Borgarstjórn
3
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2002, fimmtudaginn 5. september, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Árni Þór Sigurðsson, Anna Kristinsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Helgason, Kjartan Magnússon, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 25. júní.
2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 28. júní.
3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 2. júlí.
4. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 12. júlí.
5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 16. júlí.
6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. júlí.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 13. ágúst.
8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 20. ágúst.
9. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. ágúst. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa 18. lið fundargerðarinnar, samþykkt um takmörkun búfjárhalds og bann við lausagöngu búfjár í Reykjavík, til síðari umræðu.
10. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 3. september.
11. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 3. júlí.
12. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 21. ágúst.
13. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 28. ágúst.
14. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 26. ágúst.
- Kl. 16.36 vék Alfreð Þorsteinsson af fundi og Steinunn Birna Ragnarsdóttir tók þar sæti.
15. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 26. ágúst. Samþykkt með samhljóða atkvæðum.
16. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 16. ágúst.
17. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 23. ágúst.
18. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 19. ágúst.
19. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 21. ágúst. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.
20. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 28. ágúst. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.
21. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 22. ágúst.
- Kl. 16.45 vék Stefán Jón Hafstein af fundi og Helgi Hjörvar tók þar sæti. - Kl. 16.53 tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum og Gísli Marteinn Baldursson vék af fundi.
22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um hækkun tekjuviðmiða vegna niðurfellingar fasteignaskatta og lækkun holræsagjalds:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir, að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir borgarsjóð árið 2003 verði við það miðað, að hækka tekjuviðmið vegna niðurfellingar fasteignaskatta um 50% á íbúðarhúsnæði 67 ára og eldri og öryrkja, sem þeir eiga og búa í. Jafnframt samþykkir borgarstjórn, að lækka holræsagjald um 25% árið 2003 sem fyrsta áfanga í að fella það niður á kjörtímabilinu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 17.20 vék Anna Kristinsdóttir af fundi og Kolbeinn Óttarsson Proppé tók þar sæti. - Kl. 17.58 var gert hlé á fundi. - Kl. 18.29 var fundi fram haldið og vék þá Árni Þór Sigurðsson af fundi og Jóna Hrönn Bolladóttir tók þar sæti. Kl. 18.49 vék Kjartan Magnússon af fundi og Gísli Marteinn Baldursson tók þar sæti.
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks hvað varðar hækkun tekjuviðmiða vegna niðurfellingar fasteignaskatta og lækkun holræsagjalda felld með 8 atkvæðum gegn 6.
Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurlistinn komið verulega til móts við óskir aldraðra og öryrkja um lækkun fasteignagjalda. Þannig hefur Reykjavíkurborg frá 1998 hækkað tekjuviðmið vegna lækkunar eða niðurfellingar fasteignagjalda aldraðra og öryrkja um ríflega 70%. Á sama tíma hafa tekjur þessara hópa hjá Tryggingastofnun aðeins hækkað um 37%. Reykjavíkurborg kom mjög vel út úr samanburði á sveitarfélalögum sem Félag eldri borgara lét gera sl. vor og ljóst er að borgin veitir tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum umtalsverðan afslátt af fasteignasköttum og holræsagjöldum. Það hlýtur alltaf að vera álitamál hversu langt á að ganga í að leggja skatt á skattgreiðendur eftir aldri, en ekki tekjum. Þannig má öllum ljóst vera að töluverður hópur ungs fólks, með umtalsverða skulda- og framfærslubyrði er með tekjur undir 3,2 milljónum kr. á ári. Ekki verður séð að það séu réttlætis-, sanngirnis- eða lagaleg rök sem mæla með því að þessi hópur greiði mun hærri skatta en þeir sem komnir eru yfir 67 ára aldur, þótt mikilvægt sé að koma til móts við þarfir aldraðra. Í því felst mismunun sem borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans geta ekki fallist á. Sú tekjujöfnun sem eðlilegust væri og kæmi flestu láglaunafólki til góða væri hækkun skattleysismarka.
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks hvað varðar lækkun holræsagjalds felld með 8 atkvæðum gegn 6.
Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Í auglýsingu um reikningsskil sveitarfélaga sem byggja á reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga frá árinu 2000 segir að stofnað skuli sérstakt fyrirtæki sveitarsjóðs um rekstur og fráveitu sveitarfélags. Fráveitan skuli fjármögnuð annars vegar með hluta gatnagerðargjalda og hins vegar með fráveitugjaldi (holræsagjaldi). Þessar reglur gilda um allt land og eftir þeim er farið í Reykjavík. Fráveitur lúta því sama lögmáli og aðrar veitur sveitarfélaga hvað það varðar að fjárfesting og rekstur er fjármagnaður með þjónustugjöldum. Það er því fráleitt og skref afturábak í umhverfismálum að leggja til að þau gjöld verði afnumin.
- Kl. 19.15 var gert hlé á fundi. - Kl. 19.30 var fundi fram haldið.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað vegna tillögu um hækkun tekjuviðmiða vegna niðurfellingar fasteignaskatta: Við lýsum undrun okkar yfir því, að borgarfulltrúar R-listans sjá sér ekki fært að samþykkja þessa tillögu, sem miðar að því að stórbæta hag eldri borgara og öryrkja í Reykjavík. Sérstaklega er athyglisvert, að borgarstjóri telur, að samþykkt tillögunnar feli í sér mismunun gagnvart öðrum íbúðareigendum. Þá hefur komið fram að borgarsjóður hafi ekki fjárhagslega burði til að standa undir þessari tekjurýrnun. Loks hefur þeim rökum verið beitt gegn tillögunni, að eldri borgarar eigi frekar að selja eignir sínar eða skuldsetja þær til framfærslu en fá skattalækkun. Sérkennilegt er að R-listinn leggist gegn þessari ráðstöfun í þágu borgarbúa og kastar þar með af sér ábyrgð á því að bæta hag þeirra.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað vegna tillögu um lækkun holræsagjalds:
Það hefur verið yfirlýst stefna R-listans að lækka holræsagjald miðað við framvindu framkvæmda við holræsakerfið í Reykjavík. Nú hefur greinilega verið horfið frá þeirri stefnu.
Fundi slitið kl. 19.35.
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson