Borgarstjórn - 15.3.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 15. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra, S. Björns Blöndal, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Sabine Leskopf, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Dóra Magnúsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Júlíus Vífill Ingvarsson og Áslaug Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fundir fastanefnda Reykjavíkurborgar eru ávallt haldnir fyrir luktum dyrum og er fundarmönnum óheimilt að segja frá því sem þar kemur fram eða greina frá ummælum og afstöðu þeirra sem sitja fundina. Í sveitarstjórnarlögum er heimild til þess að halda opna nefndarfundi ef ósk kemur fram um slíkt og svo fremi sem lög og eðli máls hamla því ekki. Ekki eru sambærilegar heimildir í samþykktum borgarinnar og eru sveitarstjórnarlögin að þessu leyti opnari og lýðræðislegri heldur en samþykktirnar. Lagt er til að ákvæðum samþykkta fastanefnda borgarinnar verði breytt þannig að heimilt verði að verða við óskum um að reglubundnir fundir ráða og nefnda verði opnir almenningi. Þá er lagt til að opnað verði fyrir og undirbúið að hefja beinar útsendingar frá fundum ráða og nefnda með rafrænum hætti þannig að borgarbúar geti hlustað á það sem þar fer fram og fylgst með því hvernig ákvörðun er undirbúin og tekin í einstökum málum og hvernig kjörnir fulltrúar rökstyðja afstöðu sína til þeirra. Hvert ráð fyrir sig móti sér skýrar og aðgengilegar reglur varðandi opna fundi og útsendingar frá fundum.  

- Kl. 14.02 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. 

- Kl. 14.10 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum. 

- Kl. 14.18 tekur Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur sæti. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina eru fylgjandi því að fundir ráða og nefnda borgarinnar séu opnir þannig að borgarbúar hafi beinan aðgang að því hvernig ákvarðanir eru teknar. Allar aðgerðir til að auka gagnsæið og vinna í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar og gera þannig aðgang að upplýsingum og þjónustu við borgarbúa greiðari, skilvirkari og markvissari, er nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd sem fyrst.  

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Á næstunni er fyrirhuguð meiri uppbygging í miðborg Reykjavíkur en dæmi eru um í sögunni. Gólffletir nýbygginga munu margfalda þann fermetrafjölda sem fyrir er í Kvosinni. Fyrirsjáanlegt er að umferðarþungi og álag muni aukast verulega á helstu götum sem liggja að miðborginni en það eru Sæbraut og Geirsgata og svo Lækjargata þó í minna mæli sé. Þrátt fyrir að byggingarframkvæmdir séu nú að mestu á frumstigi, að frátöldu tónlistarhúsinu Hörpu, kljúfa þessar götur nyrðri hluta svæðisins og koma í veg fyrir að það geti orðið ein heild þar sem fólk nær að njóta nýrri og eldri hluta miðborgarinnar óhindrað. Lagt er til að Reykjavíkurborg óski eftir viðræðum við ráðherra samgöngumála, innanríkisráðherra, um að Sæbraut verði lögð í stokk austan við Hörpu í átt að Hafnarhvoli en vestan gatnamóta Lækjargötu heitir gatan Geirsgata. Ef vilji er fyrir hendi frá ríki og borg er mikilvægt að hefja viðræður sem fyrst. Ýmislegt bendir til þess að nú sé tækifæri til að hrinda slíku samgöngumannvirki í framkvæmd. Hafa verður samráð við lóðarhafa. Þegar húsin á reitnum hafa risið verður mun erfiðara að setja umræddar götur í stokk og hugsanlega verður það þá of seint. Verði Sæbraut og Geirsgata lagðar í stokk skapast tækifæri til þess að móta torg og fleira þar sem göturnar liggja nú og þannig má auka umhverfisgæði og skapa fjölbreytilegan og eftirsóknarverðan miðborgarbrag. Þá er líklegt að með þessari framkvæmd opnist möguleikar á að endurhugsa yfirborð og hlutverk Lækjargötu. Henni mætti til dæmis breyta í göngugötu að hluta og opna lækinn sem gatan er kennd við. 

Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samkvæmt skýrslu Mannvits frá 2008 mun umferðarstokkur frá Hörpu að Ánanaustum kosta um 23 milljarða króna á núvirtu verðlagi. Þessi kostnaður mun allur leggjast á skattgreiðendur í Reykjavík því Vegagerðin er um þessar mundir að afsala sér Geirsgötu og Mýrargötu austur að Kringlumýrarbraut. Það er því borin von að hún muni taka þátt í kostnaði við gerð umferðarstokks á þessu svæði. Rétt er að halda því til haga að í gildi er samþykkt skipulag þar sem gert er ráð fyrir að hægt verði á bílaumferðinni með svokölluðum T-gatnamótum við Kalkofnsveg og Lækjargötu. Gert er ráð fyrir að fótgangandi vegfarendur eigi greiða og örugga leið yfir Geirsgötu og Kalkofnsveg á nokkrum stöðum. Áætlað er að þetta muni kosta 400 milljónir króna. Vegagerð ríkisins mun ekki taka þátt í þeim kostnaði. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Margar borgir víða um heim eru um þessar mundir að vinna að því að setja fjölfarnar umferðargötur í nágrenni íbúðabyggðar undir yfirborðið. Verði umferðaræðar í miðborg Reykjavíkur lagðar í stokk eða göng munu umhverfisgæði í Kvosinni gjörbreytast til hins betra. Slíkt umferðarmannvirki mun draga úr hljóð- og loftmengun og skapa fjölmörg og skemmtileg tækifæri til þróunar á svæði þar sem göturnar liggja nú. Jákvæð áhrif á gönguleiðir og ásýnd borgarinnar eru ótvíræð. Meðal annars munu opnast möguleikar á að endurhugsa yfirborð og hlutverk Lækjargötu. Sæbrautin fellur undir skilgreininguna „þjóðvegur í þéttbýli“ og er þess vegna í umsjón Vegagerðarinnar. Kostnaður vegna viðhalds þjóðvega fellur á ríkið og það sama á við um hvers konar samgöngumannvirki á þeim götum. Reykjavíkurborg hefur eðlilega hafnað því að taka yfir rekstur þjóðvega þegar eftir hefur verið leitað en slíka færslu frá ríki til borgar yrði að gera með samkomulagi. Við mat á kostnaði verður að taka tillit til margra þátta og þá sérstaklega mikilvægra umhverfisþátta. Meirihlutinn hefur framreiknað kostnað af allt öðru mannvirki frá haustmánuðum árið 2008. Slíkur þríliðareikningur frá mesta efnahagsbóluskeiði sögunnar hefur enga þýðingu og er lítið annað en útúrsnúningur. Með ákvörðun sinni og aðgerðarleysi hefur meirihlutinn lagt blessun sína yfir umferðarskipulag sem mun verða miðborginni fjötur um fót um ókomna tíð.  

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að flytja starfsemi Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Reykjavík, Höfuðborgarstofu og skrifstofu menningar- og ferðamálasviðs í Ráðhús Reykjavíkur. Markmið flutningsins er að spara húsnæðiskostnað og bæta þjónustu við ferðamenn. Jafnframt verði skoðaðir möguleikar á því að opna útibú frá Upplýsingamiðstöðinni í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar austar í borginni.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að tekin verði upp sú meginregla að nýta verkbókhald til að fylgjast með kostnaðarþróun verkefna. Sums staðar í borgarkerfinu er þetta gert nú þegar en mikilvægt er að innleiða þetta á fleiri stöðum og gera að almennri reglu þó að alltaf geti verið undantekningar. Þegar mikið liggur við, eins og í því hagræðingarferli sem borgin glímir nú við er gríðarlega mikilvægt að gera þessar upplýsingar aðgengilegri. Starfsfólk, stjórnendur og kjörnir fulltrúar þurfa að hafa góða yfirsýn. Þannig má gera betri áætlanir, taka betri ákvarðanir og álag á starfsfólk kemur í ljós. Borgarráði verði falin framkvæmd tillögunnar.

Samþykkt. 

Vísað til borgarráðs.

5. Fram fer umræða um Perlu norðursins, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. mars sl. 

- Kl. 18.35 tekur Skúli Helgason sæti á fundinum og Sabine Leskopf víkur sæti. 

6. Fram fer umræða um biðlista eftir sérfræðiþjónustu skóla.

- Kl. 19.05 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Sabine Leskopf tekur sæti. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir vilja leggja áherslu á að börn sem þurfi á sérfræðiaðstoð að halda fái þjónustu sem allra fyrst þegar erfiðleikar koma í ljós því óhóflegur dráttur á aðstoð getur annars aukið á vandann. Því er brýnt að nú þegar verði skoðað með hvaða hætti sé hægt að koma til móts við þjónustumiðstöðvar borgarinnar strax á þessu ári til að svo megi verða. Hér er einkum horft til þess að þjónustumiðstöð Breiðholts verði gert kleift að vinna úr löngum biðlistum þar sem þar hefur verið unnið mikið og tímafrekt brautryðjendastarf sem í dag nýtist einnig öðrum þjónustumiðstöðvum borgarinnar.

7. Fram fer umræða um óviðunandi viðhald gatna. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að götur borgarinnar séu í góðu lagi. Óhagstætt tíðarfar, veruleg umferðaraukning og sparnaður í kjölfar hrunsins hafa dregið fram og orsakað bresti í gatnakerfinu. Á þessu og síðasta ári eru samanlagt settar tæplega 1.500 milljónir í endurbætur gatna. Umfang endurbótanna er komið í svipað horf og það var fyrir hrun en þrátt fyrir þetta er ástand gatna ekki ásættanlegt. Því er ljóst að betur má ef duga skal og sameiginlegt átak og samræmdar aðgerðir þarf til að koma gatnakerfinu í viðunandi horf. Því hefur nú verið tekið hið mikilvæga framfaraskref að leita til Vegagerðarinnar og nágrannasveitarfélaga um að taka saman höndum um undirbúning nauðsynlegs átaks um viðhald og ekki síður endurnýjun gatnakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Með því fæst sameiginlegt mat á ástandi og viðhalds- og endurbótaþörf sem og áætlun á grundvelli þess. Í samræmi við stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga verður skoðuð fjármögnun og eðlileg hlutdeild sveitarfélaganna í tekjustofnum sem verða beinlínis til vegna bílaumferðar og eins aukins álags ferðamanna. Auk þess verður hugað að rannsóknum á gatnagerð, malbikslögnum og væntum endingartíma.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ástand gatna er mjög slæmt. Borgin hefur sparað sér til tjóns í viðhaldi gatna og hafa afleiðingarnar berlega komið í ljós núna í ár og í fyrra. Þeir fjármunir sem verja á í viðhald gatna í ár er sambærilegt og á síðasta ári. Það dugar ekki. Viðhald er ekki nóg heldur þarf að fara í endurnýjun víða. Göturnar eru það slæmar að það er að verða undantekning að finna götur í Reykjavík sem eru í lagi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Undir stjórn meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna hefur Reykjavíkurborg vanrækt þá skyldu sína að halda gatnakerfi borgarinnar í viðunandi horfi. Gatnakerfi Reykjavíkur liggur undir miklum skemmdum og er sums staðar að hruni komið eins og glöggt kom fram á þeim myndum sem sýndar voru á fundinum. Víða er komið að hættumörkum í þeim skilningi að malbikslag er orðið svo götótt að vatn rennur í gegnum það og niður í sjálft undirlagið þar sem það frýs og skemmir enn frekar út frá sér. Fjárveitingar til malbiksviðhalds samkvæmt fjárhagsáætlun yfirstandandi árs duga ekki til að halda í horfinu og að óbreyttu mun ástandi gatnakerfis borgarinnar því enn hraka næsta vetur. Brýnt er að borgarstjórnarmeirihlutinn viðurkenni umfang vandans og auki malbiksviðhald í borginni með það í huga að bæta úr vanrækslu síðustu ára og koma gatnakerfinu í viðunandi horf á 3-4 árum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að enn er unnt að fresta ákveðnum nýframkvæmdum í því skyni að auka fjárveitingar til malbiksviðhalds.

8. Fram fer umræða um málefni Kjalarness.

9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. mars 2016.

10. liður fundargerðarinnar frá 10. mars; erindi Söngskólans í Reykjavík vegna fasteignagjalda, synjað með vísan til umsagnar fjármálaskrifstofu með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Með lögum um tekjustofna sveitarfélaga er opnað fyrir það að sveitarstjórn veiti styrki til greiðslu fasteignaskatta af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Líta verður svo á að löggjafinn sé með ákvæði þessu að benda sveitarfélögum á að fara þessa leið. Sú röksemd Reykjavíkurborgar að hún hafi sett sér reglur fyrir ellefu árum um að styrkja ekki slíka starfsemi vegna greiðslu fasteignaskatta er ekkert annað en fyrirsláttur sem stenst enga rýni. Nægir að benda á að íþróttafélög hafa hlotið hærri styrki frá borginni vegna greiðslu fasteignaskatta sem lagðir voru á félögin í framhaldi af setningu umræddra laga. Með þessari afgreiðslu er verið að hegna einum af höfuðskólum tónlistarmenntunar í borginni fyrir það að hafa með elju og útsjónarsemi eignast eigið húsnæði í þeim tilgangi einum að geta tryggt nemendum vandað söngnám.

11. liður fundargerðarinnar frá 10. mars; erindi Tónlistarskólans í Reykjavík vegna kjarasamninga. Umsögn fjármálaskrifstofu samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata taka undir umsögn fjármálastjóra en þó með þeim fyrirvara að starfsgrundvöllur tónlistarskólanna verði tryggður enda ríkir óvissa um starfsemi þeirra sem sinna framhaldsnámi í tónlist að óbreyttu. Núverandi umgjörð um tónlistarfræðslu afmarkast af þremur þáttum: lögum um fjárhagslegan stuðning til tónlistarskóla nr. 75/1985, aðalnámskrá tónlistarskóla og kjarasamningum kennara. Langvarandi óvissa vegna ýmiss konar ágreinings hefur einkennt rekstrarumhverfi tónlistarskólanna. Það þarf að höggva á þennan hnút og skipta kostnaði á milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við aðra skiptingu kostnaðar í skólakerfinu og því þarf að endurskoða og breyta lögum nr. 75/1985 og skýra þessa verkskiptingu afdráttarlaust. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á þessum sama fundi borgarstjórnar er verið að auka fjárheimildir til fagsviða borgarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga. Launahækkanir eru einfaldlega raunveruleiki sem ekki verður horft fram hjá og ekki umflúið að bregðast við þeim. Væntanlega dettur engum í hug að í tónlistarskólum borgarinnar séu þeir sjóðir sem skólarnir geta gengið í vegna launahækkana í framhaldi af kjarasamningum við Félag íslenskra hljómlistarmanna. Varnaðarorð skólastjóra tónlistarskólanna um að hætta sé á að tónlistarkennsla verði aflögð næsta haust, verði ekkert að gert, ber að taka alvarlega.

12. liður fundargerðarinnar frá 10. mars; erindi Tónlistarskóla FÍH vegna kjarasamninga. Umsögn fjármálaskrifstofu samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata taka undir umsögn fjármálastjóra en þó með þeim fyrirvara að starfsgrundvöllur tónlistarskólanna verði tryggður enda ríkir óvissa um starfsemi þeirra sem sinna framhaldsnámi í tónlist að óbreyttu. Núverandi umgjörð um tónlistarfræðslu afmarkast af þremur þáttum: lögum um fjárhagslegan stuðning til tónlistarskóla nr. 75/1985, aðalnámskrá tónlistarskóla og kjarasamningum kennara. Langvarandi óvissa vegna ýmiss konar ágreinings hefur einkennt rekstrarumhverfi tónlistarskólanna. Það þarf að höggva á þennan hnút og skipta kostnaði á milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við aðra skiptingu kostnaðar í skólakerfinu og því þarf að endurskoða og breyta lögum nr. 75/1985 og skýra þessa verkskiptingu afdráttarlaust.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á þessum sama fundi borgarstjórnar er verið að auka fjárheimildir til fagsviða borgarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga. Launahækkanir eru einfaldlega raunveruleiki sem ekki verður horft fram hjá og ekki umflúið að bregðast við þeim. Væntanlega dettur engum í hug að í tónlistarskólum borgarinnar séu þeir sjóðir sem skólarnir geta gengið í vegna launahækkana í framhaldi af kjarasamningum við Félag íslenskra hljómlistarmanna. Varnaðarorð skólastjóra tónlistarskólanna um að hætta sé á að tónlistarkennsla verði aflögð næsta haust, verði ekkert að gert, ber að taka alvarlega.

13. liður fundargerðarinnar frá 10. mars; erindi Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík vegna kjarasamninga. Umsögn fjármálaskrifstofu samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata taka undir umsögn fjármálastjóra en þó með þeim fyrirvara að starfsgrundvöllur tónlistarskólanna verði tryggður enda ríkir óvissa um starfsemi þeirra sem sinna framhaldsnámi í tónlist að óbreyttu. Núverandi umgjörð um tónlistarfræðslu afmarkast af þremur þáttum: lögum um fjárhagslegan stuðning til tónlistarskóla nr. 75/1985, aðalnámskrá tónlistarskóla og kjarasamningum kennara. Langvarandi óvissa vegna ýmiss konar ágreinings hefur einkennt rekstrarumhverfi tónlistarskólanna. Það þarf að höggva á þennan hnút og skipta kostnaði á milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við aðra skiptingu kostnaðar í skólakerfinu og því þarf að endurskoða og breyta lögum nr. 75/1985 og skýra þessa verkskiptingu afdráttarlaust. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: Á þessum sama fundi borgarstjórnar er verið að auka fjárheimildir til fagsviða borgarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga. Launahækkanir eru einfaldlega raunveruleiki sem ekki verður horft fram hjá og ekki umflúið að bregðast við þeim. Væntanlega dettur engum í hug að í tónlistarskólum borgarinnar séu þeir sjóðir sem skólarnir geta gengið í vegna launahækkana í framhaldi af kjarasamningum við Félag íslenskra hljómlistarmanna. Varnaðarorð skólastjóra tónlistarskólanna um að hætta sé á að tónlistarkennsla verði aflögð næsta haust, verði ekkert að gert, ber að taka alvarlega.

15. liður fundargerðarinnar frá 10. mars; viðauki við fjárhagsáætlun 2016 vegna aukaframlags til tónlistarskóla, samþykktur. 

16. liður fundargerðarinnar frá 10. mars; viðauki við fjárhagsáætlun 2016 vegna kjarasamninga, samþykktur.

18. liður fundargerðarinnar frá 10. mars; svohljóðandi tillaga borgarstjóra um veðheimild Félagsbústaða vegna lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga: 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 500.000.000 kr. til 40 ára í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir borgarstjórn lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til að fjármagna kaup á félagslegu húsnæði og til uppgreiðslu óhagstæðra lána Félagsbústaða hf. sem tekin voru til kaupa og viðhalds á félagslegu húsnæði, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn Reykjavíkur skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Félagsbústaða hf. til að selja ekki eignarhlut sinn í Félagsbústöðum hf. til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut í Félagsbústöðum hf. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu. Jafnframt er Birgi Birni Sigurjónssyni fjármálastjóra, kt. 200249-2169, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjavíkurborgar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.

Jafnframt er lagt fram bréf Félagsbústaða, dags. 8. mars 2016, varðandi veðheimild vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 6. mars 2016.

Samþykkt.

10. Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 8. mars, skóla- og frístundaráðs frá 9. mars, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 7. mars og umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. mars. 

Fundi slitið kl. 23.55

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Áslaug Friðriksdóttir                                                                         Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.3.2016 - prentvæn útgáfa