Borgarstjórn - 14.5.2013

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2013, þriðjudaginn 14. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Óttarr Ólafur Proppé, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Sóley Tómasdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. apríl sl. Jafnframt er lögð fram endurskoðunarskýrsla Pricewaterhouse Coopers hf., skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar 2013, skýrsla fjármálaskrifstofu, allar dags. 26. apríl 2013, ásamt skýrslu innri endurskoðunar dags. í apríl 2013.

- Kl. 15.30 víkur Karl Sigurðsson af fundi og Sigurður Björn Blöndal tekur sæti.

- Kl. 17.25 taka Páll Hjalti Hjaltason og Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum og Sigurður Björn Blöndal og Júlíus Vífill Ingvarsson víkja.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012 samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til svohljóðandi bókunar sinnar sem lögð var fram við fyrri umræðu um ársreikning:

Þetta er annað árið sem meirihluti Besta flokks og Samfylkingarinnar hefur haft tækifæri til þess að setja alfarið mark sitt á borgarreksturinn. Og annað árið í röð er taprekstur í borginni sem gefur til kynna að aðhald í rekstri sé ófullnægjandi. Kjörtímabil núverandi meirihluta hefur einkennst af því að kerfið hefur vaxið á kostnað borgarbúa í formi skatta- og gjaldskrárhækkana. Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2011 og 2012 í A-hluta ársreiknings er neikvæð um 2,8 milljarða króna. En samanlögð rekstrarniðurstaða tveggja ára þar á undan þegar fyrrverandi meirihluti var við stjórn var jákvæð um 4,7 milljarða króna. Lítið hefur verið hagrætt í kerfinu, þvert á móti eykst kostnaður en rekstargjöld aukast. Ekki sjást merki um átak í hagræðingu sem meirihlutinn stefndi að við upphaf kjörtímabilsins. Hinsvegar hefur meirihlutinn hækkað skatta og gjöld en skattheimta var 2,1 milljarði hærri árið 2012 en upphaflega fjarhagsáætlunin gerði ráð fyrir. Það er auðvelt að stjórna með því að taka fé af fjölskyldum og fyrirtækjum í borginni. Skynsamlegra, sanngjarnara og farsælla hefði þó verið að nýta það svigrúm til að hagræða í kerfinu og auðvelda almenningi að takast á við erfiða tíma.

Fundi slitið kl. 18.47

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Áslaug Friðriksdóttir  Óttarr Ólafur Proppé

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 14.05.13