Borgarstjórn - 10.2.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, föstudaginn 10. febrúar, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að óháðu ráðgjafarfyrirtæki verði falið að gera úttekt á Klapp-greiðslukerfi Strætó bs. og koma með tillögur til úrbóta. Úttektin feli í sér mat á virkni kerfisins frá því það var tekið í notkun. Skoðaðir verði verkferlar við val, kaup og innleiðingu sem og val á samstarfsaðila, hugbúnaði og tækjabúnaði. Metið verði hvort hugbúnaður og tækjabúnaður kerfisins séu fullnægjandi og standist samanburð við sambærileg kerfi í nágrannalöndum. Þá verði metið hvernig greiðslukerfið þjónar farþegum, með tilliti til afgreiðsluhraða, áreiðanleika og notendaupplifunar. Þessir þættir verði metnir frá sjónarhóli farþega gagnvart mismunandi lausnum kerfisins, þ.e. hvort keyptur sé stakur miði, tíu miða spjald, dagpassi eða kort fyrir lengra tímabil. Loks verði í úttektinni tekin afstaða til þess hvort æskilegt sé að halda áfram með núverandi greiðslukerfi eða skoða kaup á betra kerfi, sem sannað hefur gildi sitt varðandi virkni, rekstraröryggi og þjónustu við farþega. Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að semja við ráðgjafarfyrirtæki vegna málsins. Niðurstöður úttektarinnar verði kynntar borgarráði fyrir 1. maí 2023.

-    Kl. 15:50 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Guðný Maja Riba víkur af fundi.

Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að vísa tillögunni frá. MSS23020043

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við hörmum að meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar skuli vísa frá tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fela óháðu ráðgjafarfyrirtæki að gera úttekt á Klapp-greiðslukerfi Strætó og koma með tillögur til úrbóta. Full ástæða er til að slík úttekt fari fram í því skyni að auka tekjur Strætó, bæta þjónustu við farþega og tryggja jákvæða þjónustuupplifun þeirra. Ljóst er að kerfið virkar ekki eins og skyldi eins og stöðugt kemur fram í umsögnum og einkunnagjöfum ótal farþega á notendasíðum Klappsins (Google Play og App Store) sem og á sjálfsprottnum síðum strætisvagnafarþega. Í langflestum þessara umsagna fær Klapp-kerfið slæman vitnisburð og þar má jafnframt lesa raunalegar reynslusögur. Í dag bárust fregnir af því að kerfið lægi niðri og eru aðeins um tvær vikur síðan það gerðist síðast. Ljóst er að borgarstjórnarmeirihlutinn er í mikilli afneitun gagnvart þessu alvarlega vandamáli og vill ekki ræða það ótilneyddur. Slæmt er ef slík afneitun og vanhæfni pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar verður til þess að tefja úrbætur á þessu mikilvæga greiðslukerfi með áframhaldandi skaða fyrir fjárhag Strætó og almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að fargjaldatekjur Strætó nemi 2.300 milljónum króna í ár og segir það sig sjálft að óviðunandi er að slíkt kerfi sé ekki fyrsta flokks. Áfram Strætó!

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Engin ástæða er til að Reykjavíkurborg íhlutist með svo afdráttarlausum hætti í stjórnun og rekstur Strætó. Umræða um Klappið á heima í stjórn Strætó og tekur stjórnin sjálf ákvarðanir um það hvort hún óski eftir úttekt á ákveðnum rekstrarkerfum eða ekki.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mikilvægt er að lagfæra Klappið, greiðslufyrirkomulag strætó. Strætófarþegar hafa greint frá vandkvæðum við að nota Klapp-appið þar sem það getur verið óáreiðanlegt. Mikilvægt er að notendur Strætó geti ávallt treyst á það. Þá þarf einnig að bjóða aðra greiðsluvalmöguleika og fjölga sölustöðum, til þess að tekið sé tillit til ólíkra þarfa strætónotenda. Einnig er afar mikilvægt að öryrkjum sé gert kleift að kaupa staka miða og kaupa kort á öllum sölustöðum Klapp-kortsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Klapp var tekið í notkun í nóvember 2021. Það hefur verið til vandræða fyrir margar sakir og haft því heilmikinn fælingarmátt. Heilmikil vandkvæði hafa verið við greiðslu. Hópur vagnstjóra hafa tjáð sig og sagt að kerfið gangi ekki nógu vel. Það segir sitt. Búið er að sníða einhverja agnúa af því. Flokkur fólksins hefur sagt það hafa verið vitlausa ákvörðun að fara í fjárfestingu á þessu kerfi mitt í fjármálaþrengingum strætó. Í ofanálag hefur innleiðingarvandinn verið allt of langur og er ekki enn séð fyrir endann á honum. Það er borgin sem er stærsti eigandinn í þessu byggðasamlagi og því kemur allt þetta verulega við buddu borgarbúa. Erlendir ferðamenn, eldri borgarar og hópur fatlaðs fólks hefur lent í stökustu vandræðum með að nota strætó eftir að Klapp kerfinu var komið á. Stappið með Klappið er raunverulegt vandamál sem ekki er hægt að breiða yfir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið fjölda ábendinga vegna Klapp-greiðslukerfisins og vandamála með notkun þess. Það má nefna reynslu notenda sem hafa keypt Klapp-kort og eru til dæmi um notendur sem kaupa fjögur kort sem hvert um sig á að duga í 10 ferðir. Kortin hafa verið keypt í Mjódd og nýtt í heimferð með strætó. 

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarstjórn samþykkir að óska eftir því við náttúruverndaryfirvöld að hafinn verði undirbúningur að friðlýsingu Esjuhlíða.

Greinargerð fylgir tillögunni.

-    Kl. 17:15 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir tekur sæti.

Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23020041

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fjallið Esja setur mikinn svip á landslag höfuðborgarsvæðisins og býr yfir ómældri fjölbreytni í náttúrufari, vistgerðum, jarðminjum og dýralífi. Eins er hún eitt fjölsóttasta útivistarsvæði í landi Reykjavíkur og hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga höfuðborgarbúa. Ljóst er að Esja kæmi vel til greina sem náttúruverndarsvæði þar sem verndargildi hennar er hátt út frá mörgum þáttum. Rýna þarf betur stærð fyrirhugaðra verndarsvæða Esjuhlíða og afmörkun þeirra og kallar sú vinna á samtal og samvinnu eigenda og forsvarsmanna jarða og svæða. Einnig kæmi vel til greina að Esja yrði fólkvangur á fjölförnum útivistarsvæðum sem yrðu þá einnig skilgreind í þessari vinnu. Það eru vonbrigði að meirihlutinn kjósi að slá hugmyndir þessar svo fortakslaust út af borðinu sem bendir til metnaðarleysis í náttúruverndarmálum. Það ætti að vera sjálfstætt markmið borgarinnar að náttúruperlur innan hennar marka hljóti þá viðurkenningu á mikilvægi sínu sem felst í friðlýsingu þeirra. Það er lítill bragur á því að sjá einungis hindranir og þröskulda þegar kemur að umræðu um þessi mikilvægu málefni.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan gengur út á að leita eftir því að ríkið undirbúi friðlýsingu Esjuhlíða. Skynsamlegra er að forræði á þessu mikilvæga náttúru- og útivistarsvæði verði áfram á hendi Reykjavíkurborgar en við friðlýsingu myndi stjórnsýslulegt forræði Esjuhlíða flytjast frá borg yfir til ríkisins. Almennt hefur sýn borgarinnar verið sú að lítill ávinningur hljótist af því að stór svæði innan Reykjavíkur séu friðlýst með tilheyrandi breytingu á forræði landsins en um afmörkuð náttúruvætti geti gegnt öðru máli. Reykjavíkurborg hefur skilgreint hverfisvernd á fjölmörgum svæðum í gegnum deiliskipulag sem kalla má borgarfriðun. Þar sem ríkið hefur verið tregt til þess að setja fjármuni til friðaðra svæða innan Reykjavíkur er borgarfriðun í gegnum deiliskipulag betri kostur. Þess ber einnig að geta að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tilnefnt sex svæði til friðlýsingar fyrir framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Esjuhlíðar eru ekki meðal þeirra svæða sem tilnefnd eru.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Reykjavíkurborg samþykkir að vinna gegn öllum frekari áformum um útvistun hjá Strætó bs. Umræður um slíkt hafa átt sér stað á vettvangi félagsins og mikilvægt að þær nái ekki fram að ganga þar sem um mikilvæga grunnþjónustu er að ræða. Það hefur sýnt sig að útvistun leiðir til lakari kjara þeirra sem veita þjónustuna sem og í mörgum tilfellum aukins kostnaðar og eftirlits. Mikilvægt er að efla þjónustu Strætó bs. og tryggja að hún sé á vegum sveitarfélaganna og mótuð eftir vilja og væntingum þeirra sem reiða sig á strætó. Jafnframt er mikilvægt að rödd vagnstjóra komi að mótun félagsins.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23020040

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar sósíalista lögðu til að Reykjavíkurborg myndi vinna gegn útvistun hjá Strætó bs. Þeir vagnstjórar sem eru ráðnir inn í gegnum útvistun eru á lakari kjörum en þeir sem eru ráðnir beint inn til Strætó bs. Borgin verður að taka stöðu með vagnstjórum og hafna því að viðhalda stefnu sem keyrir niður launakjör. Taka verður stöðu með launafólki og senda skýr skilaboð um að frekari útvistun verði ekki liðin. Ekki var vilji til slíks hjá borgastjórn. Með útvistun er ekki verið að standa við stefnu sveitarfélaga um sömu kjör fyrir sömu störf.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Engin ástæða er til að Reykjavíkurborg taki með svo afdráttarlausum hætti afstöðu gegn útvistun á akstri Strætó. Það fyrirkomulag að hið opinbera sjái um utanumhald með leiðakerfi og farmiðasölu en einkaaðilar um aksturinn hefur verið regla í nágrannalöndum okkar og gengið vel. Þegar kemur að samningum við ríkið um rekstur á Borgarlínu er eðlilegt að skoða öll rekstrarmódel með opnum huga. Höfuðmálið er að strætókerfið þjóni farþegum vel, það á að vera útgangspunkturinn í allri ákvarðanatöku okkar um Strætó.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins hefur óskað eftir upplýsingum um hvort Strætó og Reykjavíkurborg hyggst einkavæða rekstur Strætó en ekki fengið skýr svör. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af áformum um að útvista leiðum Strætó bs. til einkaaðila. Ef horft er til reynslu þá er hætta á lækkun launa og að einkaaðilar hirði þann launamun í sinn vasa. Einnig hefur reynslan sýnt í alltof mörgum tilfellum að þjónustan verði dýrari en ekki betri fyrir vikið. Ef reksturinn verður boðinn út er útilokað að borgin hafi þann kost að hafa frítt í strætó eins og talað hefur verið um að skoða. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð. Flokkur fólksins hvetur sveitarfélögin sem eiga Strætó bs.; Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ að veita nægilegu fé til rekstursins. Það er sannarlega illa komið fyrir þessu fyrirtæki enda hefur röð vondra ákvarðana verið teknar síðustu misseri. Segja má að stjórnendur skorti fyrirhyggju og ekki hefur verið vandað til ákvarðanatöku. Nefna má kaup á vögnum sem allir gætu fyrir löngu verið metanvagnar og bíða hefði átt með Klappið enda sennilega nú þegar úrelt. Snjalllausnir í greiðslufyrirkomulagi eru komnar lengra en Klappið.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Vinstri græn minna á mikilvægi þess að grunnkerfi þjóðfélagsins séu að mestu í samfélagslegum rekstri. Almenningssamgöngur gegna lykilhlutverki í að stemma stigu við loftslagsbreytingum af manna völdum og að jafna kjör og aðstæður fólks í samfélaginu og hafa mikil áhrif á daglegt líf tugþúsunda. Bílstjórar strætisvagnanna eru framlínustarfsmenn í beinum tengslum við borgarana. Það er mikils virði fyrir borgina að tryggja stöðugleika í þeirri stétt, gæta þess að starfsmannavelta verði ekki of mikil og að þess sé gætt að þessir mikilvægu starfskraftar njóti sem allra bestu fræðslu og séu meðvitaðir um réttindi sín og skyldur. Að fórna þessum sjónarmiðum fyrir oft og tíðum ímyndaðan peningalegan ábata með reikningskúnstum í bókhaldi er mikil skammsýni.

Fundi slitið kl. 18:12