Borgarstjórn - 1.2.2022

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2022, þriðjudaginn 1. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Björn Gíslason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Jórunn Pála Jónasdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Valgerður Árnadóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga að aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi, sbr. 3. lið fundargerðar ofbeldisvarnarnefndar frá 17. janúar 2022. MSS22010193

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Aðgerðaáætlun gegn ofbeldi er afrakstur víðtæks samráðs og samtals á vettvangi ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur. Áætlunin samanstendur af 55 aðgerðum og er sett fram til að fá yfirsýn yfir þau fjölmörgu verkefni sem borgin sinnir í vinnu gegn ofbeldi og til að vera vegvísir í baráttunni gegn öllu ofbeldi. Stór hluti forvarna er fræðsla á öllum sviðum samfélagsins, beinar forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og þróun þjónustu við brotaþola. Verkefnið Saman gegn ofbeldi hefur fest sig í sessi en hér er einnig ávarpað mikilvægi samstarfs við lögreglu í hverfum borgarinnar, aðgerðir gegn öfgahyggju, aðgerðir til að stuðla að öruggara skemmtanalífi og stuðning við fólk í vændi og fólk sem vill hætta í vændi. Afleiðingar ofbeldis eru alvarlegar fyrir samfélagið allt og metið er að kostnaðurinn við það sé um tveir milljarðar á ári hverju. Það er því til mikils að vinna að samfélagið allt taki höndum saman þegar kemur að því að draga úr ofbeldi til að stemma stigu við afleiðingum ofbeldis með fyrirbyggjandi aðgerðum, snemmtækum inngripum og forvörnum.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Hlutverk hins opinbera er að aðlaga stofnanir samfélagsins að þeirri vá sem sem fólk stendur frammi fyrir, verja það gegn ógninni, styðja það og efla. Aðgerðir og úrræði verða að taka mið af því. Þar má t.a.m. nefna nauðsyn þess að húsnæði standi til boða fyrir brotaþola heimilisofbeldis. Úrræði verða að vera aðgengileg og taka mið af þörfum þolenda og að samfella sé í þjónustuveitingu. Þá verður að skoða þá þjónustusamninga sem borgin gerir við ýmsa aðila og tryggja að nægt fjármagn sé sett í þau mikilvægu verkefni sem hér eru undir. Þjónustan verður að vera aðlöguð að ólíkum þörfum, þegar litið er til tungumáls þarf t.d. að fara lengra en að þýða efni og túlka og tryggja að starfsfólk með erlendan bakgrunn sem tali fjölbreytt tungumál, starfi í úrræðum sem standa til boða. Tryggja þarf að allt starfsfólk sem starfar innan borgarinnar og fyrir borgina fái fræðslu um ofbeldi og mismunandi birtingarmyndir hennar svo að hægt sé að bregðast við því.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari aðgerðaáætlun. Hún hefur breyst frá því sem stóð í drögum en í þeim var t.d. ekki minnst á einelti. Úr því hefur aðeins verið bætt. Einelti er ofbeldi sem varðar, eins og annað ofbeldi, við lög. Það er mikilvægt að það sé ávarpað með ítarlegum hætti í aðgerðaáætlun Reykjavíkur gegn ofbeldi. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að einelti hafi orðið nokkuð undir í umræðunni um ofbeldi og aðgerðir gegn ofbeldi. Við það er ekki unað. Afleiðingar eineltis geta verið geigvænlegar og hafa eyðilagt líf fjölmargra, ungra sem eldri. Í aðgerðaáætluninni sem nú liggur fyrir eru þó nefndar tvær aðgerðir, aðgerð um fræðslu til starfsfólks borgarinnar um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi og aðgerð sem lýtur með reglubundnum hætti að því að allir skólar í borginni séu með eineltisáætlun sem þeir starfa eftir til að fyrirbyggja og uppræta einelti. Þess sé jafnframt gætt að nauðsynleg þekking sé til staðar með því að bjóða fræðslu um einelti og að upplýsingar um leiðir til að tilkynna um einelti séu aðgengilegar á vefsíðu, ásamt viðbragðsáætlun og upplýsingum um úrvinnsluferli. Jafnframt komi fram hverjir taki við ábendingum um einelti og hverjir sitji í eineltisteymum skólanna.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að Reykjavíkurborg fyrst sveitarfélaga móti sér geðheilbrigðisstefnu varðandi geðrækt, forvarnir og þjónustu í geðheilbrigðismálum. Borgarráði verði falið að stýra vinnu við gerð stefnunnar. Áfangaskil af stefnunni verði tilbúin 1. maí ásamt tillögum um aðgerðir. 

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22020023

-    Kl. 15:37 tekur Rannveig Ernudóttir sæti á fundinum og Valgerður Árnadóttir víkur af fundi.  

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að samþykkt sé að vísa tillögu um geðheilbrigðisstefnu til velferðarráðs. Geðheilbrigðismálin eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr, ekki síst þegar við erum að komast úr úr COVID-19 faraldrinum þar sem samkomutakmarkanir hafa sett mark sitt á samfélagið í tvö ár. Reykjavíkurborg hefur sett sér lýðheilsustefnu og opnað umræðu um ýmis heilbrigðismál. Það er því viðeigandi að borgin verði leiðandi meðal sveitarfélaga í þessum mikilvæga málaflokki.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Lýðheilsa og lífsgæði eru lykiláherslur í framtíðarsýn og áherslum borgarinnar á öllum sviðum. Reykjavík er og á að vera sannkölluð heilsuborg, hvort sem litið er til andlegrar, líkamlegrar eða félagslegrar heilsu. Reykjavík hefur sett sér lýðheilsustefnu, velferðarstefnu og menntastefnu sem allar fjalla meðal annars um hvernig má styðja við geðheilsu og vellíðan borgarbúa. Eitt af markmiðum lýðheilsustefnunnar er að meta áhrif COVID-19 aðgerða og eftirkasta faraldursins á lýðheilsu með lýðheilsumati til að tryggja öryggi og heilsu borgarbúa og huga sérstaklega að þörfum viðkvæmra hópa. Því hefur verið fylgt eftir en sjálfsagt er að vísa þessari tillögu inn til velferðarráðs til meðferðar. Reykjavíkurborg veitir fólki sem er að takast á við geðrænar áskoranir eða veikindi margvíslega þjónustu og stuðning og leitar stöðugt leiða til að gera betur.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu, svo sem kaffihúsi og þar sem frætt verður um umhverfisgildi ræktunar og að minnka sóun. Núverandi meirihluta er tíðrætt um „græna borg“ sem er af hinu góða. Ekki veitir af. Fulltrúi flokks fólksins vill efla og styrkja Reykjavík sem græna borg og þá ekki bara með grænum þökum á þéttingarsvæðum. Lagt er til að í almenningsgarðinum verði tré og runnar merkt og þar skrifaðar upplýsingar um gildi plantnanna; hvaða áhrif þær hafa á umhverfið. Í kaffistofu (græn kaffistofa) yrðu upplýsingaspjöld og leiðbeiningar sem unnar yrðu af fagfólki m.a. um gildi náttúrunnar í umhverfismálum og hvernig minnka mætti sóun. Taka mætti hér undir svæði í Elliðaárdal, jafnvel við Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti og þar sem væri líklega hægt að fá leiðsögn um slík svæði, allt út frá umhverfissjónarmiðum, skógi og fallegu umhverfi. Hafa mætti samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur, eða jafnvel íþróttafélög auk samráðs við íbúana á hverjum stað. Þetta framtak myndi opna skemmtilegt útivistarsvæði í nærumhverfi ytri byggðar og minnka þannig þörf á því að sækja afþreyingu annað með tilheyrandi kolefnisspori.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22010215

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu. Samþykkt er að henni sé vísað til frekari skoðunar umhverfis- og heilbrigðisráðs. Með framsetningu tillögunnar er fulltrúi Flokks fólksins ekki að segja að ekkert sambærilegt hafi nokkurn tímann verið gert eins og kemur fram í máli meirihlutafulltrúa. Hér er lagt til að taka fleiri skref í þessa átt, fjölga skemmtilegum útivistarsvæðum í ytri byggð borgarinnar. Að opna almenningsgarð og garða í úthverfi Reykjavíkur þarf ekki að skyggja á viðburði sem eru í miðbænum eða miðsvæðis. Með því að fjölga almenningsgörðum og dreifa um borgina má leiða líkur að því að draga muni úr akstri í miðbæinn. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Vernd grænna svæða og útivistarsvæða í Reykjavík sem og bætt aðgengi að þeim hefur verið á meðal áherslumála borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Svæðin gegna mikilvægu hlutverki í borgarumhverfinu og auka lífsgæði íbúanna. Grænar perlur í úthverfum Reykjavíkur svo sem Elliðaárdalurinn og útivistarsvæði í Heiðmörk mega muna sinn fífil fegurri og hlúa þarf betur að merkingu stíga, umhirðu gróðurs og viðhaldi á mannvirkjum, svo sem leiktækjum. Þá má gera betur hvað varðar upplýsingaaðgengi á netinu um svæðin en best væri að geta séð á einni yfirlitssíðu kort og yfirlit yfir þjónustu og afþreyingu á hverju svæði. Fulltrúarnir telja því að setja þurfi í forgang uppbyggingu grunninnviða þessara svæða, svo sem aðgengi að salerni og vatnsbrunnum, tengingu við almenningssamgöngur og bílastæði. Hafa mætti til hliðsjónar afar vel heppnað útivistarsvæði í Kjarnaskógi á Akureyri. Þar er til dæmis að finna gott net merktra stíga, mannvirki og leiktæki sem falla vel að umhverfinu, gönguskíðabrautir, ærslabelg, hjólastólarólu, yfirbyggða grillaðstöðu, salernisaðstöðu og strandblakvelli. Stígakerfið mætir fjölbreyttum þörfum gesta og er flokkað í upplýstar trimmbrautir, göngustíga, gönguslóða, hjólabrautir og reiðleiðir.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að innri endurskoðanda verði falið skoða og leggja mat á lögmæti samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin sem lagðir voru fram í borgarráði 22. júní 2021. Verði þeirri skoðun lokið fyrir 1. maí nk.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22020024

-     Kl. 17:57 víkur Skúli Helgason af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn í borgarstjórn vísaði tillögu minni um að innri endurskoðanda verði falið að skoða og leggja mat á lögmæti samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin í borgarráð. Það er kjarkleysi. Borgarráð er lægra sett stjórnvald en borgarstjórn. Ég sem tillöguflytjandi er búin að fá sex leigusamninga af 12 sem nú er búið að semja um og eru að fara í „vinnu“ fyrir olíufélögin ásamt Högum, Festi og Krónunni. Á fundinum upplýsti borgarstjóri að „engir samningar“ væru komnir á því enn væri ekki samkomulag um skipulag á lóðunum. Olíufélögin hafa því verið heldur fljót á sér að selja fasteignasöfn sín og hafa þau nú þegar hagnast um milljarða eftir bensínlóðadílinn. Félögin eru búin að auka verðmæti sín margfalt fyrir samning sem er í raun ekki kominn á ef marka má orð borgarstjóra. Hann segir eitt í borgarstjórnarsalnum og annað utan hans. Það er ekki borgarstjórans í Reykjavík að umbreyta olíufélögunum í fjárfestinga- og fasteignafélög.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Lóðareigandi, sem hér er Reykjavíkurborg, getur að sjálfsögðu gert nýja samninga um þær lóðir sem tilheyra honum. Óvissa um lögmæti þessara samninga er ekki til staðar, en hið besta mál er að skoða þá frekar og er tillögunni því vísað til borgarráðs í þeim tilgangi að klára afgreiðsluna þar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráð afgreiddi samninga við olíufélögin í sumarfríi borgarstjórnar. Fulltrúar minnihlutans höfðu mjög takmarkaða möguleika á að kynna sér málið þegar það var lagt fyrir borgarráð sem trúnaðarmál. Um er ræða fjölda lóða sem nú eru bensínstöðvar og því með víkjandi starfsemi. Nú eru áform um stórfellda uppbyggingu og þéttingu á þessum lóðum sem er mjög umdeild meðal íbúa. Sjálfsagt og eðlilegt er að innri endurskoðun fari yfir þessa samninga til að tryggja að jafnræðis sé gætt meðal aðila sem hafa hug á uppbygginu í borginni. Um er að ræða margra milljarða verðmæti sem úthlutað er með framseljanlegum byggingarkvóta.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er hagur borgarinnar að þær lóðir þar sem nú fer fram eldsneytissala verði nýttar undir íbúðarhúsnæði. En það er að sama skapi ekki gott að með slíkri breytingu hagnist núverandi lóðarhafar um milljarða. Samningsstaða borgarinnar er ágæt því að lóðir munu renna til hennar að leigutíma loknum og borgin þarf ekki að bæta fyrir það. Þess vegna hefði átt að bíða þar til að þessar lóðir losna og byggja á þeim íbúðarhúsnæði í fyllingu tímans. Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki séð að Reykjavík sé skuldbundin af því að endurnýja lóðarleigusamninginn, en þó veltur það að endingu á nákvæmu orðalagi samninganna. Fulltrúi Flokks fólksins styður það að málið verði rannsakað af innri endurskoðun. Þá fæst úr því skorið hvort Reykjavík hefur samið undan sér að ósekju. Ef allt reynist rétt sem meirihlutinn hefur fullyrt um þessa samninga þá ætti úttekt innri endurskoðunar einungis að renna stoðum undir þann málflutning og draga úr efasemdum almennings gagnvart þessum samningum. Því er það allra hagur að þegar samningar borgarinnar eru jafn umdeildir og þessir, þá verði þeir teknir til nánari skoðunar. Það er mikilvægt að það komi í ljós hvort hér er um að ræða stór mistök eða góðan gjörning.

-    Kl. 18:30 var gert hlé á fundinum til kl. 19:00. Þá höfðu Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir vikið af fundinum og tekið sæti á rafrænan hátt. Einnig tók Pawel Bartoszek sæti á fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoëga vék af fundi. 

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að bæta strætótengingar milli hverfa og innan hverfa. Slíkt verði gert í samvinnu við farþega. Mikilvægt er að bæta tengingar fyrir fólk sem reiðir sig á strætó í sínu daglegu lífi. Til að byggja upp almenningssamgöngur sem áreiðanlegan kost sem fleiri vilja nota í framtíðinni, er mikilvægt að það verði gert út frá röddum og þörfum notenda. Með tengingum er átt við leiðirnar sem vagnarnir fara í núverandi leiðakerfi strætó sem og staðsetningu og fjölda þeirra strætóstoppistöðva sem eru í boði á þeirri leið.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22020025

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Nýtt leiðanet Strætó er þegar í fullum farvegi. Árið 2019 voru haldnir átta opnir fundir og notendum gefinn kostur á að senda inn ábendingar. Í því samráðsferli bárust um 850 ábendingar og var áfangaskýrsla unnin í kjölfarið. Markmið vinnunnar við nýtt leiðanet er að bæta þjónustu Strætó og fjölga þar með farþegum með því m.a. að stytta biðtímann, auka áreiðanleikann og auðvelda skiptingar milli leiða og opna um leið á nýjar tengingar milli mismunandi staða á höfuðborgarsvæðinu. Núna búa um 95% íbúa Reykjavíkur innan við 400 metra frá næstu strætóstöð og með nýju leiðkerfi sem nú er í vinnslu batna bæði tengingar og áreiðanleiki Strætó. Á þeim grundvelli og þar sem vinnan stendur þegar yfir er tillögunni vísað frá.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er forgangsmál að bæta strætó en það er gert með því að auka tíðni og bæta tengingar milli hverfa og innan þeirra. Í upphafi kjörtímabilsins var samþykkt samhljóða í borgarstjórn að auka tíðni strætó á helstu leiðum þannig að strætó fari á 7,5 mínútna fresti. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum hefur þetta ekki verið framkvæmt. Þvert á móti hefur stoppistöðvum verið fækkað og næturstrætó verið aflagður. Engu að síður hafa fargjöld verið hækkuð á meðan þjónustan hefur versnað. Þessi þróun hefur verið neikvæð fyrir notkun almenningssamgangna í Reykjavík og henni þarf að snúa við. 

6.    Samþykkt að taka á dagskrá beiðni Daníels Arnar Arnarsonar, varaborgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um lausn frá störfum sínum í borgarstjórn til loka kjörtímabilsins. MSS22020039

Samþykkt.

7.    Samþykkt að taka á dagskrá kosningu varamanns í barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Lagt er til að Þóra Jónsdóttir taki sæti varamanns í barnaverndarnefnd Reykjavíkur í stað Harðar Oddfríðarsonar. MSS22020040

    Samþykkt. 

8.    Samþykkt að taka á dagskrá kjör varaforseta borgarstjórnar. Jafnframt er samþykkt að víkja frá ákvæðum 5. tl. 13. gr. sveitarstjórnarlaga um hlutfallskosningu varaoddvita. Fer kosningin fram með hefðbundinni handauppréttingu þar sem hluti borgarstjórnar er í fjarfundi. Lagt er til að Ragna Sigurðardóttir verði kosin varaforseti borgarstjórnar í stað Arons Levís Beck. MSS22020041

    Samþykkt. 

9.    Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í skipulags- og samgönguráð. Lagt er til að Ragna Sigurðardóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Arons Levís Beck og Aron taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Heiðu Bjargar Hilmisdóttur. 

Jafnframt er tilkynnt að Anna Wojtynska taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í ráðinu í stað Daníels Arnar Arnarsonar. MSS22020042

    Samþykkt. 

-    Kl. 20:30 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti með rafrænum hætti.

10.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 20. og 27. janúar. MSS22010003

7. liður fundargerðarinnar frá 20. janúar; samningsmarkmið Reykjavíkurborgar á uppbyggingarsvæðum, er samþykktur með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS21120050

8. liður fundargerðarinnar frá 20. janúar; samkomulag vegna brottflutnings Malbikunarstöðvarinnar Höfða, er samþykktur með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS21120154

17. liður fundargerðarinnar frá 20. janúar; breytingar á innkaupareglum Reykjavíkurborgar, er samþykktur. MSS21120080

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu vegna 2. liðar fundargerðar borgarráðs frá 27. janúar:

Lagt er til að fjárhagsáætlun samstæðu borgarinnar verði endurskoðuð og taki mið af því að OR hefur verið dæmd til að greiða 3,5 ma.kr. Hæstiréttur hefur synjað Orkuveitu Reykjavíkur um áfrýjunarleyfi á niðurstöðu Landsréttar í málsókn þrotabús Glitnis. Niðurstaða dómsins er því endanleg og ber því að endurskoða fjárhagsáætlunina í samræmi við dóminn.

Málsmeðferðartillögunni er vísað frá með með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

2. liður fundargerðarinnar frá 27. janúar; leiðrétting á sjóðstreymi í fjárhagsáætlun samstæðu Reykjavíkurborgar, er samþykktur. FAS21120064

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

4. liður fundargerðarinnar frá 27. janúar; afgreiðsla á viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022, fer fram í þrennu lagi. FAS22010035

8. liður viðaukans vegna viðbótarframlags til Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss vegna COVID-19 er samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

13. liður viðaukans vegna skipulagsbreytinga hjá umhverfis- og skipulagssviði er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Viðaukinn er að öðru leyti samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar:

Fyrir liggur að Reykjavíkurborg og Malbikunarstöðin Höfði hf. hafa gert með sér samkomulag um brottflutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. frá Sævarhöfða 6-10 vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á nýju 20 þúsund manna íbúðahverfi á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Malbikunarstöðin Höfði hf. hefur keypt lóð á iðnaðarsvæði við Álfhellu í Hafnarfirði fyrir starfsemi sína. Samkvæmt meirihlutasáttmála núverandi borgarstjórnarmeirihluta var lögð áhersla á að leggja Malbikunarstöðinni Höfða fyrst til nýja lóð og kanna í kjölfarið kosti og galla þess að selja fyrirtækið. Hér er því lagt til að borgarráð samþykki að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að meta kosti þess og galla að selja Malbikunarstöðina Höfða hf. Leitað verði til óháðra ráðgjafa vegna verkefnisins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. og 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar:

7. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að svonefnd „samningsmarkmið borgarinnar“ séu íþyngjandi fyrir húsbyggjendur og leiði til hækkunar á húsnæðisverði. Aðvörunarljósin hafa blikkað um árabil og er flestum ljóst að húsnæðisstefna meirihlutans hefur leitt til markaðsbrests á húsnæðismarkaði sem ekki sér fyrir endann á. 8. Reykjavík hefur ekki reynst fýsilegur kostur fyrir atvinnurekstur á höfuðborgarsvæðinu og flytja fyrirtæki og stofnanir í stórum stíl aðsetur sitt til nágrannasveitarfélaga. Ekkert hefur verið aðhafst til að stöðva þann flótta. Nú er það Malbikunarstöðin Höfði sem kveður borgina. Atvinnulóðir eru af skornum skammti og fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði ósamkeppnishæfir. Það sýnir best þann vanda sem Reykjavík stendur frammi fyrir að fyrirtæki í eigu borgarinnar þurfi nú að leita á náðir annarra sveitarfélaga eftir atvinnulóð undir sína starfsemi. Þá vekur athygli að malbikunarstöðin er látin skila lóð sinni án endurgjalds, en á sama tíma fá olíufélögin byggingarheimildir fyrir milljarða króna. Hér er undarlegt misræmi þegar fyrirtæki borgarinnar fær ekkert í sinn hlut fyrir lóðina þrátt fyrir að malbikunarstöðin þurfi að kaupa lóð í Hafnarfirði með ærnum flutningskostnaði, en olíufélögin fá gríðarleg verðmæti í sinn hlut án þess að hafa lent í neinu tjóni.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar:

Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að standa vörð um fyrirtæki og félög í eigu sveitarfélaga og tryggja að þau verði ekki seld.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. janúar:

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 var samþykkt í borgarstjórn 7. desember 2021. Árið er tæpast byrjað og þá er farið að ganga á liðinn „ófyrirséð“ með viðaukum við fjárhagsáætlun upp á tæpar 600 milljónir. Liðurinn ófyrirséð í fjárhagsáætlun 2022 er 3,8 milljarðar. Hann lækkar því sem því nemur niður í 3,2 milljarða. Ef fram heldur sem horfir hefur borgin lítið borð fyrir báru í rekstri borgarinnar. Að auki á lántaka ársins að vera 25 milljarðar og áætlað er að í árslok skuldi borgin 173 milljarða. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. og 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. janúar:

Bókun við 4. lið, viðaukar: Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að auka eigi fjárheimildir til velferðarsviðs 2022 um 100 milljónir vegna tímabundinnar fjölgunar sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga. En þetta er ekki há upphæð og mun varla duga til að taka obbann af biðlistakúfnum. Meirihlutinn horfir grannt í krónuna þegar kemur að því að fjárfesta í andlegri heilsu barna á meðan milljarðar streyma á svið sem dundar sér við tilraunir á stafrænum lausnum, sumum hverjum sem engin nauðsyn er á og eru jafnvel til annars staðar. Nú bíða um 1500 börn eftir aðstoð fagfólks skóla. Bókun við 8. lið: sala Malbikunarstöðvarinnar. Flokkur fólksins telur rétt að selja Malbikunarstöðina Höfða og hefur áður bókað að Reykjavíkurborg eigi að hætta í þessum samkeppnisrekstri enda ekki verið settar fram tölur um ávinning borgarbúa af þessari starfsemi. Þá telur Flokkur fólksins að standa hefði mátt betur að sölumálum. Hefði ekki verið vænlegra að selja fyrr áður en farið var í gríðarleg fjárútlát við að endurbyggja stöðina í Hafnarfirði? Er það von Flokks fólksins að viðunandi verð fáist fyrir þetta fyrirtæki og að söluhagnaðurinn verði notaður til að auka fjárframlög til velferðarsviðs og minnka þannig biðlista barna eftir fagþjónustu.

11.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. janúar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 13. janúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. janúar, skipulags- og samgönguráðs frá 26. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 25. janúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. janúar og velferðarráðs frá 19. janúar. MSS22010217

3. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Alexander Witold Bogdanski til loka kjörtímabilsins, er samþykktur. MSS21120193

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð skipulags- og samgönguráðs:

Það er afar ánægjulegt að eitt af aðal kosningamálum Miðflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum er nú að komast til framkvæmda. Úttektin er frábær og sýnir allt að 200 milljarða þjóðhagslegan ábata. Sundabraut var lítið rædd í kosningabaráttunni enda hefur borgarstjóri unnið á móti henni síðan hann komst til valda. Fyrir rúmum 20 árum lofaði þáverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, því að Sundabraut myndi koma innan tveggja ára því brautin væri forsenda sameiningar Reykjavíkur og Kjalarness. Við þurfum enn að bíða í 11 ár samkvæmt skýrslunni. Þetta er lengsta loforð sem gefið hefur verið í íslenskri stjórnmálasögu og spannar rúma þrjá áratugi og lýsir fullkomnum svikum. Það sem óttast þarf nú er að samgönguráðherra (Framsóknarflokkur) og borgarstjóri (Samfylking) séu að slá pólitísk loforð því borgarstjórnarkosningar eru í vor. Sérstaklega er varað við loforðum borgarstjóra í málinu því hann hefur alla tíð unnið á móti Sundabraut. Enda hefur það komið í ljós að hann er strax farinn að þvæla málið á alla kanta eftir að skýrslan kom út.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. og 6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillögu hans um að skóla- og frístundasvið kaupi skólamöppur frá Múlalundi hefur nú verið samþykkt. Fram til þessa hefur Reykjavíkurborg hunsað Múlalund – vinnustofu SÍBS varðandi kaup á margskonar skólavörum ólíkt öðrum sveitarfélögum. Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Nú er það loksins orðið að veruleika enda skóla- og frístundasviði ekki stætt á öðru. Um 80% starfsmanna Múlalundar eru með lögheimili í Reykjavík og það er löng bið eftir plássi þar. Þótt vörur séu ívið dýrari þá er það dropi í hafið. Á móti skapar Reykjavíkurborg atvinnu fyrir hóp sem er í brothættri stöðu. Fulltrúi Flokks fólksins elur þá von í brjósti að ákveðið verði sem allra fyrst að versla aðeins skólavörur frá Múlalundi. Við eigum að standa saman að því að hlúa að og byggja upp vinnuaðstöðu sem þessa og nota öll tækifæri til að velja íslenskar vörur að sjálfsögðu. Hér græða allir. Því meiri sem eftirspurnin er eftir skólavörum frá Múlalundi því fleiri atvinnutækifæri eru sköpuð. Þess utan hefur það verið staðfest að viðskiptin skerða ekki fjárheimildir skóla- og frístundasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að viðskiptin ekki aðeins aukist heldur séu komin til langrar framtíðar.

Fundi slitið kl. 21:52

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Alexandra Briem

Ellen Jacqueline Calmon    Kolbrún Baldursdóttir

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 1.2.2022 - Prentvæn útgáfa