun í febrúar 2022 í á lóð Vörðuskóla við Barónsstíg 34 með rými fyrir um 60 börn á aldrinum 12 mánaða til 3 ára. Ennfremur var stefnt að opnun í þessum mánuði við Vogabyggð 5 með rými fyrir um 100 börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára. Ekkert hefur orðið að opnun þessara leikskóla. Foreldrar bíða enn enda var opnað fyrir umsóknir í september 2021. Þá réðist meirihlutinn í kaup á húsnæði Adam og Evu sem átti að vera tilbúið í janúar 2022 og er enn ekki tilbúið. Borgin keypti húsnæðið á 642 milljónir króna en markmiðið með kaupunum var að breyta húsnæðinu, sem var í mjög misjöfnu ástandi. Kostnaðaráætlun við breytingarnar var 367 milljónir til viðbótar. Nú er kostnaðurinn kominn í 1,5 milljarð en hann hefur ekki enn opnað og endanlegur kostnaður ekki fyrirliggjandi.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Uppbygging leikskóla þarf að eiga sér stað og mikilvægt er að sú uppbygging fari fram á góðum grunni. Bæta þarf starfsaðstæður leikskólastarfsfólks og kjör þeirra. Einnig þarf að tryggja að leikskólabyggingar og rými innan þeirra henti starfsemi leikskólanna og fjölbreyttum þörfum barna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Að taka á móti börnum frá 12 mánaða aldri á leikskóla borgarinnar var kosningaloforð Samfylkingarinnar 2018. Skortur á leikskólaplássum er ekki nýr vandi í Reykjavík heldur áralangur. Á kjörtímabilinu hefur ríkt mikil óvissa í þessum málum. Haustið 2021 voru margir foreldrar settir í ólíðandi aðstæður því þeir vissu ekki hvenær börn þeirra fengju leikskólapláss. Nú er lofað að spýta í lófana og minnka bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að fjölga leikskólarýmum. Skortur á leikskólarýmum hefur m.a. verið rakinn til erfiðleika með að spá fyrir um fjölgun barna. Nú bíða mörg hundruð börn eftir plássi. Einnig er von á 300 leik- og grunnskólabörnum frá Úkraínu, kannski fleirum. Hefði staðan í þessum málum verið betri yrði ekki vandkvæðum bundið fyrir úkraínsku börnin að hefja skólagöngu um leið og þau eru tilbúin. Skortur á starfsfólki er annar stórvandi sem hefur verið viðvarandi vandi í leikskólum í mörg ár. Þessum og síðasta meirihluta hefur mistekist að leysa þann vanda. Í áætluninni er ekki minnst á dagforeldra og hvernig sú stétt kemur inn í þessar tillögur. Kallað er eftir heildarmyndinni. Fagna ber hverju skrefi, loforði sem staðið er við og hrósið fær starfsfólk leikskóla fyrir vinnu sína oft í erfiðum og óboðlegum aðstæðum.

-    Kl. 16:40 víkur Skúli Helgason af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti. 

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fela skóla- og frístundasviði að skoða útfærslur tilraunaverkefnis til tveggja ára sem stuðlar að auknum sveigjanleika milli skólastiga við upphaf og lok grunnskólans. Þannig yrði nemendum gefinn kostur á því vali að hefja grunnskólanám fyrr og ljúka því fyrr. Nemendum stæði til boða val um að hefja grunnskólanám í grunnskólum borgarinnar við fimm ára aldur, og/eða að ljúka grunnskólanámi ári fyrr. Slíkt fyrirkomulag myndi auka tengsl milli skólastiga, samfellu í námi og styðja betur við einstaklingsmiðað nám. Skóla- og frístundasviði verði falið að móta slíkar tillögur að sveigjanlegum skólaskilum, en þær miði fyrst og fremst að því að auka valfrelsi nemenda og forráðamanna og samfellu milli skólastiga. Sviðið leiti sér ráðgjafar eftir því sem þurfa þykir við gerð tillagnanna. Stefnt verði að því að útfæra tillögurnar á næsta skólaári og því mikilvægt að undirbúningur hefjist sem fyrst. Gert verði ráð fyrir að tilraunaverkefnið verði til tveggja ára, þar sem einn skóli í hverjum borgarhluta byði upp á þetta val. Verkefnið yrði síðan metið að þeim tíma liðnum, af kennslufræðingum og skólasamfélaginu. MSS22030018

Greinargerð fylgir tillögunni. 

-    Kl. 16:50 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Rannveig Ernudóttir tekur sæti. 

-    Kl. 17:10 víkur Jórunn Pála Jónasdóttir af fundinum og Elín Jónsdóttir tekur sæti. 

Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Nú þegar er heimild í lögum á þann veg að þó skólaskylda hefjist að jafnaði við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið er sex ára, þá geti foreldrar sótt um að barnið hefji nám fyrr eða síðar, og hefur skóla- og frístundasvið myndað sér verklag í kringum það þegar slíkar umsóknir berast. Tillögunni er því vísað frá.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að tryggja að leik- og grunnskólarnir geti mætt ólíkum þörfum barna. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að tryggja að skólarnir hafi það sem þau þurfi til að tryggja að ólíkum þörfum barna og ungmenna sé mætt í skóla þeirra í stað þess að fara þá leið sem hér er kynnt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillagan kveður á um að auka sveigjanleika milli skólastiga við upphaf og lok grunnskólans. Tillagan tekur ekki á hvort eða hvernig meta eigi hvort barn sé tilbúið að hefja skólanám ári fyrr. Það er flóknara að finna út hvenær barni hentar að hefja skólagöngu heldur en að ljúka henni, þegar barn á að stunda nám með eldri krökkum. Mikill munur getur verið á vitsmunalegum, félagslegum, tilfinningalegum sem og líkamlegum þroska barna sem fædd eru á sama ári. Ákvæði laga um að börn skuli hefja skyldunám á því almanaksári sem þau verða 6 ára er sett til að reyna að tryggja jafna stöðu. Eigi barn að byrja ári fyrr í skóla er gert mat á þroskastöðu þess samkvæmt ákveðnum viðmiðunarreglum til að kanna hvort það komi til með að standa undir þeim fjölmörgum kröfum, stundi það nám með eldri börnum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að í tillöguna vanti hver hafi lokaorð um hvort barn er tilbúið að stunda nám með eldri krökkum. Flýtingar í námi hafa alltaf verið og eru við lýði en þó aðeins að undangengnu mati sálfræðings og umsögnum þeirra sem þekkja vel til barnsins s.s. leikskólakennara og hjúkrunarfræðinga. Hagsmunir barns eiga að stýra för í þessu sem öðru.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að á grunni samgöngusáttmálans fari öll ljósastýringarmál á höfuðborgarsvæðinu til Vegagerðarinnar og/eða Betri samgangna ohf., ásamt innkaupum á búnaði, viðhaldi og öðru sem undir ljósastýringar falla. MSS22030021

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Síðan samgöngusáttmálinn var undirritaður hélt ljósastýringarkerfið áfram í höndum Reykjavíkurborgar sem hélt uppteknum hætti með því að skipta við sama aðila og má rekja þau viðskipti til ársins 2005. Það er engin framtíðarsýn að áfram eigi að nota sama gamla búnaðinn án þess að skoða hvað er að gerast í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ljósastýringarbúnaður er í öðrum löndum kominn í skýjalausnir en hér á landi er málaflokkurinn keyrður á eldgömlum þýskum úreltum búnaði. Þessir viðskiptahættir hafa síðastliðin misseri byggst á ólöglegum útboðum og innkaupum sem sífellt eru kærð til kærunefndar útboðsmála með tilheyrandi töfum og kostnaði. Á meðan Reykjavíkurborg fylgir ekki lögum um opinber innkaup, blæðir borgarbúum, íbúum í nágrannasveitarfélögum og landsmönnum öllum því umferðin er stopp í Reykjavík. Þessi vinnubrögð tefja þennan málaflokk úr öllu hófi og því á viðfangsefnið að vera í höndum Vegagerðarinnar og/eða Betri samgangna ohf. Það er forkastanlegt að Reykjavíkurborg sem stjórnvald fari í mál við aðila sem hafa unnið mál fyrir Kærunefnd útboðsmála.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg ber samkvæmt lögum að sjá um viðhald borgargatna. Alþjóðlega ráðgjafastofan SWECO gerði sumarið 2020 óháða úttekt á umferðaljósakerfi höfuðborgarsvæðisins fyrir Vegagerðina og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan er sú að þessi mál séu í lagi. Þar kemur meðal annars fram að engin ástæða sé til að breyta um kúrs á þeirri tæknilegu leið sem farin er. Starfshópur Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna vinnur nú að því að bregðast við ábendingum úttektarinnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Borgarstjórn Reykjavíkur fagna framkominni tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins um ljósastýringarmál og þykir miður að hún skuli ekki hafa fengið stuðning meirihlutans. Löngu er tímabært að endurskoða fyrirkomulag og umsjón á umferðarljósastýringu höfuðborgarsvæðisins í heild, eins og samþykkt var með undirritun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og ríkisins í september 2019, þar sem þessi málaflokkur var settur í forgang. Fyrirtækið Betri samgöngur ohf. var stofnað til að hafa yfirumsjón með framkvæmd samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu næstu árin. Snjallvæðingu umferðarljósastýringa átti að framkvæma strax en því miður hefur ekkert áunnist í þeim efnum. Mikilvægt er að taka upp sömu vinnubrögð í þessu efni og viðhöfð eru í löndunum í kringum okkur, þar sem ljósastýringar eru boðnar út á 4 til 5 ára fresti í opnum útboðum. Þannig fást bestu lausnirnar og með mestum ávinningi á sem hagkvæmastan hátt. Síðasta útboð af þessu tagi var 2005, þannig að núverandi kerfi er löngu orðið úrelt og dýrt í rekstri. Með nýjum aðferðum með besta fáanlega búnaði og tækni má ná fram minnkun á töfum í umferðinni, minni mengun, meira umferðaröryggi og verulegum efnahagslegum ávinningi fyrir alla samgöngumáta. Þannig snjallvæðum við umferðina og komum þessum málaflokki á sama stað og í löndunum í kringum okkur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillagan gengur út á að færa framkvæmd ljósastýringa frá borginni til Vegagerðarinnar og/eða Betri samgangna ohf. Það er rökrétt þar sem þá verður yfirsýn yfir alla ljósastýringu í gatnakerfinu á einni hendi, að því gefnu að önnur sveitarfélög feli einnig Vegagerðinni og/eða Betri samgöngum ohf. sambærilegt verk.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Reykjavíkurborg samþykkir að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að engir spilakassar verði reknir í borgarlandinu vegna skaðseminnar sem hlýst af þeim. Fólk sem glímir við spilafíkn og aðstandendur þeirra hafa greint frá félagslegri, fjárhagslegri og andlegri skaðsemi spilafíknar. Því er lagt til að borgin geri allt sem hún getur til að banna spilakassa. Starfsemi spilakassa er heimiluð með lögum en í aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 er að finna sérstök ákvæði um staðsetningu spilasala. Lagt er til að Reykjavíkurborg nýti allar þær aðferðir sem hægt er að nýta með það að markmiði að koma spilakössum úr borgarrýminu. Reykjavíkurborg þrýsti á ríkið til að koma nauðsynlegum breytingum á, geri sjálf þær breytingar sem hægt er til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa og hvetji þannig önnur sveitarfélög og opinbera aðila til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa. Öllum sviðum og ráðum borgarinnar verði falið að vinna saman að þessu markmiði þangað til lausn finnst. Velferðarsviði verði falið að leiða vinnuna. MSS22030022

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Spilafíkn veldur samfélagslegum skaða. Þrátt fyrir það eru reknir spilakassar í Reykjavík. Umræða um hvort rétt sé að banna rekstur spilakassa hefur skapast fyrir tilstilli Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hafa staðið fyrir átakinu lokum.is. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til árið 2021 að Reykjavíkurborg endurskoðaði reglur og samþykktir borgarinnar með það að markmiði að minnka rekstur spilakassa. Tillagan var felld. Reykjavík getur takmarkað rekstur spilakassa og hefur ýmsar heimildir til að setja reglur sem gætu komið í veg fyrir áframhaldandi rekstur spilakassa í borginni eða í það minnsta dregið úr slíkri starfsemi. Lögreglusamþykkt Reykjavíkur kveður m.a. á um að enginn megi reka leiktækjastað eða þess háttar starfsemi gegn borgun nema með leyfi lögreglustjóra að fenginni umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Jafnvel þótt engar reglur hafi verið settar um rekstur spilakassa þá eru í gildi ýmsar samþykktir sem hægt er að breyta og gera þar með ítarlegri kröfur til rekstraraðila. Ef horft er til skipulags borgarinnar væri t.d. góð byrjun að gera kröfu um að ekki megi selja áfengi eða veitingar í spilasölum eða að ekki megi reka spilakassa í rými þar sem fari fram veitingasala eða áfengissala. Það má að minnsta kosti hefja skoðun á því hvort slík reglusetning myndi rúmast innan heimilda borgarinnar.

5.    Fram fer umræða um aðkomu Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu. MSS22030152

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að veita flóttafólkinu fjárhagslega og félagslega aðstoð. Börnunum er nauðsyn að komast sem fyrst í leik- og grunnskóla og í frístund. Nú þegar fjöldi stríðshrjáðs fólks streymir til landsins hlýtur borgarmeirihlutinn að verða að endurskoða útdeilingu fjármagns úr borgarsjóði. Fresta ætti fjárfrekum framkvæmdum sem geta beðið betri tíma. Geislabaugurinn sem fyrirhugað er að rísi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um mörg önnur sambærileg verkefni sem ekki eru nauðsynleg og jafnvel enginn er að biðja um. Flokkur fólksins hefur talað ítrekað um að breyta þurfi forgangsröðun þegar fjármagni er útdeilt. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Þótt fjármagn komi frá ríkinu í einstök verkefni ber sveitarfélagið sína fjárhagslegu ábyrgð sem og siðferðislegu. Kallað er eftir nýrri hugsun, nýrri nálgun í borgarstjórn enda ekki vanþörf á. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Í biðlistaborginni Reykjavík bíða nú 1804 börn eftir fagþjónustu skóla. Ef spilin verða ekki endurstokkuð með þarfir fólks í forgangi er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrgð sína um að veita lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavík er tilbúin til að taka á móti fólki frá Úkraínu og hefur þegar hafið undirbúning þess. Í febrúar 2021 undirrituðu félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg samning um samræmda þjónustu við einstaklinga sem fengið hafa alþjóðlega vernd og þá sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Verið er að endurskoða samninginn og mikilvægt er að það gerist hratt og vel þannig að helst öll sveitarfélög á Íslandi komi með í það mikilvæga verkefni að taka á móti fólki sem flýr Úkraínu eftir innrás Rússa í landið. Það er einnig aðdáunarvert hvernig Reykvíkingar af úkraínskum uppruna hafa nú þegar lagt sig fram að styðja við flóttafólk frá heimalandinu sínu og leggur meirihlutinn áherslu á gott samstarf við þennan hóp.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa fordæmt innrás Rússlands í Úkraínu – enda er hún á engan hátt réttlætanleg. Sjálfstæðisflokkurinn telur að Reykjavíkurborg þurfi að gera sitt til að taka á móti fólki á flótta frá Úkraínu, en Sameinuðu þjóðirnar telja að nú séu yfir tvær og hálf milljón Úkraínumanna á flótta undan stríðsátökum í landinu. Þá leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks áherslu á að fólki á flótta frá Úkraínu verði veitt atvinnuleyfi á sama tíma og þeim er veitt dvalarleyfi hérlendis.

6.    Lagt er til að Líf Magneudóttir taki sæti sem varamaður í stað Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur í forsætisnefnd. MSS22020041

Samþykkt. 

7.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. mars. MSS22010035

13. liður fundargerðarinnar frá 3. mars; svar fjármála- og áhættustýringarsviðs við erindi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga varðandi ársreikning 2020, er samþykkt með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS21120038

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðarinnar frá 3. mars:

Það er óboðlegt að bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sé ekki tekið til afgreiðslu fyrr en þremur mánuðum eftir að það er sent. Í millitíðinni hefur málið borið á góma í borgarstjórn og fjárhagsáætlun afgreidd. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við þetta verklag enda er bréfið stílað á borgarstjórn. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga tekur undir sjónarmið borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að efnahagsreikningur borgarinnar sé byggður á röngum reikningsskilaaðferðum og þar af leiðandi gefi reikningurinn ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðarinnar frá 3. mars:

Gott er að hafa tungur tvær og fjármálaskrifstofan er föst í ruglinu. Borgarlögmaður lagði fram 2. mars 2021 minnisblað um hæfilegt ábyrgðargjald Félagsbústaða hf. vegna eigandaábyrgðar Reykjavíkurborgar. Þar kom fram að Félagsbústöðum hf. væri markaður skýr tilgangur og markmið og í samþykktum vísað til þess að félagið sé ekki rekið í hagnaðarskyni heldur að sinna félagslegri, lögbundinni þjónustu og því ekki nauðsynlegt að leggja á ábyrgðargjald. Einnig segir í samþykktum að tilgangi félagsins um að starfa í þágu almannaheilla megi ekki breyta, í 5. gr. samþykktanna er kveðið á um að félagið skuli ekki rekið í hagnaðarskyni og í 7. gr. að arður er ekki greiddur út til eiganda. Hér kemur það skýrt fram að Félagsbústaðir eru ekki fjárfestingafélag og eiga ekki fjárfestingaeignir. Á þessum grunni endurtek ég bókun mína við undirritun ársreikninga sl. ára. „Ég tel vera verulega skekkju í niðurstöðum samstæðureiknings Reykjavíkurborgar. Ofmatið er vegna eigna Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur. Skekkjan hefur veruleg áhrif við mat á niðurstöðu samstæðureiknings borgarinnar og gefur hann því ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Hlutfall eigna og skulda er þannig verulega skekkt. Á óvissutímum er nauðsynlegt að ársreikningurinn gefi lánardrottnum ekki ranga mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Ég undirrita ársreikninginn því með fyrirvara.“

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðarinnar frá 3. mars:

Flokkur fólksins lýsir sérstökum áhyggjum yfir því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga telji ástæðu til þess að óska sérstaklega eftir upplýsingum um reikningsskilaaðferð á fasteignum Félagsbústaða hf. í samstæðureikningi Reykjavíkurborgar. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og að hafa eftirlit með því að fjármálastjórn sveitarfélaga sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Leiði athugun nefndarinnar í ljós að afkoma sveitarfélags sé ekki í samræmi við ákvæði laganna eða að fjármál sveitarfélagsins stefni að öðru leyti í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarstjórn og kalla eftir skýringum. Þær ábendingar sem koma fram í bréfi nefndarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 2021, eru þess eðlis að óhjákvæmilegt er að fá skorið úr öllum álitamálum í þessu efni. Jafnframt skal bent sérstaklega á að í bréfi nefndarinnar kemur skýrt fram hve mikilvægt eftirlitshlutverk kjörinna fulltrúa er með fjármálum borgarinnar og hve þýðingarmikið það er að því sé komið á framfæri í sambandi við undirritun ársreiknings ef vafi leikur á um einstök atriði við uppsetningu eða útfærslu ársreiknings. Það hvetur fulltrúa minnihlutans til dáða við að vera óhrædda við að gera það sem fært er til að fá skorið úr álitamálum er varða reikningsskil Reykjavíkurborgar og frágang ársreiknings hennar.

8.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 11. mars, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 24. febrúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. febrúar, skipulags- og samgönguráðs frá 2. og 9. mars, skóla- og frístundaráðs frá 8. mars og velferðarráðs frá 2. og 9. mars. MSS22010217

Samþykkt að vísa 4. lið fundargerðar forsætisnefndar, tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna umdæmisráðs barnaverndar og kjaranefndar, til síðari umræðu í borgarstjórn. MSS21120197

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar forsætisnefndar:

Engan hefði órað fyrir því að stríð myndi brjótast út í vestrænum heimi árið 2022. Lýst er yfir miklum áhyggjum af ástandinu í Úkraínu. Skorað er á ríkisstjórn Íslands að koma því áleiðis við alþjóðasamfélagið að leiða fram vopnahlé þegar í stað og semja í framhaldinu um frið á átakasvæðinu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars:

Fulltrúi Flokks fólksins harmar viðbrögð og afgreiðslu meirihluta velferðarráðs við tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta á fundi velferðarráðs 2. mars sl. Tillaga ungmennaráðsins var að aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum yrði bætt. Án nokkurs samráðs við fulltrúa í minnihluta velferðarráðs var lögð fram breytingartillaga sem er með öllu óraunhæf og til þess fallin að slá ryki í auga tillöguflytjanda. Meirihlutinn leggur til að velta vinnunni yfir á heilsugæslusálfræðinga og vill ræða við heilsugæsluna um að heilsugæslusálfræðingar fari út í skólana og veiti grunnskólanemum að sálfræðiþjónustu. Þetta er fráleitt. Heilsugæslusálfræðingar starfa á heilsugæslunni og sinna fjölbreyttum hópi. Til þeirra er langur biðlisti. Í breytingartillögu meirihlutans er gengið svo langt að segja að „skoða hvort og hvernig sálfræðingar Heilsugæslunnar fái afnot af skólahúsnæði til að geta veitt nemendum meðferð líkt og skólahjúkrunarfræðingar hafa haft um langa hríð“. En það eru sálfræðingar skólaþjónustunnar sem eiga að sinna þessum hópi samkvæmt lögum. Þeirra aðsetur er hins vegar á þjónustumiðstöðvum en ekki út í skólum. Ítrekað hefur verið lagt til að færa aðsetur skólasálfræðinga út í skólanna án árangurs. Hins vegar hikar velferðarráð ekki við að leggja það til að finna stað fyrir heilsugæslusálfræðinga í skólum borgarinnar til að sinna vinnu skólasálfræðinganna.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Í samráði við ungmennaráðsfulltrúann var lögð fram breytingartillaga sem var samþykkt af öllum fulltrúum í velferðarráði nema fulltrúa Flokks fólksins. 

Fundi slitið kl. 21:49

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Alexandra Briem

Dóra Magnúsdóttir    Kolbrún Baldursdóttir

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.3.2022 - Prentvæn útgáfa