Borgarstjórn - 12.5.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 12. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. apríl sl. Jafnframt er lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 7. apríl 2014, skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. í apríl 2015, skýrsla endurskoðunarnefndar dags. 27. apríl 2015 og endurskoðunarskýrsla KPMG dags. 28. apríl 2015.  Einnig er lögð fram skýrsla innri endurskoðunar um mat á eftirlitsumhverfi a-hluta Reykjavíkurborgar, dags. í maí 2015 sbr. 15. liður fundargerðar borgarráðs frá 7. maí sl.

- Kl. 14.08 tekur Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir sæti á fundinum. 

- Kl. 14.27 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 samþykktur. Borgarstjórn samþykkir einnig að vísa ábendingum innri endurskoðunar og endurskoðunarnefndar til frekari skoðunar og úrvinnslu undir stjórn borgarritara. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ársreikningur ársins 2014 sýnir 2,8 milljarða króna tap A-hluta Reykjavíkurborgar sem er öll meginstarfsemi Reykjavíkurborgar. Í skýrslu Fjármálaskrifstofu borgarinnar segir um þennan taprekstur að mikilvægt sé að bregðast við. Undir það taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins með tillögu sinni um að farið verði í rekstrarhagræðingu og í framhaldi af árangri í því verði farið í lækkun útsvars í áföngum. Í skýrslu Fjármálaskrifstofu segir einnig um veltufé frá rekstri sem er einungis 5% að lágmarkið vegna skuldastöðu A-hluta borgarinnar sé 9%. Þetta eru þung viðvörunarorð til Pírata, VG, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar sem skipa meirihlutann. Þegar rekstur A-hluta er skoðaður frá árinu 2002 má sjá að í tíð vinstri meirihluta 2002-2006 er taprekstur öll árin. Árin 2007-2010 er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta og þá er jákvæð afkoma öll árin. Vinstri meirihluti tekur svo við vorið 2010 og eftir það er aftur taprekstur á A-hluta að frátöldu árinu 2013 sem verður að segjast að sé undantekningin sem sannar þá reglu að í tíð vinstri meirihluta við stjórn Reykjavíkurborgar er taprekstur á A-hluta. Samt er útsvar Reykjavíkurborgar í hámarki öfugt við nágrannasveitarfélögin sem flest hafa dregið úr álögum á íbúa sína.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir telja að tafarlaust þurfi að fara í rekstrarhagræðingu og gerð er krafa um að afrakstur þeirrar vinnu verði sýnilegur strax á rekstrarárinu 2015. Þegar rekstrarniðurstaða aðalsjóðs er neikvæð um rúmlega 7 milljarða þrátt fyrir hámarksútsvar og að skattekjur hafa aukist, þá verður að bregðast við án tafar. Ekki er hægt að auka álögur á borgarbúa, nóg er það nú samt.  Það þarf að hagræða í rekstri og gerum við þá lágmarkskröfu að aðalsjóður standi undir sér. Hagræðingin mun þurfa að  fela í sér óvinsælar niðurskurðarákvarðanir, m.a. sameiningar, fækkun starfsfólks, endursamninga við byrgja og leigusala og leggja niður a.m.k. tímabundið ákveðin verkefni og stofnanir. Þjónustuveiting Reykjavíkurborgar er ekki ótakmörkuð og ekki er rétt gefa skilaboð um slíkt. Það verður að gera þá kröfu til meirihlutans að forgangsraða fjármunum til vel skilgreindrar og afmarkaðrar grunnþjónustu. Borgin sem nú eyðir um efni fram, safnar skuldum og sinnir ekki viðhaldi, verður að bregðast við slæmri stöðu, tafarlaust. Við fjárhagsáætlanagerð er mikilvægt að borgarstjórn samþykki ekki tillögur sem byggjast aðeins á hugmyndum, en ekki þegar samþykktum lögum frá Alþingi.  Í skýrslu Fjármálaskrifstofu er í ábendingum á bls 50 tekið fram að forsendur fjármögnunar á 500 félagslegum leiguíbúðum gerðu ráð fyrir stofnfjárframlögum frá ríkinu en engar ákvarðanir hafa verið kynntar frá velferðarráðuneytinu og því óvissa um fjármögnunarfyrirkomulag og áform þar að lútandi. Þessi ábending er í samræmi við málflutning og bókun Framsóknar og flugvallarvina um málið á borgarstjórnarfundi 2. desember 2014 að óttækt væri að borgarstjórn myndi samþykkja tillögu byggða á hugmyndum sem ekki hefðu verið lagðar fram eða samþykktar á Alþingi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pirata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Eins og fram hefur komið er rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar jákvæð um 11.106 milljónir króna, 2.986 milljónum króna betri en gert var ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða A-hluta var þó neikvæð um 2,8 milljarða og er mikilvægt að bregðast við þeirri niðurstöðu. Ástæður hallans eru meðal annars að finna í ytra umhverfi. Launakostnaður jókst um tæpan milljarð á árinu, gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga fór rúmlega milljarð fram úr áætlun og tekjur af sölu á byggingarétti voru rúmum milljarði lægri en áætlað var. Niðurgreiðsla skulda samstæðunnar gengur samkvæmt áætlun. Skuldir Orkuveitunnar eru miklar en niðurgreiðsla gengur hratt. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar styrkist á milli ára. Ársreikningur endurspeglar sterkan rekstur borgarinnar, skuldir lækka, tekjur aukast og þjónustustig er hátt. Þó verður ávallt að gæta aðhalds í rekstri.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hefja nú þegar vinnu við rekstrarhagræðingu A-hluta borgarinnar með það að markmiði að rekstur verði í jafnvægi þannig að skatttekjur dugi fyrir rekstrarútgjöldum. Jafnframt verði það markmið sett að veltufé frá rekstri fari í 11% af skatttekjum og verði ekki lægra en 9% af skatttekjum þegar á rekstrarárinu 2015. Í framhaldi af hagræðingaraðgerðum verði hafist handa við að lækka útsvar í áföngum. Fyrsti áfangi verði 0,25% lækkun útsvars.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

Fundi slitið kl. 18.44

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Skúli Helgason Áslaug Friðriksdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 12.5.2015 - prentvæn útgáfa