Borgarstjórn - 10.5.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 10. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Dóra Magnúsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Börkur Gunnarsson, Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015, dags. 28. apríl 2016, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. apríl sl. ásamt málaflokkayfirliti. Jafnframt er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. í apríl 2016, skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 25. apríl 2016 og endurskoðunarskýrsla KPMG, dags. 28. apríl 2016.

- Kl. 14.58 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Börkur Gunnarsson víkur af fundi. 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Á sama tíma og rekstrartap Reykjavíkurborgar hefur slegið öll met hjá meirihluta Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna er veruleg tekjuaukning í samfélaginu sem undirstrikar að rekstrarvandræði Reykjavíkurborgar eru útgjaldavandi en ekki tekjuvandi. Á sama tíma og borgin safnar skuldum greiðir ríkissjóður niður sínar skuldir. Veltufé frá rekstri sýnir hreint fjármagn frá rekstrinum til greiðslu skulda og til fjárfestinga. Það þarf að lágmarki að vera 9% af tekjum ársins en er 5,7% þannig að reksturinn er langt frá því að skila nauðsynlegu framlagi. Mismunurinn þarna á milli eru heilir 3 milljarðar kr. á ársgrundvelli. Niðurstaðan er enn eitt taprekstrarárið hjá núverandi meirihluta og forvera hans. Skuldaaukning A-hluta er 16,2 milljarðar kr. milli áranna 2014 og 2015. Í skýrslu endurskoðenda borgarinnar er gert ráð fyrir að á fimm ára tímabili 2013-2017 geti orðið taprekstur á A- og B-hluta samtals án Orkuveitu. Skv. 64. gr. sveitarstjórnarlaga er ekki heimilt að samanlögð heildarútgjöld séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum tekjum. Samkvæmt sömu skýrslu endurskoðenda er Reykjavíkurborg með það innbyggt í sínar áætlanir að reka A- og B-hluta saman án OR með tapi í fimm ár samfleytt. Þetta er brot á sveitarstjórnarlögum sem eru vitanlega meginlöggjöfin um sveitarfélögin í landinu. Höfuðborgin sem ætti að vera fyrirmyndarsveitarfélagið í öllu er með allt niður um sig í rekstrinum og mun miðað við áætlanir meirihlutans í borginni brjóta sveitarstjórnarlög. Með þeim viðbrögðum að líkindum að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fer af stað og mun krefja borgina skýringa á því hvað hér sé eiginlega um að vera.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Rekstur borgarinnar gengur illa og áætlanir ganga ekki upp. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var neikvæð um 5 milljarða króna, en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 7,4 milljarða króna sem er 12,4 milljörðum króna eða 167% undir áætlun. Afkoma samstæðunnar er 16 milljarða króna verri árið 2015 heldur en hún var árið 2014. Ef horft er framhjá matsbreytingum fjárfestingareigna var afkoma samstæðunnar neikvæð um 9 milljarða króna. Tekjur borgarinnar duga ekki fyrir útgjöldum þó útsvar sé í hámarki og tekjur hafa aukist. Mikið tap er á aðalsjóði eða sem nemur 18,3 milljörðum króna. Tapið í aðalsjóði er bætt upp að hluta með hagnaði á eignasjóði sem nemur um 4,4 milljörðum króna sem hefur það í för með sér að viðhaldi á eignum borgarinnar er ekki sinnt sem skyldi. Það er mjög alvarleg staðreynd að aðalsjóður skuli vera rekinn með svo miklu tapi sem sýnir að meirihlutinn ræður ekki við verkefnið og bitnar það á grunnþjónustu borgarinnar. Biðlistar eru langir eftir félagslegu leiguhúsnæði, sérfræðiþjónustu skóla og stuðningsþjónustu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Lífeyrisskuldbindingar setja mark sitt á ársreikning Reykjavíkurborgar árið 2015. Ástæða þessarar háu gjaldfærslu eru launahækkanir á liðnu ári auk breyttra tryggingafræðilegra forsendna vegna hækkandi lífaldurs. Þetta er í fullu samræmi við útkomuspá sem var birt með fjárhagsáætlun 2016. Á sama tíma eru jákvæð teikn á lofti í rekstri borgarinnar. Rekstur málaflokka er vel innan fjárhagsáætlunar eða rétt tæplega yfir áætlun. Veltufé frá rekstri eykst hraðar en von var á og afkoma í grunnrekstri milli ára er jákvæð um 1,8 milljarða fyrir fjármagnsliði og lífeyrisskuldbindingar og tæpan milljarð þegar fjármagnsliðir eru teknir inn. Skuldir A-hluta eru litlar samanborið við önnur sveitarfélög og er fjárhagsleg staða borgarinnar sterk. Plan Orkuveitunnar gengur hraðar en upphaflega var áætlað og í fjárhagsáætlun ársins 2016 er gert ráð viðsnúningi í rekstri borgarinnar þar sem afrakstur hagræðingaraðgerða er þegar farinn að bera árangur. Ef að líkum lætur mun áframhaldandi aðhald skila sér í sjálfbærum rekstri fyrr en áætlað var.

Fundi slitið kl. 17.33

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Halldór Halldórsson Skúli Helgason

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 10.5.2016 - prentvæn útgáfa