Borgarstjórn - 10.1.2017

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 10. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.01. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, S. Björn Blöndal, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjórnar:

Borgarstjórn samþykkir að hefja vinnu við mótun menntastefnu Reykjavíkur til 2030 í nánu samstarfi við fulltrúa allra helstu aðila sem koma að skóla- og frístundastarfi á vegum borgarinnar. Markmið vinnunnar verði að ná breiðri samstöðu um mikilvægustu markmið, brýnustu úrbætur og aðgerðir í menntamálum borgarinnar til framtíðar með áherslu á hag barna og ungmenna í skólasamfélaginu. Skipaður verði stýrihópur fulltrúa allra flokka í borgarstjórn sem beri ábyrgð á framkvæmd vinnunnar ásamt verkefnastjórn þar sem sæti eigi fulltrúar skóla- og frístundasviðs og teymi innlendra og erlendra ráðgjafa undir forystu Pasi Sahlberg frá Finnlandi, með það fyrir augum að byggt verði á bestu þekkingu. Óskað verði eftir tilnefningum í sérstakan samráðsvettvang frá félögum stjórnenda, kennara, foreldra og nemenda sem tengjast skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að móta erindisbréf og verk- og tímaáætlun þar sem fram komi hlutverk og verkaskipting þeirra aðila sem koma eiga að vinnunni. Áætlunin verði lögð fyrir borgarráð eigi síðar en 15. febrúar 2017. Stefnt verði að því að menntastefna Reykjavíkur verði lögð fyrir borgarráð og borgarstjórn eigi síðar en 15. nóvember 2017.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17010123

- Kl. 14.04 tekur Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum.

Samþykkt að  taka svohljóðandi breytingartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina á dagskrá:

Borgarstjórn samþykkir að hefja vinnu við mótun menntastefnu Reykjavíkur til 2030 í nánu samstarfi við fulltrúa allra helstu aðila sem koma að skóla- og frístundastarfi á vegum borgarinnar. Markmið vinnunnar verði að ná breiðri samstöðu um mikilvægustu markmið, brýnustu úrbætur og aðgerðir í menntamálum borgarinnar til framtíðar með áherslu á hag barna og ungmenna í skólasamfélaginu. Skipaður verði stýrihópur fulltrúa allra flokka í borgarstjórn sem beri ábyrgð á framkvæmd vinnunnar ásamt verkefnastjórn, þar sem sæti eigi fulltrúar skóla- og frístundasviðs og teymi innlendra og erlendra ráðgjafa með það fyrir augum að byggt verði á bestu þekkingu.

Breytingartillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Tillaga borgarstjórnar um mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar er samþykkt samhljóma.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti borgarstjórnar setti sókn í skólamálum á dagskrá með skýrum hætti síðastliðið haust og frá því í september hafa fjárveitingar til málaflokksins aukist um vel á þriðja milljarð króna með margvíslegum aðgerðum og stuðningi við innra starf leikskóla, grunnskóla og frístundar. Nú sameinast borgarstjórn um að setja menntastefnu Reykjavíkur til 2030 í nánu samstarfi við fulltrúa allra helstu aðila sem koma að skóla- og frístundastarfi á vegum borgarinnar. Markmið vinnunnar verður að ná breiðri samstöðu um mikilvægustu markmið, brýnustu úrbætur og aðgerðir í menntamálum borgarinnar til framtíðar með áherslu á hag barna og ungmenna í skólasamfélaginu. Leitað verður til innlendra og erlendra ráðgjafa til að tryggja að stefnan verði byggð á bestu þekkingu og greiningum á því hvernig best verði náð fram árangursríkum breytingum í menntamálum. Finnski menntunarfræðingurinn Pasi Sahlberg mun leiða teymi innlendra og erlendra ráðgjafa og er mikill fengur að aðkomu hans en þó er mikilvægt að árétta að kennarar, skólastjórnendur, annað starfsfólk og nemendur í skólakerfinu munu gegna lykilhlutverki við mótun og eftirfylgni stefnunnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina fagna tillögu um að halda skuli áfram langtímastefnumótun í menntamálum í Reykjavík. Slík vinna hófst að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í febrúar 2009 þegar sérstök tillaga um málið var samþykkt í borgarstjórn. Rúmu ári síðar mynduðu Samfylkingin og Besti flokkurinn (síðar Björt framtíð) meirihluta í borgarstjórn og var eitt fyrsta verk þessara flokka að hætta umræddri stefnumótunarvinnu án skýringa. Skaut óneitanlega skökku við að sömu borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og samþykktu að hefja þessa vegferð 2009 skyldu taka ákvörðun um að hætta henni ári síðar. Í ljósi þessarar forsögu er sérstakt fagnaðarefni að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar hafi séð að sér og vilji nú halda þessari vinnu áfram eftir rúmlega sex ára hlé. Í stefnumótunarvinnu í menntamálum er mikilvægt að leita fanga sem víðast og rétt að sá hópur sem valinn verður til að sinna verkefninu hafi fullt frelsi til að velja sér ráðgjafa. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina lýsa því yfir furðu sinni á því að borgarstjóri skuli hafa samið við ákveðinn mann um að leiða vinnu erlendra ráðgjafa í verkefninu nokkru áður en tillaga um málið var lögð fram í borgarstjórn. Var boðað til fundar með þessum manni áður en tillaga um að hefja umrædda stefnumótun var lögð fram og áður en skipað hefur verið í stýrihóp verkefnisins, án nokkurs samráðs við fulltrúa minnihluta borgarstjórnar. Lýst er yfir furðu á þessum vinnubrögðum og óskað eftir því að betur verði staðið að framhaldi verkefnisins.

- Kl. 15.00 tekur Halldór Halldórsson sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur af fundi.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Borgarstjórn samþykkir að borgarstjóri ræði við innanríkisráðherra og veiti ríkinu heimild Reykjavíkurborgar til þess að hafa NA/SV flugbrautina á Reykjavíkurflugvelli opna fyrir sjúkraflug fram á vor.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17010149

Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi breytingartillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Borgarstjórn beinir því til innanríkisráðuneytisins að kanna til hlítar hvort tilefni sé til að opna flugbraut 07/25 á Keflavíkurflugvelli og að afstaða til opnunar brautarinnar verði tekin út frá því mati.

Breytingartillagan er samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli var lokað af innanríkisráðherra í samræmi við fjölda samninga ríkis og borgar sem fylgt var eftir með dómi Hæstaréttar Íslands á síðasta ári. Í aðdraganda þess lét rekstaraðili vallarins, Isavia, gera öryggismat og úttekt á áhrifum lokunarinnar og var það mat staðfest af Samgöngustofu, lögum samkvæmt. Ári áður en til lokunar brautarinnar kom var því beint til innanríkisráðherra í bréfi borgarstjóra að ráðherra kannaði viðhorf og sjónarmið flugrekstaraðila varðandi nauðsyn þess að braut með sambærilegri stefnu, 07/25, verði opnuð á Keflavíkurflugvelli, en slík braut er til staðar þó hún hafi verið ónotuð árum saman. Þann 30. desember sl. lýsti innanríkisráðherra því yfir að opnun þessar brautar sé til skoðunar. Málið er í eðlilegum farvegi og á réttum vettvangi en innanríkisráðherra er hvattur til að láta hið fyrsta meta hvort ástæða þyki til opnunar NA/SVbrautar á Keflavíkurflugvelli.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Minnihlutinn í borgarstjórn lýsir furðu sinni yfir því að meirihlutinn í borgarstjórn, þ.e. Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri græn og Píratar, treysti sér ekki til að taka tillögu Framsóknar og flugvallarvina til atkvæðagreiðslu og leggi fram nýja tillögu sem meirihlutinn kallar breytingartillögu sem hún er auðvitað ekki. Ljóst er að meirihlutinn vildi ekki samþykkja tillöguna og hefði verið stórmannlegra af honum að hafna henni en standa í svona leikaraskap og þverbrjóta reglur um fundarsköp. Meirihlutinn þykist vilja samráð og samtal en sýnir það ítrekað í verki að svo er ekki. Með því að flytja nýja tillögu um annað efni og kalla hana breytingartillögu er meirihlutinn að fella þá tillögu sem lögð var fram og til umræðu er og snýst um að heimila nýtingu Reykjavíkurflugvallar tímabundið í þágu sjúkraflugs og standa þannig vörð um skyldur sínar sem höfuðborg með öryggi sjúklinga í fyrirrúmi fram að þeim tíma að önnur lausn finnst. Minnihlutinn situr hjá við tillögu meirihlutans sem meirihlutinn kallar breytingartillögu þar sem um allt aðra tillögu er að ræða en þá sem lögð var fram og til umræðu er enda teljum við hana ekki fela í sér lausn á þeirri bráðastöðu sem nú er uppi í tengslum við sjúkraflug til höfuðborgarinnar. 

3. Fram fer umræða um ferðaþjónustu og aðgerðir í Reykjavík. R17010150

4. Fram fer umræða um hvort ógn steðji að vatnsverndarsvæðum Reykjavíkur. R17010151

- Kl. 18.01 víkur Hildur Sverrisdóttir af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

- Kl. 18.40 víkur Skúli Helgason af fundinum.

5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 22. desember 2016. R16010001

17. liður, Keilugrandi; Boðagrandi og Fjörugrandi, svarbréf skipulagsfulltrúa vegna deiliskipulags, samþykktur með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. R15090053

23. liður; breytingar á samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík, samþykktur. R16030085

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

49. liður; sala byggingarréttar á RÚV-reit samþykktur með 8 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins.R16120100

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun vegna 49. liðar:

Ljóst er að það stendur ekki steinn yfir steini í áætlunum og yfirlýsingum meirihlutans í húsnæðismálum. Fyrst stóð til að borgin ætti 40 íbúðir sem dreifðar væru um svæðið en svo að þær væru allar í sama húsinu og nú að það eigi að selja byggingarréttinn en borgin hafi kauprétt á 15 íbúðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 17. lið:

Rétt er að lóðin Keilugrandi 1 (SÍF-reiturinn) verði skilgreind sem íþrótta- og útivistarsvæði og að hún verði öll nýtt í þágu slíkrar starfsemi í Vesturbænum. Aðstöðuskortur háir nú þegar íþróttastarfsemi í hverfinu og er því mikilvægt að hún fái aukið athafnarými. Enn skal minnt á að útlit er fyrir mikla þéttingu byggðar í Vesturbænum á næstu árum sem gæti haft í för með sér að íbúum hverfisins fjölgi um allt að 5.500 manns eða 33%. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna sýnir af sér mikið fyrirhyggjuleysi í skipulagsmálum með því að leggja annars vegar mikla áherslu á fjölgun íbúa í Vesturbænum en neita hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd að slík fjölgun kallar á umtalsverða uppbyggingu innviða, ekki síst í þágu íþrótta- og grunnskólastarfsemi. Bent hefur verið á að ákjósanlegasti kosturinn til að stækka íþróttasvæði hverfisins sé að nýta umrædda lóð að Keilugranda 1 í því skyni. Með þeirri ákvörðun meirihlutans að ráðstafa umræddri lóð undir þétta fjölbýlishúsabyggð er jafnframt komið í veg fyrir að hún geti nýst í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsókn og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 68. lið:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina gera alvarlega athugasemd við vinnubrögð borgarstjóra og meirihluta borgarráðs vegna ráðningar borgarritara. Við slíka ráðningu hlýtur að vera hægt að gera kröfu um vönduð vinnubrögð enda um að ræða eitt mikilvægasta og valdamesta embætti í borgarkerfinu. Umrætt mál var ekki á útsendri dagskrá fundarins og fengu borgarráðsmenn minnihlutans engin gögn send vegna þess fyrir fundinn en um sautján umsækjendur er að ræða. Á miðjum fundi fengu fulltrúar minnihlutans loks eitt eintak afhent af tillögu borgarstjóra í málinu með þeim skilaboðum að hún yrði afgreidd í lok fundar. Tillagan er fimm blaðsíður að lengd og virðist borgarstjóri hafa ætlast til þess að fulltrúar minnihlutans læsu hana samhliða öðrum málarekstri á fundinum. Ekki var orðið við ósk fulltrúa minnihlutans um frestun málsins til næsta fundar og að þeir gætu þannig fullnægt lögboðnum skilyrðum um að kjörnir fulltrúar kynni sér gögn máls áður en ákvörðun er tekin. Slík vinnubrögð eru algerlega óviðunandi og ganga í berhögg við reglur stjórnsýsluréttar. Slík vinnubrögð eru því miður ekki einsdæmi hjá Reykjavíkurborg undir stjórn meirihluta Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna. Nýráðnum borgarritara er óskað velfarnaðar í störfum sínum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun undir 68. lið:

Undirbúningur og mat á umsækjendum var faglegt og vandað, líkt og gögn bera með sér. Haft var samband við oddvita allra flokka fyrir fund, líkt og hefð er fyrir. Tekið skal fram að ekki náðist í oddvita Framsóknarflokksins, þrátt fyrir ítrekanir. Því er ranglega haldið fram í bókun minnihluta að óskað hafi verið eftir frestun málsins.

6. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 6. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 19. desember 2016 og velferðarráðs frá 19. desember 2016. R17010084

7 Í lok fundarins eru siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg lagðar fram að nýju og undirritaðar. R14060212

Fundi slitið kl. 18.48.

Líf Magneudóttir

Kjartan Magnússon Magnús Már Guðmundsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 10.1.2017 - Prentvæn útgáfa