Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2019, þriðjudaginn 15. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Örn Þórðarson, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Í upphafi fundar minnist borgarstjóri Pawels Adamowicz, borgarstjóra Gdansk, og borgarstjórn heiðraði minningu hans með mínútu þögn.
2. Lagt er til að fram fari kjör fjögurra varaforseta borgarstjórnar.
Frestað.
3. Fram fer umræða um skýrslu innri endurskoðunar vegna framkvæmda við Nauthólsveg 100.
- Kl. 17:30 tekur Björn Gíslason sæti á fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir víkur sæti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skýrsla innri endurskoðanda er mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslu Reykjavíkur. Lög voru brotin sem og reglur borgarinnar. Meðal annars sveitarstjórnarlög og lög um opinber skjalasöfn. Enn er ýmsum spurningum ósvarað, til dæmis hvað varðar reikninga og skjalamál. Ýmsar leiðir eru færar til að halda áfram að upplýsa málið. Tillaga Miðflokksins og Flokks fólksins hefur nú verið felld af meirihlutanum. Það er því einboðið að aðrar leiðir verði nýttar til að upplýsa að fullu þau álitaefni sem enn standa eftir.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:
Borgarstjórn samþykkir að vísa skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkur sem ber heitið Nauthólsvegur 100 til héraðssaksóknara til frekari yfirferðar og rannsóknar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:
Borgarstjórn samþykkir að fela embætti borgarlögmanns að vísa skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkur sem ber heitið Nauthólsvegur 100 til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar. Jafnframt verði sama embætti falið að senda niðurstöður Borgarskjalasafns á skjalamálum í sama máli áfram þegar að þær liggja fyrir.
Breytingartillagan er samþykkt til afgreiðslu með sex atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Egils Þórs Jónssonar, Mörtu Guðjónsdóttur, Arnar Þórðarsonar og Björns Gíslasonar. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins; Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og Valgerður Sigurðardóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan svo breytt er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins, Flokks fólksins og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Eyþórs Laxdal Arnalds, Valgerðar Sigurðardóttur, Egils Þórs Jónssonar, Mörtu Guðjónsdóttur, Arnar Þórðarsonar og Björns Gíslasonar.
Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögu um að vísa skýrslu innri endurskoðunar um braggann til þar til bærra yfirvalda hefur verið felld af meirihlutanum. Það er illskiljanlegt því það er hagur okkar allra að þetta mál verði hafið yfir allan vafa þegar kemur að meintu misferli. Borgarbúar eiga rétt á að þetta mál verði rannsakað til hlítar og að engir lausir endar verði skildir eftir. Við berum ábyrgð sem kjörnir fulltrúar og eftirlitshlutverk okkar með fjárreiðum borgarinnar er ríkt. Þessu eftirlitshlutverki erum við að sinna með tillögu þessari. Þetta mál hefur misboðið fjölmörgum Reykvíkingum og landsmönnum einnig. Meirihlutinn hefði átt að taka þessari tillögu fagnandi og sterkast hefði verið ef hann sjálfur hefði átt frumkvæðið af tillögu sem þessari. Þess í stað er brugðist illa við eins og birst hefur á fundi borgarstjórnar og í fjölmiðlum. Viðbrögðin lýsa ótta og vanmætti. Það er mat okkar að eina leiðin til að ljúka þessu máli fyrir alvöru er að fá úrskurð þar til bærra yfirvalda á hvort misferli kunni að hafa átt sér stað. Hvað sem öllu þessu líður stendur eftir að svara því hver ætlar að taka hina pólitísku ábyrgð í þessu máli.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er vandræðalegt fyrir borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins að vera gerð afturreka með eigin tillögu um að vísa málinu til héraðssaksóknara með tilvísun í 140. og 141. grein almennra hegningarlaga. Eftir að hafa farið í helstu fjölmiðla og reynt að búa til þá tilfinningu meðal borgarbúa að glæpsamlegt athæfi hafi átt sér stað við framkvæmdir við Nauthólsveg 100. Það var skoðað í skýrslu IE og niðurstaðan var að ekki væri ástæða til að fara með málið til frekari rannsóknar. Hlutverk borgarfulltrúa er að gera borgina okkar betri. Það er lykilatriði að kjörnir fulltrúar átti sig á eftirlitshlutverki sínu, það snýst ekki um að búa til samsæriskenningar og falsfréttir um rekstur og framkvæmdir borgarinnar. Málið er nú þegar komið í umbótaferli þar sem borgarlögmaður er einn þeirra embættismanna sem koma að verkefninu. Almennt má segja að ef borgarlögmaður verði þess áskynja að mál eigi að vísa til þar til bærra yfirvalda, þá gerir embættið það.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir leggja fram svohljóðandi bókun:
Skýrsla innri endurskoðunar ber stjórnsýslu borgarinnar ekki fagurt vitni. Fyrir liggja fjölmargar ábendingar um nauðsynlegar úrbætur. Á þeim þarf að taka af festu svo mál af sambærilegum toga verði ekki endurtekin. Það er eindregið álit okkar að ósk um sakamálarannsókn eigi undir engum kringumstæðum að koma frá pólitískum vettvangi borgarstjórnar. Á þessu stigi máls er ótímabært að draga ályktanir um refsiverða háttsemi og óréttmætt að bera starfsfólk svo þungum sökum þegar rannsókn málsins hefur ekki náð fullum þroska. Við teljum rétt að gæta meðalhófs og tæma þau úrræði sem eftirlitskerfi borgarinnar bjóða áður en lengra er haldið. Við mælumst til þess að borgarráð óski framhaldsúttektar innri endurskoðunar á þeim þáttum skýrslunnar sem snúa að hugsanlegu misferli. Einnig að borgarskjalavörður framkvæmi úttekt á skjalavörslu borgarinnar og þeirri gagnaeyðingu sem getið er í skýrslunni. Leiði önnur þessara úttekta til gruns um saknæma háttsemi yrði það eðlilegt hlutverk innri endurskoðunar, eða eftir atvikum endurskoðunarnefndar, að vísa slíku máli áfram til borgarlögmanns til frekari meðferðar. Samhliða verður mikilvægt að borgarráð taki afstöðu til þeirra ábendinga sem getið er í skýrslunni. Við störfum í þágu borgarbúa. Við viljum vönduð vinnubrögð og ábyrga úrvinnslu málsins. Við köllum á umræðu um pólitíska ábyrgð, stórbætta stjórnsýslu og ábyrga meðför almannafjár. Þannig teljum við hagsmuni borgarbúa best tryggða.
5. Umræðu um kynjaða fjárhagsáætlunargerð hjá Reykjavíkurborg er frestað.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Ljóst er að nauðsynlegt er að borgarstjórn fari í mikilvægar úrbætur á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og treysta aukna ábyrgð stjórnenda í samræmi við ábendingar innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar sem settar eru fram í skýrslunni Nauthólsvegur 100 frá desember 2018. Úrbæturnar lúta að aukinni stjórnendaábyrgð, skilvirkari og ábyrgari upplýsingagjöf varðandi framkvæmdir og útgjöld og að skjalavarsla verði í samræmi við lög. Tillögurnar eru í eftirfarandi liðum: a) Borgarstjórn samþykkir að farið verði yfir verkferla sem tryggja að stofnanir og stjórnendur borgarinnar skrái og varðveiti skjöl sín í samræmi við lög um opinbera skjalavörslu nr. 77/2014. Lagt er til að kostnaði verði vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar. b) Borgarstjórn samþykkir að skýra ábyrgð stjórnenda hjá Reykjavíkurborg varðandi framúrkeyrslu á fjárheimildum og vanrækslu í starfi með því bæta sambærilegum ákvæðum og eru í 38. gr. laga um opinbera starfsmenn varðandi framúrkeyrslu á fjárheimildum í reglum um réttindi og skyldur stjórnenda hjá Reykjavíkurborg ásamt verklagsreglum kjaranefndar sem tóku gildi 2004. c) Borgarstjórn samþykkir að skerpa á og skýra upplýsingagjöf stjórnenda Reykjavíkurborgar varðandi framvindu verkefna, verklegra framkvæmda og útgjalda í tengslum við þau í samræmi við ábendingar innri endurskoðun í skýrslunni um Nauthólsveg 100.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að vísa tillögunni til yfirstandandi vinnu við endurskoðun á skipulagi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skýrsla innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 er mjög skýr hvað varðar athugasemdir um þá mörgu og alvarlegu annmarka sem voru á framkvæmdinni. Þar koma líka fram mikilvægar ábendingar um gagnlegar úrbætur sem innri endurskoðun telur mikilvægt að fara í. Þær úrbætur lúta að alvarlegum ágöllum á stjórnendaábyrgð, skorti á upplýsingagjöf og varðveislu gagna. Ábendingar innri endurskoðunar um úrbætur eru skýrar og auðskildar og eru grunnurinn að tillögum Sjálfstæðisflokks um bætta stjórnsýslu, aukna stjórnendaábyrgð, skilvirkari og ábyrgari upplýsingagjöf varðandi framkvæmdir og fjárútlát, sem og lögbundinni skjalavörslu, sem hér var lögð fram. Það vekur því undrun og vonbrigði að meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, skuli ekki geta tekið undir tillögu þessa, sérstaklega í ljósi þess að meirihlutaflokkarnir bókuðu sjálf á síðasta borgarráðsfundi að bregðast þyrfti við ábendingum innri endurskoðunar. Engar skynsamlegar ástæður eru til að vísa ábendingunum áfram eða tefja fyrir framgöngu þeirra.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum því að Sjálfstæðisflokkurinn leggi til uppbyggilega og ábyrga tillögu um mikilvægar úrbætur sem lúta að stjórnsýslu borgarinnar. Tillagan fellur vel inn í þá vinnu sem nú er unnin af óháðum ráðgjöfum og byggir á samþykkt frá borgarráði 23. október 2018 um endurskoðun á skipulagi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þau atriði sem þar eru einkum undir eru á sviði fjármálastjórnunar, innkaupa, eftirlits og áhættustjórnunar, þjónustu og nýsköpunar, á sviði mannauðsmála og heilsueflingar, og síðast en ekki síst á sviði stjórnsýslu, þar á meðal á sviði stefnumótunar, gagnamála og upplýsingamiðlunar. Tillögunni er því vísað inn til þessarar vinnu sem mun ljúka á næstu vikum og verður kynnt í borgarráði.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins tekur heilshugar undir þessa tillögu Sjálfstæðisflokksins um mikilvægar úrbætur sem lúta m.a. að stjórnsýslu borgarinnar og aukna stjórnendaábyrgð. Í dag, í umræðu um braggamálið hefur það ítarlega verið rakið hvernig æðstu stjórnendur hafa sofið á vakt sinni eins og komið hefur skýrt fram í skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100. Miklar brotalamir hafa verið í stjórnsýslu borgarinnar eins og það mál ber sannarlega vitni um. Það virðist þurfa að stórbæta stjórnun æðstu yfirmanna í það minnsta og allir yfirmenn verða að taka fulla ábyrgð í störfum sínum. Minna má á hvað einkennir góðan stjórnanda. Góður stjórnandi fylgist grannt með stöðu verkefna og hann gætir þess að farið sé í hvívetna vel með fé borgarbúa. Þessa tillögu hefði því átt að samþykkja strax á fundi borgarstjórnar í stað þess að vísa henni áfram.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til við borgarstjórn að sett verði af stað vinna í samvinnu ÍTR og ÍBR varðandi framtíðarstefnumörkun í íþróttamálum í Reykjavík. Gildistími stefnunnar verði til 2030. ÍTR verði falið að stýra þessari vinnu í samvinnu og samráði við ÍBR. Hún skal hefjast í upphafi ársins 2019 og verði lokið fyrir 1. febrúar 2020. Skipaður verði stýrihópur og gerð skuli sérstök verkefnisáætlun vegna vinnunnar. Heimilt verði að ráða ráðgjafa til að starfa við einstaka þætti verkefnisins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Með tillögunni er lagt til að farið verið í mótun nýrrar íþróttastefnu til ársins 2030. Lagt er til að stefnan verði sett í víðtæku samstarfi Reykjavíkurborgar og ÍBR og í samráði við alla aðila sem láta sig málaflokkinn varða. Við fögnum þeirri vinnu sem nú á að fara af stað og vonumst til að hún leiði til enn blómlegra íþróttalífs í Reykjavík, jafnt á sviði almenningsíþrótta, sem og afreksíþrótta.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi tillaga um íþróttastefnu til ársins 2030 er góð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins saknar þó ákveðinna þátta og telur að taka eigi inn í stefnu þessa einnig tómstundastarfið þannig að talað sé um íþrótta- og tómstundastarf samhliða. Í þessu sambandi má nefna að víða um borgina er aðstaða fyrir tómstundir sem ekki er fullnýtt. Hér má nefna smíðastofur eða aðstöðu til að smíða, tálga og renna. Hvað varðar börnin þarf að gæta þess að raddir þeirra fái ávallt að heyrast þegar talað er um þætti í þeirra lífi og að í stýrihópnum verði fullgildir fulltrúar barna og unglinga. Loks má ekki gleyma að ávarpa brottfall unglinga úr íþróttum en það er vandamál sem kannski fer ekki alltaf hátt. Hvaða leiðir hefur borgin upp á að bjóða til að hjálpa börnum og sérstaklega unglingum að haldast í íþrótta- og tómstundastarfi? Og meira um börnin. Það er afar mikilvægt að börn fái tækifæri, óski þau þess að spreyta sig í ólíkum íþróttagreinum því eins og við vitum þá getur ein íþróttagrein hentað barni á einum tíma en önnur á öðrum tíma. Því fyrr sem barn kynnist ólíkum íþróttagreinum því minni líkur eru á brottfalli að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Þetta hafa einnig fjölmargar rannsóknir sýnt.
8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að endurnefna innkauparáð eftirlits- og innkaupráð Reykjavíkurborgar í þeirri viðleitni að auka vægi eftirlitshlutverks ráðsins. Jafnframt er lagt til að kjörnum fulltrúum verði fjölgað úr þremur í fimm. Þannig er lögð til svofelld breyting á 1. málsgrein 5. greinar samþykktar fyrir innkauparáð Reykjavíkurborgar: Núverandi málsgrein hljóðar svo: Ráðið er svo skipað að í því eiga sæti 3 fulltrúar, kosnir af borgarstjórn, og jafnmargir til vara. Borgarstjórn kýs formann, en ráðið skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil innkauparáðs er hið sama og borgarstjórnar. Eftir breytinguna hljóði hún svo: Ráðið er svo skipað að í því eiga sæti 5 fulltrúar, kosnir af borgarstjórn, og jafnmargir til vara. Borgarstjórn kýs formann, en ráðið skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil eftirlits- og innkauparáðs er hið sama og borgarstjórnar. Enn fremur er lagt til að bætt verði við samþykktir innkaupráðs að tveir fulltrúar ráðsins geti vísað málum á borði eftirlits- og innkaupráðs til innri endurskoðunar til skoðunar. Aðrar samþykktir Reykjavíkurborgar breytast að breyttu breytanda eftir því sem þörf þykir. Ekki eru lagðar til aðrar breytingar á samþykktum ráðsins að sinni.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 20:45 víkur Sigurborg Ósk Haraldsdóttir af fundi og Alexandra Briem tekur sæti.
- Kl. 21:00 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundi og Magnús Már Guðmundsson tekur sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni til yfirstandandi vinnu við endurskoðun á skipulagi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hefðu talið hreinlegra að meirihlutinn hefði samþykkt tillögu flokksins um breytingar á innkauparáði í heild sinni enda innkaupamál borgarinnar verið í brennidepli að undanförnu sem kemur ekki til af góðu. Ástæðan er meðal annars fólgin í því að reglum um innkaup borgarinnar hefur ekki verið fylgt. Því til stuðnings nægir að nefna áliti borgarlögmanns um Nauthólsveg 100, þar sem fram kemur að innkaupareglur Reykjavíkurborgar hafi verið þverbrotnar. Þá töluðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrir daufum eyrum frá árinu 2017. Enda virðast sem SEA og borgarráð hafi hunsað öll rauð flögg fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði þegar ítrekað var reynt að vara við og óska eftir svörum vegna framkvæmda við Nauthólsveg 100. Þess vegna telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks nauðsynlegt að leggja til að fulltrúum í ráðinu verði fjölgað annars vegar og að það verði formfest að tveir fulltrúar í ráðinu geti vísað málum til innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar hins vegar. Þannig yrði ráðið skipað fimm kjörnum fulltrúum í stað þriggja. Enn fremur telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægt að ráðið fái nýtt nafn, eftirlits- og innkauparáð Reykjavíkurborgar, í þeirri viðleitni að skýra og styrkja eftirlitshlutverk þess.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn fagnar því að Sjálfstæðisflokkurinn sýni hér gott frumkvæði að eflingu innkauparáðs. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á endurskoðun á innkaupareglum borgarinnar. Eins stendur yfir viðamikil umbótavinna á stjórnkerfi borgarinnar. Þar á meðal munu hlutverk og heimildir innkauparáðs vera endurhugsuð meðal annars í samræmi við athugasemdir Innri endurskoðunar úr skýrslu um framkvæmdir við Nauthólsveg 100. Því fer best á því að þessi tillaga verði höfð með til hliðsjónar í því ferli sem þegar stendur yfir.
9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að Reykjavíkurborg gangi að kröfum samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands (SGS) gagnvart atvinnurekendum, í kjarasamningaviðræðum. Þó að þær kröfur beinist að almennum vinnumarkaði er ekkert því til fyrirstöðu að Reykjavíkurborg sýni gott fordæmi í núverandi og komandi kjarasamningaviðræðum og taki undir kröfur SGS og verði við þeim sem atvinnurekandi. Með því styður Reykjavíkurborg sem er stærsti vinnustaður landsins mikilvægar ábendingar verkalýðshreyfingarinnar að úrbótum á vinnustöðum sem koma öllum til gagns. Þá er einnig lagt til að Reykjavíkurborg komi öllum þeim liðum sem hún getur komið á í framkvæmd sem finna má í kröfugerð SGS gagnvart stjórnvöldum í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og hvetji jafnframt ríkið til að verða við þeim kröfum sem þar er beint að ríkinu.
Samþykkt með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Kröfur Starfsgreinasambandsins eru milli SGS og Samtaka atvinnulífsins. Það er ekki heppilegt að búa til nýtt samningaborð í sölum borgarstjórnar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Eins og fram kemur í tillögunni beinast þessar kröfur að almenna vinnumarkaðinum og stjórnvöldum og finnst borgarfulltrúa þess vegna erfitt að samþykkja hana þrátt fyrir góðan vilja. Borgarfulltrúi vonast til að kröfur verkalýðsfélaga verði teknar af mótaðilum með opnum huga. Úrbætur á vinnustöðum er víða svo sannarlega þörf. Það er einnig tekið undir það að Reykjavíkurborg getur gert ýmislegt svo sem bætt aðbúnað og menningu á vinnustöðum þar sem þess er þörf.
10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að láta vinna breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar þannig að fundir borgarstjórnar hefjist kl. 10:00 fyrir hádegi á 1. og 3. þriðjudegi í mánuði í stað kl. 14:00. Samhliða þessu þarf að gera aðrar breytingar sem lúta að tímasetningu annarra funda og undirbúningi.
Frestað.
11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Fjárhagsaðstoð borgarinnar er veitt þeim sem ekki geta séð sér farborða án aðstoðar og er ekki veitt nema að allar aðrar leiðir hafi verið kannaðar til hlítar. Fjárhagsaðstoð til framfærslu er því síðasta úrræðið sem stendur einstaklingum til boða og er oft hugsuð sem öryggisnet til skemmri tíma en sumir þurfa að lifa á þessari upphæð til lengri tíma. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðarinnar nemur allt að 201.268 krónum á mánuði fyrir einstakling sem rekur eigið heimili en upphæðin fer lækkandi ef slíkt á ekki við. Upphæðir fjárhagsaðstoðarinnar eru því ekki til þess fallnar að bæta viðkvæma stöðu þeirra sem framfleyta sér á henni. Því er lagt til að grunnupphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu verði bundin við upphæð lágmarkslauna fyrir fullt starf sem verkalýðsfélögin hafa sett við 300.000 krónur á mánuði. Einnig er lagt til að fjárhagsaðstoðin þróist í takt við hækkun lágmarkslauna. Útgjaldaauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð. Mikilvægt er að litið sé á fjárhagsaðstoð til framfærslu sem rétt einstaklingsins sem er ófær um að sjá sér farborða án aðstoðar en ekki sem þáttur sem stuðli að því að letja fólk til atvinnuþátttöku. Einstaklingar sem þurfa að treysta á fjárhagsaðstoð ættu ekki að þurfa að lifa á upphæð sem dugar vart til framfærslu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ákveðið var að hækka fjárhagsaðstoð um áramótin í takt við launavísitölu þar sem um framfærslu fólks er að ræða. Mikilvægt er að samhliða hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar verði áfram unnið að krafti að innleiðingu rafrænna umsókna um fjárhagsaðstoð hjá velferðarsviði með þjónustu við notendur að leiðarljósi. Fjárhagsaðstoð er ávallt hugsuð sem tímabundin neyðaraðstoð og hefur Reykjavíkurborg verið með hæstu grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar á hverjum tíma og er það staðreyndin nú á árinu 2019.
12. Lagt er til að Hjálmar Sveinsson taki sæti í velferðarráði í stað Magnúsar Más Guðmundssonar.
Samþykkt.
13. Lagt er til að Sabine Leskopf taki sæti í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Magnúsar Más Guðmundssonar.
Samþykkt.
14. Lagt er til að Guðrún Ögmundsdóttir taki sæti sem varamaður í stjórn Faxaflóahafna sf. í stað Magnúsar Más Guðmundssonar.
Samþykkt.
15. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í ferlinefnd Reykjavíkurborgar.
Lagt er til að Ellen Calmon taki sæti í ferlinefndinni í stað Magnúsar Más Guðmundssonar og að Aron Leví Beck taki sæti Ellenar sem varamaður í nefndinni. Jafnframt er lagt til að Ellen Calmon verði formaður nefndarinnar.
Samþykkt.
16. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 20. desember 2018 og 10. janúar 2019.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. janúar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við að ekki hafi verið orðið við beiðni þeirra um kynningu borgarskjalavarðar á skýrslu um skjalastjórn og skjalavörslu hjá Reykjavíkurborg frá síðasta ári. Enn fremur yfirferð skjalavarðar á meðferð skjala og gagna í tengslum við braggamálið. Það er skýlaus réttur borgarfulltrúa í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar að setja mál á dagskrá í ráðum og nefndum borgarinnar. Miðað hefur verið við að mál séu send tveimur sólarhringum fyrir fund en staðreyndin er sú að í þessu tilfelli var beiðnin send fyrir fjórum sólarhringum síðan. Skýrsla Borgarskjalasafns, sem hér um ræðir, sýnir að verulegur misbrestur er á skjalavörslu borgarinnar. Þá er staðfest í skýrslu innri endurskoðunar að lög um opinber skjalasöfn voru brotin. Skv. 47. gr. laganna getur brot á lögunum varðað allt að þriggja ára fangelsisvist. Það veldur vonbrigðum að þetta mál skuli ekki vera tekið fyrir í borgarráði eins og beðið var um.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Þann 8. nóvember sl. var umrædd skýrsla send borgarráðsfulltrúum og hún lögð fram á vettvangi borgarráðs án þess að nokkrar fyrirspurnir bærust um hana. Í skýrslunni koma fram ábendingar um atriði sem betur mega fara í skjalavörslu borgarinnar og byggjast þær niðurstöður á upplýsingum í spurningakönnun sem lögð var fyrir stjórnendur og einkum forstöðumenn einstakra stofnana Reykjavíkurborgar. Könnunin veitir yfirstjórn Reykjavíkurborgar, sviðum og skrifstofum, nauðsynlegar upplýsingar um ástand skjalamála og þær úrbætur sem þarf að gera. Þá mun könnunin nýtast Borgarskjalasafni vel við að skipuleggja fræðslu, ráðgjöf og eftirlit á næstu árum eins og fram kemur í umræddri skýrslu. Sú vinna hófst um leið og Borgarskjalasafn kynnti sína skýrslu og er við það miðað að skýrslan ásamt upplýsingum um viðbrögð við því sem fram í henni kemur verði kynnt á fundi borgarráðs í febrúar nk. Samkvæmt samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar er það formaður borgarráðs sem undirbýr borgarráðsfundi í samráði við borgarstjóra og hefur allar heimildir til þess að ákveða tímasetningu á umbeðnum kynningum m.a. með hliðsjón af málafjölda borgarráðs.
18. liður fundargerðarinnar frá 10. janúar; deiliskipulag Stekkjarbakka Þ73, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns húsnæðisuppbyggingu sem gengið gæti nærri slíkum svæðum. Græn svæði í borgarlandinu á að þróa sem útivistarsvæði og ekki á að ganga á þau með uppbyggingu húsnæðis. Árið 2014 var lögð fram tillaga í borgarráði um friðun Elliðaárdals í deiliskipulagi með svokallaðri hverfisvernd. Þeirri vinnu lauk ekki. Eins liggur fyrir að friðun með hverfisvernd í deiliskipulagi hefur ekki sömu réttaráhrif og friðlýsing samkvæmt náttúruverndarlögum. Elliðaár og nærliggjandi svæði virðast því hvorki friðuð með hverfisvernd né samkvæmt náttúruverndarlögum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins telja rétt að unnið verði að því, í samráði við umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun, að Elliðaárdalur og nærliggjandi svæði verði friðlýst með þeim hætti sem kveðið er á um í 38. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Elliðaárdalurinn er eitt af vinsælustu útivistarsvæðum borgarinnar. Það er einstakt að eiga slíka náttúruperlu inni í miðri borg og mikilvægt að vanda vel til allrar uppbyggingar í kringum dalinn. Helgunarsvæði Elliðaáa vernda mikilvægasta svæði dalsins og því er mikilvægt að öll uppbygging á útjaðri útivistarsvæðisins bæti aðgengi fólks og stuðli að jákvæðri upplifun þess af dalnum. Deiliskipulagið sem hér er samþykkt í auglýsingu gerir m.a. ráð fyrir matjurtagörðum og svæði til útikennslu sem er í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur þar sem gert hefur verið ráð fyrir grænni og umhverfisvænni uppbyggingu. Áform Aldin BioDome samræmast skipulagi svæðisins og fylgja BREEAM sjálfbærnistöðlum og WELL stöðlum um heilsusamlegar byggingar. Miklar umræður hafa farið fram um þetta mál og eru teikningarnar gjörbreyttar frá fyrstu hugmyndum. Nú er búið að fækka bílastæðum og fækka byggingum sem eru mun fínlegri í sniðum og fögnum við því. Er því öll uppbygging á þessu svæði í góðu samræmi við áherslur borgarinnar á skapandi greinar í grænni, umhverfisvænni og lifandi borg.
30. liður fundargerðarinnar frá 10. janúar; samkomulag við Brú lífeyrissjóð um endurgreiðslu á framlögum borgarsjóðs, er samþykktur.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
17. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 11. janúar.
1. liður fundargerðarinnar; lausnarbeiðni Magnúsar Más Guðmundssonar, er samþykktur.
Lagðar fram fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 8. janúar og skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 og 9. janúar.
Fundi slitið kl. 22:45
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Alexandra Briem Vigdís Hauksdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.1.2019 - prentvæn útgáfa