Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2001, fimmtudaginn 1. nóvember, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Kristín Blöndal, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar kvaddi Ólafur F. Magnússon sér hljóðs og gerði að umtalsefni kjaradeilu Reykjavíkurborgar og Sjúkraliðafélags Íslands.
- Kl. 14.08 vék Sigrún Magnúsdóttir af fundi og Helgi Pétursson tók þar sæti.
1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 23. október.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tilllögu undir 34. lið:
Borgarstjórn samþykkir að hætta þegar í stað grjótnámi í Geldinganesi.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 16.21 var gert fundarhlé. - Kl. 16.41 var fundi fram haldið. - Kl. 16.45 vék Ólafur F. Magnússon af fundi og Snorri Hjaltason tók þar sæti. - Kl. 17.21 tók Anna Geirsdóttir sæti á fundinum og Kristín Blöndal vék af fundi.
16. liður fundargerðarinnar, tillaga varðandi Bröndukvísl 22, samþykktur með 13 atkvæðum gegn 2. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi grjótnám í Geldinganesi felld með 8 atkv. gegn 7.
2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 26. október.
3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. október.
4. Lagður fram 11. liður fundargerðar borgarráðs frá 30. október, svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, sem forseti ákvað að ræddur yrði sem sérstakur dagskrárliður.
5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. október.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu undir 33. lið:
Borgarstjórn samþykkir að fela borgarendurskoðanda og skoðunarmönnum Reykjavíkurborgar að gera yfirlit yfir fjárhagsstöðu fyrirtækisins Línu.Nets hf. sem er í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar. Gerð verði grein fyrir fjárskuldbindingum fyrirtækisins, rekstrar- og framkvæmdaáætlunum, sjóðstreymi og efnahag pr. 30. júní 2001 og pr. 30. september 2001. Jafnframt verði gerð grein fyrir fjármálalegum samskiptum fyrirtæksins og Orkuveitu Reykjavíkur og fjárskuldbindingum og öðrum skuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur vegna Línu.Nets hf. Greinargerð verði afhent borgarfulltrúum fyrir 20. nóvember n.k.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi breytingartillögu við 27. lið:
Í stað “12.500 kr.” kemur “23.000 kr.”
Greinargerð:
Í bókun fræðsluráðs frá 15. október kemur fram að Fræðsluráð Reykjavíkur telur rétt að fimm ára nemendur í einkaskólum borgarinnar verði styrktir með sama hætti og aðrir nemendur í einkareknum grunnskólum svo framarlega sem að þeir nýti ekki önnur dagvistarúrræði á vegum borgarinnar. Styrkurinn til einkareknu grunnskólanna er 23.000 krónur á mánuði.
- Kl. 21.55 vék Snorri Hjaltason af fundi og Pétur Friðriksson tók þar sæti.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka breytingartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks við 27. lið fundargerðarinnar á dagskrá. Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks við 27. lið fundargerðarinnar felld með 8 atkv. gegn 7. 31. liður fundargerðarinnar, breyting á skipun félagsmálaráðs, samþykktur með samhljóða atkvæðum. Samþykkt með 8 atkvæðum gegn 7 að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks undir 33. lið fundargerðarinnar varðandi Línu.Net hf. til nánari skoðunar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Sú ákvörðun borgarstjóra og annarra borgarfulltrúa R-listans að vísa í raun frá tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að borgarendurskoðandi og skoðunarmönnum Reykjavíkurborgar verði falið að gera yfirlit yfir fjárhagsstöðu fyrirtækisins Línu.Nets hf. sýnir að málefni þess þola ekki dagsins ljós.
Ekki hefur verið orðið við beiðnum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afhendingu gagna, en nú allt í einu er boðað að þau verði afhent. Væntanlega telur meirihlutinn sér ekki lengur stætt á því að neita um aðgang að gögnum.
Hins vegar er ljóst að það mikla fjármagn sem flutt hefur verið frá Orkuveitu Reykjavíkur til Línu.Nets hf. krefst þess að farið sé ofan í saumana á rekstrinum og með hvaða hætti Orkuveita Reykjavíkur hefur verið skuldbundin. Borgarstjórn og íbúar borgarinnar eiga kröfu til þess. Því verður ekki trúað að óreyndu að borgarstjórinn í Reykjavík ætli sér að koma í veg fyrir að sannleikurinn komi í ljós.
Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:
Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins lýsir sérkennilegri þráhyggju þeirra í málefnum Línu.Nets hf. Þeir hafa nú lagt fram í þrígang sama málið en þó með mismunandi hætti. Fyrst birtist það sem fyrirspurn, síðan sem tillaga í borgarráði og tveimur dögum seinna sem tillaga í borgarstjórn. Fyrir liggur að verið er að vinna að svari við fyrirspurninni og að borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hefur staðið til boða að fá sérstakan fund með stjórnendum Línu.Nets hf. um málefni fyrirtækisins. Það boð hafa þeir ekki þekkst. Þrátt fyrir þetta kjósa þeir að halda því fram að upplýsingum sé haldið frá þeim. Þetta er rangt sem og hitt að tillögu þeirra hafi verið vísað frá á þessum fundi. Hún hefur einfaldlega ekki enn verið afgreidd. Píslarvættið virðist hins vegar henta minnihlutanum vel enda kann hann betur við sig í hlutverki þolandans en gerandans í reykvískum stjórnmálum. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að Sjálfstæðisflokkur í borgarstjórn veldi sér það hlutskipti og segir auðvitað sína sögu um núverandi fulltrúa hans.
6. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 10. október.
7. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 17. október.
8. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 24. október.
9. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 15. október.
10. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 22. október.
11. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 24. október.
- Kl. 22.25 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Helga Jóhannsdóttir tók þar sæti.
12. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 17. október.
13. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 24. október.
14. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 22. október.
15. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 17. október. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 14 samhljóða atkvæðum. Júlíus Vífill Ingvarsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
16. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október. Samþykkt með samhljóða atkvæðum að fresta 53. lið fundargerðar afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, sbr. b-hluta fundargerðarinnar. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur að öðru leyti með 15 samhljóða atkvæðum.
17. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 16. október.
18. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 25. október.
19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans um hverfaráð í Reykjavík:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að koma á fót hverfaráðum í Reykjavík sem starfi í samræmi við þá hverfaskiptingu sem borgarstjórn samþykkti í fyrra mánuði. Þannig verði mynduð átta hverfisráð þ.e. á Kjalarnesi, í Grafarvogi, Árbæ, Breiðholti, Kringlusvæði (Hlíðar og Bústaðahverfi), Laugardalssvæði (Vogar, Heimar, Sund), Vesturbæ og miðborg. Í hverju hverfisráði skulu sitja þrír fulltrúar kjörnir af borgarstjórn og gegnir einn þeirra formennsku í ráðinu, en auk þeirra eiga öll hverfisbundin félög og stofnanir fulltrúa í hverfisráði.
Stjórnkerfisnefnd verði falið að vinna samþykktir fyrir hverfisráðin sem verði lagðar fyrir borgarstjórn til samþykktar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Tillaga R-listans um stofnun hverfisráða minnir frekar á lítt ígrundaða minnispunkta en tillögu sem á að taka alvarlega.
Stutt er til kosninga og augljóslega er að renna upp fyrir meirihlutanum að efndir loforða R-listans um aukin tengsl borgarbúa við borgarkerfið hafa ekki gengið eftir.
Í tillögunni er ekki að finna skilgreiningu á hlutverki og valdsviði hverfisráðanna. Vísað er til reynslunnar af hverfisráði í Grafarvogi og samstarfsráði Kjalarness. Eins og kunnugt er þá er til staðar hverfisráð í Grafarvogi sem heyrir undir hverfisnefnd sama svæðis. Alkunna er að hlutverk og valdsvið hverfisnefndar í Grafarvogi eru ekki vel skilgreind. Hverfisnefnd Grafarvogs hefur gert alvarlegar athugasemdir við stöðu og áhrifaleysi nefndarinnar á þessu kjörtímabili og vakið athygli á því að mörg mál sem snúa að hverfinu og ættu að koma fyrir nefndina gera það aldrei. Segja má að hverfisnefndin sé áhrifalítil hornreka í borgarkerfinu. Sama má segja um samstarfsráð Kjalarness.
Ef raunverulegur vilji borgaryfirvalda er til að færa völd og áhrif inn í hverfin væri nær að meta árangur og störf hverfisnefndar og hverfisráðs Grafarvogs og samstarfsráðs Kjalarness. Í framhaldinu væri eðlilegt að leita raunhæfra leiða til að efla tengsl íbúa borgarinnar við borgarkerfið án þess að setja á fót átta ný hverfisráð, að öllum líkindum með átta nýjum hverfisnefndum.
Sjálfstæðismenn eru ekki tilbúnir til að samþykkja síðbúna og illa undirbúna kosningatillögu R-listans.
Tillaga borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.
Fundi slitið kl. 00.10.
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Guðlaugur Þór Þórðarson