Borgarstjórn - 15.12.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 15. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, S. Björn Blöndal, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Dóra Magnúsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Jóna Björg Sætran, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon.

Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um loftslagsmál. 

- Kl. 14.04 tekur Áslaug Friðriksdóttir sæti á fundinum.

- Kl. 15.32 tekur Gréta Björg Egilsdóttir sæti á fundinum og Jóna Björg Sætran víkur af fundi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna Parísarsamkomulaginu og telja að Reykjavíkurborg geti lagt mikið af mörkum með aðgerðum sem styðja við markmið þess. Framundan er vinna við að kortleggja hvernig draga má frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka orkuskilvirkni, draga úr útblæstri og vinna að enn frekari notkun endurnýjanlegra orkugjafa og í framhaldi að því að finna leiðir til umbóta. Mikilvægt er að borgarstjórn öll vinni markvisst að því.

2. Samþykkt með 15 atkvæðum að taka tilögu SSH um kostnaðarskiptingu vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks á dagskrá fundarins með afbrigðum.

Tillagan er svohljóðandi: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki fyrirliggjandi tillögu stjórnar SSH um hlutdeild hvers sveitarfélags í akstri á vegum ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á grundvelli þess tíma sem sveitarfélagið notar. Fyrirkomulagið gildi afturvirkt frá 1. janúar 2015.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

3. Samþykkt með 15 atkvæðum að taka tillögu að viðauka við fjárhagsáætlun 2015 vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks á dagskrá fundarins með afbrigðum.

Tillagan er svohljóðandi: 

Lagt er til að fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um kr. 70.000.000 árið 2015 vegna breytinga á kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Breytingin færist á kostnaðarstað F3650 og verði fjármögnuð af handbæru fé. Breytingin hefur þau áhrif að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs, A-hluta og samstæðu verður kr. 70.000.000 lakari en áætlað hafði verið og handbært fé lækkar sem því nemur.  

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

4. Lögð fram tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 8. desember 2015, varðandi gjaldskrár fyrir árið 2016, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. desember sl.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

5. Lögð fram tillaga að gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. desember sl. 

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

6. Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hundahald, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. desember sl.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

7. Lögð fram tillaga að sorphirðugjaldskrá, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. desember sl.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

8. Lögð fram tillaga að gjaldskrá skipulagsfulltrúa, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. desember sl.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að samgöngubótum um Miklubraut og Hringbraut með gerð stokks til að bæta umferðarflæði, draga úr mengun og bæta aðstæður íbúa í nágrenninu. Jafnframt verði skoðað að vinna verkið í einkaframkvæmd.

- Kl. 16.45 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Sabine Leskopf tekur þar sæti. 

Samþykkt með 15 atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Að beina umferð sem nú fer um Miklubraut í stokk mun hafa jákvæð áhrif á lífsgæði íbúa í Hlíðunum sem hafa ítrekað kallað eftir slíku samgöngumannvirki. Svifryks- og loftmengun og hávaði frá umferð mun minnka. Ekki síst er mikilvægt að með stokkalausn mun öryggi gangandi og hjólandi aukast verulega. Þegar umferð ofanjarðar hefur minnkað munu skapast tækifæri til að þétta byggð þar sem áður var götustæði og Hlíðarnar verða loks eitt hverfi. Á þeim kafla þar sem meginþungi umferðar mun fara um stokk verður yfirborð Miklubrautar að rólegri borgargötu. Umferðarstokkur sem nær frá Snorrabraut og austur fyrir gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar mun greiða fyrir jöfnu flæði umferðar og mun gera mögulegt að gera mislæg gatnamót á tveimur stöðum á þessum kafla sem verða ekki fyrirferðamikil og munu hafa hverfandi áhrif á umhverfið. Það eru gatnamótin Miklabraut/Kringlumýrarbraut og Miklabraut/Langahlíð en með stokk verður Kringlumýrarbraut í þeirri hæð sem hún er nú. Talningar sýna að um 70% umferðar eigi ekki erindi um íbúðagötur Hlíðanna og muni því fara um stokk. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Eðlilegt er að auk stokkalausnar verði aðrir kostir skoðaðir og framkvæmdin metin út frá fjárhagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum forsendum og ávinningi.

10. Lögð fram svohljóðandi tillaga: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar sem halda skal þann 5. janúar 2016 með vísan til heimildar í 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 139/2011.

Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina, sbr. 3. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjórn er opinn vettvangur þar sem málefni Reykjavíkurborgar eru rædd í heyranda hljóði. Að undanförnu hefur gætt sívaxandi tilhneigingar hjá núverandi borgarstjórnarmeirihluta að draga úr vægi borgarstjórnarfunda, t.d. með því að vísa fjölmörgum tillögum, sem þar eru fluttar af borgarfulltrúum, til borgarráðs þar sem þeim er ráðið til lykta á lokuðum fundum. Tillaga borgarstjórnarmeirihlutans um að fella niður fyrri fund borgarstjórnar í janúar og lengja þannig jólafrí borgarfulltrúa, er af sama meiði. Ljóst er að mörg mikilvæg mál liggja fyrir borgarstjórn í upphafi nýs árs, ekki síst varðandi það hvernig tekist verði á við bága fjárhagsstöðu borgarinnar, t.d. með því hvernig 1.780 milljóna króna óútfærðri hagræðingarkröfu verði mætt og 500 milljóna óútfærðri tekjuaukningu að auki samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun. Sjaldan eða aldrei hefur því verið ríkara tilefni til að borgarfulltrúar vinni vinnuna sína og noti reglulega fundi borgarstjórnar til að starfa að fjármálum borgarinnar og öðrum mikilvægum málum en stingi ekki höfðinu í sandinn og framlengi eigið jólafrí.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga um að fella niður fyrsta fund ársins byggir á langri hefð, enda gefa hátíðarnar lítinn tíma eða svigrúm til undirbúnings borgarstjórnarfundar. Um það náðist ekki sátt að þessu sinni og verður fundurinn því haldinn skv. áætlun.

11. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 10. desember 2015.

15. liður, breyting á deiliskipulagi Skipholts 70, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Athugasemdir sem borist hafa vegna fyrirhugaðrar hækkunar Skipholts 70 eru fjölmargar og réttmætar. Taka ber tillit til svo einarðra mótmæla og virða rétt þeirra sem búa í nágrenninu. Við samþykktum að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Skipholts 70 og að kanna með þeim hætti viðhorf þeirra sem búa í hverfinu og annarra sem hagsmuna eiga að gæta. Skortur er á litlum íbúðum í borginni en að finna þeim stað á þéttingarreitum getur reynst flókið og kallar á virkt samráð við nærumhverfið. Ef það er hins vegar fyrirfram afstaða meirihlutans að auglýstar tillögur skuli samþykkja án tillits til þeirra athugasemda sem kunna að berast er lögfest samráðsferli einungis orðið til sýnis og blekking gagnvart þeim sem taka ferlið alvarlega, m.a. með því að gera athugasemdir. Enda þótt við teljum að ekki eigi að bæta við þriðju hæð á húsið fjölgar íbúðum á annarri hæð en þar er skrifstofuhúsnæði breytt í íbúðarhúsnæði og gert ráð fyrir 14 íbúðum. Mikilvægt er að starfsemi á jarðhæð hússins þjóni hverfinu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Sú breyting sem gerð er á lóð Skipholts 70 er í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem aðalskipulag Reykjavíkur setur um þróun byggðar í borginni og nánar til tekið á þessum stað. Ýmsar ábendingar hafa komið fram sem komið er til móts við með þeim skilmálum sem uppbyggingunni eru settar. Þá eru ýmsar breytingar sem fylgja uppbyggingunni til að bæta ásýnd húss og lóðar frá núverandi ástandi. Fulltrúar meirihlutans í borgarráði benda á bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina frá í júní á þessu ári: „Ljóst er að skortur er á litlum íbúðum í Reykjavík. Ef 32 íbúðir komast fyrir á grundvelli byggingarreglugerðar á auðvitað að samþykkja slíkt til að verða við þeirri eftirspurn sem er á markaðnum.“ Ekki hafa verið gerðar breytingar eða komið fram sjónarmið sem stangast á við þau sjónarmið sem þar eru tíunduð.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir vilja fjölga litlum íbúðum enda er skortur á þeim. Hins vegar er ljóst að andstaðan í nágrenninu er mikil, aðallega vegna skorts á bílastæðum við húsið, og hafa þeir sem sækja þjónustu að Skipholti 70 lagt í bílastæði og innkeyrslur á nærliggjandi lóðum í óþökk þeirra sem þar búa og telja þeir að með 26 íbúðum í húsið muni verða algjört öngþveiti í bílastæðamálum. Með þéttingu byggðar koma upp slík vandamál og ekki liggur fyrir hvernig þau verða leyst en slík vandamál eiga ekki að lenda á nágrönnum.

26. liður, eignarhald og nýting Gröndalshúss, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Völundarverk var samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnunar, Minjasafns Reykjavíkur og IÐUNNAR - fræðsluseturs. Megintilgangurinn var að bæta þekkingu á viðhaldi og endurgerð sögufrægra gamalla húsa. Endurgerð Gröndalshúss var unnin í því samvinnuverkefni. Byggt var á reynslu annarra þjóða og leitað fyrirmyndar í svokölluðu Hallandverkefni í Svíþjóð sem byggði á einkunnarorðunum „Bjarga störfum, bjarga handverki, bjarga húsum“. Ekki er hins vegar sérstök ástæða til þess fyrir Reykjavíkurborg að eiga þetta hús. 

34. liður, þátttaka í kostnaði vegna langtímaveikinda í tónlistarskólum, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

35. liður, viðauki við fjárhagsáætlun vegna kjarasamninga, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

36. liður, viðauki við fjárhagsáætlun vegna endurskoðunar á tekjuáætlun, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

12. Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 8. desember, menningar- og ferðamálaráðs frá 7. desember, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 30. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. desember og velferðarráðs frá 3. desember.

Fundi slitið kl. 18.02

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Halldór Halldórsson Skúli Helgason

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.12.2015 - prentvæn útgáfa