Borgarstjórn - 1.11.2022

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2022, þriðjudaginn 1. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:07. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Ebba Schram.

Þetta gerðist:

1.    Lagt fram til fyrri umræðu frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 ásamt greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðs og starfsáætlunum, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022. Jafnframt eru lagðar fram tillögur borgarstjóra undir eftirtöldum liðum í fundargerð borgarráðs frá 28. október 2022: 5. liður; tillaga að lántökum vegna framkvæmda á árinu, 6. liður; tillaga um álagningarhlutfall útsvars 2023, 7. liður; tillaga um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu 2023, 8. liður; tillaga um gjalddagaskiptingu fasteignaskatta og lóðarleigu 2023, 8. liður; tillaga um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2023 og 10. liður; tillaga að gjaldskrám árið 2023. FAS22010020

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. október 2022, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki lántökur á árinu 2023 að fjárhæð 21.000 m.kr. til að fjármagna áformaðar fjárfestingar á árinu 2023 og til að fjármagna stofnframlög borgarinnar vegna byggingar og kaupa á almennum íbúðum. Ennfremur verði lántakan nýtt til fjármögnunar á stofnframlögum B-hluta fyrirtækja og hlutdeildarfélaga. Jafnframt er lagt til að veita sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs umboð f.h. Reykjavíkurborgar til þess að undirrita nauðsynlega gerninga sem tengjast skuldabréfaútgáfu borgarsjóðs, sem og til þess að taka á móti og undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántökum þessum, enda verði einstakar lántökur lagðar fyrir borgarráð til afgreiðslu.

Greinargerð fylgir tillögunni. FAS22100137
Samþykkt.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. október 2022, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022:

Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2023 verði 14,52% og er það sama hlutfall og tekjuárið 2022.

Greinargerð fylgir tillögunni. FAS22100139
Samþykkt. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. október 2022, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022:

Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu vegna ársins 2023 verði sem hér segir:
1. Hlutfall fasteignaskatts skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 0,18%.
2. Hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,32%.
3. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,60%.
4. Hlutfall lóðarleigu fyrir íbúðarhúsalóðir verði 0,2% af fasteignamatsverði.
5. Hlutfall leigu fyrir verslunarlóðir, iðnaðarlóðir og lóðir fyrir opinberar byggingar verði 1,0% af fasteignamatsverði.

Greinargerð fylgir tillögunni. FAS22100140

Lögð fram breytingartillaga borgarfulltrúa og greinargerð Sjálfstæðisflokksins merkt D-1 um álagningarhlutfall fasteignaskatta 2023.
Tillagan er felld með 15 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Vinstri grænna og Flokks fólks gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga borgarstjóra um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022 er samþykkt. 
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. október 2022, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022:

Lagt er til að gjalddagaskipting fasteignagjalda fyrir árið 2023 verði eftirfarandi: Greiðendur fasteignagjalda skulu gera skil á fasteignagjöldum ársins 2023 með 11 jöfnum greiðslum á eftirfarandi gjalddögum: 30. janúar, 4. mars, 2. apríl, 2. maí, 3. júní, 2. júlí, 2. ágúst, 2. september, 2. október, 1. nóvember og 3. desember. Þá er lagt til að nemi álagning fasteignagjalda 25.000 kr. eða lægri fjárhæð á fastanúmer greiði gjaldendur þau með einum gjalddaga þann 30. janúar. Lagt er til að gjalddagar krafna vegna framkvæmdar afsláttar til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti og fráveitugjaldi verði 1. nóvember, 3. desember og 2. janúar. Lagt er til að þeir sem eiga inneignir fái þær greiddar út 7. nóvember 2023.

Greinargerð fylgir tillögunni. FAS22100140
Samþykkt. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks flokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. október 2022, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022:

Lagt er til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2023 verði eftirfarandi:
Viðmiðunartekjur
I. Réttur til 100% lækkunar
Einstaklingur með tekjur allt að 4.950.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 6.910.000 kr.
II. Réttur til 80% lækkunar
Einstaklingur með tekjur á bilinu 4.950.001 til 5.670.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.910.001 til 7.660.000 kr.
III. Réttur til 50% lækkunar
Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.670.001 til 6.590.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.660.001 til 9.150.000 kr.
Lagt er til að skilyrði lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um afslátt af fasteignagjöldum eins þær eru á hverjum tíma.

Greinargerð fylgir tillögunni. FAS22100140

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-1 við tillögu um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2023.
Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga borgarstjóra um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2023, dags. 24. október 2022, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022 er samþykkt. 
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 24. október 2022, varðandi gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022. FAS22010020

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-2 um að frysta gjaldskrárhækkanir er varða vetrarstarf frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva um eitt ár.
Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-3 um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum.
Breytingartillagan er felld með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn einu atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-4 um lækkun gjalds í Árbæjarsafn.
Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Fólks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram breytingartillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna merkt J+V-1 um að gera allt skólastarf á vegum borgarinnar gjaldfrjálst með öllu, þ.m.t. frístundaheimilin og máltíðir.
Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram tillaga borgarstjóra um gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023, dags. 24. október 2022, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022.

1.-6. liður gjaldskránna er varða skóla- og frístundasvið eru samþykktir með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
7. liður gjaldskránna er varðar velferðarsvið er samþykktur með 17 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Aðrar liðir gjaldskránna eru samþykktir. 

Samþykkt að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer 6. desember nk.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir aðhaldi í rekstri þótt framlínuþjónusta verði áfram fullfjármögnuð. Þá er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu árið 2025. Tekjur voru töluvert undir áætlun síðustu tvö ár vegna heimsfaraldurs sem kallað hefur á aðhaldsaðgerðir af hálfu borgarinnar. Vonir stóðu til að viðsnúningur yrði á árinu 2022 en það gekk ekki að fullu eftir. Hagræðingarkrafa er því sett á rekstur borgarinnar og dregið er saman í fjárfestingaráætlun. Áfram verður þó passað upp á að sinna viðhaldsmálum og uppbyggingu innviða í vaxandi borg. Fjárhagsáætlun næsta árs er því fjárhagsáætlun aðhalds – en sóknar til lengri tíma.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa yfir miklum áhyggjum af fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Útkomuspá fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir 15,3 milljarða króna halla af rekstri borgarinnar og skuldir samstæðu aukast um 35 milljarða þetta árið. Þá hefur starfsmönnum borgarinnar fjölgað um 25% síðastliðin fimm ár. Vandi borgarinnar er ekki tekjuvandi heldur útgjaldavandi, enda vaxa rekstrargjöld langt umfram tekjur. Hagræðingarkrafa, um 1% þvert á svið, mun ekki nægja til að rétta við rekstur borgarinnar. Huga þarf að áþreifanlegri hagræðingu í rekstrinum, minni yfirbyggingu, skipulegri niðurgreiðslu skulda og hóflegri skattheimtu. Þá þarf að ráðast í aðgerðir til að styðja við viðspyrnu atvinnulífs svo efla megi verðmætasköpun í samfélaginu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa jafnframt áhyggjur af þeim áformum meirihlutans að fækka starfsfólki leikskóla um 75 milli ára, þegar hundruð barna sitja á biðlistum eftir leikskólarými árlega. Samtímis er ráðgert að fjölga starfsmönnum miðlægrar stjórnsýslu um 13% næsta árið, en það er sviðið sem hýsir skrifstofu borgarstjóra. Hér birtist forgangsröðun þessa meirihluta, draga skal saman í grunnþjónustu en smyrja auknu fitulagi á yfirbygginguna. Hér þarf breyttar áherslur og raunhæfar aðgerðir svo koma megi böndum á rekstur borgarinnar.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

Útsvar er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga. Áætlaðar tekjur af útsvari á fjármagnstekjur sem Reykjavíkurborg varð af árið 2021 eru 9 milljarðar. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg þrýsti á þetta mikilvæga mál svo að innheimta megi útsvar af fjármagnstekjum sem verður ekki gert án laga frá Alþingi. Efla þarf tekjustofna borgarinnar með því að leggja þrepaskipt aðstöðugjöld á fyrirtæki, eftir stærð fyrirtækja. Eðlilegt er að öll sem nota aðstöðu borgarinnar greiði í borgarsjóð. Létta þarf gjaldtökunni af þeim sem ekki geta borið hana, og afnema gjaldtöku á börn þar sem þau hafa engar tekjur. Sósíalistar hafa lagt til að allt skólastarf á vegum borgarinnar verði gjaldfrjálst með öllu, þ.m.t. frístundaheimilin. Hin ríku sleppa við að greiða í sameiginlega sjóði borgarinnar og þá eru sameiginleg gæði almennings seld til að afla tekna líkt og sjá má með sölu byggingarréttar. Úthluta þarf lóðum til þeirra sem byggja í samfélagslegum tilgangi, þar sem margt fólk er í neyð fyrir húsnæði. Fasteignagjöld leggjast jafnt á eignir og skuldir og mikilvægt að framtíðarskattlagning taki mið af því svo gjaldtöku sé létt af nýjum húsnæðiseigendum á móti þeim sem eiga það skuldlaust. Það þarf að byggja fyrir þau sem eru í þörf fyrir húsnæði en fjárhagsáætlun miðar ekki að því.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Rekstrarútgjöld A-hluta vaxa á tveggja ára tímabili um 16% sem er sami vöxtur og í tekjum borgarinnar. Rekstrarhalli á A-hluta er áætlaður um sex milljarðar á komandi ári. Rekstrarafkoma A-hluta er því neikvæð um 3.6% og er það fjórða árið í röð sem rekstrarafkoman er neikvæð. Handbært fé lækkar um tæplega þriðjung frá árinu 2021 eða úr rúmum 15 milljörðum árið 2021 í 11 milljarða 2021. Veltufé frá rekstri er einungis um fjórðungur þess sem það þyrfti að vera til að reksturinn sé í þokkalegu jafnvægi. Skammtímaskuldir eru í fyrsta sinn um árabil hærri en handbært lausafé. Þungi afborgana af langtímaskuldum mun vaxa verulega á árunum 2021-2023. Fjárhagur A-hluta hefur veikst. Rýna þarf allan rekstur borgarinnar og forgangsraða í þágu lögbundinnar og annarrar þjónustu við fólkið. Það er ábyrgðarleysi að skella skuldinni á fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Allar breytingartillögur Flokks fólksins hafa verið felldar: Breytingartillaga Flokks fólksins vegna viðmiðunartekna til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega. Hækka á viðmiðin. Breytingartillaga Flokks fólksins um að frysta gjaldskrárhækkanir er varða vetrarstarf frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva um eitt ár. Breytingartillaga Flokks fólksins um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum. Breytingartillaga Flokks fólksins um að gjaldskrá Árbæjarsafns verði breytt.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Staða Reykjavíkurborgar eins og hún birtist í fjárhagsáætlun hennar veldur miklum vonbrigðum. Útlitið er ekki bjart og hætt við því að borgin verði ógjaldfær ef ekki tekst að koma rekstrinum á réttan kjöl. Við aðstæður sem þessar reynir sérstaklega á styrk pólitískrar forystu. Það er brýnt að kjörnir fulltrúar skjóti sér ekki undan þeirri ábyrgð. Gerð fjárhagsáætlunarinnar kallar á skýra forgangsröðun, þar sem kveðið verði á um það hvaða verkefnum beri að hlífa og hverju þurfi að fórna. Ekki er ásættanlegt að varpa þeirri ábyrgð á almenna starfsmenn borgarinnar með flötum og óútfærðum hagræðingarkröfum eða að ganga endalaust í vasa borgarbúa til að auka tekjuflæði Reykjavíkurborgar. Við ráðstöfun takmarkaðra fjármuna í þröngri stöðu er brýnast að standa vörð um málaflokka velferðar, menntunar og umhverfismála. Vinstri græn munu sem hingað til halda þeim sjónarmiðum rækilega á lofti í fjárhagsáætlunarvinnu komandi vikna.

2.    Lagt fram til fyrri umræðu frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2023-2027, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022. FAS22010020
Samþykkt að vísa frumvarpinu til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer 6. desember nk.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar kemur fram sýn meirihluta borgarstjórnar á hvernig fjármál Reykjavíkurborgar komi til með að þróast á næstu fimm árum. Slík sýn byggir aðallega á tveimur meginforsendum. Annars vegar er það hvernig ytri aðstæður munu þróast og hins vegar hvernig meirihluti borgarstjórnar ætlar að spila úr þeim spilum sem hún hefur á hendi ár hvert. Áberandi er hvað fjármál borgarinnar eiga að færast hratt til betri vegar á næstu árum miðað við þá afar erfiðu fjárhagsstöðu A-hluta Reykjavíkurborgar sem Borgarstjórn Reykjavíkur tekst á við þessa mánuðina. Á hvaða forsendum byggja t.d. áætlanir um fimmföldun veltufjár frá rekstri við lok tímabilsins hjá A-hluta? Athygli vekur að á sama tíma mun lausafjárstaða A-hluta versna. Afborganir langtímaskulda meira en tvöfaldast. Langtímaskuldir vaxa ár frá ári. Mikilvægt er að fyrir liggi hverjar forsendur fyrirhugaðrar endurreisnar á fjármálum A-hluta borgarsjóðs eru. Raunsæi verður að ráða ferðinni við mótun stefnu til framtíðar. Vandann verður að viðurkenna til að geta brugðist við honum af fagmennsku. Grípa verður til skilvirkra aðgerða sem skila árangri en forðast innihaldslausar yfirlýsingar sem engu skila. Flokkur fólksins leggur áherslu á að leiðarljós við endurreisn fjárhagsstöðu A-hluta borgarsjóðs verði raunsæi og fagmennska. Aðeins á þann hátt næst ásættanlegur árangur.

3.    Lögð fram til fyrri umræðu fjármálastefna Reykjavíkurborgar 2023-2027, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2022. FAS22100171

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Fjármálastefna borgarinnar 2023-2027 byggir á grunngildum um sjálfbærni. Markmið og megináherslur hennar eru að tryggja með samningum við ríkið fulla fjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks og að leiðrétt verði fjármögnun á öðrum lögbundnum verkefnum. Að ná fram hagræðingu í rekstri og lækkun launaútgjalda í hlutfalli af tekjum. Að áherslur borgarinnar í húsnæðisuppbyggingu nái fram að ganga. Að tryggja að viðhaldsáætlun til næstu ára vegna mannvirkja borgarinnar nái fram að ganga. Að uppbygging á nýjum skólum og leikskólum verði í forgangi til að tryggja framgang stefnu borgarstjórnar um þróun borgarinnar. Og að fjármagnsskipan hjá B-hluta fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verði rýnd með hliðsjón af arðsemi eigin fjár og samsetningu eigin fjár, skulda og skuldbindinga. 

Borgarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fyrir liggur fjárfestingarstefna, ákveðnar upphæðir sem verja á í fjárfestingar. Þar er forgangurinn: húsnæðisuppbygging og viðhaldsmál og verkefni sem eiga að stuðla að vexti borgarinnar. Það segir sig sjálft að meðal slíkra verkefna er hvorki endurgerð Lækjartorgs eða Kirkjustrætis. Þessi torg þola alveg að vera eins í 2-3 ár í viðbót. Það fjármagn sem mögulega er hugsað í verkefni sem „mega bíða“ á hiklaust að fara til annað hvort viðhalds á mygluhúsnæði eða til velferðar- og skólasviðs sem hafa skyndilega fengið risastór verkefni þegar stríðið í Úkraínu skall á. Velferðar- og skólamálin eru vissulega að taka til sín stóran bita af kökunni. Á það er einmitt alltaf bent þegar Flokkur fólksins talar um auka fjármagn til þessara sviða eins og meirihlutanum finnist þau vera að fá „nóg“. Auðvitað eiga þessi svið eins og önnur að velta við hverri krónu. Margt smátt gerir eitt stórt. Leigubílakostnaður er t.d. allt of hár hjá velferðarsviði. Of mikil og ómarkviss þensla hefur verið á þjónustu- og nýsköpunarsviði og á skrifstofu borgarstjóra. Starfsfólki þar og skrifstofum hefur fjölgað. Innkaupamál eru of dreifstýrð sem þýðir að þau soga til sín óþarflega mikið fjármagn og starfskrafta. Sviðin annast útboðslýsingar með ráðgjöf frá innkaupaskrifstofu. Samt eru kærur vegna útboðsmála í sögulegu hámarki.

4.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 20., 27. og 28. október. MSS22010003

2. liður fundargerðarinnar frá 27. október; Frakkastígur 1, úthlutun lóðar og sala byggingarréttar er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22100143

11. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. október, tillaga um niðurfellingu á yfirfærslu fjárheimilda ársins 2022, er samþykktur með 13 atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22100141

31. liður fundargerðarinnar frá 27. október; viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022 er samþykktur. FAS22010035
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð borgarráðs frá 28. október:

Liður 5, tillaga um lántöku vegna framkvæmda á árinu 2023. Samþykkja á lántökur á árinu 2023 að fjárhæð 21.000 milljarðar til að fjármagna áformaðar fjárfestingar á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að taka lán fyrir einum og hálfum milljarð á mánuði. Þungi fjárfestingahreyfinga hefur því nær þrefaldast milli áranna 2021 og 2023. Hér skiptir máli að forgangsraða rétt þar sem borgin er á heljarþröm. Fyrir liggur fjárfestingarstefna, ákveðnar upphæðir sem eyða má í fjárfestingar. Þar er forgangurinn án efa réttur, þ.e. húsnæðisuppbygging og viðhaldsmál og verkefni sem klárlega stuðla að vexti borgarinnar. Það segir sig sjálf að meðal slíkra verkefni er hvorki Lækjartorg né Kirkjustræti. Þessi torg hafa verið svona í mörg ár og þola alveg að vera eins 2-3 ár í viðbót. Ef horft er til viðhalds bygginga er líklegt að auka þurfi fjármagn til viðhalds húsnæðis. Liður 9, lækkun fasteignaskatta. Flokkur fólksins leggur til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts verði 5.040.000 kr. og samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 7.030.000 kr. í stað 4.950.000 kr. og samskattað allt að 6.910.001. Liður 10. Flokkur fólksins leggur fram breytingartillögu um að frysta í eitt ár allar gjaldskrárhækkanir sem varða vetrarstarf frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva. 

5.    Lagðar fram fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 17. október, stafræns ráðs frá 26. október og umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. október. MSS22010217

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 17. október og 7. og 8. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 26. október:

Bókun við lið 2 í fundargerð skóla- og frístundaráðs 17. október sl. Flokkur fólksins lagði til að hætt verði með píp-próf í íþróttakennslu vegna neikvæðra áhrifa þeirra á mörg börn. Meirihlutinn vill frekar útfæra þessi próf öðruvísi fyrir börn sem eru kvíðin. Þetta er óljóst því ekki er skýrt hvort börnum sé áfram gert að þreyta píp-próf eða ekki. Liður 10; spurt var um framtíð skólamuna Austurbæjarskóla. Í svari segir að Borgarsögusafn rýni og meti munina, en hvað svo? Fara þeir verðmætustu á Borgarsögusafnið til framtíðar og aðrir ofan í kassa? Eða fara þeir allir ofan í kassa? Liður 7. í fundargerð stafræns ráðs frá 26. október sl. Tekið er undir þann hluta svars að lestur árskýrslunnar kann að hafa ruglað fulltrúa Flokks fólksins í ríminu enda engin venjuleg ársskýrsla. Sviðið væri kannski betur komið án skrifa af þessu tagi enda kostnaðarsamt plagg og gefur kannski þess utan óraunhæfa mynd, ofurfegraða mynd. Liður 8. Spurt var um laun lögfræðinga hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði því þeir voru sóttir úr einkageiranum. Dýrt er fyrir sveitarfélag að keppa við einkamarkaðinn. Mikilvægt er að endurmeta allt sem leitt gæti til sparnaðar. Minnt er á að til stendur að fækka starfsfólki á leikskólum í hagræðingarskyni. 

Fundi slitið kl. 18:22

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Þorvaldur Daníelsson        Sanna Magdalena Mörtudóttir