Borgarstjórn - 14.5.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 14. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13:33. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Aron Leví Beck, Sabine Leskopf, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Egill Þór Jónsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Örn Þórðarson, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagður fram til síðari umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 (A- og B-hluti), sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 7. maí 2019, ásamt skýrslu fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar og greinargerðum fagsviða, aðalsjóðs, eignasjóðs og fyrirtækja B-hluta. Einnig er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2018, verkstöðuskýrsla vegna nýframkvæmda 2018, yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, ódags., og greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags. Einnig eru lagðar fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton, dags. 30. apríl 2019, og skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. í apríl 2019.

-    Kl. 15:50 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Gunnlaugur Bragi Björnsson tekur sæti. R17120062

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

Lagt er til að undirritun ársreiknings fyrir árið 2018 verði frestað þar til sérfræðiálit Trausta Fannars Valssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, verði lagt fram í borgarráði og kynnt öllum borgarfulltrúum.

Málsmeðferðartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðsluna. 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 er samþykktur með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar sýnir sterkan rekstur borgarinnar. Rekstarniðurstaða er góð, allir málaflokkar eru innan fjárheimilda og borgin nýtur hagstæðari vaxtakjara á markaði en nokkru sinni fyrr. Á undanförnum árum hefur verið áhersla á að bæta fjármagni inn í velferðar- og skólamál ásamt gríðarlega umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum. Í fjárfestingum hefur verið forgangsraðað í þágu barna með uppbyggingu leikskóla og skóla og íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal sem brátt sér fyrir endann á. Uppbygging á íþróttamannvirkjum í Suður-Mjódd gengur vel og leikskólalóðir hafa verið endurnýjaðar um alla borg. Álagningarhlutfall fasteignagjalda var lækkað um 10% með sérafsláttum fyrir eldri borgara og öryrkja. Farið var í stórátak í malbikun gatna og lagningu nýrra hjólastíga í borginni. Fyrst og síðast dregur uppgjörið fram borgarrekstur sem getur státað af ábyrgri fjármálastjórn, hefur metnað fyrir framúrskarandi þjónustu, leggur áherslu á góða innviði og forgangsraðar í þágu velferðar- og skólamála.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar (IER) gaf út svarta úttektarskýrslu í desember 2018 um hið svokallaða braggamál. Í skýrslunni var sérstaklega vikið að fjárheimildum sem lágu til grundvallar. Í skýrslu IER sagði m.a.: „Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum og þess var ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar en það er brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar. Heildarkostnaður nú í desember er kominn í 425 m.kr. en úthlutað hefur verið heimildum að fjárhæð 352 m.kr. Svo virðist sem hvergi hafi verið fylgst með því að verkefnið væri innan fjárheimilda.“ Annað dæmi um framúrkeyrslu án fjárheimilda er að finna í nýjustu úttekt IER varðandi Mathöll við Hlemm. Í kjölfarið ritaði fjármálaskrifstofa borgarinnar minnisblað, dags. 5. febrúar 2019, um meðhöndlun fjárheimilda til málaflokka og verkefna, með sérstakri áherslu á þá staðreynd að verkefnið Nauthólsvegur 100 hafi farið 73 m.kr. umfram fjárheimildir eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar (IE) frá desember 2018. Í minnisblaðinu kemur fram að verklag við fjármálastjórn borgarinnar sé með þeim hætti að borgarstjórn samþykkir heildarfjárfestinguna og það sé mat fjármálaskrifstofu að með undirritun ársreiknings hafi borgarstjórn þegar samþykkt öll fjárútlát vegna verkefnisins. Í framhaldi af útgáfu minnisblaðs fjármálaskrifstofu óskaði oddviti Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds, eftir því við endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar, með beiðni dags. 18. mars 2019, að taka til umfjöllunar og skoðunar það álit fjármálaskrifstofu að með undirritun ársreiknings hafi öll fjárútlát sem féllu til á árinu 2018 verið samþykkt. Segir m.a. í beiðninni: „Ef túlkun fjármálaskrifstofu er rétt þá þarf Reykjavíkurborg ekki að hafa áhyggjur af greiðslum sem ekki er heimild fyrir eða flóknu eftirliti, því hægt er að ljúka málinu ári eftir með undirritun borgarfulltrúa á ársreikningi.“ Endurskoðunarnefnd borgarinnar tilkynnti í kjölfarið að hún tæki erindi Eyþórs til skoðunar og fékk til þess Trausta Fannar Valsson, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands, sem var verkefnisstjóri endurskoðunar sveitarstjórnarlaga og skrifaði m.a. bókina Sveitarstjórnarréttur, sem er helsta rit sveitarstjórnarréttarins. Meðal viðfangsefna bókarinnar eru þær reglur sem gilda um fjármál sveitarfélaga og eftirlit með þeim. Niðurstaða Trausta Fannars Valssonar er skýr og þar er að fullu tekið undir sjónarmið borgarstjórnarflokksins um að undirritun feli ekki í sér samþykki eða staðfestingu borgarfulltrúa á ólögmætum fjárheimildum.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2018 samanstendur af samstæðu uppgjöri A- og B-hluta og uppgjöri A-hluta sem samanstendur af aðalsjóði og eignasjóði. Rekstur A-hluta er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður af skatttekjum, þar sem útsvar er stærsti hluti rekstrartekna. Aðalsjóður var rekinn með tapi upp á rúman milljarð og jákvæð rekstrarniðurstaða A-hluta upp á rúma 4,7 milljarða byggir að miklu leyti á sölu byggingarréttar og söluhagnaði eigna. Áður fyrr var lóðum úthlutað en nú hefur það færst í aukana að þær séu boðnar upp í útboði þar sem hæstbjóðandi fær lóð úthlutað og greiðir byggingarréttargjald fyrir húsnæðisuppbyggingu. Sósíalistar leggja áherslu á að einstaklingum, fjölskyldum, óhagnaðardrifnum byggingarfélögum og byggingarsamvinnufélögum verði úthlutað lóðum og að fjárhagsstaða ráði þar ekki úthlutun. Byggingarréttargjald var ekki lagt á áður fyrr og væri sennilega ekki nauðsynleg innheimtuaðgerð ef borgin leitaði eftir því að styrkja tekjustofna sína t.d. með samvinnu við hin sveitarfélögin um að leggja útsvar á fjármagnstekjur. Fulltrúi Sósíalistaflokksins er meðvitaður um að Borgarstjórn Reykjavíkur geti ekki lagt á skatta án laga frá Alþingi en telur eðlilegt að áhersla sé lögð á að hinir allra auðugustu greiði til samfélagsins eins og launafólk, þá þyrfti sennilega ekki að selja almenningsgæði sem felast í byggingarrétti.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sem fjallar um bindandi áhrif ákvörðunar um fjárhagsáætlun ársins að ákvörðun sem sveitarstjórn tekur skv. 1. mgr. 62. gr. um fjárhagsáætlun næstkomandi árs er bindandi regla um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu sveitarfélagsins. Aðrir geta þó ekki byggt sjálfstæðan rétt til fjárframlaga eða annarrar fyrirgreiðslu sveitarfélags á fjárhagsáætlunum. Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun skv. 1. mgr. nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Á þetta við um hvers kyns ákvarðanir, samninga eða aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem hafa í för með sér breytingar á tekjum, útgjöldum, skuldbindingum eða tilfærslur milli fjárlagaliða í þegar samþykktri áætlun. Viðauki er ekki gildur nema hann feli einnig í sér útfærða ákvörðun um það hvernig þeim útgjöldum eða tekjulækkun sem gert er ráð fyrir verði mætt. Þá segir í 3. mgr. 72. gr. að endurskoðandi sveitarfélags skal jafnframt kanna hvort fullnægjandi heimildir hafi verið fyrir útgjöldum og hvort almenn stjórnsýsla sveitarfélags og einstakar ákvarðanir af hálfu þess eru í samræmi við reglur um fjármál sveitarfélags, ábyrga fjármálastjórn og upplýsingaskyldu sveitarfélaga. Þegar skýrslur innri endurskoðanda Reykjavíkur eru lesnar blasir við að þessi skilyrði eru ekki uppfyllt. Á bls. 27 í skýrslunni um Nauthólsveg 100 kemur fram að fjárheimildir skortir fyrir 73 milljónum og á bls. 12 í skýrslu um verklegar framkvæmdir og innkaupamál kemur fram að fjárheimildir vegna Mathallar á Hlemmi skorti fyrir tæpum 47 milljónum. Ekki er hægt að sækja um fjárheimildir á nýju ári vegna umframkeyrslu síðasta árs. Borgarráð var blekkt 2017 og einnig 2018 varðandi áætlaðan kostnað við braggann. Sveitarfélög hafa ekki heimildir til að breyta fjárheimildum aftur í tímann og viðaukum við fjárhagsáætlun er lokað í desember ár hvert. Þetta var staðfest af innanríkisráðuneytinu þegar óskað var eftir áliti um þetta efni 2013. Hér er því um skýrt lögbrot að ræða hjá Reykjavíkurborg og slíkt er algjörlega óásættanlegt og því er þessi fyrirvari við undirritun ársreikningsins. Það er borgarfulltrúa Miðflokksins mjög á móti skapi að vera lögbundin af því að undirrita ársreikning þvert á móti sannfæringu sinni og samvisku, en það skal upplýst að undirritunin felur á engan hátt í sér viðurkenningu á þeim lögbrotum sem uppvíst hefur orðið um og getið er hér að framan

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins skrifar undir ársreikning borgarinnar 2018 með fyrirvara og situr þar af leiðandi hjá við atkvæðagreiðslu hans. Borgarfulltrúi er ekki sáttur við hvernig farið hefur verið efnislega með fjármuni borgarinnar. Borgarfulltrúi óttast einnig að ekki séu öll kurl komin til grafar í verkefnum sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 10. janúar að uminnri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gerð var á Nauthólsvegi 100 en Gröndalshúsið fór mikið fram úr kostnaðaráætlun. Tillagan var felld á grundvelli umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar án þess að fengið væri álit innri endurskoðanda. Það er mat borgarfulltrúa að borgaryfirvöld hafi misnotað fé borgarbúa með grófum hætti undanfarin ár. Fjölmörgum ábendingum hefur ekki verið fylgt eftir, 37% ábendinga sem raktar eru í nýrri skýrslu innri endurskoðunar hafa ekki fengið úrlausn, sumar þeirra eru margítrekaðar. Borgarfulltrúi áréttar að með þessari undirskrift sinni samþykkir hann EKKI nein fjárútgjöld sem farið hafa fram úr fjárheimildum án heimildar og fordæmir brot borgarinnar á sveitarstjórnarlögum, á lögum um skjalasöfn, að fjárhæðum hafi verið eytt án heimildar, brot á innkaupareglum, að borgarráði hafi verið veittar rangar upplýsingar sem og að tölvupósti og afritum var eytt, allt sem staðfest hefur verið í skýrslu innri endurskoðunar borgarinnar, m.a. um Nauthólsveg 100.

2.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 9. maí. R19010002

21. liður fundargerðarinnar, breyting á innkaupareglum Reykjavíkurborgar er samþykktur. R19010001

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundagerðarinnar:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að nú sé verið að efla innkauparáð í takt við þær tillögur sem sjálfstæðismenn lögðu fram í vetur. Þá vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokks koma á framfæri þakklæti til starfsfólksins sem kom að þessari vinnu. Sérstaklega viljum við þakka Eyþóru Kristínu Geirsdóttur sem hafði yfirumsjón með vinnunni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar endurskoðun á innkaupareglum Reykjavíkur. Breytingar eru til bóta og greinilega þarfar í ljósi þess að innkaupareglur í braggamálinu og fleiri framkvæmdum voru brotnar. Að sporna við samningagerð við þann sem orðið hefur uppvís að kennitöluflakki er sérstaklega ánægjulegt að sjá í reglunum. Ekki síst er mikilvægt að lögð er áhersla á aukið eftirlit og að auka upplýsingaflæði til innkauparáðs en á því varð einmitt brestur í braggamálinu. Eitt mikilvægasta atriðið er að innkauparáð geti stöðvað framkvæmd tímabundið ef ekki liggur fyrir að samningi hafi verið komið á í samræmi við innkaupareglur og/eða ef fjárheimildir eru ekki fyrir hendi. Löngu tímabært ákvæði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins!

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 35. lið fundargerðarinnar:

Tillaga Flokks fólksins um að fengin yrði umsögn innri endurskoðanda á umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (frá 4. apríl og 6. maí) við fyrirspurn borgarfulltrúa vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun var vísað frá á sama fundi borgarráðs og hún var lögð fram. Þetta er allt hið sérkennilegasta mál þar sem í raun er umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar ein og sér lögð til grundvallar þess að vísa þessari tillögu frá. Hér er því „skrifstofan“ sjálf SEA að meta það ein hvort eigi að skoða stöðu verka og verkefna hennar eins og Gröndalshús. Það ætti að þykja sjálfsagt að innri endurskoðandi fengi tillögu um úttekt á Gröndalshúsinu inn á sitt borð en staðfest er að umrædd umsögn SEA kom aldrei inn á hans borð áður en hún var lögð fram. Það ætti að vera metnaður borgarmeirihlutans að ákvörðun um hvaða verkefni fari í úttekt komi fyrst og fremst frá þeirri skrifstofu sem hefur að gera með eftirlit með verkefnum borgarinnar. Að vera dómari á eigin verk getur varla talist faglegt hvað þá trúverðugt. Borgarfulltrúi mótmælir þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð, að ítrekað sé tillögum sem eiga fullan rétt á sér vísað frá eða svarað með útúrsnúningum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 36. lið fundargerðarinnar:

Tillaga Flokks fólksins um víðtæka skoðanakönnun vegna varanlegra lokana gatna í miðbænum var felld um leið og hún var lögð fram. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn þori ekki að láta framkvæma slíka könnun því undir niðri er vitað að mikil mótmæli munu koma fram vegna fyrirhugaðra varanlegra lokana tveggja aðalgatna og jafnvel fleiri í miðborginni. Meirihlutinn rígheldur í eldri kannanir sem þeim hefur tekist að sannfæra borgarbúa um að styðji þessar framkvæmdir. Borgarbúar voru plataðir. Aldrei var spurt hvað fólki fyndist um varanlega lokun þessara gatna. Spurningar voru loðnar og óljósar og áttu svarendur án efa erfitt með að átta sig á um hvað málið snerist sem er að bílar munu aldrei framar geta ekið um Laugaveg og hluta Skólavörðustígs allt árið um kring hvernig sem viðrar. Fyrir hreyfihamlaða er þetta mikið áfall þar sem aðgengi að þessu svæði er slakt. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum sem engan veginn gefur heildarmynd. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 29. lið fundargerðarinnar:

Borgarstjóri er pólitískur framkvæmdastjóri Reykjavíkur og er pólitískur andstæðingur kjörinna fulltrúa. Þessi tillaga er áhlaup á lýðræðiskjörna fulltrúa og vopn til að þagga niður óþægileg mál sem þrifist hafa um langa hríð innan Reykjavíkurborgar. Óhjákvæmilegt er eftir alla þá áfellisdóma og úrskurði sem eftirlitsstofnanir ríkisins hafa fellt yfir Reykjavíkurborg að almenningur viti hvaða starfsmenn eiga í hlut í einstökum málum. Finna má á heimasíðu Reykjavíkurborgar starfsmenn og ábyrgðaraðila hvers máls. Hér eru nefnd dæmi. Héraðsdómur í máli skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara. Voru nöfn málsaðila í málsskjölum og því óhjákvæmilegt annað en að ræða málin á þeim grunni. Sama má segja í þeim lögbrotum sem komið hafa upp er snerta SEA eins og t.d. í bragganum og Mathöll á Hlemmi. Kjörnir fulltrúar bera ekki ábyrgð á því að hin almenna umræða í samfélaginu „feli í sér neikvæðan dóm yfir viðkomandi starfsfólki eða störfum þess.“ Hins vegar er mikið áhyggjuefni að borgarstjóri sem framkvæmdastjóri Reykjavíkur taki ekki á starfsmannamálum og hatursorðræðu innan stjórnkerfisins og láti það ótalið að t.d. starfsmaður sem heyrir undir hann ráðist að nafngreindum einstaklingum í samfélaginu með orðunum: „ríða, drepa, giftast?“ Eins var látið ógert að áminna borgarritara þegar hann lýsti kjörnum fulltrúum sem „tuddum á skólalóð.“

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun við 29. lið fundargerðarinnar:

Almennt þykir ekki fara vel á því að störf einstaka starfsfólks, sem trauðla getur borið hönd fyrir höfuð sér, séu gerð að umtalsefni í fundargerðum pólitískt kjörinna ráða eða í borgarstjórn. Borgarfulltrúar eru því hvattir til að hætta að draga starfsfólk inn í pólitíska umræðu og beina frekar orðum sínum að kollegum sínum í borgarstjórn.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun við 29. lið fundargerðarinnar:

Borgarfulltrúi Miðflokksins heldur áfram svo lengi sem þörf er á að taka upp hanskann fyrir aðila sem starfsfólk Ráðhússins ræðst að á opinberum vettvangi. Það er m.a. ein af starfsskyldum kjörins fulltrúa. Þessu dæmi á að snúa við og beina því til starfsfólks Ráðhússins að þeir verði hvattir til að hætta að taka fólk í samfélaginu niður með níði og illu umtali. Þessi vandi liggur á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara en ekki hjá kjörnum fulltrúum. Þetta sjúka andrúmsloft innan Ráðhússins verður að uppræta.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 29. lið fundargerðarinnar:

Það er sérkennilegt að borgarmeirihlutinn hafi ekki viljað fá ráðleggingar stjórnsýslufræðinga á þetta verkferli sem meirihlutinn hefur nú einhliða samþykkt og ætlað er fyrir starfsmenn sem vilja kvarta undan kjörnum fulltrúum. Hér skiptir máli að hlutir séu rökréttir en ekki bara einhver geðþóttaákvörðun þeirra sem valdið hafa. Því hefði verið tilvalið að fá mat fræðinga í stjórnsýslureglum vegna þeirrar ójöfnu stöðu sem kjörinn fulltrúi er í annars vegar og starfsmaður hins vegar. Hin samþykkta tillaga er órökrétt. Kjörnum fulltrúa er í lófa lagt hvort hann ansi kalli rannsakanda að koma til tals um kvörtun á hendur honum. Geri hann það ekki fer ekkert ferli af stað. Borgarritari hefur móttekið kvörtun frá starfsmönnum sem jafngildir loforði um að kvörtunarmál fari í ferli sem lýkur með úrlausn. Borgarstjóri og -ritari hafa tapað áttum við lestur frekar óljósrar skýrslu siðanefndar sveitarfélaga. Þar segir að ekki sé hægt að vinna mál á pólitískum vettvangi en engu að síður eigi að búa til farveg. Nú á að fá utanaðkomandi aðila til verksins en sem ráðinn er af hinum pólitíska framkvæmdastjóra. Borgarritari hefur einnig boðið borgarfulltrúum að kvarta yfir starfsmönnum. Staða þess starfsmanns sem kjörinn fulltrúi kvartar yfir er mun verri en sé málið á hinn veginn. Starfsmann er hægt að áminna og reka en kjörinn fulltrúa ekki.

3.    Lagðar fram fundargerðir mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 9. maí og velferðarráðs frá 24. apríl. R19010073

Fundi slitið kl. 18:10

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Vigdís Hauksdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 14.5.2019 - Prentvæn útgáfa