Borgarstjórn - 1.12.2020

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 1. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Kristín Soffía Jónsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragna Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sabine Leskopf, Alexandra Briem, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Fundurinn var haldinn sem fjarfundur með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagt fram frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021, ásamt greinargerð og starfsáætlunum, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020. Jafnframt eru lagðar fram tillögur borgarstjóra undir eftirtöldum liðum í fundargerð borgarráðs frá 27. nóvember 2020: 6. liður; tillaga um álagningarhlutfall útsvars 2021, 7. liður; tillaga um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu 2021, 8. liður; tillaga um gjalddagaskiptingu fasteignaskatta og lóðarleigu 2021, 9. liður; tillaga um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2021, 10. liður; tillaga að gjaldskrám árið 2021, 11. liður; tillaga að lántökum vegna framkvæmda á árinu 2021.

 

-    Kl. 19:00 víkur Egill Þór Jónsson af fundinum og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tekur þarsæti. 

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2020, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020, ásamt greinargerð:

Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2020 verði 14,52% og er það sama hlutfall og tekjuárið 2020. 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að arðgreiðslum frá Orkuveitu Reykjavíkur að fjárhæð 2.806 m.kr. verði að fullu ráðstafað til útsvarslækkana í Reykjavík. Álagningarhlutfall útsvars lækki og verði 14,07% í stað 14,52%. Brúttó tekjulækkun útsvars nemi 2.806 m.kr., þar af lækki greiðslur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 351 m.kr., en nettó tekjulækkun Reykjavíkurbogar verði 2.455 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð með aðhaldi í innkaupum, útboðum og hagræðingu í miðlægri stjórnsýslu.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Breytingartillagan er felld með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að fella niður útsvar hjá þeim Reykvíkingum 67 ára og eldri sem njóta eingöngu greiðslna frá Tryggingastofnun og hafa ekki greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. 

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Breytingartillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Tillaga borgarstjóra er samþykkt með fimmtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2020, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020, ásamt greinargerð:

Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu vegna ársins 2021 verði sem hér segir:

1. Hlutfall fasteignaskatts skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 0,18%.

2. Hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,32%.

3. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,60%.

4. Hlutfall lóðarleigu fyrir íbúðarhúsalóðir verði 0,2% af fasteignamatsverði.

5. Hlutfall leigu fyrir verslunarlóðir, iðnaðarlóðir og lóðir fyrir opinberar byggingar verði 1,0% af fasteignamatsverði. 

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2020, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020, ásamt greinargerð:

Lagt er til að gjalddagaskipting fasteignagjalda fyrir árið 2021 verði eftirfarandi: Greiðendur fasteignagjalda skulu gera skil á fasteignagjöldum ársins 2020 með 11 jöfnum greiðslum á eftirfarandi gjalddögum: 1. febrúar, 7. mars, 3. apríl, 2. maí, 1. júní, 4. júlí, 2. ágúst, 1. september, 2. október. 1. nóvember og 4. desember. Þá er lagt til að nemi álagning fasteignagjalda 25.000 kr. eða lægri fjárhæð á fastanúmer greiði gjaldendur þau með einum gjalddaga þann 1. febrúar 2021. Lagt er til að gjalddagar krafna vegna framkvæmdar afsláttar til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti og fráveitugjaldi verði 1. nóvember, 4. desember og 2. janúar. Lagt er til að þeir sem eiga inneignir fái þær greiddar út 5. nóvember 2021.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2020, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020, ásamt greinargerð:

Lagt er til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2021 verði eftirfarandi: 

Viðmiðunartekjur:

I. Réttur til 100% lækkunar: einstaklingur með tekjur allt að 4.390.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 6.130.000 kr. 

II. Réttur til 80% lækkunar: einstaklingur með tekjur á bilinu 4.390.001 til 5.030.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.130.000 til 6.800.000 kr. 

III. Réttur til 50% lækkunar: einstaklingur með tekjur á bilinu 5.030.000 til 5.850.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.800.001 til 8.120.000 kr. 

Lagt er til að skilyrði lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um afslátt af fasteignagjöldum eins og þær eru á hverjum tíma.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ásamt greinargerð:

Lagt er til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2021 verði eftirfarandi: 

Viðmiðunartekjur

I. Réttur til 100% lækkunar: Einstaklingur með tekjur allt að 5.180.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 6.770.000 kr.

II. Réttur til 80% lækkunar: Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.180.001 til 5.800.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.770.001 til 7.970.000 kr.

III. Réttur til 50% lækkunar: Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.800.001 til 6.420.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.970.001 til 8.940.000 kr.

Lagt er til að skilyrði lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um afslátt af fasteignagjöldum eins þær eru á hverjum tíma.

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Tillaga borgarstjóra um viðmiðunartekjur er samþykkt.

Lögð fram tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 25. nóvember 2020, varðandi gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Miðflokksins ásamt greinargerð:

Borgarstjórn samþykkir að fresta til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 öllum gjaldskrárhækkunum hvort sem um er að ræða í A-hluta eða í B-hluta fyrirtækjum og þeim mætt með sparnaði í rekstri á árinu 2021. Bæði er um að ræða verðlagshækkanir samkvæmt vísitölu neysluverðs og einnig hækkanir umfram verðlagshækkanir. 

Breytingartillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins ásamt greinargerð, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fresta skuli gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár vegna aðstæðna sem nú ríkja vegna COVID-19. Flokkur fólksins leggur til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 75.244 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 18.113 þ.kr. Samanlagt lækki tekjur um 93.357 þ.kr. vegna þessa, sem verði fjármagnað af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205.

Breytingartillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins ásamt greinargerð, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.870 m.kr. vegna tekjulækkunar. Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.870 m.kr. á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé. Þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséð ræður ekki við útgjaldaaukningu af þessari stærðargráðu þarf að leita að fjármagni á öðrum sviðum.

Breytingartillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands ásamt greinargerð, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.200.000 þ.kr. svo að skólamáltíðir í grunnskólum verði gjaldfrjálsar á árinu 2021. Kostnaðaraukinn verði fjármagnaður að hluta til af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205, eða 1.000.000 þ.kr. en 200.000 þ.kr. verði fjármagnaðar af handbæru fé.

Breytingartillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands ásamt greinargerðsbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Lagt er til að dvalargjald í búsetuúrræðum taki ekki hækkunum árið 2021. Tillagan felur í sér að tekjur velferðarsviðs lækki um 72 þ.kr. m.v. 8 rými og gerir ráð fyrir því að unnt sé að fjármagna lækkunina innan ramma sviðsins. Samkvæmt tillögu að gjaldskrárhækkunum sem fylgir með fjárhagsáætlun meirihluta borgarstjórnar er fyrirhugað að gjaldskrár þjónustugjalda hækki að jafnaði um 2,4% í samræmi við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 26. júní sl. um breytingu á vísitölu neysluverðs. Samkvæmt því er fyrirhugað að dvalargjald á heimilum fyrir utangarðsmenn hækki frá 31.405 krónum á mánuði í 32.155 krónur. Þetta kann að virka lág upphæð fyrir marga en þessar hækkanir gætu komið íbúum illa sem standa ekki vel fjárhagslega og verið biti fyrir marga, sérstaklega í ljósi stöðunnar í samfélaginu. Því er lagt til að borgin hækki ekki dvalargjald í búsetuúrræðum sem er leigugjald íbúanna.

Breytingartillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt greinargerð, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum. Tillagan felur í sér að fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs verði hækkaðar um 33.300 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205.

Breytingartillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Tillaga borgarstjóra að gjaldskrám fyrir 2021 er samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2020, um lántökur vegna framkvæmda á árinu 2021, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki lántökur á árinu 2021 að fjárhæð 34.400 m.kr. til að fjármagna áformaðar fjárfestingar á árinu 2021, fjármagna stofnframlög borgarinnar vegna byggingar og kaupa á almennum íbúðum og fjármagna stofnframlög til B-hluta fyrirtækja og hlutdeildarfélaga. Þá er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg fjármagni hallarekstur ársins að hluta til með lántökum. Jafnframt er lagt til að veita sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs umboð f.h. Reykjavíkurborgar til þess að undirrita nauðsynlega gerninga sem tengjast skuldabréfaútgáfu borgarsjóðs, sem og til þess að taka á móti og undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántökum þessum, enda verði einstakar lántökur lagðar fyrir borgarráð til afgreiðslu.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins ásamt greinargerð, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að afnema 0,5% hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasvið og velferðarsvið árið 2021 vegna slæmrar afkomu þessara sviða á tímum COVID-19. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 235.196 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 142.385 þ.kr. Samanlagt felur tillagan í sér aukin útgjöld sem nema 377.581 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205.

Vísað til síðari umræðu. 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins ásamt greinargerð,  sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg setji inn bráðabirgðaákvæði í reglur um sérstakan húsnæðisstuðning þess efnis að tekjur vegna eingreiðslu til örorku- og endurhæfingalífeyrisþega í desember 2020, desemberuppbótar TR til örorku- og ellilífeyrisþega og desemberuppbótar Vinnumálastofnunar til atvinnulausra leiði ekki til skerðinga á sérstökum húsnæðisstuðningi. Jólin eru erfiður tími fyrir fátæka. Jólin leiða óumflýjanlega til aukinna útgjalda. Launafólk fær greidda desemberuppbót og sú greiðsla er endanleg og hjálpar fólki að halda jólin án þess að hafa áhyggjur af auknum útgjöldum. Lífeyrisþegar og atvinnulausir fá einnig greidda desemberuppbót. Það sem skilur að er að lífeyrisþegar og atvinnulausir þurfa ekki aðeins að greiða skatta af sinni uppbót heldur getur hún einnig leitt til skerðinga á réttindum. Þeir sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi frá Reykjavíkurborg og jafnframt rétt á desemberuppbót mega því búast við því að sú eingreiðsla leiði til þess að Reykjavíkurborg skerði sérstakan húsnæðisstuðning til þeirra. Þetta fengu margir að upplifa þegar lögum um félagslega aðstoð var breytt árið 2019. Þá fengu öryrkjar loksins nauðsynlega kjarabót. Sú kjarabót leiddi þá til víxlverkunar vegna reglna Reykjavíkurborgar sem leiddi til lækkunar á sérstökum húsnæðisstuðningi til þeirra.

Vísað til síðari umræðu. 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins ásamt greinargerð, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020: 

Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 43.800 þ.kr. sem felur í sér að úthlutað verði sem nemur 130 þ.kr. vegna barna sem falla undir rautt og gult viðmið skv. Milli mála málkönnunarprófi. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205. Fjármagni er sérstaklega úthlutað til skólanna vegna kennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Milli mála málkönnunarprófinu er ætlað að greina þörf fyrir stuðning við nám á íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í þrjá flokka, grænan, gulan og rauðan, og metið er að þau börn sem fá gula eða rauða niðurstöðu úr prófinu þurfi aðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að úthlutað verði að lágmarki 130 þ.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða og gula niðurstöðu. Báðir hópar eru illa staddir. Börn með gula niðurstöðu geta fengið rauða ári seinna. Árið 2018 tóku málkönnunarprófið 2.294 nemendur. Rauða niðurstöðu fengu 1.997 og gula 327. Niðurstöður fyrir 2020 liggja ekki fyrir. Um 45% af börnunum sem fengu rauða niðurstöðu 2018 eru fædd á Íslandi af erlendum foreldrum. Ef tekin eru með börnin sem fengu gula niðurstöðu er líklegt að milli 50 og 60% barnanna séu fædd á Íslandi.

Vísað til síðari umræðu. 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Miðflokksins ásamt greinargerð: 

Borgarstjórn samþykkir að hækka upphæð frístundakorts Reykjavíkurborgar miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2017.

Vísað til síðari umræðu.

Samþykkt að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2021, ásamt greinargerð og starfsáætlunum, til síðari umræðu. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggur nú fram sína þriðju fjárhagsáætlun, fimm ára áætlun til 2025, fjármálastefnu til 2030 og áætlun um efnahagslega endurreisn, græna planið, sem byggir á hugmyndafræði sjálfbærni. Nú er met samdráttur í hagkerfinu og atvinnuleysi meira en 10% í Reykjavík. Rétt viðbrögð við þessar aðstæður geta ráðið úrslitum um lengd og dýpt kreppunnar. Í fjárhagsáætluninni og græna planinu notar borgin styrk sinn til að mæta högginu og fjárfesta fyrir 28 milljarða á næsta ári og tryggja um leið fjölda starfa. Á næstu þremur árum munu borgin og fyrirtæki hennar nota styrk sinn til að tryggja öfluga viðspyrnu næstu þrjú ár með alls 175 milljarða fjárfestingu. Lágt skuldahlutfall og mikil geta til fjárfestinga gera borginni kleift að ráðast í framkvæmdir sem tryggja fjölda starfa. Þess vegna leggjum við fram sóknaráætlun til skamms tíma og ábyrga græna sýn um sjálfbærni á öllum sviðum til lengri tíma. Græna planið er efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sóknaráætlun út úr kórónuveirukreppunni og þannig getum við bæði staðið vörð um störfin, skapað ný störf og búið til samfélag þar sem allir geta verið virkir þátttakendur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Skuldir Reykjavíkurborgar jukust verulega í góðærinu og nú þegar tekjur fara minnkandi er engin tilraun gerð til þess að minnka útgjöld þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað í sáttmála meirihlutans. Fyrirséð er að skuldir borgarinnar munu fara fyrir ofan viðmiðunarmörk, enda beinlínis ráðgert í fimm ára áætluninni að skuldir samstæðu borgarinnar fari langt yfir núgildandi skuldaviðmið sem eru 150%. Við viljum sjá hagræðingu í miðlægri stjórnsýslu og munum leggja til 5% hagræðingarkröfu. Miðlæg stjórnsýsla borgarinnar kostar hátt í sex milljarða á ári. Í skipuritsbreytingum var miðlægri stjórnsýslu dreift um stjórnkerfið í stað þess að minnka hana. Við viljum bæta samgöngur í borginni með skynsamlegum hætti og tryggja leikskólapláss sem löngu hefur verið lofað. Þá viljum við losa um fjármuni borgarinnar með því að selja Gagnaveitu Reykjavíkur enda skýtur skökku við að fjárvana borgin skuli liggja með tugi milljarða fasta í fjarskiptakerfum á samkeppnismarkaði. Skynsamlegt væri að auðvelda fólki í félagslega kerfinu að eignast húsnæðið sem það býr í, fremur en þenja út félagslega kerfið sem minnkar möguleika fólks á að komast út úr kerfinu. Kerfið á ekki að þenjast út með ósjálfbærum vexti heldur á kerfið þvert á móti að styðja fólk til fjárhagslegs sjálfstæðis.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fjárhagsáætlunargerð snýr að því að áætla hvernig borgin aflar tekna og deilir þeim þannig að það nýtist borgarbúum sem best. Útsvarið er helsti tekjustofn borgarsjóðs. Ljóst er að ekki allir greiða til samfélagins. Borgarsjóður myndi standa sterkar ef fjármagnseigendur hefðu greitt til samfélagsins síðustu ár. Ef útsvar hefði verið lagt á fjármagnstekjur árið 2019 hefði borgarsjóður geta fengið um 6 milljarða aukalega. Þar sem það gilda ekki sömu reglur fyrir ríkt fólk eins og aðra í samfélaginu, þá birtist gjaldtakan annarsstaðar. Við erum að rukka börn fyrir að borða í skólanum, foreldrar þurfa að nýta frístundastyrk svo að börnin þeirra geti dvalið á frístundarheimilum. Borgarbúum er gert að greiða fyrir þjónustu sem ætti að teljast til grunnþjónustu og ætti að vera gjaldfrjáls. Í september 2019 var samþykkt að vinna með tillögu Sósíalistaflokks Íslands um að Reykjavíkurborg leiti til hinna sveitarfélaganna í landinu með það að markmiði að mynda samstöðu um að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur með lögum frá Alþingi. Enn liggur ekki fyrir hver staðan er á vinnslu þeirrar tillögu. Launafólk og hinir tekjulægstu greiða til samfélagsins, við getum ekki búið í samfélagi þar sem tekjuhæsta fólkið fær frípassa frá því. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjóri og meirihlutinn felldu tillögur mínar við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Fyrri tillagan var að borgarstjórn samþykkti að fresta öllum gjaldskrárhækkunum fyrir árið 2021 til vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 hvort sem um væri að ræða í A-hluta eða í B-hluta fyrirtækjum. Áætlað var að frestuninni á gjaldskrárhækkunum yrði mætt með sparnaði í rekstri á árinu 2021. Bæði var um að ræða verðlagshækkanir samkvæmt vísitölu neysluverðs og einnig hækkanir umfram verðlagshækkanir. Seinni tillagan um að borgarstjórn samþykkti að fella niður útsvar hjá þeim Reykvíkingum 67 ára og eldri sem njóta eingöngu greiðslna frá Tryggingastofnun og hafa ekki greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum var líka felld. Báðar þessar tillögur eru til að koma til móts við Reykvíkinga á erfiðum tímum. Þetta eru köld skilaboð í aðdraganda jóla.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn sameinaðist um fyrstu viðbrögð við efnahagslegu áfalli eftir kórónuveiruna 26. mars sl. Samstaða náðist um þrettán aðgerðir, m.a. að létta undir með fólki almennt, þeim sem missa lífsviðurværi sitt og þeim sem voru illa staddir fyrir faraldurinn. Þeir eru því miður allt of margir. Fátækt hefur ríkt lengi í Reykjavík hjá dágóðum hópi. Of mikið púður hefur farið í prjál, skreyta götur og torg í stað þess að sinna grunnþjónustu vel og huga að þeim verst settu. Biðtími eftir alls kyns þjónustu er í hæstu hæðum. Skuldir borgarinnar fyrir COVID voru miklar. Enda þótt hægt sé að fá hagstæð lán verður að vera einhver skynsemi í fjármálastjórninni. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur til aðgerða sem eru sértækar og beinast að þeim verst settu. Um leið og lækkanir bjóðast öllum, ríkum jafnt sem fátækum, viðhelst ójöfnuður. Meirihlutinn lofaði að mæta ekki tekjufalli með niðurskurði en gerir það samt. Allar gjaldskrár á grunnþjónustu verða nú hækkaðar og krafist er hagræðingar hjá sviðum sem mæðir mest á. Það hlýtur að þurfa að forgangsraða meira í þágu fólksins. Enn bíða 1000 manns eftir félagslegu húsnæði og enn er talsvert af íbúðum Félagsbústaða og skólar sem eru að grotna niður vegna myglu og raka. 

2.    Lagt fram frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025, ásamt greinargerð, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl. 

Samþykkt að vísa frumvarpi að fimm ára áætlun fyrir árin 2021-2025 til síðari umræðu.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Langtímaáætlun verður að taka mið af raunverulegri þörf og stöðu fólks. Samkvæmt áætlun meirihlutans er fyrirhugað að fjölga félagslegum leiguíbúðum einungis um 500 til ársins 2022 þegar nú eru 578 á þeim biðlista. Líkt og kemur fram í greinargerð velferðarsviðs með fjárhagsáætlun mun NPA samningum fjölga í samræmi við fjármálaáætlun ríkisins. Fjöldi samþykktra umsókna á bið á árinu 2020 er 19. Þjónusta á ekki að stranda á takmörkuðu fjármagni. Hér er um að ræða mikilvæga þjónustu sem fólk á rétt á og það á ekki að þurfa að bíða eftir henni. Fimm ára áætlun á að ganga út frá því að þörfum fólks sé mætt nú og til lengri tíma. Það er stefna sósíalista að grunnskólar eigi að vera gjaldfrjálsir, það á líka við um máltíðir. Þegar litið er til gjaldskráa þá hafa börn engar tekjur og það ætti því ekki að rukka þau fyrir grunnþjónustu. Þegar litið er til lengri tíma er mikilvægt að þeir sem eru aflögufærir greiði til samfélagsins. Þar má skoða aðstöðugjöld á fyrirtæki og útsvar á að leggja á fjármagnstekjur líkt og á við um launatekjur. Varðandi gjaldskrárhækkanir er mikilvægt að þær taki ekki hækkunum nema ljóst sé að kaupmáttur ráðstöfunartekna sé raunverulega að aukast.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Ekkert í fimm ára áætlun sýnir að taka eigi á biðlistavanda barna í þjónustu á vegum borgarinnar. Biðlistatölur eru að hækka í kjölfar COVID og von er á enn fleiri tilvísunum þar sem foreldrar margra barna hafa nú misst atvinnu sína og geta ekki leitað eftir sálfræðiþjónustu eða annarri þjónustu hjá sjálfstætt starfandi fagfólki. Nú reynir enn meira á þjónustukerfi borgarinnar í skóla- og velferðarmálum. Eins er gengið allt of skammt næstu árin í byggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk. Nú bíða um 137 manns með fötlun eftir sértæku húsnæði. Minnt er á nýlegan úrskurð í úrskurðarnefnd velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Enn er mikill húsnæðisvandi í Reykjavík. Þúsund manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Vitað er að margar fjölskyldur búa í óleyfishúsnæði vegna þess að þær hafa ekki efni á að koma yfir sig betra og öruggara skjóli. Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku og efnalitlu fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er oft ábótavant.

3.    Lögð fram tillaga að græna planinu – sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020.

Vísað til síðari umræðu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggur nú fram sína þriðju fjárhagsáætlun, fimm ára áætlun til 2025, fjármálastefnu til 2030 og áætlun um efnahagslega endurreisn, græna planið, sem byggir á hugmyndafræði sjálfbærni. Nú er met samdráttur í hagkerfinu og atvinnuleysi meira en 10% í Reykjavík. Rétt viðbrögð við þessar aðstæður geta ráðið úrslitum um lengd og dýpt kreppunnar. Í fjárhagsáætluninni og græna planinu notar borgin styrk sinn til að mæta högginu og fjárfesta fyrir 28 milljarða á næsta ári og tryggja um leið fjölda starfa. Á næstu þremur árum munu borgin og fyrirtæki hennar nota styrk sinn til að tryggja öfluga viðspyrnu næstu þrjú ár með alls 175 milljarða fjárfestingu. Lágt skuldahlutfall og mikil geta til fjárfestinga gera borginni kleift að ráðast í framkvæmdir sem tryggja fjölda starfa. Þess vegna leggjum við fram sóknaráætlun til skamms og ábyrga græna sýn um sjálfbærni á öllum sviðum til lengri tíma. græna planið er efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sóknaráætlun út úr kórónuveirukreppunni og þannig getum við bæði staðið vörð um störfin, skapað ný störf og búið til samfélag þar sem allir geta verið virkir þátttakendur.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúi sósíalista styður við meginstefnu græna plansins sem byggir á þremur lykilvíddum sem snúa að efnahagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum þáttum. Vakin er athygli á því að undir aðgerðum í fjármálum er talað um að ná fram 1% hagræðingu á ári á launakostnað í gegnum aðhaldsaðgerðir, endurskipulagningu og stafræna umbreytingu. Eðlilegt er að skoða hagræðingu þar sem það á við og endurskipuleggja það sem hægt er en á sumum sviðum er alls ekki hægt að hagræða og mikilvægt að skera ekki niður þannig að það bitni illa á fólki. Fulltrúi sósíalista vonar að stefnan „enginn skilinn eftir“ verði ekki innantóm orð. Fjölmargir hafa verið skildir eftir sem bíða eftir þjónustu frá Reykjavíkurborg, húsnæði, og hafa þurft að framfleyta sér á tekjum sem duga engan veginn til þess að kaupa næringarríkan mat. Það er ekkert grænt við það. Í tillögu að grænu plani telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að ávarpa afleiðingar þess kapítalíska markaðshagkerfis sem við búum við og hvernig Reykjavíkurborg ætlar að takast á við það. Grænn kapítalismi er ekki leiðin úr úr loftlagsvánni og því verðum við að beina sjónum okkar að þeim sem menga mest, stórfyrirtækjum sem standa að baki mestri menguninni. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem meirihlutinn hafi gengisfellt hugtakið „grænn eða grænt“. Hamrað er á græna planinu en allt þar er ekki grænt í almennum skilningi þess orðs. Er almennt það að byggja hús grænt? Betra væri að vísa til þessa plans sem röndótts frekar en græns. Grænt vísar til sjálfbærni og þess sem er kolefnislaust og sem er umhverfisvænt. Komið er inn á velferðarmálin í græna planinu. Hvernig getur mörg hundruð barna biðlisti í skólaþjónustu flokkast undir grænt plan meirihlutans í borginni? Eða á annað hundrað manna biðlisti eftir sértæku húsnæði? Eða lagning 3. áfanga Arnarnesvegar sem veldur óafturkræfu tjóni á náttúru og dýralífi? Eða fjörufyllingar sem eyðileggja náttúrulegar fjörur sem ekki eru of margar í Reykjavík? Hversu grænn er vandi 34% drengja og 19% stúlkna sem ekki geta lesið sér til gagns eftir grunnskóla? Eða grunnskólabörnin af erlendum uppruna sem eru illa stödd í íslensku þótt þau hafi fæðst hér á landi? Fjölmargt er gott í græna planinu en stór hluti af þeim raunveruleika sem nú ríkir og borgarbúar búa við nú og næstu árin á ekkert skylt við „grænt“. Þetta eru falleg orð á blaði en fallegar hugmyndir ná skammt ef framkvæmdin fylgir ekki með.

4.    Lögð fram tillaga að fjármála- og fjárfestingarstefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020.

Vísað til síðari umræðu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggur nú fram sína þriðju fjárhagsáætlun, fimm ára áætlun til 2025, fjármálastefnu til 2030 og áætlun um efnahagslega endurreisn, græna planið, sem byggir á hugmyndafræði sjálfbærni. Nú er met samdráttur í hagkerfinu og atvinnuleysi meira en 10% í Reykjavík. Rétt viðbrögð við þessar aðstæður geta ráðið úrslitum um lengd og dýpt kreppunnar. Í fjárhagsáætluninni og græna planinu notar borgin styrk sinn til að mæta högginu og fjárfesta fyrir 28 milljarða á næsta ári og tryggja um leið fjölda starfa. Á næstu þremur árum munu borgin og fyrirtæki hennar nota styrk sinn til að tryggja öfluga viðspyrnu næstu þrjú ár með alls 175 milljarða fjárfestingu. Lágt skuldahlutfall og mikil geta til fjárfestinga gera borginni kleift að ráðast í framkvæmdir sem tryggir fjölda starfa. Þess vegna leggjum við fram sóknaráætlun til skamms tíma og ábyrga græna sýn um sjálfbærni á öllum sviðum til lengri tíma. Græna planið er efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sóknaráætlun út úr kórónuveirukreppunni og þannig getum við bæði staðið vörð um störfin, skapað ný störf og búið til samfélag þar sem allir geta verið virkir þátttakendur.

5.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. október, 26. og 27. nóvember. 

9. liður fundargerðarinnar frá 19. nóvember; samstarfs- og styrktarsamningur við RÚV er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

26. liður fundargerðarinnar frá 19. nóvember; viðauki við fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar 2020 er samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að arðgreiðslum frá Orkuveitu Reykjavíkur verði að fullu ráðstafað til útsvarslækkana í Reykjavík. Útgjaldaauki verði fjármagnaður með aðhaldi í innkaupum, útboðum og hagræðingu í miðlægri stjórnsýslu. RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins, samanber greinar 1.2. og 2.1.3. Hér hefði verið rétt að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér. Hægt væri að vinna með Sýn, Hringbraut eða öðrum fjölmiðlum. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar frá 19. nóvember:

Tekið er undir bókun Sjálfstæðismanna hvað varðar málefni RÚV.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins lagði fram breytingartillögur sem voru felldar. Þær voru: gjaldfrjálsar skólamáltíðir í leik- og grunnskólum, frestun gjaldskrárhækkana á skóla- og velferðarsviði um eitt ár, og að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum. Allar þessar tillögur eru réttlætistillögur. Fríar skólamáltíðir er eina leiðin til að tryggja að ekkert barn verði svangt í skólanum. Afnám hagræðingarkröfu á fagsviðum sem nú þegar eru að sligast er skynsamlegt í ljósi óvenjulegs ástands. Engin sanngirni felst í því að innheimta skráningar og eftirlitsgjald aðeins af hundaeigendum (þ.e. þeim sem skrá hunda sína) og nota það til að halda uppi allri dýraþjónustu borgarinnar. Þetta er skattur en ekki gjald, mál sem þyrfti nauðsynlega að útkljá fyrir dómstólum. Hvað varðar gjaldskrárhækkanir er fulltrúi Flokks fólksins á móti hækkunum sem snerta beina þjónustu við fólk. Fulltrúinn sat hjá í atkvæðagreiðslu þar sem undir þeim lið var einnig hækkun launagjaldskrár til stuðningsforeldra. Einnig sat fulltrúinn hjá við afgreiðslu samstarfs- og styrktarsamnings við RÚV vegna þess að rétt hefði verið að líta einnig til annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva eins og Hringbrautar eða SÝN. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega því að heyra raddir barna sem oftast.

6.    Lagðar fram fundargerðir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 19. nóvember, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. nóvember, skipulags- og samgönguráðs frá 18. nóvember, skóla- og frístundaráðs frá 24. nóvember, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 25. nóvember og velferðarráðs frá 18. nóvember.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. 

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar nýjum bæklingi ÍBR sem ber heitið Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni í íþróttum. Fyrir var til bæklingur um sama efni sem ber heitið „Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum“, gefinn út af ÍSÍ fyrir nokkrum árum. Sá bæklingur hefur staðist vel tímans tönn. Fræðsla er alltaf besta forvörnin. Það er afar mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Flokkur fólksins myndi vilja leggja til að útgáfu leiðbeiningarritsins verði fylgt eftir með námskeiði um þessi mál. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara um hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvað telst óviðeigandi. Hvar mörkin liggja þegar kemur að íþróttum sem kallar á nálægð og snertingu. Börn upplifa samskipti með ólíkum hætti. Sú umræða er einkum mikilvæg sökum þess að börn og unglingar hafa ekki alltaf náð þeim tilfinninga- og félagsþroska sem þarf til að leggja raunhæft mat á atferli og aðstæður. Þeim er þar af leiðandi hættara við að misskilja tjáningu í samanburði við fullþroska einstaklinga. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum á vettvangi íþróttanna eru betur í stakk búnir að stunda sjálfsskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu starf íþróttaþjálfarans er krefjandi skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli.

Fundi slitið kl. 22:02

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 1.12.2020 - Prentvæn útgáfa