Borgarstjórn - 1. febrúar 2005

Borgarstjórn

BORGARSTJÓRN

Ár 2005, þriðjudaginn 1. febrúar, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Stefán Jón Hafstein, Björk Vilhelmsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Þorlákur Björnsson, Anna Kristinsdóttir, Helgi Hjörvar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Benedikt Geirsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Fundarritun önnuðust Ólafur Kr. Hjörleifsson og Sigurbjörg Sigurjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um hlutverk og stöðu einkarekinna skóla:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hefja samningaviðræður við fulltrúa einkaskóla á leikskólastigi og grunnskólastigi og tónlistarskólana í Reykjavík um hlutverk og stöðu skólanna í reykvísku samfélagi og fjárhagslegan stuðning við þá. Markmið samningaviðræðnanna skal vera að finna framtíðarlausn fyrir rekstur þessara sjálfstæðu skóla í Reykjavík þannig að raunverulegt valfrelsi ríki í skólamálum fyrir foreldra og nemendur og tryggt sé að allir nemendur í leikskóla og grunnskóla njóti sama stuðnings til náms frá borginni, óháð því rekstrarformi sem ríkir í einstaka skólum. 

Greinargerð fylgir tillögunni.

- Kl. 16.00 vék Þorlákur Björnsson af fundi og Jóhannes Bárðarson tók þar sæti.

Samþykkt með 8 atkvæðum gegn 7 að vísa tillögunni frá.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Tillaga um viðræður við svokallaða einkarekna grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla er óþörf. Viðræður hafa staðið yfir og gera enn og markast af ólíkum forsendum skóla og þeirra námsleiða sem í þeim bjóðast. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Með því að vísa tillögunni frá og segja hana óþarfa, opinberar R-listinn áhugaleysi sitt og andstöðu við að fara í markvissar viðræður við fulltrúa einkaskóla á leik- og grunnskólastigi og tónlistarskólana í Reykjavík um hlutverk þeirra og stöðu til framtíðar. Þessi afgreiðsla R-listans sýnir jafnframt virðingarleysi hans gagnvart skólastjórnendum, kennurum, nemendum og foreldrum þessara skóla. 

- Kl. 16.23 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Marta Guðjónsdóttir tók þar sæti.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 20. janúar.

- Kl. 16.30 vék borgarstjóri af fundi og sviðsstjóri Stjórnsýslu- og starfsmannasviðs tók þar sæti. Jafnframt tók Stefán Jóhann Stefánsson sæti á fundinum.
- Kl. 16.40 tók Björn Bjarnason sæti á fundinum og Benedikt Geirsson vék af fundi. 

12. liður fundargerðarinnar, kosning í stjórn Strætó bs., samþykktur með samhljóða atkvæðum. 

3 Lagðar fram fundargerðir skipulagsráðs frá 19. og 26. janúar.
B-liðir fundargerðanna samþykktir með samhljóða atkvæðum.

4. Lagðar fram fundargerðir framkvæmdaráðs frá 24. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 21. janúar, umhverfisráðs frá 17. janúar og velferðarráðs frá 19. janúar.

Í lok fundar kvaddi Anna Kristinsdóttir sér hljóðs og lagði fram svohljóðandi tillögur borgarfulltrúa Reykjavíkurlista: 

Tillaga að breytingu á samþykkt fyrir jafnréttisnefnd:

Lagt er til að úr 3. gr. samþykktarinnar falli orðin: “og skal hann vera borgarfulltrúi eða varaborgarfulltrúi”. 

Tillaga um skipan jafnréttisnefndar:

Lagt er til að Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Sigrún Jónsdóttir verði kosnir fulltrúar í jafnréttisnefnd til loka kjörtímabilsins í stað Marsibil Sæmundsdóttur og Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Jafnframt verði varamenn í jafnréttisnefnd kosnir til sama tíma Stefán Jóhann Stefánsson í stað Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur, og Fanný Jónsdóttir í stað Lindu Rósar Alfreðsdóttur. Þá verði Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir kosin formaður nefndarinnar til sama tíma.

Samþykkt með samhljóða atkvæðum að taka tillögurnar á dagskrá.
Tillaga um breytingu á samþykkt fyrir jafnréttisnefnd samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.
Tillaga um skipan jafnréttisnefndar samþykkt með samhljóða atkvæðum.

Fundi slitið kl. 16.58

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Stefán Jón Hafstein

Björk Vilhelmsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson