Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2019, þriðjudaginn 1. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komin til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Marta Guðjónsdóttir, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Líf Magneudóttir, Diljá Ámundadóttir Zoega, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Alexandra Briem, Aron Leví Beck, Þorkell Heiðarson, Dóra Magnúsdóttir, Berglind Eyjólfsdóttir, Skúli Helgason, Geir Finnsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Egill Þór Jónsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Örn Þórðarson og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer fyrri umræða um samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033. Lagt er fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 30. september sl. ásamt fylgiskjölum. R16110082
Vísað til síðari umræðu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þetta er stærsta og grænasta uppbyggingaráætlun í samgöngumálum í sögu borgarinnar. Samkomulagið markar algjör tímamót í samgöngum, í samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður í samstarfi sveitarfélaganna við ríkið. Þarna eru þessir stóru aðilar í sameiningu að boða nýja tíma í öllum tegundum samgangna. Þetta þýðir að borgarlína verður að veruleika, hágæðaalmenningssamgöngur sem fara í framkvæmd eftir tvö ár. Miklabraut fer í stokk og Sæbraut sömuleiðis. Hjólastígum verður stórfjölgað og risaskref verður tekið í þá átt að standa við loftslagsskuldbindingar Íslands. Allt þetta á 15 árum í stað 50.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að gert verði arðsemismat á fyrirhuguðum framkvæmdum en til þess þarf að gera umferðarmódel af höfuðborgarsvæðinu. Ekki einu sinni í Hollywood framleiða menn gamanmynd án þess að gera arðsemismódel. Þá er þarft að nýta snjallar ljósastýringar og aðrar skynsamlegar lausnir. Staðreyndin er sú að vinna við samgöngur undanfarin ár hefur einkennst af því að ráðamenn henda upp hugmyndum á hlaupum. Það er gert án þess að gera arðsemismat og forgangsraða. Þessi vinnubrögð þurfum við að bæta. Það hljóta allir skynsamir stjórnmálamenn að sjá. Enn fremur er mikilvægt að vita hvernig á að innheimta sextíu milljarða af íbúum höfuðborgarsvæðisins. Fjárhæð sem nemur næstum nýjum Landspítala. Gjaldtakan á að hefjast eftir tvö ár. Er ekki tímabært að ræða þetta mál einmitt núna? Eða á bara að ræða það eftir að gjaldtakan hefur átt sér stað? Eitt er víst að borgarfulltrúum ber að verja hagsmuni Reykvíkinga. Við eigum að koma í veg fyrir tvísköttun og að sjá til þess að jafnræðis sé gætt í gjaldtöku meðal landsmanna.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins gerir alvarlegar athugasemdir við samkomulagið. Fyrir það fyrsta er ekki hægt að binda hendur kjörinna fulltrúa á Alþingi og sveitastjórnum og fjárstjórnarvald þeirra næstu fjögur kjörtímabil með þeim fjárhagsskuldbindingum sem eiga að koma frá ríki og sveitarfélögum. Er slíkt stjórnarskrárbrot því kjörnir fulltrúar eru einungis bundnir sannfæringu sinni. Það er gagnrýnt hart að áætlað er að 60 milljarðar komi úr vösum skattgreiðenda. Það er tvísköttun. Áður en samkomulagið er farið af stað þá er búið að búa til nýja stofnun – Verkefnastofu borgarlínu og nú þegar hafa verið ráðnir þrír einstaklingar til starfa. Í drögunum er fjallað um að stofna eigi nýtt félag á báðum stjórnsýslustigum, þ.e. ríkis og sveitarfélaganna. Það er fordæmalaust en er alveg sama uppskrift og ohf-un ríkisins og bs. félög sveitarfélaga, algjört svarthol sem tekur til sín mikið fjármagn sem enginn veit hvert fer. Aðkoma og eftirlitshlutverk kjörinna fulltrúa verður ekkert þar sem verið er að fara grísku leiðina. Það er fordæmt. Þetta samkomulag er mjög vanhugsað og vantar allar útfærslur. Hugsa sér að slíkt skuli eiga sér stað hjá ríki og sveitarfélögum. Svona vinnubrögð myndu aldrei þekkjast í einkageiranum og fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll. Aldrei.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrir liggur samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu. Veg- og flýtigjöld eru nefnd nánast í öðru hvoru orði og liggur fyrir að skattpína á bíleigendur sem aka inn í miðbæinn til að fjármagna borgarlínu að hluta. Hugmyndin um veggjöld er að frumkvæði meirihlutans í borgarstjórn. Ákveðið er að gjöldin verði álögð allan gildistíma samkomulagsins. Andúð meirihlutans í borgarstjórn gegn einkabílnum er augljós. Hér er komið tækifæri til að refsa þeim sem aka bíl sínum inn í borgina. Mörg ár eru í borgarlínu en skattlagning á að byrja sem fyrst. Nota á eftirlitsmyndavélar, aðferð sem er óhemju kostnaðarsöm og samræmist auk þess ekki persónuverndarlögum. Enn eitt samkrullsfélag borgarinnar við önnur sveitarfélög (og ríki) verður stofnað þar sem fjárhagsleg ábyrgð borgarinnar er óljós. Ókostir samkrulls eins og byggðasamlaga komu skýrt í ljós þegar bakreikningur barst vegna mistaka hjá Sorpu. Reykjavík ber hitann og þungan af þeim bakreikningi og öðrum sem kunna að koma í framtíðinni vegna borgarlínu. Smærri sveitarfélögin borga minnst en ráða hlutfallslega mest. Mikilvægt er að breyta þessu fyrirkomulagi áður en lengra er haldið með svokallað „sameiginlegt félag“ í tengslum við borgarlínu. Tryggja þarf ákvarðana- og stjórnunarvægi borgarinnar í samræmi við íbúatölu og tryggja að minnihlutum í sveitarstjórnum sé boðið að borðinu. Öðruvísi virkar ekki lýðræðið.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að nýta forgangsakgreinar fyrir almenningssamgöngur í Reykjavík jafnframt sem samferðabrautir fyrir þá sem fjölmenna í bíla í samfloti, þrír eða fleiri, og draga þar með úr bílaumferð með bættri nýtingu.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19100020
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í ágústmánuði undirritaði Verkefnastofa borgarlínu samning við Mannvit og ráðgjafastofuna COWI um gerð samgöngulíkans fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar opnast möguleiki á því að keyra hermilíkan sem sýnir hversu þétt vagnar borgarlínu og Strætó munu keyra og hvort raunhæft sé að hleypa á umferð bíla þar sem þrír eða fleiri eru saman í bíl. Þangað til að það er hægt - er ekki hægt að ganga úr skugga um að það að hleypa einkabílum á forgangsreinar strætó muni ekki hafa neikvæð áhrif á forgang almenningssamgangna. Þá mun eftirlit með því hvort þrír eða fleiri séu að ferðast saman í bíl vera gríðarlega kostnaðarsamt. Ein aðferð er að setja upp á höfuðborgarsvæðinu ANPR myndavélakerfi (Automatic number-plate recognition) sem tekur mynd af bílnúmeraplötu. Kerfið getur þó ekki staðfest fjölda farþega í bíl og kæmi það í hlut lögreglu að hafa eftirlit með því. Slíkt krefst mannafla sem er ekki einu sinni á forræði borgarinnar. Það væri því afar sérkennilegt ef borgarstjórn myndi samþykkja tillögu um svokallaðar samferðabrautir þar sem ávinningur er í besta falli óljós, gæti haft neikvæð áhrif á gang stofnleiða strætó og borgarlínu með miklum tilkostnaði fyrir utan það að aðrar aðgerðir til að breyta ferðavenjum eru mun árangursríkari.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru mikil vonbrigði að tillagan sé felld sem er skjótvirk leið til að tappa af umferðarvandanum samstundis eins og tillöguflytjandi benti á. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni mun beita sér fyrir því að tillagan verði tekin inn í nánari mótun á samgöngusáttmálanum, enda hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagt á Alþingi að hinn svokallaði samgönguás (borgarlína) sé m.a. ætlaður samfloti. Það er óumdeilt að ferðatími og tafir á umferð innan borgarinnar hafa verið að aukast, sem leiðir af sér meiri mengun og aukinn útblástur á CO2 og öðrum mengandi efnum. Þetta finna borgarbúar á hverjum morgni og eftirmiðdegi. Í því skyni leggjum við til að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að nýta forgangsakgreinar fyrir almenningssamgöngur í Reykjavík jafnframt sem samferðabrautir fyrir þá sem fjölmenna í ökutæki í samfloti, þrír eða fleiri, og draga þar með úr bílaumferð með bættri nýtingu. Markmiðið með tillögunni er að minnka umferðarteppur í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Með samferðabrautum (e. Car pool lanes eða High occupancy vehicle lanes) yrði áhersla lögð á að flytja sem flest fólk á milli staða á hverjum tíma en ekki sem flesta bíla.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar tillögum sem snúa að því að létta á umferð og þar með útblæstri en það er hinsvegar mikilvægt að huga vel að slíkri útfærslu. Hér er lagt til að forgangsakreinar fyrir almenningssamgöngur, verði jafnframt notaðar sem samferðabrautir fyrir þá sem fjölmenna í bíla í samfloti, þrír eða fleiri, til að draga þar með úr bílaumferð með bættri nýtingu. Þó að það sé mikilvægt að draga úr umferð og útblæstri er mikilvægt að þrengja ekki að Strætó og akstri hans á forgangsakreinum.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er dæmalaust að meirihlutinn skuli fella þessa skynsamlegu lausn sem myndi létta mjög á umferðarþunganum á höfuðborgarsvæðinu, þótt svo að í samgöngusáttmálanum sé sérstakt ákvæði um deilihagkerfi í samgöngum. Yrði þessi tillaga að veruleika myndu borgarbúar finna muninn strax. Þessi leið ásamt snjallljósastýringu myndi ganga langleiðina til að leysa umferðarvandann. En til þess er ekki vilji því stefnan er að neyða fólk í almenningssamgöngur og leggja fjölskyldubílnum. Öll þessi umræða hverfist í „við“ og „þið“. Staðreyndin er sú að fjölskyldubílum fjölgar og notkun strætó stendur í stað allt frá árinu 2012. Notkunin er föst í 4% en samt er Strætó bs. að fá einn milljarð á ári í 10 ár. Hvert fara þessir peningar? Þetta er gríðarleg sóun á almannafé. Málflutningur meirihlutans er dapurlegur og byggir á hræsni eins og svo oft áður.
3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 25. september 2019 á tillögu að deiliskipulagi fyrir fyrsta áfanga Laugavegar sem göngugötu, ásamt fylgiskjölum, sbr. 5. liður fundargerðar borgarráðs frá 26. september sl. Samhliða fer fram umræða um áhrif lokunar Laugavegar á rekstraraðila og íbúa og kostnaður útsvarsgreiðenda við framkvæmdir til að gera götuna að göngugötu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Flokkur fólksins leggur til að frestað verði að senda deiliskipulagstillögu og tillögu um göngugötur í auglýsingu um nokkra mánuði. Á þeim tíma verði haft alvöru samráð við hagsmuna- og rekstraraðila sem leiði til sameiginlegrar niðurstöðu sem sátt ríki um. Öllum er kunnugt um hina miklu óánægju er varðar lokanir og þá ákvörðun að opna þær ekki að nýju núna í október eins og ráð var fyrir gert. Verslun hefur hrunið eftir að þessum götubútum var lokað fyrir bílaumferð og verslunareigendur flúið í stórum stíl með verslanir sínar af svæðinu. R19070069
Málsmeðferðartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur, Egils Þórs Jónssonar, Jórunnar Pálu Jónasdóttur, Arnar Þórðarsonar og Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Að beiðni borgarfulltrúanna Vigdísar Hauksdóttur, Kolbrúnar Baldursdóttur, Jórunnar Pálu Jónasdóttur, Arnar Þórðarsonar, Egils Þórs Jónssonar, Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur, Geirs Finnssonar, Alexöndru Briem og Diljá Ámundadóttur Zoega fer fram nafnakall við atkvæðagreiðsluna með vísan til 3. mgr. 28. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarstjórn staðfestir samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 25. september 2019 á tillögu að deiliskipulagi fyrir fyrsta áfanga Laugavegar sem göngugötu, ásamt fylgiskjölum, sbr. 5. liður fundargerðar borgarráðs frá 26. september sl. með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn 9 atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur, Egils Þórs Jónssonar, Jórunnar Pálu Jónasdóttur, Arnar Þórðarsonar og Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG kemur fram eftirfarandi: „Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni“. Í septembermánuði árið 2018 samþykkti borgarstjórn með 21 atkvæði að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra Laugaveg og Bankastræti sem göngugötur allt árið, ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur. Því ætti ekki að koma á óvart að nú liggur fyrir samþykkt um að auglýsa deiliskipulag um Laugaveg göngugötu. Við útfærslu er algild hönnun með aðgengi fyrir alla höfð að leiðarljósi í samráði við notendur og fjölmörg hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Tillaga að deiliskipulagi er hluti af lögformlegu samráðsferli sem hófst með verklýsingu um deiliskipulagið sem var samþykkt í skipulags- og samgönguráði 4. september sl. Öllum gefst færi á að koma með athugasemd þegar deiliskipulag fer í formlegt auglýsingarferli. Þá er því haldið til haga að almannarýmið er fyrir okkur öll og nýtist landsmönnum öllum þegar þeir heimsækja miðborgina. Það er ábyrgðarhlutverk að gera Laugaveginn aðgengilegan sem flestum og er göngugatan stærsta skrefið í átt að því. Aldrei áður hefur verið unnið jafn stíft að því að bæta aðgengi allra að miðborginni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru vonbrigði að málið sé afgreitt með flýtimeðferð þegar samráðsferlið hefur verið eins umdeilt og raun ber vitni. Samkvæmt framlagðri áætlun átti að ljúka deiliskipulagi fyrir göngugötur í október - nóvember, en hér er í reynd verið að afgreiða málið í september bæði úr skipulags- og borgarráði. Þá liggur ekki fyrir endanleg útfærsla á aðgengi fyrir þá sem þurfa að komast inn á svæðið á ökutækjum, svo sem íbúar, hreyfihamlaðir og neyðarþjónusta slökkviliðs, lögreglu og sjúkrabíla. Rekstur verslana og veitingastaða í miðborg Reykjavíkur hefur verið afar þungur undanfarið og tugir rekstraraðila hafa hætt rekstri. Hærri gjöld, launakostnaður, slæmt aðgengi vegna framkvæmda og aðrir þættir hafa dregið þróttinn úr mörgum rekstraraðilum. Vilji meirihluta rekstraraðila er skýr; þeir leggjast gegn heilsárslokun. Hér hefur ekki verið hlustað á þessi sjónarmið sem skyldi og því greiðum við atkvæði gegn þessari afgreiðslu.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það eru forkastanleg vinnubrögð og ekki rekstraraðilum eða íbúum á þessu svæði bjóðandi að taka svo afdrifaríka ákvörðun sem framlenging lokunar Laugavegs er. Þetta er valdbeiting opinbers aðila af verstu gerð. Í svo afdrifaríku máli eiga þeir sem hagsmuna eiga að gæta að njóta vafans, ekki stjórnvaldið. Nýlega hafa rekstraraðilar og íbúar mátt búa við miklar raskanir á högum sínum þegar borgin tók Laugaveginn í endurbætur. Nú er boðað að samhliða þessum lokunum verði á ný farið í mikið rask til að endurbæta svæðið s.s. að endurnýja allt yfirborð götunnar, gróður, götulögn og lýsingu. Heyrst hefur að þær endurbætur komi til með að kosta allt að 600 milljónir. Nú þegar liggur inni í kerfinu fyrirspurn frá borgarfulltrúa Miðflokksins til að fá þessar fjárhagsupplýsingar fram en henni hefur ekki enn verið svarað. Er þetta forgangsröðun meirihlutans, meðan lögbundin þjónusta og grunnstoðirnar eru sveltar? Til að allir átti sig á þeim fjármunum sem liggja undir af hendi útsvarsgreiðenda í Reykjavík, þá kosta endurbætur á Laugaveginum og Óðinstorgi, sem er fyrir framan heimili borgarstjóra, tæpan 1 milljarð/1.000 milljónir. Þá er tjón rekstraraðila ótalið og það er mikið eins og oft hefur komið fram.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ákveðið hefur verið að gera hluta Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs að varanlegum göngugötum. Til stóð samkvæmt tillögu meirihlutans frá 1. apríl að opna aftur þessar götur eftir sumarlokun. Nú hefur verið ákveðið að gera það ekki og hefur málið verið keyrt áfram af miklum hraða þvert á vilja fjölmargra. Verslanir hörfa úr miðbænum enda hafa viðskipti þeirra hrunið vegna sífelldra breytinga og takmarkana á bílaumferð á svæðinu. Flokkur fólksins hefur lagt til að frestað verði að setja skipulagið í auglýsingu og að göturnar sem um ræðir verði opnaðar aftur a.m.k. í vetur. Sú tillaga var felld. Það er ekki umdeilt lengur að almennar verslanir t.d. fataverslanir hafa þrifist illa við göngugötur bæjarins. Það hefur reynsla og kannanir sýnt svo ekki verði um villst. Langflestir sem ganga um þetta svæði eru erlendir ferðamenn og fólk mætir vissulega á svæðið til að stunda skemmtanalíf og fara á veitingastaðina. Aðrir, sem búa lengra frá, eldri borgarar og öryrkjar segja upp til hópa bæinn ekki lengur vera fyrir sig. Þetta sýna niðurstöður Zenter rannsókna í nýlegri könnun. Aðgengi er slæmt, bílastæði fá, bílahús óaðgengileg og sum óaðlaðandi og vegakerfið og akstursstefnur ruglingslegar. Það er leiðinleg þróun að miðbærinn skuli ekki lengur vera okkar allra og að hefðbundin verslun sem verið hefur þar áratugum saman þrífist ekki lengur.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hefðbundin verslun á undir högg að sækja hérlendis sem erlendis. Á fyrstu sex mánuðum ársins lögðu 2.868 verslanir upp laupana í Bretlandi. Þróunina má greina víða um heim. Mestan vöxt má finna í netverslun. Reynslan erlendis hefur sýnt að með göngugötum megi skapa betra verslunarumhverfi og mæta nýjum áskorunum í verslun. Samráðsleysi vegna umfangsmikilla framkvæmda, síhækkandi fasteignaskattar, launahækkanir og aukin netverslun eru meðal þátta sem valda rekstrarerfiðleikum í miðborginni. Mikilvægt er að hlúa betur að rekstri og styrkja samtal við rekstraraðila samhliða útfærslu göngugatna. Tryggja þarf hófleg fjárútlát og vandað skipulag áður en ráðist er í framkvæmdir. Nýleg íbúakönnun sýnir að gestum miðborgar gæti fjölgað ef þar væri aðgengilegur einhvers konar miðborgarvagn. Undirrituð hefur þegar lagt til að borgin bjóði út rekstur smárra rafknúinna farartækja sem gætu ferjað viðskiptavini frá bílhúsum að verslun í miðborg. Eins að hlutast verði til um gott aðgengi að hjólum, rafskútum ofl. Samhliða vönduðu samtali við rekstraraðila er mikilvægt að hlusta á vilja íbúa, en í síbreytilegu markaðsumhverfi hefur viðskiptavinurinn lokaorðið. Mælingar sýna mikla jákvæðni íbúa gagnvart göngugötum – þar gildir einu hvaða borgarhluti eða aldurshópur er skoðaður - alls staðar eru jákvæðir í meirihluta. Tölurnar sýna glöggt hvaða hugmyndir íbúar hafa um þróun verslunar í miðborg. Mitt atkvæði fer til borgarbúa.
4. Lögð fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 25. september 2019 á tillögu um göngugötur 2019-2020, ásamt fylgiskjölum sbr. 6. liður fundargerðar borgarráðs frá 26. september sl. R19040106
Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn 9 atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur, Egils Þórs Jónssonar, Jórunnar Pálu Jónasdóttur, Arnar Þórðarsonar og Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins en atkvæðagreiðsla fór fram með nafnakalli samhliða atkvæðagreiðslu í lið nr. 3.
- Kl. 20.15 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti.
- Kl. 20.55 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Inga María Hlíðar Thorsteinsson tekur sæti.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins:
Borgarstjórn samþykkir að grunnskóli verði rekinn í Staðahverfi til frambúðar í samræmi við gildandi skipulag hverfisins fyrir 1-10 bekk ætlaður öllum börnum á grunnskólaaldri í hverfinu. Skóla- og frístundaráði verði falið að finna heppilega útfærslu á því t.d. með samkennslu milli bekkja eins og áður var gert í skólanum, með skoðun á Krikamódeli þ.e. samfellu milli leikskóla og grunnskóla eða með öðrum leiðum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19100021
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sú tillaga sem hér er lögð fram er í öllum aðalatriðum samhljóða tillögu sem þegar hefur verið lögð fram í skóla- og frístundaráði og er enn til meðferðar í borgarkerfinu. Helsti munurinn er sá að þessi tillaga minnihlutans felur í sér að einungis verði grunnskólahald upp í 4. bekk í Kelduskóla Korpu og engu svarað um það hvað eigi þá að gera við miðstig og unglingastig (frá 5.-10. bekk). Starfshópur á vegum SFS um framtíðarskipan skólamála í norðanverðum Grafarvogi lagði til 2 ólíkar tillögur í skýrslu sinni í júní. Önnur þeirra er að halda áfram skólahaldi í Kelduskóla-Korpu, ráðast í umfangsmikla uppbyggingu húsnæðis í hverfinu en mæta mikilli fækkun nemenda til skemmri tíma með því að bæta við rekstri leikskóla í húsnæði skólans eða annarri skóla og frístundastarfsemi. Báðar tillögur starfshópsins eru nú í umsagnarferli hjá umhverfis og skipulagssviði og koma síðan til afgreiðslu í skóla og frístundaráði í kjölfarið. Það er því bæði óþarft og ómarkvisst að leggja fram samskonar tillögu í borgarstjórn í dag og því einboðið að henni verði vísað frá.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks harma það að tillögunni hafi verið vísað frá. Fulltrúarnir minna á að deiliskipulag Staðahverfis gerir ráð fyrir því að þar sé grunnskóli. Í þessu samhengi er vísað til minnisblaðs borgarlögmanns þar sem segir að deiliskipulag sé ígildi lagasetningar. Þá er jafnframt vísað til máls umboðsmanns Alþingis nr. 6853/2012. Sjónarmið um þjónustu í nærsamfélaginu, þéttingu byggðar og umhverfisvæna ferðamáta mæla enn fremur með því að áfram verði grunnskóli í hverfinu. Það er einlægur vilji íbúana enda hafa þeir verið duglegir að láta sína skoðun á þessum málum í ljós með fordæmalausum fjölda póstsendinga til borgarfulltrúa, með greinaskrifum í blöðum og í útvarpi. Markmiðið með tillögunni var að koma í veg fyrir að miðstýrt vald keyri í gegn breytingar sem eru þvert á vilja íbúanna líkt og hér virðist því miður vera að raungerast.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mikilvægt að tryggja að Reykjavíkurborg sjái áfram um rekstur grunnskóla í nærumhverfinu eins og borgarbúar hafa verið að kalla eftir.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins sér ekki hvert vandamálið er hjá meirihlutanum í þessu máli. Þess vegna hefur minnihlutinn sameinast um þá tillögu sem hér var til umræðu. Það vantar ekki börn í þetta hverfi til að halda uppi hagkvæmum skólarekstri. Það þarf engan að undra áhyggjur foreldra því yfir þeim lafir sú ógn að loka eigi skólanum vegna fámennis. En þegar talin eru börnin sem eiga lögheimili í hverfinu þá er hér ekki um litla einingu að ræða. Börn sem eiga lögheimili í hverfinu eru um 140 og skólinn rúmar 170. Svo málið er einfalt, öllum börnum í hverfinu á að vera boðið að stunda nám í hverfisskóla sínum! Ávallt hefur verið lögð áhersla á í okkar samfélagi að börn geti sótt skóla í nærumhverfi sínu. Það er mikið lagt á börn, sérstaklega ung börn, og foreldra þeirra sem þurfa að fara langt í skóla og þurfa jafnvel að fara yfir óörugg svæði. Ef niðurstaðan verður sú að loka skólanum í trássi við foreldra og íbúa á þeim rökum að skólinn sé of lítill þá er verið að brjóta á réttindum barna sem eiga lögheimili í Staðahverfi.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg leiti til hinna sveitarfélaganna varðandi það að hefja viðræður við ríkið um að veita 10% af áfengisgjaldi til sveitarfélaganna fyrir nauðsynlega þjónustu við þá sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Sveitarfélögin þurfa á auknu fjármagni að halda til að geta boðið upp á sem besta félagslega þjónustu fyrir þá aðila. Þar má m.a. nefna umsjón gistiskýla, skaðaminnkandi úrræði, heimili sem henta einstaklingum í mikilli áfengis- eða vímuefnaneyslu og heimili sem henta einstaklingum með tvígreiningu, þ.e.a.s. geð- og vímuefnavanda. Lagt er til að velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunar með því að leita til hinna sveitarfélaganna og ríkisins en að skipting gjaldsins niður á ólík sveitarfélög verði nánar útfærð síðar. Eins og staðan er nú, þá hafa önnur sveitarfélög gert samninga við Reykjavíkurborg um aðgang að gistiskýlum og eðlilegt er að gistiskýli í höfuðborginni séu opin þeim sem þangað kunna að leita. Það er nauðsynlegt að tryggja að borgin sem og önnur sveitarfélög geti boðið upp á þjónustu sem hentar ólíkum þörfum borgarbúa, þar sem velferð er höfð að leiðarljósi.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19100022
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meðal þeirra röksemda sem hafa verið notaðar fyrir álagningu áfengisgjalds er sú að þannig megi að hluta fjármagna heilbrigðisþjónustu og annan stuðning við þá sem fara halloka af viðskiptum sínum með áfengi. Í ljósi þess að félagsþjónusta er á hendi sveitarfélaga og þess hve mikil þjónusta ætluð þeim sem eiga við áfengisvanda að stríða er rekin hjá þeim, húsnæðisúrræði, gistiskýli og fleira, er það vel skoðandi hvort ekki sé eðlilegt að hluti áfengisgjalds renni til félagsþjónustu sveitarfélaganna ekki síður en til heilbrigðisþjónustu sem er á hendi ríkisins. Málinu er vísað til borgarráðs til vinnslu.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að frístundakortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang. Þar með verði afnumið skilyrði að til þess að geta sótt um aðra fjárhagsaðstoð, þ.m.t. þriggja mánaða skuldaskjól eða afskrift vanskila, verði foreldri/skuldari fyrst að nýta rétt til frístundakorts skv. greinum 16a og 16b í reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og reglum um verklag vegna vanskila foreldra er varðar þjónustu við börn. Hugmyndafræðin að baki frístundakorti tengist ekki á neinn hátt erfiðleikum foreldra að greiða fyrir frístundaheimili hvað þá greiðslu skulda eða afskriftir vanskila foreldra við borgina. Þvert á móti er markmið og tilgangur frístundakortsins að: Öll börn og unglingar í Reykjavík 6-18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum foreldra. Árið 2009 var samþykkt á fundi borgarráðs að unnt verði að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakortum. Sú ákvörðun gengur einnig í berhögg við markmið og tilgang frístundakortsins. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð og fjölbreytni í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Að spyrða rétt barns til frístundakorts við fjárhagserfiðleika og umsókn foreldra um fjárhagsaðstoð og skuldaskjól eða nota það sem gjaldmiðil upp í greiðslu vegna nauðsynlegrar dvalar barns á frístundaheimili er brot á rétti barnsins.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19100024
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar- íþrótta- og tómstundaráðs.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Frístundakortið er stuðningur sem Reykjavíkurborg veitir öllum börnum sem í henni búa. Fyrir nokkrum árum, þegar hagur margra heimila í borginni þrengdist í kjölfar efnahagshruns og þörf heimila fyrir lengri viðveru barna í skólum meðan foreldrar stundi vinnu, var sú krafa hávær að hægt væri að nota frístundakortið til að greiða fyrir frístundaheimili. Orðið var við því og hefur það reynst vel. Það getur verið góð leið til að minna foreldra á tilvist kortsins og þeir þannig sennilegri til að halda áfram notkun þess, þó barnið sé ekki lengur í frístund. Eðlilegt er að fjölskyldur sem eiga rétt á þeim stuðningi noti hann, ef þeir þurfa þjónustu sem fellur að möguleikum kortsins, áður en sækja á annan stuðning. Nú stendur yfir vinna við endurskoðun á reglum sem gilda um notkun frístundakortsins og er tillögunni vísað til menningar- íþrótta- og tómstundaráðs.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Því miður getur staðan oft verið þannig að fátækir foreldrar þurfa að treysta á frístundakortið til að greiða fyrir dvöl barna sinna á frístundaheimilum. Það er mikilvægt að tryggja að efnahagur standi ekki í vegi fyrir því að börn geti lagt stund á þær frístundir og tómstundir sem þau hafa áhuga á og að Reykjavíkurborg geri allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að slíkt geti orðið að möguleika.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í gegnum tíðina hefur borgarmeirihlutinn gengisfellt frístundakortið. Opnað hefur verið fyrir að nota það til að greiða nauðsynjar eða sem gjaldmiðil upp í skuld foreldra. T.d. er notkun þess skilyrði til að fá skuldaskjól hjá borginni í þrjá mánuði eða afskrift vanskila. Hugmyndafræðin að baki frístundakorti tengist ekki á neinn hátt erfiðleikum foreldra að greiða fyrir frístundaheimili, hvað þá greiðslu skulda eða afskriftir vanskila foreldra við borgina. Hvað varð um hugsjónina að baki frístundakortsins og þann göfuga tilgang sem lýst er svo fagurlega í reglum um kortið? Sú tillaga sem VG lagði fram árið 2009 að unnt verði að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakortum gengur í berhögg við markmið og tilgang frístundakortsins. Hvar er hugsunin um jöfnuð? Eða vilji til að freista þess að auka möguleika á að börn sitji við sama borð? Að spyrða rétt barns til frístundakorts við fjárhagserfiðleika og umsókn foreldra um fjárhagsaðstoð eða nota það sem gjaldmiðil upp í frístundaheimili er brot á rétti barnsins. Markmið kortsins hefur verið afbakað. Það sætir furðu að síðasti og núverandi meirihluti í borgarstjórn hafi leyft sér að breyta markmiði frístundakortsins þannig að það er nú notað ekki síður sem bjargir frekar en tækifæri.
8. Lagt til að Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í stað Katrínar Atladóttur. Jafnframt er lagt til að Katrín taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur. R18060083
Samþykkt.
9. Lagt til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í stjórn Faxaflóahafna í stað Guðrúnar Ögmundsdóttur. R18060108
Samþykkt.
10. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. september. R19010002
13. liður fundargerðarinnar frá 26. september; gjaldskrá fyrir tjaldstæðið í Laugardal, er samþykktur. R18080042
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
18. liður fundargerðarinnar frá 26. september; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 er samþykktur. R19010200
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september:
Fólkið sem hefur búið á tjaldsvæðinu í Laugadal er almennt efnalítið fólk og í samkomulaginu um leigu á stæði á húsbílasvæðinu kemur fram að samkomulag þetta standi til boða fólki sem er í brýnni húsnæðisþörf fyrir veturinn og hefur ekki önnur úrræði. Tilgangur þessa úrræðis er að brúa bil fyrir fólk þar til því bjóðast önnur úrræði. Lagt er til að gjaldskrá verði sú sama og var sl. vetur, 43.000 kr. á mánuði með aðgengi að rafmagni, snyrtingum, þvottahúsi, sturtum og eldhúsi. ÍTR mun annast þrif og öryggisgæslu. Gert er ráð fyrir að tekjur vegna útileigu muni standa undir þessum kostnaði miðað við áætlaði nýtingu. Í raun er þetta frekar há leiga fyrir einstaklinga í svo viðkvæmri stöðu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. og 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september:
Sú staðreynd að verslanir hörfa úr miðbænum er hunsuð af meirihlutanum. Mörg rými eru ekki notkun á þessu svæði og fleiri verslanir hafa tilkynnt um lokun. Á hinu lokaða svæði á Laugavegi eru 11 ekki starfrækt. Fleiri hafa tilkynnt um brottför. Flokkur fólksins vill að haft sé alvöru samráð við rekstraraðila og leitað verði sameiginlegrar niðurstöður. Í því skyni var lögð fram málsmeðferðartillaga um að fresta um nokkra mánuði að senda deiliskipulagið í auglýsingu og á þeim tíma getur meirihlutinn haft samráð við hagsmunaaðila til að ná sameiginlegri niðurstöðu. Tillagan var felld í borgarstjórn í dag 1.10. Öllum er kunnugt um hina miklu óánægju sem þessar lokanir hafa valdið og ekki að ástæðulausu þar sem mjög hefur dregið úr verslun og sjá verslunareigendur sé ekki fært að halda áfram rekstri á þessu svæði eftir að lokað hefur verið fyrir bílaumferð. 13. liður. Borgarfulltrúi finnst þessi leiga sem lögð er til að gildi fyrir langtímaleigu á tjaldsvæðinu of há. Rúmlega 40 þúsund krónur er of mikið fyrir þá sem eiga ekki mikið milli handanna.
11. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 27. september, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 26. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. september, skipulags- og samgönguráðs frá 25. september, skóla- og frístundaráðs frá 13. og 20. september, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 18. og 25. september, velferðarráðs frá 20. september. R19010073
5. liður fundargerðar forsætisnefndar, samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð er samþykktur. R18060129
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar forsætisnefndar, 9. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs og 3. gr. fundargerðar velferðarráðs:
5 9. gr Samþykkt. Borgarfulltrúi telur að mikið skorti á að skóla og frístundaráð hafi gott samráð og samtal við foreldra, íbúa og félagasamtök og að ekki hafi verið haft viðunandi samráð í ýmsum málum þegar tilefni var til og mikið lá undir. Nýjasta dæmið er uppnámið sem ríkir í Staðahverfi þar sem íbúar eru uggandi um framtíð skóla síns. Meirihlutinn býr til vanda úr engu. Í hverfinu eiga um 140 börn lögheimili og skólinn rúmar 170. Engu að síður vofir sú ógn yfir að skellt verði þarna í lás. Skipul. 25. 9. liður 9 Ákveðið hefur verið að gera hluta Laugavegs og fleiri götur að varanlegum göngugötum. Þetta er í trássi og án samráðs við hagsmunaaðila. Samráð þýðir á íslensku að um er að ræða sameiginlega ráðagerð og sameiginlega niðurstöðu. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur tekið ákvörðun sem stríðir gegn vilja fjöldans. Í þessu máli hefur verið sýndur ómældur yfirgangur. Meirihluti minnihlutans hefur mótmælt harðlega og krafist þess að haft sé alvöru samráð en á það hefur verið slegið. Velferðar. 3. gr Flokkur fólksins er andvígur öllum hækkunum á gjaldskrá velferðarráðs sem notendur þurfa að greiða. Finna þarf aðrar leiðir en að hækka gjöldin til að mæta auknum kostnaði til að veita fullnægjandi þjónustu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 5. lið fundargerðar forsætisnefndar:
Meirihlutinn minnir á að gott samráð hefur verið haft við foreldra, nemendur, íbúa, kennara og skólastjórnendur við mótun tillagna um framtíðarskipan skólastarfs í norðanverðum Grafarvogi, bæði í ítarlegu rýnihópaferli þar sem leitað var sjónarmiða allra þessara aðila og í vinnu starfshópsins sjálfs þar sem stjórnendur, kennarar og foreldrar áttu sína fulltrúa.
Fundi slitið kl. 22:52
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð
Marta Guðjónsdóttir
Diljá Ámundardóttir Zoëga Sanna Magdalena Mörtudóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 1.10.2019 - Prentvæn útgáfa