No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 13. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Marta Guðjónsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. apríl sl. og 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí sl. Jafnframt er lögð fram endurskoðunarskýrsla Pricewaterhouse Coopers hf., dags. 2. maí sl., skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar 2014, ásamt skýrslu innri endurskoðunar, dags. 8. maí 2014. Einnig eru lögð fram minnisblöð fjármálaskrifstofu, dags. 5. og 7. maí sl.
Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013 samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. Borgarstjórn samþykkir einnig að vísa ábendingum innri endurskoðunar og endurskoðunarnefndar til frekari skoðunar og úrvinnslu undir stjórn borgarritara.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti Besta flokks/Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar leggur hér fram síðasta ársreikning sinn á kjörtímabilinu. Á valdatíma meirihlutans hafa álögur verið auknar á Reykvíkinga. Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélag landsins og ætti að njóta stærðarhagkvæmni í rekstri, m.a. með því að halda álögum á almenning í lágmarki í stað þess að hækka útsvarið í lögbundið hámark. Eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar er að bæta rekstur Reykjavíkurborgar og nýta ávinninginn til að lækka skatta á borgarbúa. Nauðsynlegu viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Á kjörtímabilinu hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvað eftir annað bent á að viðhaldi mannvirkja þar sem grunnþjónusta borgarinnar er rekin, t.d. skóla, leikskóla og íþróttamannvirkja, er stórlega ábótavant. Í þessum ársreikningi kemur skýrt fram að mikilvægum viðhaldsverkefnum hefur verið frestað í því skyni að fegra rekstrarreikning borgarsjóðs. Samkvæmt viðmiðum um viðhald hefðu fjárveitingar til viðhalds þurft að nema um tveimur milljörðum króna á árinu 2013 en í stað þess numu þær aðeins 865 milljónum. Viðhaldi fjölmargra skólamannvirkja er ábótavant og ljóst er að þar er borgin að spara sér til tjóns eins og margir skólastjórar og leikskólastjórar hafa bent á. Slíkt viðhaldssvelti hefur verið stundað allt kjörtímabilið. Hefur gífurlegur viðhaldskostnaður safnast upp í húsnæði borgarinnar fyrir grunnþjónustu á sama tíma og borgarfulltrúar meirihlutans hafa beitt sér fyrir kaupum á húsum og skemmum miðsvæðis í borginni fyrir milljarða króna. Mikil skuldasöfnun. Á kjörtímabilinu hefur rekstur Reykjavíkurborgar einkennst af skuldasöfnun og frestun viðhalds. Á undanförnum þremur árum hafa hreinar skuldir borgarsjóðs aukist um 15 milljónir á degi hverjum. Rekstur borgarsjóðs, sem á að standa undir útgjöldum til allra málaflokka eins og rekstri leikskóla, grunnskóla, velferðarmála, menningarmála og íþróttastarfs, stendur ekki undir þeim rekstri þrátt fyrir að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar hafi hækkað útsvar í lögbundið hámark. Skuldir borgarsjóðs hafa aukist um 30% á undanförnum fimm árum þegar skuldaaukning allra sveitarfélaga á landinu er að meðaltali 3% á sama tímabili. Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum hefur ekki verið lægra í tíu ár sem ber ekki vitni um góðan rekstrarárangur. Auknar álögur Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar á íbúa borgarinnar hafa á kjörtímabilinu aukið kostnað fimm manna fjölskyldu á meðallaunum um 400 þúsund krónur, án þess að þjónusta hafi aukist.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstaða ársreiknings samstæðu Reykjavíkurborgar er ánægjuleg. Samstæða Reykjavíkurborgar var rekin með 8,4 milljarða hagnaði og skuldir voru greiddar niður um 35 milljarða á síðasta ári. Þar af lækkuðu langtímaskuldir um rúma 29 milljarða króna. Rekstur samstæðunnar er að styrkjast umtalsvert. Eigið fé samstæðunnar styrkist einnig umtalsvert. Það nam 192 milljörðum króna í lok árs en var tæpir 148 milljarðar í byrjun ársins 2013. Þegar horft er til samstæðu borgarinnar munar mest um Plan Orkuveitu Reykjavíkur en aðgerðaáætlun hennar hefur gengið fyllilega upp. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um rúma 3 milljarða króna en undir hann heyrir allur almennur rekstur og lífeyrisskuldbindingar borgarinnar. Gjaldskrár Reykjavíkurborgar eru þær lægstu á landinu fyrir fjölskyldufólk. Það er jákvætt og er eitt af því sem gerir Reykjavík að besta staðnum á landinu fyrir fjölskyldufólk að búa á. Fjárhagslegur styrkur A-hluta borgarsjóðs er mikill, hvort sem litið er til eiginfjárstöðu eða hefðbundinna skuldaþekjuhlutfalla. Þetta ber vott um góða fjármálastjórn borgarinnar.
Fundi slitið kl. 16.40
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Eva Einarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 13.05.2014 - prentvæn útgáfa