Borgarstjórn - 10.4.2018

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 10. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Sabine Leskopf, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Elín Oddný Sigurðardóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga að stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd 2018-2022 sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. apríl. 

-    Kl. 14.10 tekur Börkur Gunnarsson sæti á fundinum. 

Samþykkt. 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun: 

Ég sit hjá við samþykkt þessarar stefnu. Í stefnunni er hugtakið innflytjandi notað um alla þá sem fæðst hafa erlendis og stækkar því hóp innflytjenda mikið, þar sem Íslendingar sem fæddir eru á erlendri grundu er taldir hér með. Réttara hefði verið að stefnan næði til útlendinga eins og þeir eru skilgreindir skv. lögum nr. 80/2016 um útlendinga. Eftirtektavert er að stefnan kallar á mikið samstarf við ríkið og þá sérstaklega þegar kemur að börnum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem líklegt er að muni vera skamman tíma í skóla hérlendis. Borgarfulltrúinn hefur ítrekað bent á að ekki fylgi fjármagn frá ríkinu til að aðstoða þessi börn. Nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg fái fjármagn með þessum börnum frá ríkinu í samningum sínum við Útlendingastofnun ef halda á áfram að reka skóla án aðgreiningar. Staðan í dag er nákvæmlega þannig að borgin fær fjármagn til að standa straum af húsnæði, framfærslu, heilbrigðis og lyfjakostnað, ráðgjöf, samgöngum, túlkaþjónustu, tómstundum og fullorðinsfræðslu, en ekki kostnað vegna skólagöngu barna, skv. samningi sem gerður var við Útlendingastofnun í janúar 2017. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fagna því mikilvæga skrefi sem felst í því að Reykjavíkurborg setji sér heilstæða stefnumótun í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Með heildstæðri stefnumótun myndast betri yfirsýn yfir málaflokkinn á einum stað og markmið verða skýr. Með henni mun einnig verða sett á fót þverfaglegt teymi sérfræðinga borgarinnar í málefnum innflytjenda sem vinnur þvert á svið til þess að auka skilvirkni og bæta þjónustuna. Aðgerðaráætlunin með stefnunni er gerð til fjögurra ára í senn og er gert ráð fyrir að hún verði sameiginlegt leiðarljós í þjónustu borgarinnar við hóp innflytjenda og flóttafólks.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa: 

Borgarstjórn felur skóla- og frístundasviði að setja reglur í samráði við skólastjórnendur, kennara, frístundaráðgjafa, skólasálfræðinga og hagsmunaaðila nemenda og foreldra, sem miða að því að banna með öllu snjallsímanotkun nemenda á skólatíma og í frístundastarfi í grunnskólum borgarinnar.

-    Kl. 14:35 tekur Skúli Helgason sæti á fundinum og Sabine Leskopf víkur af fundi. 

-    Kl. 14:44 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir víkur af fundi. 

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi breytingartillögu: 

Borgarstjórn felur skóla- og frístundasviði að efna til víðtæks samráðs við skólastjórnendur, kennara, nemendur, foreldra, sérfræðinga skólaþjónustu, frístundaráðgjafa og fulltrúa heilsugæslu og landlæknisembættis, um hvort tilefni sé til að setja viðmið um takmörkun á snjalltækjanotkun og skjátíma nemenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Tekið verði mið af erlendum fyrirmyndum og rannsóknum í þessari vinnu.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Börkur Gunnarsson, var ekki viðstaddur afgreiðsluna. 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun: 

Ég samþykki þessa málamiðlunartillögu til þess að tryggja að hreyfing komist á þetta mikilvæga mál og þeir mikilvægu hagsmunir grunnskólanemenda um vonandi snjallsímalausa grunnskóla verði að veruleika strax við upphaf næsta skólaárs.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að beita sér fyrir því að auðvelda almenna rafbílavæðingu. Talið er að 50.000 rafmagnsbílar noti innan við 1% af því rafmagni sem framleitt er á Íslandi. Sparnaður í eldsneyti af 50.000 rafbílum er um 30 milljarðar á ári. Borgarstjórn samþykkir að vinna áætlun til að gera íbúum í fjölbýli í Reykjavík kleift að hlaða rafmagnsbíla við sitt heimili enda er verkefnið bæði hagkvæmt og umhverfisvænt.

Samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og óháðs borgarfulltrúa að vísa tillögunni frá. 

4.    Fram fer umræða um nýjungar í samgöngumálum. 

5.    Fram fer umræða um aðgerðir í leikskólamálum.

6.    Fram fer umræða um þjónustukönnun Gallup fyrir sveitarfélög. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg hefur skrapað botninn síðustu ár í þjónustukönnunum Gallups. Nú mælist borgin í könnun Gallup langsamlega neðst í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kemur að þjónustu bæði leikskóla grunnskóla, þjónustu við eldri borgara og þjónustu við fatlaða. Í stað þess að horfast í augu við þá falleinkunn, sem borgin fær og nýta þetta mikilvæga mælitæki til að greina vandann og bæta þjónustuna, fer borgarstjóri í afneitun og finnur þessari könnun allt til foráttu. Gallinn á þessari nýju könnun sem borgin lætur gera núna er annars vegar sá að ekki eru allir þjónustuþættirnir mældir eins og leikskólar, skólar og þjónusta við eldri borgara og samanburð við önnur sveitarfélög vantar. Ef önnur sveitarfélög telja hag sínum borgið með því að kaupa þessa könnun og nýta sér hana, af hverju ætti Reykjavíkurborg þá ekki að gera það líka?

7.    Fram fer umræða um þjónustukönnun Maskínu fyrir Reykjavíkurborg. 

8.    Fram fer umræða um málefni Austurbæjar, Miðbæjar og Norðurmýrar.

9.    Lagt er til að Katrín Helga Hallgrímsdóttir taki sæti í barnaverndarnefnd Reykjavíkur í stað Kolbrúnar Baldursdóttur. Einnig er lagt til að Sólrún Sverrisdóttir taki sæti sem varamaður í nefndinni. 

    Samþykkt. 

    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, situr hjá við afgreiðslu málsins. 

10.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 22. mars og 5. apríl. 

- 25. liður fundargerðarinnar frá 22. mars, tillaga um kaup á Íslandsvörðunni samþykktur með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina, Vinstri grænna og Pírata gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og óháðs borgarfulltrúa. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að í stað þess að kaupa verkið ætti að gefa öðrum listamönnum færi á að sýna verk sín á þessum fjölfarna og eftirsótta stað þar sem Íslandsvarðan stendur nú. Með þessum kaupum er verið að forgangsraða í þágu sérverkefna í stað nauðsynlegrar þjónustu sem Reykjavíkurborg er ekki að sinna.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun: 

Til að geta samþykkt þessi fjárútlát borgarinnar vegna kaupa á listaverkinu þá hefði ég viljað sjá tölur um flutningskostnað og uppsetningu og verðmat á verkinu. Ég tel engu að síður eðlilegt að listamönnum sé greitt fyrir afnot af verkum sínu, uppsetningu og þegar þeir koma fram eða sýna verk sín. En frekari gögn þarf að liggja fyrir svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun og réttlæta fjárútlátin. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Lánssamningur frá árinu 2010 um verkið Íslandsvörðuna eftir Jóhann Eyfells, sem stendur við göngu- og hjólastíg við Sæbraut, er runninn út og við því þarf að bregðast. Það er mat safnstjóra Listasafns Reykjavíkur að verkið hafi tvímælalaust gildi sem vandað og gott listaverk í opinberu rými borgarinnar. Safnstjóri mælir með að verkið verði keypt af listamanninum til þess að tryggja því sess til framtíðar í borgarlandinu, en það hefur nú þegar öðlast sess sem eitt af kennileitum borgarinnar. Sjálfstæðismenn greiða atkvæði gegn varðveislu verksins á núverandi stað, kalla það gæluverkefni og vilja frekar ný verk á staðinn, sem eru þá væntanlega ekki gæluverkefni. Að sjálfsögðu er líka mikilvægt að gefa ungu og upprennandi listafólki tækifæri, enda liggur nú þegar fyrir að 150 milljónir króna muni renna í samkeppni um list í almannarými í hinni nýju Vogabyggð sem kostað verður af uppbyggingaraðilum og borginni. Það er augljóst mál að besta aðferðin til að gefa nýju listafólki tækifæri er ekki að fjarlægja sígilda list úr borgarrýminu, heldur einmitt að bæta við og fjölga listaverkum alls staðar í Reykjavík.

39. liður fundargerðarinnar frá 5. apríl, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018 vegna innleiðingar á þjónustustefnu, samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

11.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 6. apríl, mannréttindaráðs frá 27. mars, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 26. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. mars og velferðarráðs frá 5. apríl.

12.    Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá, Börkur Gunnarsson var ekki viðstaddur atkvæðagreiðsluna: 

Borgarstjórn samþykkir að ljúka greiðslu sérstakra húsaleigubóta til þeirra sem eiga rétt á því samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2016. Hæstiréttur felldi með dómi sínum úr gildi þá ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni öryrkja um sérstakar húsaleigubætur á grundvelli þess að viðkomandi leigði hvorki á almennum leigumarkaði eða af Félagsbústöðum. Borgarstjórn samþykkir að viðkomandi greiðslur verði inntar af hendi til allra leigjenda sem eiga rétt á því samkvæmt áðurnefndum hæstaréttardómi, óháð því hvort þeir hafi sótt formlega um umræddar húsaleigubætur á sínum tíma eða ekki. 

Vísað til borgarráðs. 

Fundi slitið kl. 17:49

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 10.4.2018 - prentvæn útgáfa