Borgarstjórn - 15.10.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 15. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:00. Voru þá komin til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Sabine Leskopf, Þorkell Heiðarsson, Hjálmar Sveinsson, Sigríður Arndís Guðmundsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Egill Þór Jónsson, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer seinni umræða um samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033, sbr. 1. liður fundargerðar borgarstjórnar 1. október sl. Lagt er fram að nýju bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 30. september sl. þar sem óskað er eftir samþykki borgarstjórnar, ásamt fylgiskjölum.

Lögð fram svohljóðandi viðaukatillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir sáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, með eftirfarandi fyrirvörum. Í fyrsta lagi að fallið verði frá öllum fyrirætlunum um flýti- og umferðargjöld, eða svokölluðum veggjöldum sama hvaða nöfnum þau kunna að nefnast. Í öðru lagi að Keldnaland verði ekki selt til hæstbjóðenda heldur úthlutað til húsbyggjenda, verkamannabústaða, byggingarsamvinnufélaga, þar með talið byggingarsamvinnufélaga leigjenda og annarra sem hafa áhuga á að byggja sér húsnæði þar. Í þriðja lagi að lagt verði meira í borgarlínu og strætó og að tryggt verði að almenningssamgöngur verði byggðar upp samkvæmt væntingum þeirra sem nota þær.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16110082

-    Kl. 15.13 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti og Alexandra Briem víkur af fundi.

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033 er samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Viðaukatillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu markar þáttaskil í samstarfi samningsaðila, markar þáttaskil í loftslagsmálum fyrir Reykjavík og Ísland og markar þáttaskil í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Með samkomulaginu er verið að forgangsraða í þágu umhverfisins með því að breyta ferðavenjum, með því að hefja stórsókn í almenningssamgöngum með borgarlínu, með því að stórefla hjólastíganet svæðisins og með því að tengja saman hverfi sem hraðbrautir hafa klofið um áratugaskeið. Markmið þessa samkomulags eru skýr, það er fjármagnað og framkvæmdir sem ella hefðu tekið 50 ár munu aðeins taka 15 ár. Næstu skref er að samningsaðilar stofni félag í kringum framkvæmdirnar, fari í hönnunarferli og nauðsynlegar skipulagsbreytingar og loks – hefji framkvæmdir.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Vegafé hefur skilað sér í litlum mæli til Reykjavíkur síðasta áratuginn. Það er skref í rétta átt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkisstjórnin séu sammála um að betur þurfi að gera í þessum efnum. Mikilvæg verkefni eins og bætt ljósastýring, vegaframkvæmdir, stígagerð og betri almenningssamgöngur eru verkefni sem almenn sátt er nú um að þurfi að bæta verulega á höfuðborgarsvæðinu. Það styðjum við. Sáttmáli þessi sem nú liggur fyrir borgarstjórn vekur engu að síður upp fleiri spurningar en hann svarar. Ekki liggur fyrir arðsemismat á einstökum verkefnum. Ekki hefur verið unnið með heildstætt umferðarmódel. Mat á fjárfestingu upp á 120 milljarða byggir á frummati og hugmyndahönnun. Ekki liggur fyrir hvernig fara skuli með framúrkeyrslu eða hver greiði fyrir hana. Þá er ekki komið rekstrarlíkan fyrir þær samgöngur sem sveitarfélögin kunna að reka á grunni þessa sáttmála. Þá liggur ekki fyrir hvernig útfærsla þessara verkefna verður í meðförum Alþingis. Sundabraut er utan samkomulagsins og er óljóst hvernig hún verður útfærð. Loks er óljóst hvernig útfærsla veggjalda að fjárhæð 60 milljarða verður útfærð. Það er því óábyrgt að samþykkja þetta á þessu stigi enda höfum við nær enga aðkomu að útfærslu þessara hugmynda eins og þær eru fram settar. 

Borgarfulltrúar Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Pírata fagna því tímamótasamkomulagi sem hér er samþykkt. Nú liggur fyrir fjármögnuð framkvæmdaáætlun fyrir allt höfuðborgarsvæðið þar sem öflugar almenningssamgöngur eru burðarásinn, bæði í húsnæðisuppbyggingu og samgöngukerfi svæðisins. Samkomulagið er lífsgæðamál almennings og það er umhverfismál. Lífsgæði þeirra sem hafa ekki efni á að eiga bíl eða velja aðra fararmáta munu batna. Að skapa kolefnislaust borgarsamfélag er verðugt markmið og því verður ekki náð án þess að snúa af braut þeirrar bílaborgar sem byggst hefur upp síðustu áratugina. Markmiðum Parísarsáttmálans verður ekki náð með orkuskiptum í samgöngum eingöngu, við verðum að gera betur í að breyta ferðavenjum. Loftslagsmarkmið verða að vera skýrt leiðarstef við útfærslu framkvæmda. Mikilvægt er að útfærsla „sérstakrar fjármögnunar“ í samkomulaginu verði opnari og aðgengilegri en samningaferlið var. Gert er ráð fyrir að þessi hluti fjármögnunarinnar geti verið með ýmsum hætti eftir því hver vilji Alþingis kann að vera, að því gefnu að það samræmist markmiðum samkomulagsins. Einnig er nauðsynlegt að í þeirri útfærslu verði ekki vegið að þeim tekjulægstu í samfélaginu né að friðhelgi einkalífs.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er ýmislegt mjög jákvætt í samkomulaginu og fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar sérstaklega uppbyggingu almenningssamgangna sem eru nauðsynlegar fyrir þá sem á þær treysta og geta verið mikilvægur þáttur í náttúruvernd. Þess vegna er nauðsynlegt að leggja meira í almenningssamgöngur. Við sósíalistar teljum að uppbygging almenningssamganga eigi að vera fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum okkar; sköttum, og getum því ekki samþykkt flýti- og umferðargjöld, sem m.a. er ætlað að flýta uppbyggingu almenningssamganga. Á meðan stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að tekjur og innkoma fólks er ekki skattlögð jafnt, sé t.d. litið til launatekna og fjármagnstekna. Þar að auki viljum við ekki opna á markaðsvæðingu samgöngukerfisins sem innheimta veggjalda er líkleg til að fela í sér. Sósíalistaflokkurinn lagði til þrjá fyrirvara við samþykkt samkomulagsins: að fallið yrði frá öllum fyrirætlunum um flýti- og umferðargjöld, að Keldnaland yrði ekki selt til hæstbjóðenda heldur úthlutað til húsbyggjenda, verkamannabústaða, byggingarsamvinnufélaga, þar með talið byggingarsamvinnufélaga leigjenda og annarra sem hafa áhuga á að byggja sér húsnæði þar. Í þriðja lagi að lagt yrði meira í borgarlínu og strætó og að tryggt yrði að almenningssamgöngur verði byggðar upp samkvæmt væntingum þeirra sem nota þær. Þar sem þessir fyrirvarar voru ekki samþykktir getur fulltrúi Sósíalistaflokksins ekki samþykkt samkomulagið. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Daginn fyrir fyrirhugaða samþykkt meirihlutans í borgarstjórn á samgöngusáttmála sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins, braut Reykjavíkurborg samkomulagið með auglýsingu á rammasamning um stýribúnað umferðarljósa þar sem kaupandi er skilgreindur umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar og umsjónaraðili útboðs innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar. Í kafla 5 um flýtingu framkvæmda/umferðarstýring, kemur fram að ráðist verði strax í markvissar aðgerðir til að nýta nýjar tæknilausnir og bæta umferðarljósakerfi á höfuðborgarsvæðinu í takt við markmið samningsins. Samgöngusáttmálinn er í uppnámi vegna forsendubrests Reykjavíkur. Samningsaðilar geta ekki látið bjóða sér svona vinnubrögð. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins vill setja grunnþarfir fólks í forgang. Fólkið fyrst. Víða þarf að bæta grunnþjónustu. Rétt er að byrja á því áður en farið er í 120 ma.kr. fjárfestingu. Fólkið á auk þess að fá að kjósa um borgarlínu. Fámennur hópur keyrir nú málið í gegn og skuldsetur borgara enn frekar. Flokkur fólksins vill bæta almenningssamgöngur (Strætó bs.) sem eru ekki alvöru valkostur sem stendur. Borgarlína á að vera tilbúin eftir 10 til 15 ár. Á þessum tímapunkti liggja takmarkaðar upplýsingar fyrir um þessa risaframkvæmd. Lítið er vitað um hönnun, útfærslu eða fjármögnun. Sagt er að „það fari nú eftir aðstæðum“ eða „taka á ákvarðanir þegar líður á ferlið“. Þetta eru ekki traustvekjandi svör. Efasemdir um að borgarlína slái í gegn má sjá víða m.a. á vefsíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Fjármögnun er ekki endanleg en frekari skattur verður lagður á borgarbúa. Mjólka á bíleigendur með vegskatti sem dekka á allt að 60 ma.kr. Vegskattur kemur verst niður á þeim sem minnst hafa. Ef stjórnun borgarinnar hefði verið í lagi síðustu ár væri almenningssamgöngur a.m.k. viðunandi og búið að losa um helstu umferðarhnútana í borginni. En engin áhugi virðist vera á því hjá þessum meirihluta frekar en var hjá þeim síðasta.

-     Kl. 17.00 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur sæti.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að gerð verði heildarúttekt á umferðarmerkingum m.t.t. tækninýjunga í samgöngum og sífellt fjölbreyttri samgöngumáta í samræmi við ný umferðarlög, sem taka munu gildi um næstu áramót. Sérstaklega verði farið yfir umferðarmerkingar á vegum, s.s. yfirborðsmerkingar gatna og akstursstefnur, merkingar á gangbrautum, hjólastígum og hringtorgum með hliðsjón af nýjungum í samgöngum s.s. rafhjólum, hlaupahjólum og sjálfakandi bifreiðum. Þá verði enn fremur horft til skilta, s.s. hraðamerkinga, gangbrautamerkinga og varúðarmerkinga. Lögin gera ráð fyrir að heimila akstur og prófanir sjálfakandi ökutækja en breyttar merkingar eru forsenda þess að hægt sé að nýta tæknina. Auk þess kallar snjallvæðing umferðarljósa, umferðarstýring, bílastæðastjórnun og upplýsingagjöf í leiðsögukerfi bíla á bættari og betri merkingar. Lagt er til að Reykjavíkurborg verði leiðandi sem stærsta sveitarfélagið í að taka fyrsta skrefið í aðlögun umferðarmerkinga í samræmi við tækninýjungar með hliðsjón af umferðaröryggi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19100331

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að gerð verði heildarúttekt á umferðarmerkingum með tilliti til nýrra umferðarlaga sem taka munu gildi um næstu áramót. Sérstaklega verði farið yfir umferðarmerkingar á vegum, s.s. yfirborðsmerkingar gatna og akstursstefnur, merkingar á gangbrautum, hjólastígum og hringtorgum. Lagt er til að úttektin fari fram samhliða endurskoðun á reglugerð um umferðarmerki á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Tillögunni er vísað til umhverfis- og skipulagssviðs til framfylgdar og endanlegrar útfærslu.

-    Kl. 17.50 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoëga tekur sæti.

Breytingartillagan er samþykkt. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Tillagan er samþykkt svo breytt. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að tekið hafi verið jákvætt í tillöguna og hún samþykkt með smávægilegri breytingu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til ýmislegt er tengist nýjungum í samgöngum á yfirstandi kjörtímabili, m.a. snjallvædda ljósastýringu og snjallar gangbrautir. Við stöndum nú á þröskuldi tæknibyltingar í samgöngumálum. Sú bylting mun m.a. felast í orkuskiptum ökutækja, sjálfakandi ökutækjum, fjölgun fisfarartækja, byltingu í bestun og samræmingu umferðar og margfalt betri nýtingu umferðarmannvirkja. Í frumvarpi að nýjum umferðarlögum er tekið mið af þessari byltingu og stigið mikilvægt skref en í þeim er gert ráð fyrir að heimila akstur og prófanir sjálfakandi bifreiða. Á meðan löggjafinn hefur svarað kalli tímans um tæknibreytingar í samgöngumálum hefur Reykjavíkurborg sofnað á verðinum og er enn ekki farin að huga að þeim nauðsynlegu framkvæmdum sem ný tækni kallar á. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg bregðist við þeim öru tæknibreytingum sem eru að eiga sér stað í samgöngumálum og aðlagi innviði borgarinnar í samræmi við þær. Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélagið, á að hafa burði og metnað til þess að verða fyrsta sveitarfélagið til að innleiða sjálfkeyrandi tækni á götum borgarinnar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Miðflokksins styður upphaflegu tillöguna heilshugar, enda mikið framfaramál á ferðinni. Hún snýst um framtíðina á meðan stefna meirihlutans er fortíðin. Það er óþolandi að borgarfulltrúar fái sjaldan að greiða atkvæði um tillögur frá minnihlutanum sem liggja fyrir fundum borgarstjórnar. Hér er verið að greiða atkvæði um breytingatillögu frá meirihlutanum um að vísa málinu inn í lægra sett stjórnvald til að þurfa ekki að samþykkja það. Hér er því á ferðinni allt önnur tillaga en liggur fyrir fundinum og allt önnur atkvæðagreiðsla en til stóð. Ég sit því hjá í atkvæðagreiðslunni til að sýna í verki mótmæli á verklagi því sem meirihlutinn beitir minnihlutann.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að eiga samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að kanna hvort fleiri skólar eru tilbúnir til að seinka skólabyrjun og hefja kennslu kl. 9:00 í stað 8:00. Borgarfulltrúi gerir sér grein fyrir ákveðnum vanda sem gæti skapast hjá einhverjum foreldrum yngri barna sem þurfa sjálfir að mæta í vinnu kl. 8:00. Hann væri þó hægt að leysa með því að bjóða upp á morgungæslu milli kl. 8:00 og 9:00 fyrir þau börn sem þess þurfa. Einhverjir skólar hafa nú þegar seinkað skólabyrjun t.d. um 30 mínútur. Sumir skólar hafa einnig breytt lengd kennslustunda frá 40 mínútum yfir í 60 mínútur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við skólastjórnendur um reynslu þeirra á seinkun skólabyrjunar og segja þeir hana góða. Börnin komi hressari í skólann og séu virkari. Það sé rólegra yfirbragð á nemendum og minna álag á kennurum. Breytingin er talin hafa verið til góðs fyrir alla. Með því að hefja skólastarf kl. 9:00 gefst kennurum tækifæri áður en kennsla hefst til að sinna t.d. undirbúningsvinnu eða foreldrasamskiptum sem þeir ella þyrftu að sinna í lok dags. Seinkun/breyting á upphafi vinnutíma kennara gæti einnig dregið úr umferðarálagi í borginni á háannatíma.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19100332

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins var að vonast til að þessi tillaga yrði samþykkt enda aðeins verið að leggja til að skóla- og frístundasvið eigi samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að leita að fleiri skólum sem eru tilbúnir að seinka skólabyrjun. Tillagan kostar ekkert og er aðeins hvatning um samtal. En því var ekki að skipta og leggur borgarstjóri til að tillögunni verði vísað til hans skrifstofu og að unnið verði að henni þar í samráði við skóla- og frístundarsvið. Borgarfulltrúi hefur ekki annan kost en að una því enda valdalaus hér í borgarstjórn. Þess er vænst að eitthvað gott komi engu að síður út úr þessari tillögu í þágu skólasamfélagsins.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að beita sér fyrir því að göngutengingar við Hringbrautina vestan Melatorgs verði öruggari fyrir gangandi og hjólandi umferð. Lagt er til að annað hvort verði fundnar lausnir með göngubrúm eða undirgöngum. R19100333

Borgarfulltrúi Miðflokksins dregur tillöguna tilbaka.

-    Kl. 18.55 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Berglind Eyjólfsdóttir tekur sæti.

5.    Lagt er til að Örn Þórðarson taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í stað Katrínar Atladóttur og að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur en um er að ræða leiðréttingu á samþykkt borgarstjórnar í 8. lið fundargerðar borgarstjórnar 1. október sl. R18060083

Samþykkt.

6.    Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Björns Gíslasonar. R18060085

Samþykkt.

7.    Lagt til að Björn Gíslason taki sæti í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur. R18060088

Samþykkt.

8.    Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í ofbeldisvarnarnefnd í stað Arnar Þórðarsonar. R18060106

Samþykkt.

9.    Samþykkt að taka kosningu í skóla- og frístundaráð á dagskrá.

Lagt til að Örn Þórðarson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Katrínar Atladóttur. R18060087

Samþykkt.

10.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. október. R19010002

21. liður fundargerðarinnar frá 10. október; stefna í málefnum heimilislausra með flóknar þjónustuþarfir er samþykktur. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. R19050207

26. liður fundargerðarinnar frá 10. október; svohljóðandi einföld ábyrgð vegna skuldabréfaútgáfu Félagsbústaða: 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir hér með á borgarstjórnarfundi, þriðjudaginn 15. október 2019, að veita einfalda ábyrgð, sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar skuldabréfaútgáfu Félagsbústaða á nýjum samfélagslegum skuldabréfaflokki (e. Social Bonds) sem tekinn verður til viðskipta á Sustainable Bond Market, Nasdaq Iceland, að fjárhæð allt að kr. 6.500.000.000,- vegna útgáfu á árinu 2019. Ábyrgðin stendur til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum samkvæmt skuldabréfum sem gefin eru út í skuldabréfaflokknum, hvort heldur sem um er að ræða höfuðstól skuldabréfanna, vexti, verðbætur, dráttarvexti eða hvers kyns kostnað sem af vanskilum kann að leiða. Verði útgáfa á árinu 2019 lægri en sem nemur þeirri fjárhæð sem að ofan greinir fellur ábyrgðin niður á óútgefinni fjárhæð í lok árs. Ábyrgðin virkjast aðeins eftir að borgarráð hefur samþykkt að ábyrgjast skuldabréfin á þeim kjörum sem félagið hefur samþykkt í útboði í þessum skuldabréfaflokki. Andvirði skuldabréfanna verður notað til að mæta fjárfestingaþörf félagsins vegna uppbyggingar á félagslegu leiguhúsnæði og/eða notað til endurfjármögnunar eldri lána. Ráðstöfunin felur í sér fjármögnun lögákveðinna verkefna á ábyrgð sveitarfélaga í samræmi við heimild skv. 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ábyrgðin varir uns framangreind skuldabréf eru greidd að fullu og gildir jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfunum einu sinni eða oftar, uns skuldin er að fullu greidd. Ennfremur gildir ábyrgðin þótt breyting verði gerð á vaxtakjörum. Ábyrgðin er einföld og verður ekki virk fyrr en fullreynt hefur verið með innheimtu skuldarinnar hjá skuldara og sýnt er fram á að skuldari er ófær um endurgreiðslu skuldarinnar. Borgarstjórn skuldbindur hér með Reykjavíkurborg sem eiganda Félagsbústaða hf. til að breyta ekki því ákvæði samþykkta félagsins sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu, að því leyti að eignarhald í félaginu megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhluti í Félagsbústöðum hf. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að sjá til þess að nýr eigandi yfirtaki að sínum hluta ábyrgð á útistandandi skuld.

Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 8 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. R19100128

Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

29. liður fundargerðarinnar frá 10. október; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 er samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19010200

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október: 

Fulltrúi Sósíalistaflokksins styður heilshugar leiðarljós stefnunnar en þau snúa að því að sýna virðingu á öllum stigum þjónustunnar. Áhersla er á að efla og auka sjálfsvirðingu notandans, valdefla einstaklinginn og draga úr fordómum í samfélaginu þar sem öll þjónusta skal stuðla að framangreindum þáttum. Meginstoðir stefnunnar eru mikilvægir þættir sem nauðsynlegt er að byggja á. Ein meginstoðin er hugmyndafræðin um húsnæði fyrst (e. Housing first) sem fulltrúi Sósíalistaflokksins styður heilshugar. Hugmyndafræðin gengur út frá því að húsnæði sé grunnþörf og teljist til mannréttinda. Aðeins þegar þessari grunnþörf sé mætt, geti einstaklingurinn ráðið við aðrar áskoranir í lífi sínu. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill taka fram að grundvallarforsenda þess að geta veitt þjónustu á grundvelli þeirrar hugmyndafræði byggir á því að húsnæði sé til staðar. Staðan hefur því miður ekki alltaf verið þannig þar sem skortur hefur verið á íbúðum á viðráðanlegu verði. Aðrir þættir geta líka mótað stöðu þeirra sem skilgreinast sem heimilislausir og þá er mikilvægt að viðeigandi húsnæði standi fólki alltaf til boða. Það þarf að tryggja að nægilegt húsnæði sé alltaf til staðar og með þeim stuðningi sem fólk þarf á að halda. Húsnæði er ein grunnforsenda velferðar og nauðsynlegt að allir hafi alltaf aðgengi að öruggu húsnæði.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október: 

Félagsbústaðir eru reknir í sérstöku félagi með það fyrir augum að tryggja sjálfbæran rekstur. Hér er hins vegar óskað eftir því að borgarsjóður gangist í ábyrgðir fyrir skuldsetningu félagsins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast gegn þeirri ráðstöfun. Nú þegar er Reykjavíkurborg í ábyrgðum fyrir um 100 milljarða kr. skuldum B-hluta fyrirtækja. Þessar ábyrgðir koma til viðbótar gríðarlegri skuldsetningu borgarsjóðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október: 

Félagsbústaðir sinna mikilvægri þjónustu og hafa skilað góðum rekstri. Með ábyrgð borgarsjóðs á skuldabréfaútgáfu félagsins er verið að lækka vaxtakostnað Félagsbústaða og þar með lækka rekstrarkostnað og minnka þörf á hækkun leiguverðs. Það sýnir bæði skilningsleysi á góðum rekstri og lítinn samhug með rekstri félagsins og aðstæðum leigjenda Félagsbústaða að minnihlutinn aðrir en Sósíalistaflokkurinn leggist gegn ábyrgðinni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október: 

Rekstur Félagsbústaða hefur því miður verið dapurlegur. Ekki er langt síðan viðhaldsverkefni vegna fjölbýlishúss í Breiðholti fór hundruði milljóna fram úr áætlun. Án heimilda. Bókaður hefur verið hagnaður vegna endurmats á félagslegu húsnæði upp á tugi milljarða. Án þeirrar aðferðar væri eigið fé félagsins verulega neikvætt. Ítrekað hefur borgin þurft að auka við meðgjöf sína til félagsins og þurft að veðsetja skattekjur borgarinnar til að útvega félaginu lán á bærilegum vöxtum. Félagsbústaðir eiga í erfiðleikum með að greiða niður skuldir sínar eins og fram hefur komið í úttektum. Það er því í meira lagi sérkennileg afneitun á staðreyndum að horfast ekki í augu við þessa alvarlegu stöðu. Borgin hefur gripið inn í með fjárstuðningi til félagsins, ábyrgðum og ráðist í ítrekaðar úttektir á rekstri þess. Það er óviðunandi. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október: 

Uppgjör Félagsbústaða er samkvæmt reikningsskilastöðlum og hafa verið að greiða niður óhagstæð lán og á sama tíma fjárfesta í samræmi við Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Það er rangt að aukin framlög til Félagsbústaða hafi verið vegna erfiðs rekstrar. Reksturinn hefur verið góður. Borgarstjórn hefur þvert á móti bætt við framlög til Félagsbústaða vegna stórátaks í fjölgun félagslegra leiguíbúða og til að koma í veg fyrir hækkunarþörf á leigu til leigjenda félagsins sem eru meðal tekjulægstu íbúa borgarinnar. Ljóst er af málflutningi Sjálfstæðisflokksins að hann hefði gert hvorugt hefði hann einhverju ráðið.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október: 

Félagsbústaðir byggja efnahagsreikning sinn á yfir 40 milljarða endurmati á eignum sem ekki stendur til að selja. Það eru talsverðir fimleikar og hefur borgin nýtt sér þessa bókhaldsaðferð til að sýna fram á hagnað. Í úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar varðandi framúrkeyrsluverkefni Félagsbústaða kom fram að árið 2012 var farið af stað með viðhaldsverkefni upp á 44 milljónir kr. til að skipta út gluggum, ofnum og tréverki á Írabakka 2-16. Fljótlega kom í ljós að viðhaldsþörfin var mun meiri og því samþykkti stjórnin framkvæmdir fyrir 398 m.kr næstu fjögur árin. Heildarkostnaður Félagsbústaða vegna framkvæmdanna reyndist hins vegar að lokum 728 milljónir kr. sem er 330 milljón kr. umfram þær heimildir sem stjórnin veitti og felur í sér 83% framúrkeyrslu frá samþykktri lokaáætlun. Heil 1.654% frá upphaflegu áætluninni upp á 44 milljónir. Nú er verið að veðsetja skattekjur borgarinnar til að halda félaginu á floti. Svona rekstur og þessi skuldsetning er óábyrg. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 25, 26. og 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október: 

Í tvígang hefur komið inn á borð borgarráðs ósk um að borgarstjórn veiti veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar, í Lánasjóði sveitarfélaga til tryggingar á ábyrgð á lántöku Félagsbústaða 2018 og nú 2019 að veitt verði sérstök hlutafjárframlög í gegnum Íbúðalánasjóð sem og beiðni um einfalda ábyrgð borgarinnar vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða. Ljóst er að félagið á erfitt með að fjármagna sig á skuldabréfamarkaði. Fjárþörfin er mikil sem verið er að plástra. Spurningar vakna um rekstrarform Félagsbústaða sem er hlutafélag í eigu borgarinnar, hver er rót vandans, rekstrarformið eða stjórnunin nema hvort tveggja sé. Félagsbústaðir skulda nú 41 ma.kr og fara skuldir vaxandi. Mörg verkefni hafa farið fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins telur að skoða eigi að færa fyrirtækið aftur undir A-hlutann þar sem borgarráð hefði betri aðkomu, yfirsýn og eftirlit með starfseminni. Annar vandi er ástand eigna og hvernig beiðnum fólks sem er orðið veikt af myglu og raka hafa árum saman verið hunsaðar. Félagsbústaðir eru þess utan að glíma við ímyndarvanda. Fólki finnst oft sem fátt minni á að Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar og þjónustar fólk sem upp til hópa hefur lítið milli handanna. Félagsbústaðir eru komnir í öngstræti. Endurskoða þyrfti allan grundvöll rekstursins í stað þess að vera með eilífar reddingar.

11.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 11. október, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. október, skipulags- og samgönguráðs frá 2. október, skóla- og frístundaráðs frá 24. september og 8. október og velferðarráðs frá 30. september og 9. október. R19010073

6. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 11. október; síðari umræða um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar ásamt viðaukum er samþykktur með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R18060129

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar forsætisnefnd frá 11. október: 

Hér er verið að leggja til breytingar sem snúa flestar að orðalagi en ekki efni sem snýr að stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköpum borgarstjórnar. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill samt minna á breytingar sem voru gerðar á samþykktum borgarstjórnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar sem felldu burtu rétt þeirra flokka sem ekki náðu kjöri í ráð og nefndir að skipa áheyrnarfulltrúa með tillögurétt og málfrelsi. Með því lokaðist að mestu aðgengi fámennra borgarstjórnarflokka að ýmsum ráðum og nefndum í stjórnkerfi borgarinnar. Nú hafa verið miklar umræður í borgarkerfinu almennt sem hafa það að markmiði að gera kerfið skýrara og skilvirkara og fulltrúi Sósíalistaflokksins leggur áherslu á mikilvægi þess að þeir flokkar sem ekki náðu kjöri í ráð og nefndir fái að skipa þar áheyrnafulltrúa (hér er mikilvægt að taka fram að ekki er um barnaverndarnefnd að ræða heldur aðrar nefndir og ráð). Þannig má auka skilvirknina ef fulltrúar allra flokka eru meðvitaðir um hvað fer fram innan ráðanna á þeim tíma sem slíkt á sér stað. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. október: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst sérkennilegt að málefni Kelduskóla skuli enn vera í lausu lofti og hvetur til þess að gengið sé í að taka þá einu ákvörðun sem er rétt í þessu máli, þ.e. að færa unglingadeildina aftur heim í hverfið eins og alltaf hefur staðið til. Á sínum tíma flutti hún burt vegna myglu í færanlegum stofum. Nú getur skólinn hins vegar tekið við börnunum aftur. Sú ógn sem vofað hefur yfir í langan tíma hefur valdið foreldrum og börnunum í hverfinu áhyggjum. Nóg er komið af óöryggi. Þau rök að einingin sé of lítil til að hagkvæmt sé að reka hana er ekki byggð á réttum forsendum. Forsendur fyrir að reka hagkvæma skólaeiningu er að bjóða öllum þeim börnum um 130 talsins, sem eiga lögheimili í hverfinu, skólasetu þar. Málið er þess utan að taka á sig aðrar neikvæðar myndir eins og að rútan sem sækja á börnin komi ekki og hefur það gerst ítrekað. Hvernig er þetta dæmi eiginlega hugsað í vetur. Fram undan er hávetur og er börnunum ætlað að hanga úti og bíða eftir rútu sem ekki kemur? Hér er um alvarlegan öryggisbrest að ræða varðandi aðgengi að þeim skóla sem börnum er ætlað að stunda nám í.

Fundi slitið kl. 19:35

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudóttir    Hjálmar Sveinsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.10.2019 - Prentvæn útgáfa