Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2013, þriðjudaginn 15. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Dagur B. Eggertsson, Oddný Sturludóttir, Hjálmar Sveinsson, Áslaug Friðriksdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga Borgarstjórnar Reykjavíkur:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að veita sem svarar 100 kr. á hvert barn í Reykjavík til hjálparstarfs vegna yfirstandandi hörmunga í Sýrlandi. UNICEF er falin ráðstöfun fjárins, en fjármagnið komi af liðnum ófyrirséð í fjárhagsáætlun (kostnaðarstaður 09025).
Samþykkt.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að efna til átaks í því skyni að fjölga útilistaverkum í íbúahverfum í eystri hluta borgarinnar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 10 atkvæðum að vísa tillögunni til meðferðar menningar- og ferðamálaráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarstjóra:
Borgarstjórn samþykkir að reisa brjóstmynd af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar- og ferðamálaráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skuli ekki treysta sér til að samþykkja tillögu um að fjölga útilistaverkum í eystri hluta borgarinnar heldur kjósa að vísa henni til nefndar. Við vonum þó að unnið verði í anda tillögunnar á vettvangi nefnda og ráða borgarinnar.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að hefja samninga við ríkisvaldið um að taka yfir í tilraunaskyni talþjálfun barna með það að markmiði að efla þjónustu við börn með málþroskaraskanir.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 17.17 víkur Einar Örn Benediktsson af fundi og Sigurður Björn Blöndal tekur þar sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að óska eftir viðræðum við ríkið um framtíð Sundabrautar og/eða Sundagangna. Markmið viðræðnanna verði að kostnaðargreina verkefnið, vinna arðsemismat, finna leiðir til fjármögnunar, gera áfangaskiptingu og tímasetja framkvæmdina. Arðsemismat taki tillit til þess að með Sundabraut fæst tenging við stór svæði innan borgarmarkanna sem lítið er verið að nýta (Geldinganes og Álfsnes) og sem verða þróunarsvæði til uppbyggingar með vegtengingu við önnur svæði borgarinnar.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Umferðarspár sem gerðar hafa verið um nýtingu Sundabrautar gefa til kynna að um hana muni fara 23.000 til 30.000 bílar á sólarhring árið 2030. Til samanburðar fara um 5.000 bílar um Hvalfjarðargöng á sólarhring, innan við 1.000 bílar fara að meðaltali um Héðinsfjarðargögn á sólarhring og reiknað er með að um 1.200 bílar muni fara um Vaðlaheiðargöng á sólarhring þegar þau opna. Umferðarspár vegna Sundabrautar voru unnar í tengslum við gerð nýs aðalskipulags sem nær til ársins 2030 og er umferðarlíkanið þess vegna miðað við það ár. Nýting Sundabrautar (með göngum eða brú yfir Kleppsvík) er því líkleg til að vera viðunandi og má búast við að arðsemi framkvæmdarinnar verði það einnig. Við arðsemismat verður að líta til þess ávinnings sem Reykjavíkurborg hefur af því að fá vegtengingu við borgarland sem er stærra en marga grunar. Geldinganes er álíka stórt og elsti hluti borgarinnar. Sambærilegt svæði að stærð nær frá Ánanaustum til Rauðarárstígs og frá Sæbraut að Hringbraut. Með tilkomu Sundabrautar verður nesið í góðum tengingum við allt vegakerfi höfuðborgarsvæðisins. Skipulag og nýting Geldinganess, Álfsness og Kjalarness í framtíðinni býður upp á mikla möguleika en forsenda þess er að Sundabraut verði sett í framkvæmd. Í tillögu að aðalskipulagi er Ártúnshöfði merktur sem þróunarsvæði og er gert ráð fyrir 3.200 íbúðum þar. Stefnt er að því að iðnaðarstarfsemi á Höfðanum færist annað. Ekki er í nýju aðalskipulagi sýnt fram á önnur sambærileg atvinnusvæði til uppbyggingar fyrir iðnað. Verði ekki skapaðar aðstæður fyrir iðnrekstur munu stjórnendur augljóslega ekki byggja upp á nýjum stað í borginni. Geldinganes og Álfsnes eru svæði sem eru vel til þess fallin að taka við þeirri starfsemi.
5. Lagt er til að Diljá Ámundadóttir taki sæti í velferðarráði í stað Karls Sigurðssonar.
Samþykkt.
6. Borgarstjórn samþykkir að skipa eftirtalin í yfirkjörstjórn vegna borgarstjórnarkosninga í Reykjavík 31. maí nk.:
Tómas Hrafn Sveinsson
Kristín Edwald
Katrín Theódórsdóttir
Til vara:
Þóra Hallgrímsdóttir
Ari Karlsson
Eva Bryndís Helgadóttir
7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. október.
8. Lagðar fram fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 2. október og umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. og 9. október.
Fundi slitið kl. 17.51
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Eva Einarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.10.2014 - prentvæn útgáfa