Borgarstjórn - 1.10.2013

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2013, þriðjudaginn 1. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram lausnarbeiðni Gísla Marteins Baldurssonar borgarfulltrúa, dags. 27. september 2013. 

Samþykkt. 

Borgarstjórn þakkar Gísla Marteini Baldurssyni fyrir störf hans í þágu borgarbúa og óskar honum velfarnaðar í nýjum störfum.

2. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá lausnarbeiðni Jórunnar Frímannsdóttur borgarfulltrúa, dags. 27. september 2013. 

Samþykkt. 

Borgarstjórn þakkar Jórunni Frímannsdóttur fyrir störf hennar í þágu borgarbúa og óskar henni velfarnaðar í nýjum störfum.

- Kl. 14.20 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti. 

3. Lögð fram tillaga borgarstjóra um aðgerðir gegn kynbundnum launamun, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september sl.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samkvæmt úttekt mannauðsnefndar fyrir árið 2012 hefur kynbundinn launamunur farið minnkandi hjá Reykjavíkurborg. Hins vegar gefa aðrar kannanir, svo sem frá heildarsamtökum stéttarfélaga háskólamanna og BSRB, vísbendingar um að kynbundinn launamunur fari ekki minnkandi. Sú staðreynd að kynbundinn launamunur viðgengst í stærsta sveitarfélagi landsins er alvarleg og ber að bregðast við af festu. Það vekur furðu hversu langan tíma það hefur tekið meirihluta borgarstjórnar að bregðast við stöðu sem hefur legið fyrir frá byrjun kjörtímabils. Of löngum tíma var leyft að líða í stöðumat og úttektir mismunandi starfs- og aðgerðahópa. Því ber þó að fagna að tillögur um aðgerðir hafi nú loksins litið dagsins ljós. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks vona að aðgerðir um kynbundinn launamun muni skila tilætluðum árangri og lýsa sig reiðubúna til þess að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða. 

4. Lögð fram tillaga að úthlutun lóðar til Félags múslima á Íslandi, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. september.

- Kl. 16.30 víkur Oddný Sturludóttir af fundinum og Björk Vilhelmsdóttir tekur þar sæti. 

- Kl. 16.38 víkur Eva Einarsdóttir af fundinum og Sigurður Björn Blöndal tekur þar sæti. 

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun, sem áður var lögð fram á fundi borgarráðs: 

Borgarstjórn fagnar því að geta loks samþykkt umsókn Félags múslima á Íslandi um lóð undir mosku og óskar múslimum á Íslandi til hamingju með lóðina og væntanlega uppbyggingu. Úthlutun lóðarinnar í Sogamýri er jafnframt síðasti áfangi Reykjavíkurborgar í að útvega fjórum trúfélögum lóðir undir tilbeiðsluhús sín en nú þegar hafa farið fram lóðaúthlutanir til Ásatrúarfélagsins, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og búddista. Í fjölmenningarsamfélagi nútímans má búast við fjölgun trúfélaga jafnhliða fjölgun þeirra sem enga trú iðka. Því telur borgarráð það affarasælast í framtíðinni að trúfélög sæki um og greiði fyrir lóðir í landi borgarinnar líkt og er um aðra mikilvæga starfsemi. Borgarstjórn vill af þessu tilefni óska eftir því að Alþingi hefji endurskoðun á þeim ákvæðum í lögum um Kristnisjóð o.fl. nr. 35/1970 sem kveða á um að sveitarfélögum sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Lögin voru sett á tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var almennara og einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga. Á þeim tíma mátti færa fyrir því rök að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg léti frá sér án endurgjalds lóðir undir kirkjur. Það er tímaskekkja að skylda sveitarfélög einhliða til að ráðstafa dýrmætu borgarlandi án endurgjalds til þeirra trúfélaga sem sækjast eftir því. Reykjavíkurborg styður eftir sem áður fjölbreytt trúarlíf í borginni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á síðasta kjörtímabili var úthlutað lóðum til Ásatrúarmanna, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og Búddistafélagsins á Íslandi. Tekið er undir að endurskoða þarf ákvæði laga um Kristnisjóð sem gera sveitarfélögum skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og tilbeiðsluhús án endurgjalds. Þau ákvæði eiga ekki við í dag enda má búast við því í fjölmenningarsamfélagi nútímans að trúfélögum fjölgi jafnhliða fjölgun þeirra sem enga trú iðka. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja fjölmenningu, fjölbreytt trúarlíf og jafnræði borgarbúa. Endurskoðun fyrrgreindra laga að þessu leyti mun styðja það.

5. Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Rauðarárholts vegna lóðar nr. 7 við Brautarholt, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september.

Samþykkt

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá: Borgarstjórn samþykkir hið auglýsta deiliskipulag og felur umhverfis- og skipulagsráði að fara í sérstaka skoðun og mótun aðgerða svo sem með notkun gjaldskyldu, íbúakorta eða annarra aðgerða til að stýra bílastæðamálum og koma til móts við áhyggjur íbúa og annarra hagsmunaaðila í nágrenni nýrra stúdentagarða. 

Samþykkt. 

6. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í borgarráð. Lagt er til að Áslaug Friðriksdóttir taki sæti Gísla Marteins Baldurssonar sem varamaður í borgarráði. 

Samþykkt. 

7. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í umhverfis- og skipulagsráð. Lagt er til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti Gísla Marteins Baldurssonar í umhverfis- og skipulagsráði og að Óttarr Guðlaugsson taki sæti Mörtu Guðjónsdóttur sem varamaður í ráðinu.

Samþykkt.

8. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í bílastæðanefnd. Lagt er til að Áslaug Friðriksdóttir taki sæti Gísla Marteins Baldurssonar í bílastæðanefnd.

Samþykkt.

9. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í hverfisráð Vesturbæjar. Lagt er til að Vala Ingimarsdóttir taki sæti í hverfisráði Vesturbæjar í stað Gísla Marteins Baldurssonar, Ragnhildur Guðjónsdóttir taki sæti Völu Ingimarsdóttur sem varamaður og að Hildur Sverrisdóttir verði formaður hverfisráðs Vesturbæjar.

Samþykkt.

10. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í stjórn Faxaflóahafna. Lagt er til að Áslaug Friðriksdóttir taki sæti Gísla Marteins Baldurssonar sem varamaður í stjórninni.

Samþykkt. 

11. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í velferðarráð. Lagt er til að Sveinn H. Skúlason taki sæti Jórunnar Frímannsdóttur í velferðarráði og að Jarþrúður Ásmundsdóttir taki sæti Sveins sem varamaður í ráðinu.

Samþykkt. 

12. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í innkauparáð. Lagt er til að Rúna Malmquist taki sæti Jórunnar Frímannsdóttur í innkauparáði og að Ingibjörg Óðinsdóttir taki sæti Rúnu sem varamaður í ráðinu. 

Samþykkt. 

13. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í stjórn Orkuveitunnar. Lagt er til að Áslaug Friðriksdóttir taki sæti Gísla Marteins Baldurssonar sem varamaður í stjórninni. 

Samþykkt. 

14. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í svæðisskipulagsráð SSH. Lagt er til að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir taki sæti Gísla Marteins Baldurssonar sem varamaður í ráðinu. 

Samþykkt. 

15. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. september.

16. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 27. september, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. september, mannréttindaráðs frá 24. september, menningar- og ferðamálaráðs frá 9. september, skóla- og frístundaráðs frá 18. og 25. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 25. september og velferðarráðs frá 12., 16. og 19. september.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn undir 1. lið fundargerðar velferðarráðs frá 19. september: 

Á borgarstjórnarfundi 2. apríl sl. lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að gripið yrði til aðgerða í því skyni að auka lóðaframboð fyrir þjónustuíbúðir í þágu eldri borgara í Reykjavík. Til þess yrði efnt til formlegra viðræðna við eftirtalin byggingarfélög eldri borgara og e.t.v. fleiri: Búmenn hsf., Félag eldri borgara í Reykjavík, Samtök aldraðra og Hrafnistu/Sjómannadagsráð. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu helst kosið að borgarstjórn samþykkti tillöguna en samþykktu þá málsmeðferð að vísa henni til meðferðar starfshóps um innleiðingu húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar í trausti þess að unnið yrði að málinu án tafar og niðurstaða fengist fljótlega sem leiddi til jákvæðrar niðurstöðu í þágu húsnæðismála eldri borgara í Reykjavík. Í máli formanns starfshópsins, Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa, kom fram að niðurstöðu mætti vænta þegar hópurinn skilaði af sér um mitt þetta ár en samkvæmt erindisbréfi var gert ráð fyrir skilum í júní sl. Nú er um hálft ár liðið frá samþykkt umræddrar tillögu en starfshópurinn hefur ekki enn skilað af sér tillögum í þágu húsnæðismála eldri borgara. Spurt er: Má vænta tillagna frá starfshópnum um aukið lóðaframboð fyrir þjónustuíbúðir í þágu eldri borgara í Reykjavík og þá hvenær? Eru formlegar viðræður hafnar milli Reykjavíkurborgar og byggingarfélaga eldri borgara? Ef svo er, hvar eru þær viðræður á vegi staddar?

Fundi slitið kl. 17.53

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Karl Sigurðsson      Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 01.10.2013 - prentvæn útgáfa