Borgarstjórn - 15.11.2001

Borgarstjórn

6

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2001, fimmtudaginn 15. nóvember, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Kristín Blöndal, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Óskar Bergsson, Alfreð Þorsteinsson, Kjartan Magnússon, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar tilkynnti forseti að 12., 13., og 15. liður fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember verði ræddir sem sérstakir dagskrárliðir.

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 2. nóvember.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 3. nóvember.

- Kl. 14.55 vék Hrannar Björn Arnarsson af fundi og Árni Þór Sigurðsson tók þar sæti.

1. – 4. tl. 3. liðar fundargerðarinnar, álagningarhlutfall fasteignaskatts og lóðarleigu, samþykktur með 8 samhljóða atkvæðum. 5. tl. 3. liðar fundargerðarinnar, álagningarhlutfall holræsagjalds, samþykktur með 8 atkv. gegn 7. 3. liður í heild samþykktur með 8 samhljóða atkvæðum. 4. liður fundargerðarinnar, álagningarstuðull útsvars, samþykktur með 8 samhljóða atkvæðum.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. nóvember.

- Kl. 15.20 tók Hrannar Björn Arnarsson sæti á fundinum og Kristín Blöndal vék af fundi.

10. liður fundargerðarinnar, breytt rekstrarform Orkuveitu Reykjavíkur, samþykktur með 8 atkvæðum gegn 7. 14. liður fundargerðarinnar, gjaldskrá embættis byggingarfulltrúa, samþykktur með 8 atkvæðum gegn 7.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Með fyrirliggjandi gjaldskrárhækkun kýs R-listinn enn einu sinni að hækka álögur og gjöld á húsbyggjendur í Reykjavík langt umfram það sem eðlilegt er. Tillaga R-listans felur í sér 17.5% hækkun á tveimur gjaldskrám, gjaldskrá byggingarleyfisgjalda og gjaldskrá vegna úttekta og útgáfu vottorða hjá embætti byggingarfulltrúa. Rétt er að benda á að umræddar gjaldskrár voru síðast hækkaðar 1. janúar 2000. Frá þeim tíma hefur byggingavísitala hækkað um 10.7% en vísitala neysluverðs um 11.8%. Gjaldskrárhækkun R-listans nú er því ósanngjörn og langt umfram almennar verðlagshækkanir í þjóðfélaginu.

4. Lagður fram 12. liður fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember, samþykkt um hundahald.

- Kl. 16.09 var gert hlé á fundi. - Kl. 16.31 var fundi fram haldið og tók þá Anna Geirsdóttir sæti á fundinum og Óskar Bergsson vék af fundi. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember, samþykkt um hundahald, til síðari umræðu.

5. Lagður fram 13. liður fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember, aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024. Áður en umræða hófst tilkynnti forseti að fallið verði frá takmörkun á ræðutíma, sbr. 2. mgr. 30. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

- Kl. 17.15 vék borgarstjóri af fundi og Kristín Blöndal tók þar sæti. Jafnframt tók borgarritari sæti á fundinum. - Kl. 19.00 var gert hlé á fundi. - Kl. 19.30 var fundi fram haldið og vék þá Guðlaugur Þór Þórðarson af fundi Guðrún Pétursdóttir tók þar sæti. Þá tók borgarstjóri sæti á fundinum og Anna Geirsdóttir vék af fundi. Jafnframt vék borgarritari af fundi. - Kl. 20.10 vék borgarstjóri af fundi og Pétur Jónsson tók þar sæti. Jafnframt tók borgarritari sæti á fundinum. - Kl. 20.31 vék Steinunn Valdís Óskarsdóttir af fundi og Sólveig Jónasdóttir tók þar sæti.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 byggir á þeirri framtíðarsýn að Reykjavík sé öflug og gróskumikil höfuðborg landsmanna allra og forystuafl á sviði þekkingar og alþjóðavæðingar. Sú stefna er mörkuð að borgin styrki hlutverk sitt sem alþjóðleg, vistvæn höfuðborg á íslenskum grunni þar sem hlúð er að nýjum og hefðbundnum atvinnuvegum og umhverfi borgarbúa með sjálfbæra þróun, hagkvæma uppbyggingu og gæði byggðar að leiðarljósi.

Meginmarkmið aðalskipulagsins eru að stuðla að:

Öflugu atvinnulífi með því að efla meginkjarna borgarinnar, styrkja framgang Þróunaráætlunar miðborgar, skapa rými fyrir fjölbreytta verslun og starfsemi í þekkingar-, tækni- og viðskiptagreinum sem og aðra fjölbreytta athafna- og þjónustustarfsemi.

Auknum gæðum byggðar með skilmálum um umhverfisgæði, styttri vegalengdum milli heimila og vinnu, skilmálum um byggðamynstur og yfirbragð byggðar ásamt styrkari tengslum byggðar við náttúru- og útivistarsvæði.

Hagkvæmari nýtingu lands og þjónustukerfa borgarinnar með því að takmarka útþenslu þéttbýlis, mynda samfellda byggð, þétta núverandi byggð, endurskipuleggja vannýtt svæði og auka þéttleika byggðar.

Skilvirkari, öruggari og vistvænni samgöngum með því að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar, efla vistvænar samgöngur og byggja upp skilvirkt og öruggt samgöngukerfi.

Öll þessi meginmarkmið endurspeglast í þeirri aðalskipulagstillögu sem lögð hefur verið fram. Meginbreytingar frá gildandi aðalskipulagi eru þær að gert er ráð fyrir þéttari byggð en verið hefur, flugvallarsvæðið í Vatnsmýri kemur til þróunar í áföngum á skipulagstímabilinu, Gufunesi verður breytt úr atvinnu- og iðnaðarsvæði í blandaða byggð íbúða, skrifstofa og þjónustu, Ártúnshöfði og Elliðárvogur verða íbúðasvæði í stað hafnar- og atvinnusvæðis, ný byggðasvæði verða í Úlfarsárdal og athafnasvæði í Geldinganesi og við Suðurlandsveg.

Í skipulaginu er einnig að finna margvísleg nýmæli en þau helstu eru:

Sett eru fram stefnumarkandi markmið um framtíð almenningssamgangna og skilgreindar meginleiðir þar sem strætisvagnar og önnur almenningsfarartæki skulu hafa forgang.

Fjallað er um lestarsamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar í nýju aðalskipulagi.

Staðfest verður í nýja aðalskipulaginu hvenær ný svæði eða hverfi eiga að koma til uppbyggingar sem ætti að auðvelda til muna alla skipulagsvinnu borgarinnar og gerð fjárhagsáætlana.

Óheimilt verður að veita leyfi til starfsrækslu og reksturs nektardansstaða innan Reykjavíkur nema tiltekið sé sérstaklega í deiliskipulagi að starfsemi þeirra sé heimil.

Sett verða ákvæði um byggðamynstur og yfirbragð byggðar með því m.a. að í íbúðabyggð verði allt að 20% íbúða miðaðar við þarfir tekjuminni hópa og þarfir ungs fólks sem er að hefja búskap.

Aðalskipulagstillagan hefur farið í gegnum umhverfismat fyrir skipulagsáætlanir og er þetta í fyrsta skipti sem það er gert.

Málflutningur Sjálfstæðisflokksins um Aðalskipulag Reykjavíkur vekur furðu. Kjarninn í málflutningi þeirra byggist á gömlu og geldu kosningamáli um landnotkun í Geldinganesi, meinta lóðarskortsstefnu og miðborgarmál. Það sýnir hvorki stórhug né hugmyndaauðgi að þessi mál skuli vera boðskapur borgartjórnarflokks Sjálfstæðismanna um Aðalskipulag Reykjavíkur árið 2001 og endurspeglar þann algera skort á framtíðarsýn og pólitískri stefnumörkun sem einkennir allan þeirra málflutning.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember, aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, til síðari umræðu.

6. Lagður fram 15. liður fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember, aukning hlutafjár í Línu.Neti hf.

- Kl. 21.06 vék Árni Þór Sigurðsson af fundi og Guðrún Erla Geirsdóttir tók þar sæti. - Kl. 21.20 vék Inga Jóna Þórðardóttir af fundi og Eyþór Arnalds tók þar sæti.

15. liður fundargerðar borgaráðs frá 13. nóvember, aukning hlutafjár í Línu.Neti. hf., samþykktur með 8 atkvæðum gegn 7.

7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 13. nóvember.

8. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 31. október.

9. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 5. nóvember.

10. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 12. nóvember.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn Reykjavíkur lýsir áhyggjum vegna verkfalls tónlistarkennara og hve mjög það hefur dregist á langinn. Mikilvægt er að samningsaðilar hagi starfi sínu svo, að starfsemi tónlistarskólanna geti hafist sem allra fyrst. Í því sambandi er brýnt að sjálfstæði tónlistarskólanna sé virt og að ekki verði blandað saman núverandi kjaradeilu og samstarfi sveitarfélaga við tónlistarskólana. Lagt er til að borgarstjórn beini því til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og launanefndar sveitarfélaga að hið fyrsta verði kölluð saman launamálaráðstefna sveitarfélaga til að fjalla um stöðu mála og mögulegar lausnir á þessari kjaradeilu.

Samþykkt með samhljóða atkvæðum að taka tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á dagskrá. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks samþykkt samhljóða.

11. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 29. október. Samþykkt með samhljóða atkvæðum.

12. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 12. nóvember. Samþykkt með samhljóða atkvæðum.

13. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 2. nóvember.

14. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 26. október.

15. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 29. október.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu undir 2. lið.

Aukastöðugjald vegna brota á reglum um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku, sbr. f-lið 1. mgr. 108 gr. umferðarlaga, verði kr. 750.- frá 1. desember n.k.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks felld með 8 atkvæðum gegn 7.

Borgarfulltúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Augljóst er að þær aðgerðir sem gripið var til á síðasta ári í bílastæðamálum eru að skila verulegum árangri. Nýting skammtímastæða hefur batnað og viðskiptavinir finna nú bílastæði þegar á þarf að halda. Með því að lækka tímagjald í bílahúsum hefur Reykjavíkurlistinn einnig sýnt í verki raunhæfa kosti en ekki innantóm kosningaloforð að hætti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Því er tillögunni vísað frá.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Með því að fella tillögu sjálfsæðismanna, festir R-listinn í sessi þær stórfelldu hækkanir á gjaldskrá Bílastæðasjóðs Reykjavíkur, sem tóku gildi í júní 2000. Umræddar hækkanir, sem námu allt að 200%, hafa gefið slæma raun og bitnað illilega á samkeppnisaðstöðu miðborgarinnar gagnvart öðrum verslunarhverfum og miðstöðvum, sem auglýsa óspart ókeypis bílastæði fyrir viðskiptavini sína. Hætt er við að verslanir og fyrirtæki haldi áfram að flýja úr miðborginni og greinilegt er að R-listinn hefur engan áhuga á að snúa þeirri óheillaþróun við. Hástemmdar yfirlýsingar R-listans um að styrkja miðbæinn í sessi sem blómlega miðstöð verslunar og þjónustu eru því innantómar og merkingarlausar.

16. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 31. október. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

17. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 7. nóvember. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.

18. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 2. nóvember.

19. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 6. nóvember.

Nafnakall fór fram um 1. lið fundargerðarinnar, undirbúningur sölu Perlunnar. Já sögðu: Alfreð Þorsteinsson, Guðrún Erla Geirsdóttir, Óskar Bergsson, Hrannar Björn Arnarsson, Pétur Jónsson, Sigrún Magnúsdóttir, Sólveig Jónasdóttir og Helgi Hjörvar. Eftirtaldir borgarfulltrúar greiddu ekki atkvæði: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Guðrún Pétursdóttir, Eyþór Arnalds, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Ólafur F. Magnússon. 1. liður fundargerðarinnar, undirbúningur sölu Perlunnar, samþykktur með 8 samhljóða atkvæðum.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Afstöðuleysi sjálfstæðismanna varðandi sölu Perlunnar er ótrúlegt og í algerri mótsögn við yfirlýsta stefnu þeirra um að opinberir aðilar eigi ekki að standa í samkeppnisrekstri. Annar málflutningur þeirra hlýtur að skoðast í þessu ljósi.

20. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 18. október.

21. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 1. nóvember.

22. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 8. nóvember.

23. Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi tillögu um fornminjar í Aðalstræti:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að deiliskipulag suðausturhluta Grjótaþorps verði endurskoðað með sérstöku tilliti til einstæðra fornminja á horni Aðalstrætis og Túngötu, sem taldar eru landnámsbær Reykjavíkur og íslensku þjóðarinnar. Tryggja þarf að varðveisla fornminjanna og aðgengi að þeim séu aðalatriði þessa skipulags og að ekki verði þrengt að þeim vegna fyrri skipulagsáforma á svæðinu.

Greinargerð fylgir tillögunni.

- Kl. 23.02 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Pétur Friðriksson tók þar sæti.

Samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til skipulags- og byggingarnefndar.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Með því að vísa tillögu minni um endurskoðun deiliskipulags Grjótaþorps til verndar ómetanlegum fornminjum við Aðalstræti, til skipulags- og byggingarnefndar er verið að drepa málinu á dreif og bjóða þeirri hættu heim að fornminjunum verði ekki tryggð sú umgjörð sem hæfir þessari þjóðargersemi. Það verður ekki gert með því að koma landnámsbæ Reykjavíkur fyrir í hótelkjallara í eign einkaaðila. Ég sit því hjá við afgreiðslu málsins.

Fundi slitið kl. 23.32.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Helgi Hjörvar

Hrannar Björn Arnarsson Ólafur F. Magnússon