Borgarstjórn - 1.4.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 1. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjaltason, S. Björn Blöndal, Einar Örn Benediktsson, Hjálmar Sveinsson, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarstjórn samþykkir að beita sér fyrir átaki gegn heimilisofbeldi. Í því skyni verði óskað eftir samstarfi við sveitarfélög og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, lögregluskólann, grasrótar- og stuðningssamtök til að stuðla að auknu samstarfi, þekkingarmiðlun og bættu verklagi til að taka á þeim heimilisofbeldismálum sem upp koma. Sérstaklega verði horft til þess árangurs sem náðst hefur á Suðurnesjum og víða á Norðurlöndum með breyttu og bættu verklagi.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt

Samþykkt með 15 atkvæðum að taka á dagskrá svohljóðandi viðaukatillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að sérstaklega verði skoðað hvernig sporna megi við ofbeldi gegn þeim sem tilheyra minnihlutahópum. Sérstaklega verði sjónum beint að fötluðum konum og konum af erlendum uppruna, enda hafa rannsóknir sýnt að þriðjungur fatlaðra kvenna verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi og stór hluti kvenna sem koma í Kvennaathvarfið er af erlendum uppruna. Lagt er til að sérstaklega verði skoðað hvernig best er að aðstoða þennan hóp og aðra hópa sem veikast standa, en ljóst er að nálgast verður þær lausnir með öðrum hætti en almennt gerist.

Samþykkt.

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn Reykjavíkur er á móti ofbeldi. Heimilisofbeldi er samfélagslegt mein sem okkur ber að sporna gegn með öllum tiltækum ráðum. Það er því með ánægju að við samþykkjum að fara í sérstakt átak gegn heimilisofbeldi, í samvinnu við lögregluna, önnur sveitarfélög og samtök sem hafa reynslu og þekkingu á ofbeldi á heimilum fólks. Sérstaklega verður sjónum beint að fötluðum konum og konum af erlendum uppruna. Reykjavíkurborg er reiðubúin til að kanna og innleiða allar þær aðferðir sem stuðlað geta að friðsælli borg og auknu öryggi borgarbúa. Samþykktinni er vísað til borgarráðs  sem vísar tillögunum til viðeigandi stofnana sem munu gera  verk- og kostnaðaráætlun.  

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 20. mars.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. mars.

17. liður fundargerðarinnar, tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar samþykktur með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í samkomulagi Reykjavíkurborgar, innanríkisráðuneytisins og Icelandair var gerð þverpólitísk sátt á milli ríkis og borgar sem og hagsmunaaðila um að setja á laggirnar nefnd sem hefur það verkefni að finna framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar. Sú nefnd er enn að störfum og hefur formaður nefndarinnar óskað eftir svigrúmi til að klára þá vinnu áður en pólitísk afskipti séu höfð af svæðinu þar sem flugvöllurinn er nú. Því er gagnrýnivert að formaður borgarráðs sem og aðrir fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn virðist samt leynt og ljóst enn vinna að þeirri stefnu að byggð muni rísa í Vatnsmýri og með því ýja að því að niðurstaða nefndarinnar verði virt að vettugi. Til að virða þá tímabundnu þverpólitísku sátt varðandi nefndarvinnuna að framtíðarstaðsetningu flugvallararins greiða borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn tillögunni, þar sem ekki er tímabært að skipuleggja svæði sem óvissa ríkir um að þessu leyti.

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hefur engin áhrif á rekstur flugvallarins, það er gert sem hluti af samkomulagi Reykjavíkurborgar, innanríkisráðuneytisins og Icelandair. Það er vandséð hvernig hægt er að túlka atkvæði gegn deiliskipulaginu sem stuðning við þá þverpólitísku sátt sem nú ríkir um framgöngu málsins.

4. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. mars, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. mars, mannréttindaráðs frá 11. mars, menningar- og ferðamálaráðs frá 24. mars, skóla- og frístundaráðs frá 19. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. mars og velferðarráðs frá 20. mars. 

Fundi slitið kl. 15.39

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Karl Sigurðsson   Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 1.4.2014 - prentvæn útgáfa