Borgarstjórn - 1.11.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 1. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson og Áslaug Friðriksdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 ásamt greinargerð og starfsáætlunum, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október sl. Jafnframt lagðar fram tillögur borgarstjóra undir eftirtöldum liðum í fundargerð borgarráðs frá 28. október sl.: 4. liður; gjaldskrár, 5. liður; lántökur vegna framkvæmda á árinu 2017, 6. liður; álagningarhlutfall útsvars 2017, 7. liður; álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu, 8. liður; gjalddagar og eindagar fasteignaskatts, 9. liður; viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega. R16010183

- Kl. 14.02 taka Kjartan Magnússon og Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum.

- Kl. 15.29 víkur Kjartan Magnússon af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti.

Samþykkt með 15 atkvæðum að vísa tillögu borgarstjóra um gjaldskrár, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október sl., til afgreiðslu á fundi borgarstjórnar þann 6. desember nk.

Tillaga borgarstjóra um lántökur vegna framkvæmda á árinu 2017, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október sl., samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa  Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga borgarstjóra um álagningarhlutfall útsvars, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október sl., samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga borgarstjóra um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október sl., samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa  Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga borgarstjóra um gjalddaga og eindaga fasteignaskatta, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október, er samþykkt.

Tillaga borgarstjóra um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts elli- og örorkulífeyrisþega, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október sl., er samþykkt.

Samþykkt að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 ásamt greinargerð og starfsáætlunum til síðari umræðu.

Borgarfulltrúar  Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sýnir jákvæðan viðsnúning í rekstri. Afkoma borgarinnar er jákvæð um 1,8 milljarða. Reykjavík er borg í örum vexti. Metár eru framundan í byggingu íbúða, atvinnustig hefur sjaldan verið jafn hátt og atvinnulífið sækir fram á sviði ferðaþjónustu, þekkingariðnaðar og skapandi greina. Undanfarin ár hafa einkennst af umtalsverðum launahækkunum hjá sveitarfélögum en tekjur hafa hækkað hægar. Fjármál borgarinnar hafa því verið í járnum. Með sameiginlegu átaki, aðhaldi og hagræðingu, samhliða ákveðnum tekjuvexti, hefur nú tekist að leggja fram fjárhagsáætlun með afgangi án þess að hækka skatta. Það svigrúm sem hefur orðið til vegna rekstarbatans hefur verið nýtt til að hefja nýja sókn í skólamálum, fjölga búsetuúrræðum og til að bæta velferðarþjónustu í takt við auknar þjónustukröfur. Þannig er forgangsraðað í þágu grunnþjónustu, bæði með launahækkunum til starfsfólksins sem sinnir þjónustunni og auknu rekstrarfé til hennar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Rekstur borgarinnar lítur út fyrir að verða betri árið 2016 en verið hefur hjá núverandi meirihluta Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna allt þetta kjörtímabil sem og forvera þessa meirihluta frá 2010. Reksturinn er að lagast enda eru tekjur samstæðu að aukast um 13% á tveimur árum. Góð staða þjóðarbúsins er að skila sér til Reykjavíkurborgar sem nýtir sér þann ramma í botn sem lög um álagningu útsvars leyfa. Þrátt fyrir þennan rekstrarbata sjást engin merki þess að skuldir og skuldbindingar samstæðu séu að lækka. Þær verða áfram rétt um 300 milljarðar kr. og skuldir A hluta munu hækka úr 80,7 milljörðum kr. í 91 milljarð kr. milli ára. Þá benda áætlanir einnig til þess að samstæða Reykjavíkurborgar verði yfir löglegu hámarki skuldahlutfalls skv. sveitarstjórnarlögum til a.m.k. ársins 2020 en lækkun skuldahlutfalls er drifin áfram af hækkun tekna eins og segir í kynningu á frumvarpinu að fjárhagsáætlun. En þetta þýðir að Reykjavíkurborg verður áfram í hópi skuldugustu sveitarfélaga landsins þrátt fyrir óhemju hagstæð ytri skilyrði.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Við tökum heils hugar undir bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks undir þessum lið.

2. Lagt fram frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2017-2021 ásamt greinargerð, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október sl. R16010183

Samþykkt að vísa frumvarpi að fimm ára áætlun fyrir árin 2017-2021 til síðari umræðu. 

3. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 20., 27. og 28. október. R16010001

-  10. liður fundargerðarinnar frá 20. október, göngugötur vegna Iceland Airwaves, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R16020010

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja óviðunandi að helstu verslunargötum Reykjavíkur sé lokað án nokkurs fyrirsjáanleika. Við höfum ekki lagst gegn sumarlokunum þó við höfum talið þær vera orðnar of langar. Fyrirsjáanleiki er ekki að það sé heimild í skipulagi þegar að borgarhátíðir séu haldnar, án þess að nokkur yfirlit eða fastar dagsetningar liggi fyrir um slíkt, nema þá ef vera skyldi 17. júní, þjóðhátíðardagur. Áskorun er fyrir meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata að átta sig á því að hlutverk miðborgar er ekki aðeins að vera miðstöð menningar, heldur verður að finna jafnvægi þannig að í miðborginni þrífist blómleg og fjölbreytt verslun ásamt menningu.

-  21. liður fundargerðarinnar frá 27. október, svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 25. október 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa til borgarstjórnar tillögu Félagsbústaða um að veitt verði veðheimild í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð á lántöku félagsins hjá Lánasjóði sveitarfélaga: Borgarstjórn Reykjavíkurborgar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að nafnvirði 1.000.000.000 kr. en að útgreiðslufjárhæð 901.302.260 kr. til 39 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til að fjármagna kaup á félagslegu húsnæði og til uppgreiðslu óhagstæðra lána Félagsbústaða hf. sem tekin voru til kaupa og viðhalds á félagslegu húsnæði sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn Reykjavíkurborgar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Félagsbústaða hf. til að selja ekki eignarhlut sinn í Félagsbústöðum hf. til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut í Félagsbústöðum hf. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu. Jafnframt er Birgi Birni Sigurjónssyni, kt. veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjavíkurborgar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar. R16090189

Tillagan er samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

6. Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. október, mannréttindaráðs frá 25. október, menningar- og ferðamálaráðs frá 24. október, skóla- og frístundaráðs frá 26. október, umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. október og velferðarráðs frá 1. september og 20. október. R16010116

Fundi slitið kl. 17.38

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Líf Magneudóttir

Skúli Helgason Marta Guðjónsdóttir