Borgarstjórn - 1.3.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 1. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Halldór Halldórsson, Hildur Sverrisdóttir, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Lagt er til að stofnaður verði stýrihópur sem marka skal heildstæða stefnu um aðgengismál í Reykjavík. Í hópnum sitji fulltrúar úr mannréttindaráði, umhverfis- og skipulagsráði og ferlinefnd fatlaðs fólks en með hópnum vinni starfsfólk frá mannréttindaskrifstofu, umhverfis- og skipulagssviði og velferðarsviði. Starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir 1. desember 2016. 

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fyrstu 8 mánuði kjörtímabilsins stofnaði meirihlutinn 74 starfs- og stýrihópa. Reynslan hefur sýnt að það er ekki nóg að stofna starfs- og stýrihópa og móta stefnur heldur þarf að framkvæma. Aðgengi allra þarf að tryggja og það er algjörlega óafsakanlegt að við framkvæmdir á vegum borgarinnar sé ekki hugað að því að aðgengi sé tryggt en sem dæmi má nefna var ekki hugað að slíku við endurgerð Hverfisgötunnar og endurbæturnar í Laugardalslaug. Framkvæmdastjóri Strætó prófaði í árslok ferðaþjónustu fatlaðs fólks og var niðurstaða hans að aðgengið þyrfti að vera miklu betra og gagnrýndi hraðahindranir, svellbunka og holur í gatnakerfinu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Stefnumótun er eitt helsta viðfangsefni stjórnmálanna, en að henni þarf að vinna í breiðum hópi fólks þar sem ólík sjónarmið koma saman og hagsmuna ólíkra hópa er gætt. Heildstæð stefna í aðgengismálum er þarft og framsækið verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í ef okkur er alvara með aðgengi fyrir alla í Reykjavík. Skýr stefnumótun styður við innleiðingu og aðgerðir og það er nákvæmlega af þeirri ástæðu sem stefnu af þessu tagi er þörf.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Borgarstjórn samþykkir að fela ofbeldisvarnarnefnd að hefja samtal við innanríkisráðuneytið um aðgerðir til að sporna gegn mansali og tryggja fórnarlömbum líkamlega, félagslega og sálræna aðstoð við hæfi.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

Borgarstjórn samþykkir að fela ofbeldisvarnarnefnd að móta tillögur um aðgerðir til að sporna gegn mansali og tryggja fórnarlömbum líkamlega, félagslega og sálræna aðstoð við hæfi. Ofbeldisvarnarnefnd hafi samráð eftir þörfum, s.s. við hlutaðeigandi ráðuneyti. Tillögum verði skilað til borgarráðs eins fljótt og auðið er.

Samþykkt.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Borgarstjórn samþykkir að stofnaður verði stýrihópur sem hefur það hlutverk að móta heildstæða matarstefnu fyrir Reykjavík. Við mótun stefunnar skal taka mið af sjálfbærni, næringarmarkmiðum, lýðheilsu, félagslegum þáttum, rekstrarfyrirkomulagi, framleiðslumöguleikum og hagkvæmni. Starfshópurinn byggi á þeim skýrslum og úttektum sem þegar hafa verið unnar innan borgarkerfisins til viðbótar við utanaðkomandi rannsóknir, þekkingu og reynslu hérlendis sem erlendis.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að meirihluti Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna ætti að gera meira af því að framkvæma gildandi stefnur en vera endalaust að setja af stað vinnu við nýja stefnumótun. Fyrstu 8 mánuði yfirstandandi kjörtímabils var stofnað til 74 nýrra starfs- og stýrihópa.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Stefnumótun er eitt helsta viðfangsefni stjórnmálanna, en að henni þarf að vinna í breiðum hópi fólks þar sem ólík sjónarmið koma saman og hagsmuna ólíkra hópa er gætt. Heildstæð matarstefna er þarft verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í. Skýr stefnumótun styður við innleiðingu og aðgerðir og það er nákvæmlega af þeirri ástæðu sem stefnu af þessu tagi er þörf. 

- Kl. 18.23 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundi og Eva Baldursdóttir tekur sæti. 

- Kl. 18.35 víkur S. Björn Blöndal af fundi og Eva Einarsdóttir tekur sæti. 

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn felur borgarstjóra að gera ráðstafanir er nauðsynlegar kunna að vera í því skyni að Reykjavíkurborg standi við fyrirheit sitt um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings eftir að leigusamningur við lóðarhafa að Stjörnugróf 18 rennur út í árslok 2016, í samræmi við samþykkt borgarráðs hinn 10. júlí 2008. Jafnframt fól borgarráð skipulagsráði að kanna möguleika á nýrri staðsetningu gróðrarstöðvar, sem nú er á lóðinni, í samráði við eigendur hennar. Knattspyrnufélagið Víkingur er hverfisíþróttafélag, sem gegnir mikilvægu hlutverki í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfum.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að Reykjavíkurborg standi við fyrirheit sitt um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings eftir að leigusamningur við lóðarhafa að Stjörnugróf 18 rennur út í árslok 2016, í samræmi við samþykkt borgarráðs hinn 10. júlí 2008. Jafnframt verði kannaður möguleiki á nýrri staðsetningu gróðrarstöðvar, sem nú er á lóðinni, í samráði við eigendur hennar. Það vekur furðu að þrátt fyrir skýrt fyrirheit borgarráðs, sem núverandi borgarstjóri studdi með atkvæði sínu árið 2008, hefur hann vikið sér undan því að svara með skýrum hætti á þessum fundi hvort ekki verði staðið við umrætt fyrirheit gagnvart Víkingi. 

5. Fram fer umræða um húsnæðisvandann í Reykjavík. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mikil uppbygging stendur yfir í húsnæðismálum í borginni. Nú þegar eru 4.400 íbúðir komnar í gegnum deiliskipulagsferli borgarinnar og annar eins fjöldi er í deiliskipulagi. Útgefin byggingarleyfi til íbúðauppbyggingar á árinu 2015 voru með því mesta sem sést hefur á einu ári og uppbygging er hafin á reitum sem telja samtals meira en 1.800 íbúðir. Borgin vinnur að því að ennþá fleiri íbúðir fari af stað á þessu ári og næsta, í samræmi við mikla eftirspurn. Það er hins vegar áhyggjuefni að ríkisvaldið þvælist beinlínis fyrir brýnum uppbyggingarverkefnum í húsnæðismálum, bæði á Austurhafnarreitunum og á Hlíðarendasvæðinu sem telja meira en 700 íbúðir. Því til viðbótar hafa húsnæðisfrumvörp velferðarráðherra tafist um meira en tvö ár á Alþingi vegna ágreinings milli ríkisstjórnarflokkanna. Á meðan hafa umbætur í þágu leigjenda og efnalítilla dregist fram úr hófi. Brýnt er að Alþingi afgreiði húsnæðisfrumvörpin hið fyrsta og að ríkið leggi fram lóðir sem það býr yfir í borgarlandinu og Reykjavíkurborg hefur kallað eftir að fá til brýnna uppbyggingarverkefna í húsnæðismálum. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Meirihlutinn ræður ekki við mikinn og uppsafnaðan húsnæðisvanda í borginni sem hann hefur átt stóran þátt í að skapa. Sú ákvörðun að fjölga ekki félagslegum leiguíbúðum frá 2009, en það var ekki fyrr en í október 2015 sem borgin átti loksins jafn margar félagslegar leiguíbúðir og borgin átti 2009, og að úthluta ekki lóðum fyrir stúdenta hefur valdið miklum vanda. Þá hefur borgin staðið sig illa í að úthluta lóðum en einungis 10 lóðum fyrir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum hefur verið úthlutað síðustu 5 árin. Það er staðreynd að það vantar 723 félagslegar leiguíbúðir, þar af eru 535 umsækjendur metnir í brýnni þörf, 190 eru á biðlista eftir þjónustuíbúðum fyrir aldraða og 166 eru á biðlista eftir sérstæku húsnæðisúrræði. Þá vantar lóðir fyrir um 1000 stúdentaíbúðir og lóðir fyrir félög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Á þessu kjörtímabili hefur borgin einungis úthlutað tveimur fjölbýlishúsalóðum með fleiri en 5 íbúðum. Þá var félagslegum leiguíbúðum einungis fjölgað um 20 á árinu 2014 og 85 á árinu 2015 en þar af voru 47 keyptar á gamlársdag en allar nema fjórar eru í útleigu fram á mitt ár eða til ársloka 2016.  

6. Lagt fram erindi Grétu Bjargar Egilsdóttur borgarfulltrúa, dags. 26. febrúar 2016, þar sem þess er óskað að henni verði veitt lausn frá störfum sínum í borgarstjórn til loka febrúarmánaðar 2017.

Samþykkt. 

- Kl. 20.20 víkur Gréta Björg Egilsdóttir af fundi og Trausti Harðarson tekur sæti. 

7. Fram fer umræða um málefni Grafarvogs.

8. Lagt er til að Jóna Björg Sætran taki sæti Grétu Bjargar Egilsdóttur sem varamaður í borgarráði.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

9. Lagt er til að Ingvar Jónsson taki sæti Grétu Bjargar Egilsdóttur í velferðarráði. 

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

10. Lagt er til Magnús Arnar Sigurðsson taki sæti Ingvars Jónssonar í menningar- og ferðamálaráði. Jafnframt er lagt til að Jón Finnbogason taki sæti Magnúsar sem varamaður í ráðinu. 

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

11. Lagt er til að Snædís Karlsdóttir taki sæti Grétu Bjargar Egilsdóttur sem varamaður í mannréttindaráði. 

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

12. Lagt er til að Eva Indriðadóttir taki sæti sem varamaður í hverfisráði Miðborgar í stað Sifjar Traustadóttur Rossi.

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

13. Lagt er til að Sigrún Skaftadóttir taki sæti sem varamaður í hverfisráði Vesturbæjar í stað Brynhildar Arthúrsdóttur.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

14. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. og 25. febrúar 2016.

15. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 26. febrúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 18. febrúar, mannréttindaráðs frá 23. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 22. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 24. febrúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 22. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. og 24. febrúar, velferðarráðs frá 18. febrúar.

5. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 26. febrúar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 vegna kjarasamninga Reykjavíkurborgar við Skólastjórafélag Íslands, Félag hjúkrunarfræðinga, Sjúkraliðafélag Íslands, BHM starfsmatsfélög, BHM félög utan starfsmats og vegna kjaranefndar og borgarfulltrúa, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Fundi slitið kl. 21.58

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Sóley Tómasdóttir

Halldór Halldórsson Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 1.3.2016 - prentvæn útgáfa