No translated content text
Borgarstjórn
BORGARSTJÓRN
Ár 2022, þriðjudaginn 15. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra Einars Þorsteinssonar, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Birna Hafstein, Björn Gíslason, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Umræðu um málefni og þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík er frestað. MSS22110118
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að beina þeim tilmælum til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að hún hlutist til um að Orkuveita Reykjavíkur fylli án tafar í Árbæjarlón nú í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindmála um ólögmæti þeirrar framkvæmdar að tæma lónið varanlega.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22110119
Tillögunni er vísað frá með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
- Kl. 13:55 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Friðjón R. Friðjónsson víkur af fundi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa vonbrigðum með þá ákvörðun meirihluta borgarstjórnar að beina því ekki til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að fyllt verði án tafar aftur í Árbæjarlón. Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 24/2022 er áfellisdómur yfir þeirri framkvæmd þegar Árbæjarlón var tæmt í október árið 2020. Í úrskurðinum kemur fram það mat nefndarinnar að í tæmingu lónsins hafi falist meiri háttar framkvæmd sem hafði áhrif á umhverfið og breytti ásýnd þess. Af þeim sökum hefði borið að afla framkvæmdaleyfis vegna tæmingarinnar. Það var ekki gert og af þeim sökum hefði skipulagsfulltrúa borið að stöðva tæminguna tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar í samræmi við 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstaða úrskurðarnefndar er skýr. Tæming lónsins var leyfisskyld framkvæmd. Hana bar að stöðva á sínum tíma. Úrskurðarnefndin tekur hins vegar ekki afstöðu til þess hvort eigi að fylla á lónið aftur, enda er það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. Á sínum tíma var það álit borgarlögmanns og einnig Skipulagsstofnunar að framkvæmdin væri ekki háð framkvæmdaleyfi. Sérkennilegt hefði verið að ganga gegn því áliti áður en úrskurður um annað lá fyrir. Það er hins vegar staðreynd að tæming lónsins er um garð gengin og verður ekki stöðvuð úr þessu. Ákvörðun um að fylla á lónið væri sjálfstæð aðgerð, með tilheyrandi áhrifum á lífríkið sem nú fyrirfinnst í ánni. Ekki er skynsamlegt að ráðast í hana án þess að ígrunda það vel. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar hefur ritað Orkuveitu Reykjavíkur bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum og/eða áætlun um hvernig Orkuveita Reykjavíkur hyggst bregðast við úrskurðinum.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að sett verði upp mælaborð þar sem hægt er að sjá hvaða úrræði skólar og íþrótta- og tómstundafélög Reykjavíkurborgar hafa tiltæk þegar upp koma eineltis eða önnur ofbeldismál. Í sérhverri verkfærakistu skóla og íþrótta- og tómstundafélaga þurfa að vera til eftirfarandi gögn og þau aðgengileg á heimasíðu eða í appi: stefna í eineltis- og öðrum ofbeldismálum, viðbragðsáætlun þar sem raktir eru verkferlar ef tilkynning berst um einelti, tilkynningareyðublað og upplýsingar um hverjir sitja í eineltisteyminu. Gagnsemi mælaborðsins er a.m.k. tvíþætt: Foreldrar geta kynnt sér viðbragðsferilinn áður en barn byrjar í skólanum eða í íþróttafélagi. Þau fá jafnframt upplýsingar um hvert þau eiga að leita ef barn segir frá einelti. Mælaborðið yrði jafnframt hvatning til skóla og félaga að vera vel undirbúin þegar slík mál komi upp. Tilraun var gerð fyrir mörgum árum að halda þessum upplýsingum til haga á vefsíðu borgarinnar en rann það verkefni út í sandinn. Með því að hafa þessar upplýsingar aðgengilegar á einum stað fyrir borgarbúa er auðveldara að tryggja að verklag skóla og íþrótta- og tómstundafélaga sé samræmt. Samræmt verklag eykur líkurnar á því að börnin fái svipaða eða sambærilega þjónustu óháð því í hvaða skóla þau eru.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 14:30 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Birkir Ingibjartsson víkur af fundi.
- Kl. 14:35 tekur Sandra Hlíf Ocares sæti á fundinum og Birna Hafstein víkur af fundi.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. MSS22110120
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun.
Margsinnis undanfarin ár hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins fengið ábendingar um slaka upplýsingagjöf til borgarbúa og foreldra. Hér leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins það til að sett verði upp mælaborð þar sem hægt er að sjá hvaða úrræði skólar, íþrótta- og tómstundafélög Reykjavíkurborgar hafa tiltæk þegar upp koma eineltis- eða önnur ofbeldismál. Í sérhverri verkfærakistu skóla og félaga þurfa að vera: stefna í eineltis- og öðrum ofbeldismálum, viðbragðsáætlun þar sem raktir eru verkferlar ef tilkynning berst um einelti, tilkynningareyðublað og upplýsingar um hverjir sitja í eineltisteyminu. Með slíku mælaborði geta foreldrar kynnt sér viðbragðsferilinn áður en barn byrjar í skólanum eða í íþrótta- og tómstundafélagi. Þau fá jafnframt upplýsingar um til hvaða aðila þau eiga að leita ef barn segir frá einelti. Mælaborðið yrði jafnframt hvatning til skóla og félaga að vera vel undirbúin þegar slík mál komi upp. Tilraun var gerð fyrir mörgum árum að halda þessum upplýsingum til haga á vefsíðu borgarinnar en verkefnið rann út í sandinn. Með því að hafa þessar upplýsingar aðgengilegar á einum stað er auðveldara að tryggja að verklag skóla, íþrótta- og tómstundafélaga sé samræmt. Samræmt verklag eykur líkurnar á því að börnin fái svipaða eða sambærilega þjónustu óháð því í hvaða skóla þau eru.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Grunnlaun borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltrúa miða við þróun launavísitölu frá marsmánuði 2013 og uppfærast í janúar og júlí ár hvert. Lagt er til að launin taki ekki hækkunum í janúar 2023 og júlí 2023. Sparnaðurinn fyrir árið 2023 er áætlaður 29 m.kr. Frá og með janúar 2024 verði þróun á launavísitölu aftur tekin upp við ákvörðun grunnlauna, þó þannig að ekki komi til afturvirkra hækkana á launum. Þá verði miðað við þróun launavísitölunnar sl. 6 mánuði á undan líkt og hefur áður verið gert.
- Kl. 14:37 víkja Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Kolbrún Baldursdóttir af fundinum og Þorvaldur Daníelsson og Einar Sveinbjörn Guðmundsson taka sæti.
Tillagan er felld með með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22110121
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar lögðu til að laun borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltrúa tækju ekki hækkunum árið 2023. Fulltrúar sósíalista telja eðlilegt að grípa til slíkra aðgerða í ljósi stöðunnar í samfélaginu. Ekki er réttlætanlegt að grunnlaun borgarfulltrúa sem eru nú 948.481 kr. taki sjálfkrafa hækkunum tvisvar á ári á meðan annað starfsfólk borgarinnar sem sinnir gríðarlega mikilvægum störfum er á mun lægri launum og hefur þurft að hafa gríðarlega mikið fyrir eðlilegri kjaraleiðréttingu. Borgarstjórn er gert að fylgja kynjaðri starfs- og fjárhaghagsáætlun sem er tæki sem notað er til þess að stuðla að auknu jafnrétti og betri nýtingu fjármuna. Út frá því er stefnt að réttlátri dreifingu fjármuna og gæða með tilliti til mismunandi þarfa borgarbúa. Fulltrúar sósíalista telja eðlilegt að skoða laun borgarfulltrúa í því samhengi og rétt er að taka fram að ofan á grunnlaun borgarfulltrúa leggjast oft ýmis konar greiðslur vegna setu í ráðum og nefndum. Grunnlaun fyrstu varaborgarfulltrúa eru 663.937 kr. Kostnaðurinn við hækkun á launum borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltúra er áætlaður 29 m.kr. árið 2023. Fulltrúar sósíalista árétta mikilvægi þess að launastefna verði sett fyrir borgina þar sem samhengi verði á milli hæstu og lægstu launa og þar hafa sósíalistar leitast við að fá umræðu um launabil.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að gegnsæi ríki um laun borgarfulltrúa. Frá árinu 2019 eru allar upplýsingar þess efnis á heimasíðu borgarinnar. Fram til ársins 2016 voru laun borgarfulltrúa tengd þingfararkaupi. Í kjölfar úrskurðar kjararáðs um rúmlega 44% launahækkun ákvað borgarstjórn á fundi sínum þann 15. nóvember 2016 að beina því til forsætisnefndar að hætta tengingu við þingfararkaup. Borgarstjórn samþykkti síðan á fundi sínum þann 4. apríl 2017 tillögu forsætisnefndar um breytta skipan launamála kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg. Tillaga forsætisnefndar gerði ráð fyrir því að tenging við þingfararkaup yrði afnumin og þess í stað tekin upp tenging við launavísitölu til þess að endurspegla betur almenna launaþróun. Mikilvægt er að borgarfulltrúar ákveði ekki laun sín frá degi til dags, heldur séu þau fastsett og tengd vísitölu.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Vinstri grænna tekur undir með fulltrúum Sósíalistaflokksins að alvarleg fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar kallar á róttækar og jafnvel óhefðbundnar ráðstafanir. Á hitt ber hins vegar að líta að sjálfkrafa tenging launa borgar- og varaborgarfulltrúa við vísitölu hefur þann kost að með henni losna kjörnir fulltrúar úr þeirri vandmeðförnu stöðu að þurfa í sífellu að taka ákvarðanir um eigin launakjör. Borgarfulltrúi Vinstri grænna bendir á eigin tillögu um sjálfkrafa vísitölutengingu fjárhagsaðstoðar, sem einmitt er rökstudd með vísun til launakerfis borgarfulltrúa. Erfitt er að sjá með hvaða rökum ætti að vera hægt að hafna tillögu Sósíalistaflokksins en samþykkja ekki tillögu Vinstri grænna.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarstjórn ályktar að upphæð fjárhagsaðstoðar borgarinnar til einstaklinga og fjölskyldna skuli um hver áramót taka sjálfkrafa hækkun til samræmis við vísitölu, nema annað sé sérstaklega ákveðið.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. MSS22110122
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar styðja þessa tillögu enda er eðlilegt að upphæð fjárhagsaðstoðar hækki í takt við þróun á launavísitölu og mikilvægt að það komist til framkvæmda sem fyrst. Sósíalistar árétta mikilvægi þess að grunnupphæð fjárhagsaðstoðar verði hækkuð þar sem ómögulegt er að sjá hvernig ætlast er til þess að hægt sé að framfleyta sér á svo lágri upphæð. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar er nú 217.799 kr. á mánuði fyrir skatt, fyrir manneskju sem rekur eigið heimili og getur sýnt fram á það eins og með þinglýstum leigusamningi. Upphæðin er síðan breytileg eftir sambúðar- og búsetuformi. Ljóst er að um alltof lága upphæð er að ræða.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Á síðasta fundi velferðarráðs var ákveðið að koma fót starfshópi um fyrirkomulag fjárhagsaðstoðar heildstætt. Er því lagt til að þessari tillögu verði vísað inn í þá vinnu velferðarráðs til heildstæðrar skoðunar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins hefur ítrekað óskað eftir því í velferðarráði að fjárhagsaðstoð hækki. Á velferðarráðsfundi 4. október var lögð fram tillaga um 4,9% hækkun fjárhagsaðstoðar. Flokkur fólksins studdi þá tillögu en meirihlutinn ákvað fresta ákvörðun. Á velferðarráðsfundi 2. nóvember kom fram ný tillaga um eingöngu 3% hækkun. Þetta fannst Flokki fólksins einkennileg lækkun þar sem verðbólga er tæp 9% og hefur öll nauðsynjavara hækkað gríðarlega. Flestar gjaldskrár Reykjavíkurborgar hafa hækkað um 4,9% og því er einkennilegt að sjá að þeir sem verst eru settir eigi eingöngu að fá 3%. Á umræddum fundi var ákvörðun frestað og ákveðið að fela sviðsstjóra að skipa stýrihóp til að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð frá grunni. Þessi frestun á ákvörðun á hækkun fjárhagsaðstoðar er mjög bagaleg því þessi hópur er í mjög viðkvæmri stöðu gagnvart öllum verðhækkunum. Þeir sem fá fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar eru borgarbúar sem ekki geta séð sér og sínum farborða af ýmsum ástæðum. Tillaga þessi er til bóta og myndi auka framfærsluöryggi þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda. Að vísu telur fulltrúi Flokks fólksins að fjárhæðir sem þessar ættu einnig að taka mið af launavísitölu þannig að miðað sé við þá vísitölu sem hækkaði meira á liðnu ári við uppfærslu hverju sinni.
6. Fram fer umræða um biðskýlin í borginni. MSS22110125
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kom til afgreiðslu þremur árum síðar og var þá felld. Í umsögn var minnst á niðurstöður úttektar frá 2020 á aðgengismálum á biðstöðvum Strætó. Þá voru yfir 500 biðstöðvar metnar ófullnægjandi. Flokkur fólksins bókaði 2020 að til stæði að lagfæra 12 strætóbiðstöðvar sem voru verst farnar bæði um aðgengi og yfirborð. Aðeins á 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðundandi. Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætó biðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Staðfest var í umsögn með málinu að endurbætur eru á bið vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Flokkur fólksins óttast að þessi mál verði látin danka og tefjist borgarlínuverkefnið enn frekar er ekki líklegt að skipulagsyfirvöld ráðist í endurbætur sem tengjast væntanlegri borgarlínu á næstunni. Flokkur fólksins telur að endurmeta verði endurbætur á þeim fjölda biðstöðva sem eru í lamasessi í ljósi fyrirsjáanlegrar seinkunar borgarlínu.
7. Skipun þriggja manna í umdæmisráð Barnaverndar Reykjavíkur, þriggja varamanna til fimm ára og formannskjöri er frestað. MSS22110124
8. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. nóvember.
2. liður fundargerðarinnar frá 10. nóvember; gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 2023, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
12. lið fundargerðarinnar frá 10. nóvember; tillögum starfshóps um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum, er vísað til meðferðar borgarráðs. MSS22010003
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fundargerð borgarráðs frá 10. nóvember, liður 12. Varðar tillögur starfshóps um mótun stefnu og tillagna um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Flokkur fólksins getur tekið undir margar tillögur starfshópsins sem hefur mótað stefnu og tillögur um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Það er mikilvægt að skapa aukið jafnræði fyrir foreldra og nemendur um val á skólum í borginni og að skapa möguleika fyrir einkaaðila að hafa rekstur leik- eða grunnskóla í húsnæði borgarinnar á sömu kjörum og borgarreknir skólar. Tekið er undir að samræma gjaldskrár sjálfstætt starfandi leikskóla og borgarrekinna leikskóla til að skapa aukið jafnræði foreldra við val á leikskólum. Flokkur fólksins fagnar tillögunni um að setja eigi skorður við útgreiðslu arðs og að rekstrarafgangur verði nýttur til að efla skólastarf og tryggja að hann verði nýttur í þróun skóla um leið og skólagjöld verði lögð af. Flokki fólksins finnst það hins vegar ámælisvert hvernig staðið var að gerð skýrslunnar. Samtökum sjálfstæðra skóla (SSSK) var ekki boðin nein aðkoma að gerð hennar þrátt fyrir að beinlínis hafi verið gert ráð fyrir aðkomu fulltrúa SSSK að gerð skýrslunnar og SSSK leitað eftir því. Í erindi frá SSSK er þetta harmað og tekur borgarfulltrúi Flokks fólksins undir það.
9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 4. og 11. nóvember, mannréttinda- og ofbeldisvarnarnefndar frá 27. október, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 31. október, skóla- og frístundaráðs frá 7. nóvember, stafræns ráðs frá 9. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. og 9. nóvember og velferðarráðs frá 2. nóvember.
3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 11. nóvember; samþykkt fyrir umdæmisráð Barnaverndar Reykjavíkur, er samþykktur. MSS22010217
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 11. nóvember:
Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks þykja tillögur meirihlutans vega að opinni lýðræðislegri umræðu í borgarstjórn, en tillögurnar takmarka rétt borgarfulltrúa til að koma sjónarmiðum og málum á framfæri á vettvangi borgarstjórnar. Þess þarf að gæta að farið sé að lögum, að jafnræðis sé gætt milli borgarfulltrúa og réttindi þeirra séu tryggð. Borgarstjórn er málstofa borgarfulltrúa en með því að takmarka tíma umræðna og fjölda tillagna í borgarstjórn, ásamt því að takmarka lengd funda, er gengið á rétt borgarfulltrúa, málfrelsi þeirra og tillögurétt. Jafnframt harma fulltrúar Sjálfstæðisflokks að meirihlutinn hafi fellt tillögu þeirra um að hefja borgarstjórnarfundi kl. 9 að morgni, enda myndi slíkt fundafyrirkomulag tryggja fjölskylduvænna starfsumhverfi. Nýtt fyrirkomulag meirihlutans gerir ráð fyrir því að borgarstjórnarfundir hefjist á hádegi og að borgarfulltrúar yfirgefi fundarsal borgarstjórnar á áttunda tímanum að kvöldi, sem getur vart talist fjölskylduvænt fyrirkomulag.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
6. liður fundargerðar skóla- og frístundaráðs: Flokkur fólksins lagði til að skóla- og frístundasvið skoðaði fleiri úrræði innan heimaskólanna fyrir börn sem ekki geta stundað nám í almennum bekk. Tillagan er felld því talið er að nú þegar séu næg úrræði fyrir hendi. Það er hins vegar ekki rétt. 7. liður: Flokki fólksins finnst það miður að tillaga um þarfagreiningu húsnæðis Austurbæjarskóla hafi verið felld. Styr hefur staðið um risið sem varðveitir skólamuni sem hefur verið úthýst. Þessi ákvörðun var tekin þrátt fyrir hávær mótmæli m.a. íbúasamtaka og Flokks fólksins. 4. liður fundargerðar stafræns ráðs: Lagðar eru fram kynningar frá skrifstofu upplýsinga- og skjalastýringar, kynning á Hlöðunni/viðmót Hlöðunnar, kynning á átaki í teiknihönnun og loks á öryggisflokkun gagna. Kynningarnar eru mest lýsingar sem duga því miður skammt þegar óvíst er hvenær þær afurðir sem lýst er verða tilbúnar. Ekkert svið hefur fengið eins mikið fjármagn eins og þjónustu- og nýsköpunarsvið miðað við það hversu lítið það hefur skilað af sér af tilbúnum afurðum sem nýtast borgarbúum beint. Milljarðar hafa farið í yfirbyggingu sviðsins sem og uppgötvunar-, þróunar- og tilraunafasa fjölda stafrænna lausna. Það sárvantar að nútímakröfum um skilvirka árangursstjórnun sé fylgt þegar kemur að fjármálum og eftirfylgni verkefna.
Fundi slitið kl. 17:57
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir